Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig tekurðu ákvarðanir?

Hvernig tekurðu ákvarðanir?

„Reynið að skilja hver sé vilji Drottins.“ – EF. 5:17.

SÖNGVAR: 69, 57

1. (a) Nefndu dæmi um bein fyrirmæli í Biblíunni. (b) Hvernig hefur það verið okkur til góðs að hlýða þeim?

JEHÓVA hefur gefið okkur bein fyrirmæli um margt í rituðu orði sínu. Hann bannar til dæmis kynferðislegt siðleysi, falsguðadýrkun, þjófnað og drykkjuskap. (1. Kor. 6:9, 10) Auk þess gaf sonur hans, Jesús Kristur, fyrirmæli um verk sem er krefjandi en á sama tíma spennandi: „Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28:19, 20) Lög Guðs og fyrirmæli hafa verið okkur mikil vernd. Að hlýða þeim hefur veitt okkur aukna sjálfsvirðingu og stuðlað að betri heilsu og hamingjuríkara fjölskyldulífi. Síðast en ekki síst hefur það veitt okkur velþóknun og blessun Jehóva að hlýða boðum hans, þar á meðal því að boða fagnaðarerindið.

2, 3. (a) Hvers vegna eru ekki til reglur í Biblíunni um allar aðstæður í lífinu? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Um ótal mál eru þó engin ákveðin fyrirmæli í Biblíunni. Til dæmis eru ekki settar ítarlegar reglur um viðeigandi klæðnað fyrir kristna menn. Hvernig sýnir það fram á visku Jehóva? Fatatíska og siðir eru bæði breytilegir frá einum heimshluta til annars og frá einum áratug til annars. Ef til væri listi í Biblíunni um viðeigandi klæðnað og útlit væri hún löngu orðin úrelt að þessu leyti. Af svipuðum ástæðum er ekki að finna lista í Biblíunni með reglum um það hvers konar vinnu við eigum að velja, um afþreyingu eða hvernig við hugsum um heilsuna. Jehóva leyfir því einstaklingum og þeim sem fara með forystu í fjölskyldu að taka sjálfir ákvarðanir í þessum málum.

3 Ber að skilja þetta svo að það skipti Jehóva ekki máli hvað við ákveðum að gera í mikilvægum málum sem hafa sum hver djúpstæð áhrif á líf okkar? Hefur himneskur faðir okkar velþóknun á öllum ákvörðunum okkar, svo framarlega sem við brjótum ekki gegn lögum Biblíunnar? Hvernig er hægt að vita hvaða ákvarðanir eru Jehóva að skapi þegar Biblían segir ekkert ákveðið um það?

SKIPTA ÁKVARÐANIR OKKAR MÁLI?

4, 5. Hvernig geta ákvarðanir okkar haft áhrif á sjálf okkur og aðra?

4 Sumum finnst ekki skipta máli hvað þeir kjósa að gera. Til að taka skynsamlegar ákvarðanir sem Jehóva er ánægður með þurfum við þó að skoða lög og meginreglur Biblíunnar og fara eftir þeim. Við þurfum til dæmis að fylgja lögum Guðs um notkun blóðs til að þóknast honum. (1. Mós. 9:4; Post. 15:28, 29) Bænin hjálpar okkur að taka ákvarðanir í samræmi við lög og meginreglur Biblíunnar.

5 Mikilvægar ákvarðanir geta haft töluverð áhrif á trú okkar og velferð. Líklega hafa allar ákvarðanir okkar áhrif á samband okkar við Jehóva – annaðhvort til góðs eða ills. Góð ákvörðun styrkir samband okkar við hann en slæm ákvörðun getur skaðað það. Slæm ákvörðun getur auk þess komið öðrum í uppnám og veikt trú þeirra eða komið niður á einingu safnaðarins. Ákvarðanir okkar skipta greinilega máli. – Lestu Rómverjabréfið 14:19; Galatabréfið 6:7.

6. Á hverju ættu ákvarðanir okkar að byggjast?

6 Hvernig getum við þá tekið góðar ákvarðanir þegar Biblían segir ekki beint hvað við eigum að gera? Í slíkum tilfellum er það ábyrgð okkar að skoða allar hliðar málsins og taka ákvörðun sem ræðst ekki bara af eigin smekk heldur tekur mið af því sem Jehóva er ánægður með og blessar. – Lestu Sálm 37:5.

AÐ SKILJA HVER VILJI JEHÓVA ER

7. Hvernig getum við áttað okkur á hvað Jehóva vill að við gerum ef engin fyrirmæli eru um málið í Biblíunni?

7 Þú veltir kannski fyrir þér hvernig hægt sé að vita hvað er Jehóva að skapi ef ekki eru nein bein fyrirmæli um málið í orði hans. Í Efesusbréfinu 5:17 segir: „Reynið að skilja hver sé vilji Drottins.“ Hvernig getum við áttað okkur á hver vilji Guðs er á þeim sviðum þar sem Biblían gefur engin ákveðin fyrirmæli? Með því að biðja til hans og þiggja leiðsögn hans sem við fáum fyrir milligöngu heilags anda.

8. Hvernig skildi Jesús hvað Jehóva vildi að hann gerði? Lýstu með dæmi.

8 Skoðum hvernig Jesús gat vitað hvað faðir hans vildi að hann gerði. Sagt er frá tveim dæmum þar sem Jesús bað til Guðs og vann síðan það kraftaverk að gefa miklum mannfjölda að borða. (Matt. 14:17-20; 15:34-37) Hins vegar neitaði hann að breyta steinum í brauð þegar hann hungraði og Satan freistaði hans í eyðimörkinni. (Lestu Matteus 4:2-4.) Jesús vissi hvernig faðir hans hugsaði og skildi að hann ætti ekki að breyta steinunum í brauð. Hann áttaði sig á að Jehóva vildi ekki að hann notaði þennan mátt í eiginhagsmunaskyni. Hann sýndi að hann treysti að Jehóva leiðbeindi honum og sæi fyrir honum.

9, 10. Hvað hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir? Lýstu með dæmi.

9 Til að taka skynsamlegar ákvarðanir eins og Jesús þurfum við að reiða okkur á leiðsögn Jehóva. Við þurfum að fara eftir þessum viturlegu orðum: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar. Þú skalt ekki þykjast vitur en óttast Drottin og forðast illt.“ (Orðskv. 3:5-7) Þegar við kynnumst viðhorfum Jehóva með biblíunámi áttum við okkur betur á hvað hann vill að við gerum við ákveðnar aðstæður. Því betur sem við kynnumst viðhorfum Jehóva því næmara verður hjarta okkar fyrir leiðsögn hans. – Esek. 11:19.

10 Tökum dæmi: Hugsum okkur gifta konu sem er að versla. Hún kemur auga á skó sem hana langar í en þeir eru mjög dýrir. Hún hugsar þá til þess hvað eiginmanni hennar fyndist um að hún eyddi svona miklum peningum. Hún veit það líklega mætavel þó að maðurinn sé ekki með henni. Hvernig getur hún vitað það? Þau hafa verið gift um tíma og hún hefur áttað sig á hvernig hann vill að þau noti þá takmörkuðu fjármuni sem þau hafa handa á milli. Hún veit þar af leiðandi hvernig hann myndi líta á það að hún keypti skóna. Hið sama er að segja um viðhorf Jehóva og það sem hann hefur gert. Þegar við kynnumst því smátt og smátt skiljum við æ betur hvað hann vill að við gerum við mismunandi aðstæður.

HVERNIG GETUM VIÐ ÁTTAÐ OKKUR Á VIÐHORFUM JEHÓVA?

11. Hvaða spurninga getum við spurt okkur þegar við lesum í Biblíunni eða stundum sjálfsnám? (Sjá rammann „ Spyrðu þig í biblíunámi þínu“.)

11 Til að kynnast viðhorfum Jehóva þurfum við að vera dugleg við biblíunám. Þegar við lesum og ígrundum orð Guðs gætum við spurt okkur: Hvað segir þetta efni mér um Jehóva, um réttláta vegi hans og viðhorf? Við þurfum að hugsa eins og sálmaskáldið Davíð sem söng: „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.“ (Sálm. 25:4, 5) Þegar þú hugleiðir vers í Biblíunni gætirðu velt fyrir þér spurningum eins og þessum: Hvernig get ég nýtt mér þetta efni í fjölskyldunni? Hvar get ég nýtt mér það? Heima fyrir? Í vinnunni? Í skólanum? Í boðuninni? Þegar við sjáum hvar við getum nýtt okkur ákveðið efni getur verið auðveldara að átta okkur á hvernig við getum heimfært það upp á líf okkar.

12. Hvernig geta ritin okkar og samkomurnar hjálpað okkur að kynnast viðhorfum Jehóva til ýmissa mála?

12 Önnur leið til að kynnast viðhorfum Jehóva betur er að skoða vandlega biblíulegar leiðbeiningar sem söfnuður hans veitir. Við höfum til dæmis ritið Efnislykill að ritum Votta Jehóva sem getur hjálpað okkur að kynnast viðhorfum Jehóva til margs konar aðstæðna þar sem við þurfum að taka ákvarðanir út frá samvisku okkar. Við höfum líka mikið gagn af að hlusta vandlega á samkomum og taka þátt í þeim. Með því að hugleiða kennsluna þar fáum við betri innsýn í viðhorf Jehóva og eigum auðveldara með að tileinka okkur þau. Smátt og smátt kynnumst við vegum Jehóva betur ef við nýtum okkur vel alla þá andlegu fæðu sem hann veitir. Fyrir vikið verðum við betur í stakk búin til að taka ákvarðanir sem ástríkur faðir okkar á himnum blessar.

LÁTTU VIÐHORF JEHÓVA LEIÐBEINA ÞÉR ÞEGAR ÞÚ TEKUR ÁKVARÐANIR

13. Nefndu dæmi sem sýnir hvernig við getum tekið skynsamlega ákvörðun þegar við hugleiðum hvernig Jehóva lítur á málin.

13 Skoðum dæmi sem sýnir hvernig við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir þegar við vitum hvernig Jehóva lítur á málin. Okkur langar kannski að gerast brautryðjendur. Til að það sé hægt byrjum við á að einfalda líf okkar en við veltum kannski fyrir okkur hvort við getum raunverulega verið hamingjusöm með minna af efnislegum gæðum. Í Biblíunni er auðvitað ekkert boð sem segir að við verðum að vera brautryðjendur, þannig að við gætum alveg haldið áfram að þjóna Jehóva trúfastlega án þess. En Jesús fullvissar okkur um að þeir sem færa fórnir í þágu ríkis Guðs hljóti blessun í ríkum mæli. (Lestu Lúkas 18:29, 30.) Biblían sýnir líka að við gleðjum Jehóva þegar við færum lofgjörðarfórnir með ,munni okkar‘ og leggjum okkur fúslega fram í þjónustu hans. (Sálm. 119:108; 2. Kor. 9:7) Ættum við ekki að átta okkur á viðhorfum Jehóva þegar við lesum þessi vers og biðjum hann um leiðsögn? Þegar við hugleiðum þetta verðum við fær um að taka góða ákvörðun miðað við okkar aðstæður og hljótum blessun föður okkar á himnum.

14. Hvernig geturðu áttað þig á hvort ákveðinn fatastíll sé Jehóva að skapi?

14 Skoðum annað dæmi: Segjum að þú aðhylltist fatastíl sem gæti truflað einhverja í söfnuðinum en það er ekkert í Biblíunni sem mælir beint gegn honum. Hvernig lítur Jehóva á málið? Páll postuli gaf þessar innblásnu leiðbeiningar: „Konur séu látlausar í klæðaburði, ekki með fléttur og gull eða perlur og skartklæði heldur skrýðist góðum verkum eins og sómir konum er segjast vilja dýrka Guð.“ (1. Tím. 2:9, 10) Í meginatriðum eiga þessi ráð eins við um kristna karlmenn. Trúfastir þjónar Jehóva hugsa ekki bara um eigin sjónarmið heldur líka um hvaða áhrif fataval þeirra og útlit hefur á aðra. Hógværð og kærleikur hvetur okkur til að taka tillit til skoðana trúsystkina okkar svo að við truflum þau ekki eða jafnvel hneykslum. (1. Kor. 10:23, 24; Fil. 3:17) Ef við höfum hugfast það sem Biblían segir áttum við okkur betur á viðhorfum Jehóva í þessum málum og þá getum við tekið ákvörðun sem hann hefur velþóknun á.

15, 16. (a) Hvað myndi Jehóva finnast um að við létum hugann dvelja við kynferðislegt siðleysi? (b) Hvernig getum við áttað okkur á viðhorfi Jehóva þegar við veljum okkur skemmtiefni? (c) Hvernig ættum við að fara að þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir?

15 Biblían sýnir fram á að Jehóva hryggist þegar fólk fer út á slæma braut og ,hneigðir þess og langanir snúast ætíð til ills‘. (Lestu 1. Mósebók 6:5, 6.) Af þessu getum við skilið að það er rangt að gæla við kynferðislega hugaróra þar sem það getur leitt til alvarlegrar syndar sem Biblían bannar og er algerlega á skjön við viðhorf Jehóva. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.“ (Jak. 3:17) Með þetta í huga ættum við að forðast skemmtiefni sem ýtir undir óhreinar hugsanir og rangar tilhneigingar. Kristnir menn, sem eru næmir á viðhorf Jehóva, þurfa ekki að velta fyrir sér hvort það sé í lagi að lesa bók, horfa á mynd eða spila tölvuleik með efni sem Jehóva hatar. Það kemur skýrt fram í orði hans hvað honum finnst um slíkt.

16 Þegar við þurfum að taka ákvörðun er oft hægt að afgreiða málið á ýmsa vegu sem Jehóva er ánægður með. Þegar um mikilvægar ákvarðanir er að ræða getur þó stundum verið skynsamlegt að leita ráða öldunganna eða annarra reyndra trúsystkina. (Tít. 2:3-5; Jak. 5:13-15) Það væri auðvitað ekki við hæfi að biðja aðra um að taka ákvörðun fyrir okkur. Þjónar Guðs þurfa að læra og þjálfa sig í að sýna góða dómgreind. (Hebr. 5:14) Við þurfum öll að breyta í samræmi við innblásin orð Páls: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ – Gal. 6:5.

17. Hvernig er það okkur til góðs að taka ákvarðanir sem gleðja Jehóva?

17 Þegar við byggjum ákvarðanir okkar á viðhorfum Jehóva nálægjum við okkur honum. (Jak. 4:8) Hann hefur þá velþóknun á okkur og við njótum blessunar hans. Þannig styrkist líka trúin á hann, himneskan föður okkar. Látum því lög og meginreglur Biblíunnar leiðbeina okkur, en þau láta í ljós viðhorf Guðs til margvíslegra mála. Auðvitað getum við alltaf haldið áfram að læra eitthvað nýtt um Jehóva. (Job. 26:14) En ef við leggjum okkur fram getum við jafnvel núna öðlast þá visku, þekkingu og dómgreind sem þarf til að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Orðskv. 2:1-5) Hugmyndir og ætlanir manna eru síbreytilegar en annað má segja um Jehóva. Sálmaskáldið sagði: „Ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.“ (Sálm. 33:11) Það er augljóst að við getum tekið bestu ákvarðanirnar þegar hugsanir okkar og verk samræmast viðhorfum Jehóva, okkar alvitra Guðs.