Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva, Guð okkar, er einn

Jehóva, Guð okkar, er einn

„Heyr, Ísrael. Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn.“ – 5. MÓS. 6:4.

SÖNGVAR: 138, 112

1, 2. (a) Hvers vegna eru orðin í 5. Mósebók 6:4 vel þekkt? (b) Hvers vegna sagði Móse þessi orð?

GYÐINGAR hafa um aldaraðir farið með hebresku orðin sex sem standa í 5. Mósebók 6:4 en þau eru hluti af einni bæn þeirra. Sumir þeirra þylja hana á hverjum degi, bæði kvölds og morgna. Bænin kallast shema en það er fyrsta orðið í versinu. Með þessari bæn lýsa trúræknir Gyðingar yfir óskiptri hollustu við Guð.

2 Þessi orð er að finna í síðustu ræðu Móse sem hann flutti Ísraelsmönnum á Móabssléttu árið 1473 f.Kr. Þjóðin var í þann mund að fara yfir Jórdaná til að leggja undir sig fyrirheitna landið. (5. Mós. 6:1) Móse, sem hafði leitt Ísraelsmenn í 40 ár, vildi að þeir væru hugrakkir þegar þeir tækjust á við áskoranirnar sem biðu þeirra. Þeir þurftu að treysta á Jehóva sem Guð sinn og vera honum trúir. Skiljanlega myndu síðustu orð Móse hafa djúpstæð áhrif á þá. Hann nefnir fyrst boðorðin tíu og önnur fyrirmæli sem Jehóva hafði látið þjóðinni í té og gefur síðan þá kraftmiklu yfirlýsingu sem við lesum í 5. Mósebók 6:4, 5. (Lestu.)

3. Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

3 Vissu Ísraelsmenn, sem höfðu safnast saman hjá Móse, ekki að Jehóva, Guð þeirra, ,væri einn‘? Jú, auðvitað. Trúfastir Ísraelsmenn þekktu og tilbáðu aðeins einn Guð – Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, forfeðra þeirra. En hvers vegna benti Móse þá á að Jehóva, Guð þeirra, ,væri einn‘? Tengist það því að elska hann af öllu hjarta, allri sálu og öllum mætti eins og segir í 5. versinu? Og hvað þýða orðin í 5. Mósebók 6:4, 5 fyrir okkur sem lifum núna?

JEHÓVA ER EINN

4, 5. (a) Hver er ein merking þess að Jehóva „er einn“? (b) Hvernig er Jehóva ólíkur öðrum guðum?

4 Einstakur. Orðið „einn“ í hebresku og fjölda annarra tungumála getur merkt fleira en bara töluna einn. Það getur gefið til kynna að eitthvað sé einstakt, hið eina sanna. Móse virðist ekki hafa verið að reyna að afsanna falskenninguna um að Guð sé þríeinn. Jehóva er skapari himins og jarðar og ræður yfir öllum alheiminum. Það er enginn sannur eða raunverulegur Guð til nema hann. Enginn guð jafnast á við hann. (2. Sam. 7:22) Móse var því að minna Ísraelsmenn á að þeir ættu aðeins að tilbiðja Jehóva. Þeir áttu ekki að fylgja þjóðunum í kring sem tilbáðu ýmsa guði og gyðjur. Litið var svo á að sumir þessara falsguða hefðu vald yfir ákveðnum hlutum náttúrunnar. Aðrir mynduðu guðaeiningar ásamt öðrum guðum.

5 Egyptar tilbáðu til dæmis sólguðinn Ra, himingyðjuna Nut, jarðguðinn Geb, Nílarguðinn Hapi og fjöldann allan af heilögum dýrum. Jehóva veitti mörgum þessara falsguða þungt högg með plágunum tíu. Aðalguð Kanverja var frjósemisguðinn Baal en hann var einnig talinn vera himin-, regn- og óveðursguð. Víða var Baal einnig álitinn verndarguð. (4. Mós. 25:3) Ísraelsmenn þurftu að muna að Guð þeirra, hinn sanni Guð, „er einn“, Jehóva. – 5. Mós. 4:35, 39.

6, 7. Hvað annað felst í orðinu „einn“ og hvernig hefur Jehóva sannað að hann sé „einn“?

6 Sjálfum sér samkvæmur og trúfastur. Orðið „einn“ í þessu samhengi gefur einnig til kynna að alltaf sé hægt að treysta á fyrirætlanir Jehóva og verk hans. Hann er ekki reikull og óútreiknanlegur. Hann er alltaf trúfastur, traustur, sannur og sjálfum sér samkvæmur. Hann lofaði Abraham að afkomendur hans myndu erfa fyrirheitna landið og vann mikil stórvirki til að efna það. Þótt 430 ár hafi liðið frá því að Jehóva gaf þetta loforð var hann alltaf jafn ákveðinn í að standa við það. – 1. Mós. 12:1, 2, 7; 2. Mós. 12:40, 41.

7 Öldum síðar kallaði Jehóva Ísraelsmenn votta sína og sagði: „Skiljið að ég er hann. Enginn guð var myndaður á undan mér og eftir mig verður enginn til.“ Í framhaldinu leggur Jehóva áherslu á að vilji sinn breytist aldrei og segir: „Héðan í frá er ég einnig hinn sami.“ (Jes. 43:10, 13; 44:6; 48:12) Hvílíkur heiður fyrir Ísraelsmenn – og fyrir okkur – að vera þjónar Jehóva sem er sjálfum sér samkvæmur og trúfastur að öllu leyti. – Mal. 3:6; Jak. 1:17.

8, 9. (a) Hvers krefst Jehóva af tilbiðjendum sínum? (b) Hvernig lagði Jesús áherslu á mikilvægi þess sem Móse sagði?

8 Já, Móse minnti fólkið á að kærleikur Jehóva og umhyggja fyrir því myndi aldrei breytast. Það væri því eðlilegt að það sýndi honum óskipta hollustu og elskaði hann skilyrðislaust, af öllu hjarta, sál og mætti. Foreldrar áttu að nota hvert tækifæri til að kenna börnum sínum þannig að þau myndu líka sýna Jehóva algera hollustu. – 5. Mós. 6:6-9.

9 Þar sem vilji Jehóva og fyrirætlanir haggast ekki er augljóst að grundvallarkröfur hans til tilbiðjenda sinna eru enn þær sömu. Til að tilbeiðsla okkar sé Jehóva þóknanleg þurfum við líka að sýna honum óskipta hollustu og elska hann af öllu hjarta, huga og mætti. Það var einmitt það sem Jesús sagði að væri mikilvægast allra boðorða. (Lestu Markús 12:28-31.) Skoðum því hvernig við getum sýnt í verki að við skiljum og trúum að Jehóva, Guð okkar, „er einn“.

SÝNUM JEHÓVA ÓSKIPTA HOLLUSTU

10, 11. (a) Í hvaða skilningi er tilbeiðsla okkar á Jehóva óskipt? (b) Hvernig sýndu hebresk ungmenni í Babýlon Jehóva óskipta hollustu?

10 Jehóva er hinn eini sanni Guð og því eigum við að sýna honum óskipta hollustu. Tilbeiðsla okkar verður að vera heils hugar og má ekki að nokkru leyti beinast að öðrum guðum. Í henni má ekki heldur vera vottur af hugmyndum eða siðvenjum sem eiga sér uppruna í tilbeiðslu af öðru tagi. Við þurfum að hafa hugfast að Jehóva er ekki bara einn guð af mörgum né hinn hæsti og máttugasti á meðal þeirra. Við ættum aðeins að tilbiðja Jehóva. – Lestu Opinberunarbókina 4:11.

11 Í Daníelsbók lesum við um hebresku ungmennin Daníel, Hananja, Mísael og Asarja. Þeir sýndu Jehóva óskipta hollustu bæði með því að þiggja ekki mat sem var óhreinn og með því að neita að falla fram fyrir gulllíkneski Nebúkadnesars. Jehóva var í fyrsta sæti hjá þeim og það hvarflaði ekki að þeim að hvika frá tilbeiðslunni á honum. – Dan. 1:1–3:30.

12. Á hverju þurfum við að gæta okkar ef við viljum sýna Jehóva óskipta hollustu?

12 Jehóva þarf að skipa fyrsta sæti í lífi okkar. Ef við viljum sýna honum óskipta hollustu þurfum við að gæta þess að ekkert annað komi í staðinn. Hvað gæti það verið? Í boðorðunum tíu lét Jehóva skýrt í ljós að þjónar sínir mættu ekki hafa neina aðra guði en hann né dýrka skurðgoð í nokkurri mynd. (5. Mós. 5:6-10) Skurðgoðadýrkun getur tekið á sig ýmsar myndir á okkar tímum og sumum þeirra getur verið erfitt að átta sig á. En kröfur Jehóva hafa ekki breyst. Jehóva er eftir sem áður „einn“. Skoðum nú hvað það þýðir fyrir okkur.

13. Hvað gætum við farið að elska meira en Jehóva?

13 Í Kólossubréfinu 3:5 (lestu) er að finna kröftug fyrirmæli til kristinna manna um það sem gat eyðilagt dýrmætt samband þeirra við Jehóva. Tökum eftir að ágirnd er sett í samband við skurðgoðadýrkun. Ástæðan er sú að löngunin í það sem hugurinn girnist, svo sem auðæfi og munað, getur farið að stjórna lífi okkar og þannig gegna hlutverki máttugs guðs. En þegar við skoðum versið í heild er ekki erfitt að sjá að allar aðrar syndir, sem nefndar eru, tengjast með einum eða öðrum hætti ágirnd, og þar með skurðgoðadýrkun. Löngunin í slíkt getur auðveldlega orðið sterkari en kærleikur okkar til Guðs. Ef við leyfðum röngum löngunum að stjórna okkur er hætta á að Jehóva verði ekki lengur „einn“ fyrir okkur. Við viljum aldrei taka slíka áhættu.

14. Við hverju varaði Jóhannes postuli?

14 Jóhannes postuli tók í sama streng þegar hann varaði við því að elska það sem í heiminum er – „allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna“. Sá sem gerir það „elskar ekki föðurinn“, segir hann. (1. Jóh. 2:15, 16) Það þýðir að við þurfum stöðugt að skoða hjarta okkar og athuga hvort veraldlegur félagsskapur, skemmtiefni og fatatíska eða útlit sé farið að hafa áhrif á okkur. Að elska heiminn getur líka falið í sér að við ætlum okkur „mikinn hlut“, til dæmis með því að afla okkur æðri menntunar. (Jer. 45:4, 5) Nýi heimurinn er nú rétt handan við hornið. Það skiptir því öllu máli að við höfum áhrifamikil orð Móse ofarlega í huga. Ef við skiljum og trúum því staðfastlega að Jehóva, Guð okkar, „er einn“ gerum við allt sem við getum til að sýna honum óskipta hollustu og þjóna honum eins og honum er velþóknanlegt. – Hebr. 12:28, 29.

VARÐVEITUM EININGUNA INNAN SAFNAÐARINS

15. Hvers vegna minnti Páll kristna menn á að Jehóva „er einn“?

15 Það að Jehóva „er einn“ gefur líka til kynna að hann vilji að þjónar sínir séu sameinaðir og hafi sama markmið í lífinu. Í kristna söfnuðinum á fyrstu öld voru Gyðingar, Grikkir, Rómverjar og fólk af öðrum þjóðum. Trúarlegur bakgrunnur þeirra, siðir og áherslur í lífinu voru ólíkar. Þess vegna fannst sumum erfitt að sætta sig við þetta nýja tilbeiðsluform eða að segja alfarið skilið við gamlar venjur. Páll postuli þurfti því að minna þá á að kristnir menn tilbiðja einn Guð, Jehóva. – Lestu 1. Korintubréf 8:5, 6.

16, 17. (a) Hvaða spádómur er að uppfyllast núna og með hvaða hætti? (b) Hvað gæti haft áhrif á einingu okkar?

16 Hvað um kristna söfnuðinn nú á dögum? Jesaja spámaður sagði fyrir að „á hinum síðustu dögum“ kæmi fólk af öllum þjóðum saman til að tilbiðja Jehóva. Það myndi segja: ,Drottinn kenni oss sína vegu og vér göngum á hans stigum.‘ (Jes. 2:2, 3, Biblían 1981) Það er frábært að fá að fylgjast með þessum spádómi rætast núna! Í mörgum söfnuðum er fólk af mismunandi uppruna og menningu og það talar ólík tungumál, en allir tilbiðja Jehóva í sameiningu. Þessi fjölbreytni getur þó stundum reynt á okkur og því er gott að hugsa um ákveðin atriði.

Stuðlar þú að einingu innan safnaðarins? (Sjá 16.-19. grein.)

17 Hvernig líturðu til dæmis á trúsystkini sem hafa vanist allt annarri menningu en þú? Móðurmál þeirra, fatastíll, siðir og matarmenning er ef til vill ólík því sem þú hefur alist upp við. Áttu það til að forðast þau og umgangast aðallega þá sem hafa svipaðan bakgrunn og þú? Hvað ef umsjónarmenn í söfnuðinum, á farandsvæðinu eða svæði deildarskrifstofunnar eru yngri en þú, eða af öðrum kynþætti eða menningu? Læturðu slíkt hafa áhrif á eininguna sem á að ríkja meðal þjóna Jehóva?

18, 19. (a) Hvaða ráð gefur Páll í Efesusbréfinu 4:1-3? (b) Hvað getum við gert til að stuðla að einingu innan safnaðarins?

18 Hvað getur hjálpað okkur að falla ekki í slíka gryfju? Páll gaf kristnum mönnum í Efesus, sem var blómleg og fjölþjóðleg borg, góð og hagnýt ráð. (Lestu Efesusbréfið 4:1-3.) Tökum eftir að Páll nefnir fyrst eiginleika eins og lítillæti, hógværð, þolinmæði og kærleika. Þessum eiginleikum mætti líkja við stoðir húss sem halda því uppi. En hús þarf meira en sterkar stoðir. Það þarf líka reglulegt viðhald til að það fari ekki að láta á sjá. Páll hvatti kristna menn í Efesus til að leggja sig einlæglega fram um að „varðveita einingu andans“.

19 Við ættum hvert og eitt að líta á það sem ábyrgð okkar að stuðla að því að varðveita eininguna innan safnaðarins. Hvernig getum við gert það? Í fyrsta lagi getum við þroskað með okkur og sýnt þá eiginleika sem Páll nefndi – lítillæti, hógværð, þolinmæði og kærleika. Við ættum líka að gera okkar ýtrasta til að styrkja ,band friðarins‘. Við þurfum að vinna í því að laga alla bresti og veikleika sem upp geta komið. Þannig stuðlum við að því að viðhalda friðinum og einingunni innan safnaðarins.

20. Hvernig getum við sýnt að við skiljum að Jehóva, Guð okkar, „er einn“?

20 „Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn.“ Þetta er áhrifamikil yfirlýsing! Hún bjó Ísraelsmenn undir þá erfiðleika sem áttu eftir að mæta þeim þegar þeir gengu inn í fyrirheitna landið og lögðu það undir sig. Ef við tökum þessi orð til okkar veitir það okkur kraft til að komast í gegnum þrenginguna miklu sem er rétt fram undan og stuðla að friði og einingu í paradísinni. Höldum áfram að sýna Jehóva óskipta hollustu með því að elska hann og þjóna honum af öllu hjarta, og leggja okkur einlæglega fram um að varðveita eininguna innan kristna safnaðarins. Ef við gerum það getum við hlakkað til þess að sjá rætast orð Jesú um þá sem hann dæmir svo að séu sauðir. Hann sagði: „Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims.“ – Matt. 25:34.