Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Óvæntir atburðir og lærdómar sem gleðja í þjónustunni við Jehóva

Óvæntir atburðir og lærdómar sem gleðja í þjónustunni við Jehóva

ÞEGAR ég var ungur drengur og sá flugvél á lofti þráði ég alltaf að fljúga til framandi lands. Það virtist fjarlægur draumur.

Foreldrar mínir fóru frá Eistlandi til Þýskalands í síðari heimsstyrjöldinni. Ég fæddist í Þýskalandi. Eftir að ég kom í heiminn bjuggu þau sig undir að flytjast til Kanada. Fyrsta heimili okkar þar var nálægt Ottawa í hvítþvegnu skoti í hænsnakofa. Við vorum sárafátæk, en áttum að minnsta kosti egg í morgunmat.

Dag einn lásu vottar Jehóva Opinberunarbókina 21:3, 4 fyrir mömmu. Þessi vers snertu hana svo djúpt að hún fór að gráta. Fræ sannleikans óx og mamma og pabbi tóku bæði skjótum framförum og létu skírast.

Enskukunnátta foreldra minna var takmörkuð en þau tóku sannleikann mjög alvarlega. Pabbi fór með mig og yngri systur mína, Sylviu, í boðunina á næstum hverjum einasta laugardegi, jafnvel þótt hann hefði unnið alla nóttina við að bræða nikkel í Sudbury í Ontario. Og við fjölskyldan fórum saman yfir efni Varðturnsins í hverri viku. Mamma og pabbi glæddu með mér kærleika til Guðs. Ég vígði Jehóva líf mitt árið 1956, tíu ára gamall. Sterkur kærleikur þeirra til Jehóva hefur styrkt mig alla ævi.

Ég missti einbeitnina að vissu marki eftir að ég kláraði skólann. Ég hugsaði að ef ég gerðist brautryðjandi myndi ég aldrei geta þénað nógu mikið til að láta drauminn um að fljúga og skoða heiminn rætast. Ég fékk vinnu sem plötusnúður á útvarpsstöð. Mér fannst það virkilega skemmtilegt. En ég vann á kvöldin og missti því oft af samkomum og umgekkst þá sem báru engan kærleika til Guðs. Að lokum fékk biblíufrædd samviska mín mig til að gera breytingar.

Ég fluttist til Oshawa í Ontario. Þar kynntist ég Ray Norman, Lesli systur hans og öðrum brautryðjendum. Þau tóku öll vel á móti mér. Þegar ég sá gleði þeirra hvatti það mig til að hugleiða markmið mín. Þau hvöttu mig til að gerast brautryðjandi og það gerði ég í september 1966. Ég var ánægður og lífið var gott. En það biðu mín óvæntir atburðir sem áttu eftir að breyta lífi mínu.

ÞEGAR JEHÓVA BÝÐUR MANNI AÐ GERA EITTHVAÐ Á MAÐUR AÐ REYNA AÐ GERA ÞAÐ

Ég sótti um á Betel í Toronto í Kanada á meðan ég var enn í skóla. Seinna þegar ég var orðinn brautryðjandi var mér boðið að þjóna á Betel í fjögur ár. En ég var hrifinn af Lesli og var hræddur um að ég myndi aldrei sjá hana aftur ef ég þæði boðið. Eftir að hafa beðið til Guðs lengi og innilega þáði ég boðið um að þjóna á Betel og kvaddi Lesli dapur í bragði.

Ég vann í þvottahúsinu á Betel og síðar sem ritari. Á meðan gerðist Lesli sérbrautryðjandi í Gatineau í Quebec. Ég velti oft fyrir mér hvað hún væri að gera og hvort ég hefði tekið rétta ákvörðun. Síðan gerðist nokkuð óvænt sem er með því ánægjulegra í lífi mínu. Ray bróðir Lesli var boðið að þjóna á Betel og hann varð herbergisfélagi minn. Það varð til þess að ég tók upp vináttuna við Lesli aftur. Við giftum okkur 27. febrúar 1971, síðasta daginn minn á Betel eftir fjögurra ára verkefni mitt.

Að hefja farandstarfið árið 1975.

Okkur Lesli var falið að þjóna í frönskumælandi söfnuði í Quebec. Það kom mér á óvart að nokkrum árum seinna var mér boðið að verða farandhirðir, aðeins 28 ára. Mér fannst ég ungur og með litla reynslu en það sem segir í Jeremía 1:7, 8 hvatti mig. En Lesli hafði lent í tveim bílslysum og átti erfitt með svefn. Ég hugsaði því að það yrði erfitt fyrir okkur að vera í farandstarfi. En hún sagði: „Ef Jehóva býður okkur að gera eitthvað ættum við þá ekki að reyna að gera það?“ Við þáðum boðið og nutum þess að vera í farandstarfi í 17 ár.

Ég var mjög upptekinn í farandstarfinu og hafði ekki alltaf nægan tíma fyrir Lesli. Ég þurfti á öðrum lærdómi að halda. Snemma á mánudagsmorgni hringdi dyrabjallan. Það var enginn við dyrnar, bara karfa með dúki, ávöxtum, osti, brauði, vínflösku, glösum og nafnlausum miða sem á stóð: „Farðu með konuna þína í lautarferð.“ Það var fallegur og sólríkur dagur. En ég útskýrði fyrir Lesli að ég þyrfti að undirbúa ræður og gæti ekki farið. Hún sýndi því skilning en var svolítið leið. Ég sat við skrifborðið og samviskan byrjaði að naga mig. Ég hugsaði um Efesusbréfið 5:25, 28. Var Jehóva að minna mig á að hugsa um tilfinningalegar þarfir eiginkonu minnar? Eftir að hafa beðið til Jehóva sagði ég við Lesli: „Förum.“ Það gladdi hana mikið. Við keyrðum að fallegum stað við á, breiddum úr dúknum og áttum yndislegan dag saman. Og ég náði líka að undirbúa ræðurnar mínar.

Verkefnin okkar í farandstarfinu voru ánægjuleg og mörg, allt frá Bresku Kólumbíu til Nýfundnalands. Ósk mín um að ferðast var að uppfyllast. Ég hafði hugsað mér að sækja Gíleaðskólann en hafði enga löngun til að vera trúboði í öðru landi. Mér fannst trúboðar vera einstakt fólk og mér fannst ég ekki hæfur. Ég var líka hræddur um að við yrðum send til einhvers lands í Afríku þar sem voru smitsjúkdómar og stríð. Ég var ánægður í Kanada.

ÓVÆNT BOÐ TIL EISTLANDS OG ANNARRA EYSTRASALTSLANDA

Á ferð um Eystrasaltslöndin.

Árið 1992 þegar starf okkar var að opnast aftur í þeim löndum sem tilheyrðu áður Sovétríkjunum vorum við spurð hvort við værum fús til að flytjast til Eistlands sem trúboðar. Það kom okkur í opna skjöldu, en við gerðum það að bænarefni. Við hugsuðum aftur með okkur: „Ef Jehóva býður okkur að gera eitthvað, ættum við þá ekki að reyna að gera það?“ Við tókum við verkefninu og ég hugsaði: „Jæja, við erum að minnsta kosti ekki að fara til Afríku.“

Við byrjuðum strax að læra eistnesku. Eftir að við höfðum verið þarna í nokkra mánuði vorum við beðin um að sinna farandstarfi. Við áttum að heimsækja eina 46 söfnuði auk hópa í Eystrasaltslöndunum þrem og Kalíníngrad í Rússlandi. Það þýddi að við þyrftum að reyna að læra eitthvað í lettnesku, litáísku og rússnesku. Það var krefjandi. En bræður og systur kunnu að meta viðleitni okkar og þau hjálpuðu okkur. Árið 1999 var opnuð deildarskrifstofa í Eistlandi og mér var falið að starfa í deildarnefndinni ásamt Toomasi Edur, Lembit Reile og Tommi Kauko.

Til vinstri: Með ræðu á móti í Litháen.

Til hægri: Deildarnefndin í Eistlandi, sem var mynduð árið 1999.

Við kynntumst mörgum vottum sem höfðu verið sendir í útlegð til Síberíu. Þeir urðu aldrei bitrir þrátt fyrir harða meðferð í fangelsi og að hafa verið aðskildir fjölskyldum sínum. Þeir héldu gleði sinni og eldmóði fyrir boðuninni. Fordæmi þeirra kenndi okkur að við gætum haldið út og verið glöð undir erfiðum kringumstæðum.

Árin þutu hjá og við höfðum mjög fáa frídaga. Lesli fór að finna fyrir mikilli þreytu. Við gerðum okkur ekki strax grein fyrir að þreytan stafaði af vefjagigt. Við hugleiddum alvarlega að snúa aftur til Kanada. Okkur var boðið í skóla á vegum deildarskrifstofunnar í Patterson í New York en ég efaðist um að við gætum sótt hann. En eftir að hafa beðið innilega til Jehóva þáðum við boðið. Jehóva blessaði ákvörðun okkar. Á meðan við vorum í skólanum fékk Lesli loksins þá læknishjálp sem hún þurfti. Þar af leiðandi gátum við haldið áfram þar sem frá var horfið í verkefni okkar.

ÖNNUR ÓVÆNT BREYTING – NÝ HEIMSÁLFA

Kvöld eitt árið 2008, þegar við vorum í Eistlandi, fékk ég símtal frá aðalstöðvunum varðandi það hvort við værum tilbúin að taka að okkur verkefni í Kongó. Mér var brugðið, sérstaklega þar sem við þurftum að svara daginn eftir. Ég nefndi þetta ekki strax við Lesli vegna þess að ég vissi að þá myndi hún ekkert sofa um nóttina. Í staðinn var það ég sem svaf ekkert og bað til Jehóva og sagði honum frá því sem olli mér áhyggjum varðandi það að fara til Afríku.

Daginn eftir sagði ég Lesli frá þessu og við hugsuðum með okkur: „Jehóva er að bjóða okkur til Afríku. Hvernig vitum við hvort við getum þetta og jafnvel notið þess án þess að prófa?“ Við flugum því til Kinsasa í Kongó eftir 16 ár í Eistlandi. Á deildarskrifstofunni var fallegur garður og þar var friðsæld. Eitt af því fyrsta sem Lesli stillti upp í herberginu okkar var kort sem hún hafði geymt frá því að við fórum frá Kanada. Á kortinu stóð: „Blómstrið þar sem ykkur er plantað.“ Gleðin í þjónustu Jehóva jókst þegar við höfðum hitt trúsystkinin, aðstoðað fólk við biblíunám og upplifað gleðina sem fylgir trúboðsstarfinu. Með tímanum vorum við svo heppin að fá að heimsækja 13 önnur lönd í Afríku á vegum deildarskrifstofunnar. Það gerði okkur kleift að sjá hversu fjölbreytt og frábært fólkið er. Ég hafði ekki lengur áhyggjur af því að vera í Afríku og við þökkuðum Jehóva fyrir að senda okkur þangað.

Í Kongó kynntumst við alls konar mat sem ég hélt að við gætum ekki borðað, eins og til dæmis skordýr. En þegar við sáum trúsystkini okkar njóta þess að borða þetta smökkuðum við og fannst það gott.

Við ferðuðumst til austurhluta landsins til að uppörva trúsystkini okkar þar og færa þeim nauðsynjar. Á þessum slóðum réðust skæruliðahópar á þorpin og ollu konum og börnum skaða. Flest trúsystkinanna höfðu mjög lítið milli handanna. En sterk von þeirra um upprisuna, kærleikur þeirra til Jehóva og hollusta við söfnuðinn höfðu djúpstæð áhrif á okkur. Fordæmi þeirra hvatti okkur til að endurmeta og styrkja sannfæringu okkar. Sum þeirra höfðu misst heimili sín og uppskeru. Það minnti mig á hve hratt efnislegar eigur geta horfið og hve verðmætur andlegur auður er. Þrátt fyrir mikla erfiðleika kvörtuðu trúsystkinin sjaldan. Viðhorf þeirra hvatti okkur til að takast á við erfiðleika okkar og heilsuvandamál af hugrekki.

Til vinstri: Að flytja ræðu fyrir hóp flóttamanna.

Til hægri: Að flytja neyðarbirgðir til Dungu í Kongó.

NÝTT VERKEFNI Í ASÍU

Það kom að öðrum óvæntum atburði. Við vorum beðin um að flytjast á deildarskrifstofuna í Hong Kong. Okkur hafði aldrei dottið í hug að við myndum búa í Austurlöndum fjær. En við höfðum tekið eftir kærleiksríkri hönd Jehóva í öllum öðrum verkefnum svo að við féllumst á þetta. Árið 2013 kvöddum við kæra vini okkar og undur Afríku með tárin í augunum án þess að vita hvað beið okkar.

Það var mikil breyting að flytjast til Hong Kong, heimsborgar sem iðaði af lífi. Það var erfitt að læra kínversku. En trúsystkinin tóku vel á móti okkur og við vorum mjög hrifin af matnum. Vinnan á deildarskrifstofunni færðist stöðugt í aukana en á sama tíma rauk fasteignaverð upp úr öllu valdi. Stjórnandi ráð tók því þá skynsamlegu ákvörðun að selja flestar byggingar deildarskrifstofunnar. Stuttu síðar, árið 2015, vorum við flutt til Suður-Kóreu þar sem við þjónum enn. Hérna stöndum við frammi fyrir öðru krefjandi tungumáli en það uppörvar okkur að þó að við eigum langt í land taka trúsystkinin eftir framförum hjá okkur í að tjá okkur á kóresku.

Til vinstri: Tilbúin að byrja nýtt líf í Hong Kong.

Til hægri: Deildarskrifstofan í Kóreu.

ÞAÐ SEM VIÐ HÖFUM LÆRT Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA

Að eignast nýja vini er ekki alltaf auðvelt. En okkur hefur fundist það hjálpa okkur að kynnast fólki fyrr að taka frumkvæðið í að sýna gestrisni. Við höfum komist að því að það er meira líkt með trúsystkinum okkar en ólíkt og að Jehóva hefur skapað okkur á svo dásamlegan hátt að við getum gert rúmgott í hjörtum okkar fyrir marga vini. – 2. Kor. 6:11.

Við höfum séð að við þurfum að taka við fólki eins og Jehóva gerir og leita eftir merki um elsku Jehóva og leiðsögn í lífi okkar. Alltaf þegar við vorum kjarklítil eða veltum fyrir okkur hvort trúsystkinunum líkaði við okkur lásum við aftur hvetjandi kort eða bréf frá vinum. Við höfum sannarlega fundið fyrir bænheyrslu Jehóva og hann hefur fullvissað okkur um kærleika sinn og styrkt okkur til að halda áfram.

Í gegnum árin höfum við Lesli lært hve mikilvægt það er að taka frá tíma hvort fyrir annað, sama hversu upptekin við erum. Við höfum líka komist að því að það er mikilvægt að geta hlegið að sjálfum sér, sérstaklega þegar maður reynir að læra nýtt tungumál. Og á hverju kvöldi reynum við að finna eitthvað gleðilegt til að þakka Jehóva fyrir.

Satt að segja hélt ég að ég gæti aldrei orðið trúboði eða búið erlendis. En ég hef notið þess að læra að allt er hægt með stuðningi Jehóva. Orð Jeremía spámanns koma upp í hugann: „Þú gabbaðir mig, Jehóva.“ (Jer. 20:7) Já, hann hefur oft komið okkur á óvart á skemmtilegan hátt og veitt okkur ólýsanlega blessun. Hann uppfyllti meira að segja ósk mína um að ferðast með flugvél. Við höfum flogið til langtum fleiri staða en ég hefði getað gert mér í hugarlund sem lítill drengur. Við höfum heimsótt fimm heimsálfur á vegum deildarskrifstofa. Ég kann virkilega að meta stuðning og fúsleika Lesli í öllum þessum verkefnum.

Við minnum okkur stöðugt á það fyrir hvern við erum að gera þetta og hvers vegna. Blessunin sem við njótum núna er bara forsmekkur eilífa lífsins þegar Jehóva „lýkur upp hendi [sinni] og uppfyllir langanir alls sem lifir“. – Sálm. 145:16.