Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva „ber umhyggju fyrir ykkur“

Jehóva „ber umhyggju fyrir ykkur“

HVERNIG geturðu verið viss um að þetta séu orð að sönnu og að Jehóva beri virkilega umhyggju fyrir þér? Ein ástæðan er sú að það er sérstaklega tekið fram í Biblíunni. Í 1. Pétursbréfi 5:7 segir: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ Hvaða sannanir hefurðu fyrir því að Jehóva Guð hafi áhuga á þér?

GUÐ SÉR FYRIR FÓLKI

Jehóva er okkur fyrirmynd með því að vera góður og gjafmildur

Guð býr yfir eiginleikum sem þú vilt eflaust sjá í fari bestu vina þinna. Þeir sem sýna hver öðrum góðvild og örlæti verða gjarnan nánir vinir. Eins og við svo vel getum séð sýnir Jehóva mönnunum góðvild og örlæti á hverjum degi. Skoðum eitt dæmi: „[Hann] lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matt. 5:45) Hverju kemur sólskin og rigning til leiðar? Guð notar sólina og regnið meðal annars til að ,veita fólki fæðu og fylla hjörtu þess gleði‘. (Post. 14:17) Já, Jehóva sér til þess að jörðin gefi af sér gnægð matar, og fátt gleður okkur meira en góð máltíð.

Hvers vegna búa þá svo margir við hungur? Vegna þess að stjórnvöld manna einbeita sér oft að því að auka völd sín og græða sem mest í stað þess að bæta lífskjör fólksins. Jehóva bindur brátt enda á þessa græðgi með því að skipta út núverandi stjórnmálakerfi fyrir himneskt ríki sitt þar sem sonur hans ríkir sem konungur. Þá mun engan hungra framar. En þangað til sér Jehóva fyrir trúföstum þjónum sínum. (Sálm. 37:25) Er þetta ekki skýrt merki um umhyggju hans?

JEHÓVA ER EKKI NÍSKUR Á TÍMA SINN

Jehóva er okkur fyrirmynd með því að vera örlátur á tíma sinn

Góður vinur ver tíma með manni. Hann getur talað við mann tímunum saman um sameiginleg áhugamál. Góður vinur hlustar líka af athygli þegar maður segir honum frá vandamálum sínum og áhyggjum. Sýnir Jehóva þess konar umhyggju? Já, svo sannarlega. Hann hlustar á bænir okkar. Biblían hvetur okkur því til að vera „staðföst í bæninni“ og jafnvel til að ,biðja án afláts‘. – Rómv. 12:12; 1. Þess. 5:17.

Hversu mikinn tíma er Jehóva reiðubúinn að nota til að hlusta á bænir þínar? Í Biblíunni sjáum við dæmi sem svarar því. Áður en Jesús valdi postula sína ,var hann alla nóttina á bæn til Guðs‘. (Lúk. 6:12) Í bæninni nefndi Jesús líklega marga lærisveina sína á nafn þegar hann velti fyrir sér kostum þeirra og göllum og bað föður sinn um hjálp til að velja þá. Við sólarupprás vissi Jesús að hann hafði valið þá að postulum sínum sem voru best til þess fallnir. Jehóva er sá „sem heyrir bænir“ og hann hlustar með ánægju á allar einlægar bænir. (Sálm. 65:3) Jafnvel þótt við tölum við Jehóva tímunum saman um eitthvað sem liggur okkur þungt á hjarta skiptir það hann ekki máli hvað tímanum líður.

GUÐ ER FÚS TIL AÐ FYRIRGEFA

Jehóva er okkur fyrirmynd með því að vera fús til að fyrirgefa

Jafnvel góðir vinir eiga stundum erfitt með að fyrirgefa hver öðrum. Það kemur fyrir að vináttubönd slitna eftir margra ára vináttu vegna þess að fólki finnst of erfitt að fyrirgefa. Jehóva er ekki þannig. Í Biblíunni býður hann öllu einlægu fólki að biðja um fyrirgefningu hans „því að hann fyrirgefur ríkulega“. (Jes. 55:6, 7) Hvað knýr Guð til að fyrirgefa svona fúslega?

Það er óviðjafnanlegur kærleikur hans sem knýr hann til þess. Guð elskar heiminn svo heitt að hann hefur gefið son sinn, Jesú, til að frelsa mannkynið undan synd og þeim þjáningum sem hún veldur. (Jóh. 3:16) En lausnargjaldið kemur fleiru til leiðar. Vegna fórnar Krists fyrirgefur Guð fúslega þeim sem hann elskar. Jóhannes postuli skrifaði: „Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar.“ (1. Jóh. 1:9) Fólk getur notið vináttu Jehóva vegna þess hve fús hann er til að fyrirgefa. Það snertir okkur djúpt að vita það.

HANN HJÁLPAR ÞÉR ÞEGAR ÞÚ ÞARFNAST HANS

Jehóva er okkur fyrirmynd með því að vera til staðar þegar við þörfnumst hans

Sannur vinur kemur manni til hjálpar þegar maður þarf á hjálp að halda. Gerir Jehóva það? Í orði hans segir: „Þó að [þjónn Guðs] hrasi fellur hann ekki flatur því að Drottinn heldur í hönd hans.“ (Sálm. 37:24) Jehóva styður þjóna sína á ýmsa vegu. Skoðum eftirfarandi frásögu frá eyjunni Saint Croix í Karíbahafi.

Ung stúlka varð fyrir þrýstingi bekkjarfélaga sinna því að hún hyllti ekki fánann af trúarlegum ástæðum. Eftir að hafa beðið Jehóva um hjálp ákvað hún að taka á málinu. Næst þegar hún þurfti að tala fyrir framan bekkinn ákvað hún að ræða um fánahyllingu. Hún notaði Biblíusögubókina mína og útskýrði hvernig frásagan af Sadrak, Mesak og Abed-Negó hafði mikil áhrif á afstöðu hennar. Hún sagði: „Jehóva verndaði þessa þrjá Hebrea því að þeir neituðu að tilbiðja líkneski.“ Síðan bauð hún öllum bekknum bókina. Ellefu bekkjarfélaga hennar þáðu eintak. Stúlkan var mjög ánægð því að hún áttaði sig á að Jehóva hafði veitt henni styrk og visku til að tala um þetta viðkvæma mál frammi fyrir bekknum.

Ef þú ert einhvern tíma í vafa um að Jehóva beri umhyggju fyrir þér skaltu hugleiða ritningarstaði eins og Sálm 34:18-20; 55:23 og 145:18, 19. Spyrðu gamalreynda votta hvernig Jehóva hefur sýnt þeim umhyggju. Og biddu til Guðs þegar þú þarft á hjálp hans að halda. Þú sérð fljótt hvernig Jehóva ,ber umhyggju fyrir þér‘.