Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eiginleiki sem er dýrmætari en demantar

Eiginleiki sem er dýrmætari en demantar

Demantar hafa löngum verið álitnir dýrmætir gimsteinar. Sumir eru metnir á hundruð milljóna króna. En getur verið að í augum Guðs sé til eitthvað dýrmætara en demantar og aðrir gimsteinar?

Haykanush, óskírður boðberi í Armeníu, fann vegabréf nálægt heimili sínu. Inni í vegabréfinu voru greiðslukort og væn fúlga af peningum. Hún sagði eiginmanni sínum frá því en hann var einnig óskírður boðberi.

Hjónin voru skuldug og áttu í verulegum fjárhagsörðugleikum. Samt sem áður ákváðu þau að fara með peningana á heimilisfangið sem var gefið upp í vegabréfinu. Maðurinn, sem hafði týnt því, var frá sér numinn og hið sama má segja um fjölskyldu hans. Haykanush og maðurinn hennar útskýrðu að ástæðan fyrir heiðarleika þeirra væri að þau höfðu verið að kynna sér Biblíuna. Þeim fannst þau knúin til að vera heiðarleg og notuðu tækifærið til að tala um Votta Jehóva og gáfu fjölskyldunni rit.

Fjölskyldan vildi gefa Haykanush fundarlaun en hún afþakkaði þau. Daginn eftir fengu hjónin heimsókn frá eiginkonu mannsins. Hún var ákveðin í að gefa Haykanush demantshring að gjöf sem þakkarvott frá fjölskyldunni.

Líkt og þessi fölskylda yrðu margir undrandi yfir heiðarleikanum sem Haykanush og maðurinn hennar sýndu. En kom það Jehóva á óvart? Hvernig leit hann á heiðarleika þeirra? Var það þess virði fyrir þau að vera heiðarleg?

EIGINLEIKAR SEM ERU DÝRMÆTARI EN EFNISLEGIR HLUTIR

Svörin við þessum spurningum eru ekki flókin. Ástæðan er sú að þjónar Jehóva vita að hann hefur meiri mætur á að þeir endurspegli eiginleika hans en á demöntum, gulli eða öðrum efnislegum hlutum. Já, Jehóva hefur annað viðhorf en flestir menn til þess hvað er dýrmætt og hvað ekki. (Jes. 55:8, 9) Og þjónum hans finnst það vera mikils virði þegar þeir ná að taka framförum í að endurspegla eiginleika hans.

Við getum séð það af því sem Biblían segir um dómgreind og visku. Í Orðskviðunum 3:13-15 segir: „Sæll er sá maður sem öðlast speki, sá sem hlýtur hyggindi. Því að betra er að afla sér hennar en silfurs og arðurinn af henni er betri en gull. Hún er dýrmætari en perlur, allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.“ Það leikur enginn vafi á því að Jehóva metur slíka eiginleika meira en nokkur efnisleg verðmæti.

En hvað um heiðarleika?

Jehóva er sjálfur heiðarlegur, hann ,lýgur aldrei‘. (Tít. 1:2) Hann innblés Páli postula að skrifa kristnum Hebreum á fyrstu öld: „Biðjið fyrir mér því að ég er þess fullviss að ég hef góða samvisku og vil í öllum greinum breyta vel.“ – Hebr. 13:18.

Jesús Kristur setti gott fordæmi í heiðarleika. Eitt sinn sagði æðstipresturinn Kaífas við hann: „Ég særi þig við lifanda Guð, segðu okkur: Ertu Kristur, sonur Guðs?“ Jesús var heiðarlegur og staðfesti að hann væri Messías jafnvel þótt orð hans gætu gefið æðstaráðinu tilefni til að saka hann um guðlast, en það gat leitt til aftöku hans. – Matt. 26:63-67.

Hvað um okkur? Hvað myndum við gera ef við lentum í aðstæðum þar sem við gætum grætt á því að segja ekki allan sannleikann eða hagræða honum aðeins? Yrðum við samt heiðarleg?

HEIÐARLEIKI – ÁSKORUNIN

Óneitanlega er erfitt að vera heiðarlegur á þessum síðustu dögum þar sem margir eru ,sérgóðir og fégjarnir‘. (2. Tím. 3:2) Fjárhagsörðugleikar og óvissa um atvinnu hefur áhrif á heiðarleika. Við slíkar aðstæður finnst mörgum réttlætanlegt að stela, svindla eða vera óheiðarlegir á annan hátt. Þetta hugarfar er svo algengt að mörgum finnst að eina leiðin til að hagnast sé að vera óheiðarlegir. Sumir þjónar Guðs hafa jafnvel tekið slæmar ákvarðanir á þessu sviði og fyrirgert mannorði sínu innan safnaðarins vegna þess að þeir girntust „ljótan gróða“. – 1. Tím. 3:8; Tít. 1:7.  

Meirihluti kristinna manna líkir hins vegar eftir Jesú. Þeir átta sig á að eiginleikar, sem eru Guði að skapi, eru mikilvægari en nokkur auður eða annar ávinningur. Ungir þjónar Guðs svindla því ekki í skóla til að fá góðar einkunnir. (Orðskv. 20:23) Okkur er ekki alltaf launað fyrir að vera heiðarleg líkt og Haykanush. En það er rétt í augum Guðs og veitir okkur hreina samvisku sem er virkilega dýrmætt.

Gagik er dæmi um það. Hann segir: „Áður en ég varð vottur vann ég fyrir stórt fyrirtæki þar sem eigandinn skaut sér undan að borga skatt með því að gefa upp aðeins lítinn hluta af hagnaði fyrirtækisins. Sem framkvæmdastjóri var ætlast til þess að ég kæmist að ,samkomulagi‘ við endurskoðandann með því að múta honum til að horfa fram hjá fjársvikum fyrirtækisins. Fyrir vikið var ég þekktur fyrir að vera óheiðarlegur. Þegar ég kynntist sannleikanum neitaði ég að halda því áfram þótt vinnan væri mjög vel launuð. Í staðinn stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki. Ég skrásetti það þegar í stað og hef borgað alla skatta frá fyrsta degi.“ – 2. Kor. 8:21.

Gagik segir: „Launin lækkuðu um helming og því var áskorun að sjá fyrir fjölskyldunni. Ég er hins vegar glaðari núna og hef hreina samvisku frammi fyrir Jehóva. Ég er góð fyrirmynd fyrir drengina mína tvo og er orðinn hæfur til að gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Endurskoðendur og aðrir sem ég stunda viðskipti við þekkja mig nú sem heiðarlegan mann.“

JEHÓVA VEITIR OKKUR HJÁLP

Jehóva elskar þá sem prýða kenningu hans með því að endurspegla háleita eiginleika hans eins og heiðarleika. (Tít. 2:10) Hann innblés Davíð konungi að skrifa: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ – Sálm. 37:25

Frásagan af hinni trúföstu Rut sýnir fram á það. Hún hélt sér við Naomí, tengdamóður sína, í stað þess að yfirgefa hana í ellinni. Rut flutti til Ísraels þar sem hún gat tilbeðið hinn sanna Guð. (Rut. 1:16, 17) Hún reyndist vera heiðarleg og var iðin við eftirtíning en það var ráðstöfun í lögmálinu fyrir fátæka. Rut og Naomí upplifðu, líkt og Davíð síðar meir, að Jehóva yfirgaf þær aldrei. (Rut. 2:2-18) En Jehóva gerði miklu meira en að sjá fyrir efnislegum þörfum Rutar. Hann valdi hana til að vera ættmóðir Davíðs konungs og hins fyrirheitna Messíasar! – Rut. 4:13-17; Matt. 1:5, 16.

Sumir þjónar Jehóva eiga kannski mjög erfitt með að sjá sér fyrir brýnustu nauðsynjum. Þeir reyna samt ekki að finna auðvelda en óheiðarlega lausn á vandanum heldur leggja hart að sér og eru iðjusamir. Þannig sýna þeir að þeir meta dásamlega eiginleika Guðs eins og heiðarleika meira en nokkuð efnislegt. – Orðskv. 12:24; Ef. 4:28.

Eins og Rut forðum daga hafa þjónar Jehóva um heim allan lagt traust sitt á hjálp hans. Þeir treysta skilyrðislaust á loforð hans: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Hebr. 13:5) Jehóva hefur hvað eftir annað sýnt að hann bæði getur og mun hjálpa bágstöddu fólki sem er heiðarlegt öllum stundum. Hann hefur alltaf staðið við orð sín um að sjá þjónum sínum fyrir brýnustu nauðsynjum. – Matt. 6:33.

Menn meta kannski mikils demanta og aðra verðmæta hluti. En við getum verið viss um að faðir okkar á himnum metur heiðarleika okkar og aðra góða eiginleika mun meira en nokkurn gimstein!

Heiðarleiki gerir okkur kleift að hafa góða samvisku og þá höldum við ekki aftur af okkur í boðuninni.