NÁMSGREIN 28
Höldum áfram að hafa gagn af guðsótta
„Sá sem fetar beinar brautir óttast Jehóva.“ – ORÐSKV. 14:2.
SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg
YFIRLIT a
1, 2. Hvaða vandamáli stöndum við frammi fyrir líkt og Job gerði?
SIÐFERÐIÐ sem er haldið á lofti í þessum heimi fær okkur til að líða eins og Job. Hann „var miður sín yfir blygðunarlausri hegðun illra manna“ vegna þess að hann vissi að faðir okkar á himni hatar slíka hegðun. (2. Pét. 2:7, 8) Lot óttaðist Guð og elskaði hann en það fékk hann til að hafna lélegu siðferði fólks í kringum hann. Við búum meðal fólks sem ber litla sem enga virðingu fyrir siðferðismælikvarða Jehóva. En við getum haldið okkur siðferðilega hreinum ef við varðveitum kærleika okkar til Guðs og ræktum með okkur heilnæman guðsótta. – Orðskv. 14:2.
2 Í Orðskviðunum veitir Jehóva okkur uppörvun og hvatningu sem getur hjálpað okkur. Allir þjónar Jehóva, bæði karlar og konur, geta notið góðs af því að hugleiða viskuna sem kemur fram í þessari biblíubók.
GUÐSÓTTI VERNDAR OKKUR
3. Hver er ein ástæða þess að við þurfum að vernda hjarta okkar samkvæmt Orðskviðunum 17:3? (Sjá einnig mynd.)
3 Það er mikilvægt að vernda táknrænt hjarta okkar því að Jehóva rannsakar það. Það þýðir að hann sér meira en það sem blasir við öðrum, hann sér líka okkar innri mann. (Lestu Orðskviðina 17:3.) Hann elskar okkur ef við fyllum huga okkar með visku frá honum sem getur veitt okkur eilíft líf. (Jóh. 4:14) Þannig komumst við hjá því að bíða tjón af siðferðilega og andlega eitrinu sem kemur frá Satan og heimi hans. (1. Jóh. 5:18, 19) Kærleikur okkar til Jehóva og virðing fyrir honum eykst eftir því sem við kynnumst honum betur. Okkur hryllir jafnvel við þeirri tilhugsun að syndga vegna þess að við viljum ekki særa föður okkar. Þegar við verðum fyrir freistingu hugsum við: „Hvernig gæti ég viljandi sært þann sem hefur sýnt mér svona mikinn kærleika!“ – 1. Jóh. 4:9, 10.
4. Hvernig verndaði guðsótti systur gegn því að láta undan freistingu?
4 Marta er systir í Króatíu sem var freistað til að fremja siðleysi. Hún segir: „Mér fannst erfitt að hugsa skýrt og bæla niður löngunina til að syndga. En guðsóttinn verndaði mig.“ b Hvernig? Marta segist hafa hugleitt afleiðingarnar af rangri breytni. Við getum gert það líka. Verstu afleiðingar væru þær að særa Jehóva og missa af tækifærinu til að tilbiðja hann að eilífu. – 1. Mós. 6:5, 6.
5. Hvað lærir þú af reynslu Leos?
5 Þegar við óttumst Jehóva kemur það í veg fyrir að við afsökum ranga breytni. Skoðum reynslu Leos sem býr í Kongó. Fjórum árum eftir að hann lét skírast eignaðist hann vini sem voru vondur félagsskapur. Hann hugsaði að það væri ekkert að því svo framarlega sem hann gerði ekkert rangt sjálfur. Fljótlega hafði félagskapurinn samt þau áhrif að hann fór að misnota áfengi og fremja siðleysi. En þá byrjaði hann að hugleiða það sem kristnir foreldrar hans höfðu kennt honum og hamingjuna sem hann hafði glatað. Fyrir vikið fór hann að átta sig. Hann fékk hjálp frá öldungunum og sneri aftur til Jehóva. Hann er nú öldungur og sérbrautryðjandi.
6. Hvaða táknrænu konur fjöllum við nú um?
6 Skoðum 9. kafla Orðskviðanna en þar getum við lesið um tvær konur sem tákna visku og heimsku. c Höfum í huga meðan við skoðum þennan kafla að heimur Satans er heltekinn af kynferðislegu siðleysi og klámi. (Ef. 4:19) Það er því nauðsynlegt að við ræktum með okkur guðsótta og forðumst hið illa. (Orðskv. 16:6) Þess vegna getum við öll haft gagn af þessari athugun, karlar sem konur. Báðar þessar konur eru með matarboð og bjóða hinum óreyndu og óskynsömu. Það er eins og þær segi: „Velkomin í mat til mín.“ (Orðskv. 9:1, 5, 6, 13, 16, 17) En útkoman er mjög ólík hjá þeim sem þiggja boðið.
FORÐASTU HEIMSKUNA
7. Hvernig fer fyrir þeim sem þiggja boð ‚heimsku konunnar‘ samkvæmt Orðskviðunum 9:13–18? (Sjá einnig mynd.)
7 Skoðum boð ‚heimsku konunnar‘. (Lestu Orðskviðina 9:13–18.) Hún segir við alla sem eru óskynsamir: „Komið inn til mín,“ og býður þeim í veislu. Hver er útkoman? „Þar eru hinir dánu.“ Þú manst kannski að svipað myndmál er að finna fyrr í Orðskviðunum. Við erum vöruð við ‚siðspilltri og siðlausri konu‘. Við fáum að vita að „hús hennar sekkur niður til dauðans“. (Orðskv. 2:11–19) Í Orðskviðunum 5:3–10 er líka viðvörun um ‚siðspillta konu‘ en „fætur hennar ganga niður til dauðans“.
8. Hvað þurfum við að ákveða?
8 Þeir sem heyra boð ‚heimsku konunnar‘ þurfa að ákveða hvort þeir þiggi boð hennar eða ekki. Við gætum líka staðið frammi fyrir slíku vali. Hvað kjósum við að gera ef einhver reynir að fá okkur til að taka þátt í kynferðislegu siðleysi eða við sjáum óvart klám?
9, 10. Hvaða ástæður höfum við til að forðast kynferðislegt siðleysi?
9 Við höfum góðar ástæður til að forðast kynferðislegt siðleysi. ‚Heimska konan‘ segir: „Stolið vatn er sætt.“ Hvað er „stolið vatn“? Í Biblíunni er kynlífi hjóna líkt við hressandi vatn. (Orðskv. 5:15–18) Karl og kona í löggildu hjónabandi mega hafa ánægju af kynlífi. En öðru máli gegnir um „stolið vatn“. Það getur táknað ólöglegt, siðlaust kynlíf. Það á sér oft stað í leyni, rétt eins og þjófur stelur oft í leyni. „Stolið vatn“ getur virst „sætt“, sérstaklega ef þeim sem eiga í hlut finnst þeir komast upp með það sem þeir gera. Hvílík sjálfsblekking! Jehóva sér allt. Ekkert gæti verið bitrara en að missa velþóknun hans, það er ekkert „sætt“ við það. (1. Kor. 6:9, 10) En þar með er ekki öll sagan sögð.
10 Kynferðislegt siðleysi getur haft í för með sér skömm, þá tilfinningu að vera einskis virði, ótímabæra þungun og brotnar fjölskyldur. Það er klárlega viturlegt að sneiða hjá „húsi“ heimsku konunnar og hafna boði hennar. Auk þess að glata vináttunni við Jehóva fær margt siðlaust fólk sjúkdóma sem geta dregið það til dauða. (Orðskv. 7:23, 26) Í versi 18 í 9. kafla segir: „Gestir hennar eru í djúpum grafarinnar.“ Hvernig stendur á því að margir þiggja boð sem endar með þvílíkum ósköpum? – Orðskv. 9:13–18.
11. Hvers vegna er ákaflega skaðlegt að horfa á klám?
11 Klám er algeng gildra. Sumir álíta það skaðlaust en það er öðru nær. Klám er skaðlegt, niðurlægjandi og vanabindandi. Siðlausar myndir geta setið eftir í huganum lengi og það er erfitt að má þær burt. Og klám deyðir ekki rangar langanir heldur kyndir undir þeim. (Kól. 3:5; Jak. 1:14, 15) Margir sem horfa á klám byrja að fremja kynferðislegt siðleysi.
12. Hvernig getum við sýnt að við gætum okkar á kynferðislega örvandi myndum?
12 Hvað ættum við sem þjónum Jehóva að gera ef klám birtist á skjánum hjá okkur? Við ættum tafarlaust að líta undan. Það getur verið hjálplegt að minna okkur á að samband okkar við Jehóva er það dýrmætasta sem við eigum. Jafnvel myndir sem eru ekki álitnar klámfengnar geta kveikt siðlausar langanir. Hvers vegna ættum við að forðast þær? Við viljum ekki einu sinni stíga lítið skref í áttina að því að fremja hjúskaparbrot í hjarta okkar. (Matt. 5:28, 29) Öldungur í Taílandi sem heitir David segir: „Ég spyr sjálfan mig: ‚Verður Jehóva ánægður ef ég horfi á myndirnar, þótt þær séu kannski ekki klámfengnar?‘ Að hugsa þannig hjálpar mér að breyta viturlega.“
13. Hvað getur hjálpað okkur að breyta viturlega?
13 Að rækta með okkur heilnæman ótta við að vera Jehóva vanþóknanleg hjálpar okkur að breyta viturlega. Að óttast Jehóva er „upphaf“, eða grunnur „viskunnar“. (Orðskv. 9:10, neðanmáls) Þetta kemur vel fram í byrjun 9. kaflans í Orðskviðunum. Þar lesum við um aðra konu sem táknar sanna visku.
ÞIGGÐU BOÐ SANNRAR VISKU
14. Hvaða öðruvísi boði er lýst í Orðskviðunum 9:1–6?
14 Lestu Orðskviðina 9:1–6. Hér lesum við um boð sem kemur frá uppsprettu sannrar visku, alvitrum skapara okkar. (Orðskv. 2:6; Rómv. 16:27) Dregin er upp mynd af stóru húsi með sjö stólpum. Það táknar örlæti Jehóva, en hann býður öllum sem vilja að nýta sér visku frá honum í lífi sínu.
15. Hvað býður Jehóva okkur að gera?
15 Jehóva er örlátur og rausnarlegur. Þessir eiginleikar endurspeglast í sannri visku sem er táknuð með konu í 9. kafla Orðskviðanna. Þessi táknræna kona hefur matreitt kjöt, blandað vín sitt og lagt á borð í húsi sínu. (Orðskv. 9:2) Í 4. og 5. versi segir: „Hún segir við hina óskynsömu: ‚Komið, borðið brauð mitt.‘“ Hvers vegna ættum við að koma í hús sannrar visku og borða matinn sem hún býður upp á? Jehóva vill að börnin sín séu skynsöm og örugg. Hann vill ekki að við lærum í hörðum skóla lífsins – af biturri reynslu og nagandi eftirsjá. Það er ástæðan fyrir því að „hann varðveitir viskuna handa hinum heiðarlegu“. (Orðskv. 2:7) Þegar við höfum heilnæman guðsótta langar okkur að þóknast honum. Við hlustum á viturlega leiðsögn hans og förum fúslega eftir henni. – Jak. 1:25.
16. Hvernig hjálpaði guðsótti Alain að taka viturlega ákvörðun og hver var árangurinn?
16 Alain er öldungur og kennari í skóla. Skoðum hvernig guðsótti hjálpaði honum að taka viturlega ákvörðun. Hann segir: „Margir af samstarfsfélögum mínum álitu klámmyndir kynfræðslu.“ En Alain lét ekki blekkjast. „Ég elska Jehóva og ber virðingu fyrir honum og hafnaði því staðfastlega að horfa á þessar myndir. Ég útskýrði líka ástæðuna fyrir samstarfsfélögum mínum.“ Hann fór að ráðum sannrar visku og ‚gekk á vegi skynseminnar‘. (Orðskv. 9:6) Skýr afstaða Alains hafði mikil áhrif á suma starfsfélaga hans en þeir eru nú að kynna sér Biblíuna og sækja samkomur.
17, 18. Hvaða blessunar njóta þeir sem þiggja boð ‚sannrar visku‘ og hvers geta þeir hlakkað til? (Sjá einnig mynd.)
17 Jehóva notar myndmálið með konunum tveim til að sýna okkur hvernig við getum öðlast hamingjuríka framtíð. Þeir sem þiggja boð háværu og ‚heimsku konunnar‘ reyna að finna ánægju í kynferðislegu siðleysi. Þeir lifa í rauninni fyrir líðandi stund og hugsa ekki til framtíðarinnar. Framtíð þeirra er í „djúpum grafarinnar“. – Orðskv. 9:13, 17, 18.
18 Allt annað er uppi á teningnum fyrir þá sem þiggja boð sannrar visku. Gestir hennar sitja nú veislu þar sem bornir eru fram fjölbreyttir og andlega hollir réttir. (Jes. 65:13) Jehóva segir fyrir munn Jesaja: „Hlustið vel á mig, þá fáið þið góðan mat og gæðið ykkur á úrvalsréttum.“ (Jes. 55:1, 2) Við lærum að elska það sem Jehóva elskar og hata það sem hann hatar. (Sálm. 97:10) Og okkur finnst ánægjulegt að geta boðið öðrum að njóta góðs af sannri visku. Það er rétt eins og við ‚hrópum af hæðunum í borginni: „Komið inn til mín, allir þið sem eruð óreyndir.“‘ Við og aðrir sem þiggja boðið höfum ekki aðeins gagn af því hér og nú. Gagnið er varanlegt, við getum öll fengið að ‚ganga á vegi skynseminnar‘ að eilífu. – Orðskv. 9:3, 4, 6.
19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera í samræmi við Prédikarann 12:13, 14? (Sjá einnig rammann „ Guðsótti er gagnlegur“.)
19 Lestu Prédikarann 12:13, 14. Djúp virðing fyrir Jehóva verndar okkur. Hún hjálpar okkur að halda okkur siðferðilega hreinum og varðveita sambandið við hann á þessum illu, síðustu dögum. Þessi heilnæmi ótti hvetur okkur til að bjóða eins mörgum og hægt er að afla sér sannrar visku og hafa gagn af henni.
SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa
a Þjónar Jehóva þurfa að rækta með sér heilnæman guðsótta. Slíkur ótti getur verndað hjarta okkar og hjálpað okkur að forðast kynferðislegt siðleysi og klám. Í þessari námsgrein skoðum við 9. kafla Orðskviðanna, en þar er tveim konum lýst. Önnur þeirra táknar sanna visku en hin táknar heimsku. Það sem við lærum í þessum kafla getur nýst okkur nú og í framtíðinni.
b Sumum nöfnum hefur verið breytt.
c Sjá Rómverjabréfið 5:14 og Galatabréfið 4:24 til að sjá hvernig Biblían persónugerir hluti eða fyrirbæri.