Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna dvöldu Jósef og María áfram í Betlehem eftir fæðingu Jesú í stað þess að snúa aftur til Nasaret?

Biblían segir ekkert um það. En hún inniheldur upplýsingar sem gætu skýrt ástæðuna fyrir því.

Engill sagði Maríu að hún yrði barnshafandi og myndi fæða son. María og Jósef bjuggu í Nasaret, bæ í Galíleu, þegar engillinn flutti þennan boðskap. (Lúk. 1:26–31; 2:4) Seinna, þegar þau sneru aftur frá Egyptalandi, fóru þau heim til Nasaret. Jesús ólst þar upp sem Nasarei. (Matt. 2:19–23) Við tengjum þess vegna öll þrjú, Jesú, Jósef og Maríu, við Nasaret.

María átti ættingja sem hét Elísabet og átti heima í Júdeu. Hún var eiginkona prestsins Sakaría og varð móðir Jóhannesar skírara. (Lúk. 1:5, 9, 13, 36) María heimsótti Elísabetu í Júdeu og dvaldi hjá henni í þrjá mánuði. Eftir það sneri hún aftur til Nasaret. (Lúk. 1:39, 40, 56) María þekkti því Júdeu að nokkru leyti.

Þar að kom að skipun var gefin út um að fólk ‚léti skrá sig‘. Jósef hlýddi og ferðaðist þess vegna frá Nasaret til Betlehem sem var ‚borg Davíðs‘ og átti samkvæmt spádómi að vera fæðingarstaður Messíasar. (Lúk. 2:3, 4; 1. Sam. 17:15; 20:6; Míka 5:2) Eftir að María hafði fætt Jesú þar lagði Jósef það ekki á hana að ferðast langa leið heim til Nasaret með nýfætt barn. Þau dvöldu áfram í Betlehem sem var í um níu kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. Þetta auðveldaði þeim að fara með ungbarnið í musterið og færa fórn samkvæmt lögmálinu. – 3. Mós. 12:2, 6–8; Lúk. 2:22–24.

Engill Guðs hafði áður sagt Maríu að sonur hennar myndi hljóta „hásæti Davíðs“ og „ríkja sem konungur“. Vera má að Jósef og María hafi áttað sig á þýðingu þess að Jesús fæddist í borg Davíðs. (Lúk. 1:32, 33; 2:11, 17) Þau hafa kannski hugsað sem svo að skynsamlegt væri að dvelja þar áfram þangað til þau vissu hvað Guð vildi að þau gerðu.

Við vitum ekki hversu lengi þau höfðu verið í Betlehem þegar nokkrir stjörnuspekingar komu þangað. En fjölskyldan bjó þá í húsi og sonur þeirra var ekki lengur ungbarn. (Matt. 2:11) Svo virðist sem þau hafi komið sér vel fyrir í Betlehem í stað þess að snúa aftur til Nasaret.

Heródes fyrirskipaði að drepa ætti „alla drengi í Betlehem … tveggja ára og yngri“. (Matt. 2:16) Eftir að Jósef hafði fengið viðvörun frá Guði varðandi þessa skipun fóru hann og María með Jesú til Egyptalands og dvöldu þar þangað til Heródes var dáinn. Seinna fór Jósef með fjölskyldu sína til Nasaret. Hvers vegna sneru þau ekki aftur til Betlehem? Vegna þess að Arkelás sonur Heródesar ríkti í Júdeu en hann var grimmur maður. Þar að auki fékk Jósef viðvörun frá Guði. Í Nasaret gat hann alið Jesú upp sem sannan tilbiðjanda Guðs í öruggu umhverfi. – Matt. 2:19–22; 13:55; Lúk. 2:39, 52.

Svo virðist sem Jósef hafi dáið áður en Jesús opnaði leiðina til himna. Jósef fær því upprisu til lífs hér á jörðinni. Þá verður hægt að hitta hann og heyra meira um hvers vegna hann og María dvöldu áfram í Betlehem eftir fæðingu Jesú.