Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leyfirðu leirkerasmiðnum mikla að móta þig?

Leyfirðu leirkerasmiðnum mikla að móta þig?

„Þér eruð í hendi minni ... eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.“ – JER. 18:6.

SÖNGVAR: 60, 22

1, 2. Hvers vegna var Daníel ákaflega hjartfólginn Guði og hvernig getum við verið hlýðin eins og hann?

ÞEGAR Gyðingar voru fluttir í útlegð til Babýlonar blasti við þeim borg sem var full af skurðgoðum og íbúarnir voru í ánauð illra anda. En trúir Gyðingar, svo sem Daníel og félagar hans þrír, einsettu sér að láta ekki mótast af þessu umhverfi. (Dan. 1:6, 8, 12; 3:16-18) Daníel og félagar voru staðráðnir í að sýna Jehóva óskipta hollustu og láta hann móta sig. Og þeim tókst það. Þótt Daníel hefði búið mestan hluta ævinnar í Babýlon sagði engill Guðs að hann væri Guði ákaflega hjartfólginn. – Dan. 10:11, 19.

2 Leirkerasmiðir á biblíutímanum þrýstu stundum leirnum í mót til að hann tæki á sig þá lögun sem þeir vildu. Sannkristnir menn nú á dögum viðurkenna að Jehóva sé Drottinn alheims og hafi vald til að móta þjóðir að vild sinni. (Lestu Jeremía 18:6.) Guð hefur einnig vald til að móta hvert og eitt okkar. Hann virðir hins vegar frjálsan vilja okkar og vill að við séum honum undirgefin af fúsu geði. Við skulum nú kanna hvernig við getum verið eins og mjúkur leir í höndum Guðs. Lítum á þrennt: (1) Hvað getum við gert til að forherðast ekki og verða ómóttækileg fyrir leiðbeiningum Guðs? (2) Hvernig getum við þroskað með okkur eiginleika sem gera okkur auðsveip og undirgefin? (3) Hvernig geta kristnir foreldrar hlýtt Guði þegar þeir móta börnin sín?

GÆTUM ÞESS AÐ HJARTAÐ FORHERÐIST EKKI

3. Hvað gæti forhert okkur? Lýstu með dæmi.

3 „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins,“ segir í Orðskviðunum 4:23. Til að hjartað forherðist ekki þurfum við meðal annars að forðast hroka og vantrú, og við megum ekki heldur iðka synd. Það gæti ýtt undir óhlýðni og uppreisnarhug. (Dan. 5:1, 20; Hebr. 3:13, 18, 19) Ússía konungur gerði sig sekan um hroka. (Lestu 2. Kroníkubók 26:3-5, 16-21.) Hann „gerði það sem rétt var í augum Drottins“ fyrst í stað og „leitaði Guðs“. En þegar hann var orðinn „mjög voldugur varð hann ... hrokafullur“ þó að hann ætti veldi sitt Guði að þakka. Hann reyndi meira að segja að brenna reykelsi í musterinu en það máttu aðeins prestar af ætt Arons gera. Prestarnir sögðu honum að hann hefði brotið af sér en þá reiddist hann þeim. Það hafði þær afleiðingar að Jehóva auðmýkti hann og hann var holdsveikur til dauðadags. – Orðskv. 16:18.

4, 5. Hvernig getur farið ef við látum stolt ná tökum á okkur? Lýstu með dæmi.

4 Ef við erum ekki á varðbergi gætum við líka farið að ,hugsa hærra um sjálf okkur en hugsa ber‘. Það gæti gengið svo langt að við hættum að hlusta á leiðbeiningar Biblíunnar. (Rómv. 12:3; Orðskv. 29:1) Jim er dæmi um það. Hann var safnaðaröldungur en var ósammála hinum öldungunum varðandi ákveðið mál. Hann segir: „Ég sagði bræðrunum að þeir væru ekki kærleiksríkir og yfirgaf fundinn.“ Um hálfu ári síðar flutti hann til annars safnaðar en var ekki útnefndur öldungur þar. „Ég varð fyrir miklum vonbrigðum,“ segir hann. „Ég var svo sannfærður um að ég hefði rétt fyrir mér að ég yfirgaf sannleikann.“ Jim var óvirkur í trúnni í tíu ár. „Stoltið var sært og ég fór að kenna Jehóva um hvernig komið var fyrir mér,“ segir hann. „Bræður heimsóttu mig á þessum árum og reyndu að tala um fyrir mér en ég vildi ekki þiggja hjálp þeirra.“

5 Saga Jims sýnir hvernig stolt getur orðið til þess að við förum að réttlæta gerðir okkar og hættum að vera eins og mjúkur leir. (Jer. 17:9) „Ég gat ekki hætt að hugsa um að hinir hefðu rangt fyrir sér,“ segir Jim. Hefur trúsystkini einhvern tíma sært þig eða hefurðu þurft að afsala þér verkefnum í söfnuðinum? Hvernig brástu þá við? Var stoltið sært? Eða fannst þér mestu máli skipta að sættast við trúsystkini þitt og vera Jehóva trúr? – Lestu Sálm 119:165; Kólossubréfið 3:13.

6. Hvað getur gerst ef við venjum okkur á að syndga?

6 Ef við venjum okkur á að syndga, og förum jafnvel leynt með það, getum við orðið ónæm fyrir leiðbeiningum Guðs. Það getur orðið minna mál fyrir okkur að syndga. Bróðir segir að með tímanum hafi óviðeigandi hegðun hans hætt að valda honum hugarangri. (Préd. 8:11) Annar bróðir, sem vandi sig á að horfa á klám, viðurkenndi síðar: „Ég varð smám saman gagnrýninn í garð öldunganna.“ Synd hans hafði alvarleg áhrif á samband hans við Jehóva. Um síðir kom fram í dagsljósið hvað hann var að gera og hann fékk hjálp frá öldungunum. Öll erum við auðvitað ófullkomin. En það er hætta á að við forherðumst í hjarta okkar ef við verðum gagnrýnin eða afsökum ranga breytni okkar í stað þess að leita fyrirgefningar Guðs og fá aðstoð.

7, 8. (a) Hvernig forherti vantrúin Ísraelsmenn forðum daga? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af því?

7 Ísraelsmennirnir, sem Jehóva frelsaði frá Egyptalandi, eru dæmi um hvernig vantrú getur forhert fólk. Þeir sáu Jehóva vinna mörg ótrúleg kraftaverk í þeirra þágu. En þegar þjóðin nálgaðist fyrirheitna landið skorti hana trú. Fólkið varð óttaslegið og möglaði gegn Móse í stað þess að treysta á Jehóva. Það vildi jafnvel snúa aftur til Egyptalands þar sem það hafði verið í þrælkun. Þetta særði Jehóva ákaflega. „Hversu lengi á þessari þjóð að leyfast að fyrirlíta mig?“ sagði hann. (4. Mós. 14:1-4, 11; Sálm. 78:40, 41) Þessi þrjóska og vantrúaða kynslóð dó í eyðimörkinni.

8 Nýi heimurinn er ekki langt undan og það reynir líka á trú okkar. Það er gott að skoða hve sterk hún er. Við gætum til dæmis hugleitt hvernig við lítum á orð Jesú í Matteusi 6:33. Spyrðu þig: Sýni ég með ákvörðunum mínum og áherslum í lífinu að ég trúi orðum Jesú? Myndi ég fórna samkomum eða boðunarstarfinu til að auka tekjurnar? Hvað geri ég þegar álagið frá heiminum eykst? Leyfi ég heiminum að þrýsta mér í sitt mót og jafnvel út úr sannleikanum?

9. Hvers vegna þurfum við að rannsaka hvort við séum í trúnni og hvernig getum við gert það?

9 Tökum annað dæmi. Hugsum okkur þjón Jehóva sem er svolítið tregur til að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar, til dæmis um félagsskap, skemmtiefni eða þá sem vikið er úr söfnuðinum. Spyrðu þig hvort þú eigir við þess konar vanda að stríða. Ef þú uppgötvar eitthvað þess háttar í fari þínu er bráðnauðsynlegt fyrir þig að taka trú þína til skoðunar. Biblían ráðleggur: „Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar, prófið ykkur sjálf.“ (2. Kor. 13:5) Vertu heiðarlegur við sjálfan þig og notaðu Biblíuna oft til að leiðrétta hugsun þína.

VERTU EINS OG MJÚKUR LEIR

10. Hvað getur hjálpað okkur að vera eins og þjáll leir í höndum Jehóva?

10 Guð hefur gefið okkur orð sitt, kristna söfnuðinn og boðunina til að hjálpa okkur að vera eins og mjúkur leir. Að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða efnið getur gert okkur mjúk og meðfærileg í höndum Jehóva, ekki ósvipað og vatn mýkir leir. Konungar Ísraels áttu að gera sér afrit af lögmáli Guðs og lesa daglega í því. (5. Mós. 17:18, 19) Postularnir vissu að þeir urðu að lesa og hugleiða Ritninguna til að geta gert boðuninni góð skil. Í ritum sínum vitnuðu þeir og vísuðu mörg hundruð sinnum í Hebresku ritningarnar og hvöttu þá sem þeir boðuðu fagnaðarerindið til að líkja eftir sér. (Post. 17:11) Við gerum okkur líka grein fyrir að við þurfum að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða efnið. (1. Tím. 4:15) Það hjálpar okkur að vera auðmjúk frammi fyrir Jehóva og vera eins og þjáll leir í höndum hans.

Notum þá hjálp sem Guð gefur okkur til að vera eins og mjúkur leir í höndum hans. (Sjá 10.-13. grein.)

11, 12. Hvernig getur Jehóva notað söfnuðinn til að móta hvert og eitt okkar? Lýstu með dæmi.

11 Jehóva getur mótað hvert og eitt okkar eftir þörfum með hjálp kristna safnaðarins. Jim, sem áður er getið, mildaðist þegar öldungur sýndi einlægan áhuga á velferð hans. „Hann kenndi mér aldrei um hvernig fór né gagnrýndi mig,“ segir Jim. „Hann var alltaf jákvæður og sýndi að hann vildi í einlægni hjálpa mér.“ Eftir um það bil þrjá mánuði bauð öldungurinn Jim að koma á samkomu. „Söfnuðurinn tók mér opnum örmum og sýndi mér kærleika,“ segir Jim. „Það var vendipunkturinn hjá mér. Ég áttaði mig á að mínar eigin tilfinningar voru ekki stóra málið. Sambandið við Jehóva styrktist smám saman með hjálp bræðranna og eiginkonu minnar sem var alla tíð stöðug í þjónustu Jehóva. Mér fannst líka mjög hvetjandi að lesa greinarnar ,Jehóva er ekki um að kenna‘ og ,Þjónaðu Jehóva með trygglyndi‘ sem birtust í Varðturninum 1. júní 1993.“

12 Þegar fram liðu stundir var Jim útnefndur öldungur á nýjan leik. Síðan þá hefur hann hjálpað öðrum bræðrum að yfirstíga svipuð vandamál og styrkja trú sína. Hann segir: „Ég hélt að ég ætti sterkt samband við Jehóva en raunin var önnur. Ég harma að ég skyldi láta stoltið blinda mig gagnvart því sem meira máli skipti og einblína á galla annarra.“ – 1. Kor. 10:12.

13. Hvaða eiginleika kallar boðunarstarfið fram í fari okkar og hvaða áhrif hefur það?

13 Hvernig getur boðunarstarfið mótað okkur? Að segja frá fagnaðarerindinu getur þroskað með okkur auðmýkt og ýmsa eiginleika sem tilheyra ávexti andans. (Gal. 5:22, 23) Hugleiddu hvaða góðu eiginleika boðunin hefur þroskað með þér. Með kristinni framkomu okkar prýðum við boðskapinn og það getur haft sín áhrif á þá sem við hittum. Tveir vottar í Ástralíu hlustuðu vingjarnlega á konu sem vandaði þeim ekki kveðjurnar. Þegar þeir voru farnir sá hún eftir að hafa komið svona illa fram og skrifaði deildarskrifstofunni. Í bréfinu sagði meðal annars: „Mig langar til að biðja þessa tvo sérlega þolinmóðu og hógværu votta afsökunar á yfirlæti mínu og rembingi. Það var heimskulegt af mér að standa frammi fyrir tveim manneskjum, sem voru að útbreiða orð Guðs, og reyna að vísa þeim svona á bug.“ Ætli konan hefði skrifað þetta ef hún hefði séð örla á reiði hjá boðberunum? Sennilega ekki. Boðunarstarfið hefur greinilega jákvæð áhrif – bæði á okkur og aðra.

FORELDRAR ÞURFA AÐ HLÝÐA GUÐI ÞEGAR ÞEIR MÓTA BÖRNIN SÍN

14. Hvað þurfa foreldrar að gera til að takast vel að móta börnin sín?

14 Börn eru yfirleitt námfús og auðmjúk að eðlisfari. (Matt. 18:1-4) Það er því skynsamlegt af foreldrum að reyna að kenna börnunum sannleikann svo að þau læri að elska hann. (2. Tím. 3:14, 15) Ef það á að takast þurfa foreldrarnir auðvitað sjálfir að elska sannleikann og lifa eftir honum. Þegar þeir gera það bæði heyra börnin sannleikann og finna fyrir áhrifum hans. Og þegar börnin fá ögun skynja þau hana sem merki um kærleika forelda sinna og Jehóva.

15, 16. Hvernig ættu foreldrar að sýna að þeir treysta Guði ef barni þeirra er vikið úr söfnuðinum?

15 Það kemur þó fyrir að börn yfirgefa sannleikann þrátt fyrir kristið uppeldi, eða þeim er vikið úr söfnuðinum. Það er dapurlegt fyrir fjölskyldur þeirra. „Það var eins og bróðir minn hefði dáið þegar honum var vikið úr söfnuðinum. Það var ákaflega sorglegt,“ segir systir nokkur í Suður-Afríku. En hún og foreldrar hennar fylgdu leiðbeiningum Biblíunnar. (Lestu 1. Korintubréf 5:11, 13.) „Við einsettum okkur að fara eftir Biblíunni,“ segja foreldrarnir. „Við vissum að það væri öllum fyrir bestu að hlýða Guði. Við litum á það sem ögun frá Jehóva að víkja syni okkar úr söfnuðinum og vorum sannfærð um að Jehóva agar fólk að hæfilegu marki vegna þess að hann elskar það. Við áttum því engin samskipti við son okkar umfram nauðsynleg fjölskyldumál.“

16 Hvernig var syninum innanbrjósts? „Ég vissi að fjölskyldan hataði mig ekki heldur hlýddi einfaldlega Jehóva og söfnuði hans,“ sagði hann síðar. Hann bætti við: „Þegar maður neyðist til að biðja Jehóva um hjálp og fyrirgefningu uppgötvar maður hve sárlega maður þarfnast hans.“ Við getum rétt ímyndað okkur gleði fjölskyldunnar þegar ungi maðurinn var tekinn inn í söfnuðinn aftur. Það er okkur alltaf fyrir bestu að minnast Jehóva á öllum vegum okkar. – Orðskv. 3:5, 6; 28:26.

17. Hvers vegna eigum við að vera undirgefin Jehóva öllum stundum og hvernig verður það okkur til góðs?

17 Jesaja spámaður skrifaði um þann tíma þegar útlegðin í Babýlon tæki enda og iðrandi Gyðingar myndu segja: „Þú, Drottinn, ert faðir vor, vér erum leir, þú hefur mótað oss og allir erum vér handaverk þín.“ Síðan myndu þeir biðja hann: „Minnstu ekki sektar vorrar um aldur. Lít til vor, vér erum allir þjóð þín.“ (Jes. 64:7, 8) Þegar við hlýðum Jehóva í allri auðmýkt og erum honum undirgefin öllum stundum verðum við honum ákaflega hjartfólgin, rétt eins og Daníel spámaður var. Og Guð heldur áfram að móta okkur með orði sínu, anda og söfnuði þannig að við getum staðið frammi fyrir honum sem fullkomin ,börn Guðs‘ þegar fram líða stundir. – Rómv. 8:21.