Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 26

Verum reiðubúin fyrir dag Jehóva

Verum reiðubúin fyrir dag Jehóva

„Dagur Jehóva kemur eins og þjófur á nóttu.“ – 1. ÞESS. 5:2.

SÖNGUR 143 Vinnum, vökum og bíðum með gleði

YFIRLIT a

1. Hvað þurfum við að gera til að lifa af dag Jehóva?

 ÞEGAR talað er um ‚dag Jehóva‘ í Biblíunni er átt við þann tíma þegar Jehóva eyðir óvinum sínum og frelsar þjóna sína. Jehóva refsaði stundum þjóðum áður fyrr. (Jes. 13:1, 6; Esek. 13:5; Sef. 1:8) Nú á tímum hefst „dagur Jehóva“ þegar ráðist verður á Babýlon hina miklu en dagurinn nær hámarki í Harmagedónstríðinu. Til að lifa þann „dag“ af þurfum við að undirbúa okkur núna. Jesús benti á að við þyrftum ekki bara að verða viðbúin ‚mikilli þrengingu‘ heldur líka ‚vera viðbúin‘ henni. – Matt. 24:21; Lúk. 12:40.

2. Hvers vegna getum við haft gagn af 1. Þessaloníkubréfi?

2 Í fyrra bréfi Páls postula til Þessaloníkumanna bregður hann upp nokkrum myndum til að hjálpa þjónum Guðs að vera viðbúnir hinum mikla dómsdegi Jehóva. Páll vissi að dagur Jehóva kæmi ekki á þeim tíma. (2. Þess. 2:1–3) En hann hvatti trúsystkini sín til að búa sig undir daginn eins og hann kæmi næsta dag og leiðbeiningar hans eiga líka erindi til okkar. Skoðum það sem hann segir varðandi (1) hvernig dagur Jehóva kemur, (2) hverjir lifa daginn ekki af og (3) hvernig við getum búið okkur undir að lifa hann af.

HVERNIG KEMUR DAGUR JEHÓVA?

Páll postuli notaði líkingar í 1. Þessaloníkbréfi sem geta komið okkur að gagni. (Sjá 3. grein.)

3. Hvernig mun dagur Jehóva koma eins og þjófur á nóttu? (Sjá einnig mynd.)

3 „Eins og þjófur á nóttu.“ (1. Þess. 5:2) Þetta er fyrsta myndin af þrem sem eru notaðar til að lýsa komu dags Jehóva. Þjófar eru oft snarir í snúningum þegar þeir athafna sig í skjóli nætur og fólk á ekki von á þeim. Dagur Jehóva kemur líka skyndilega, flestum að óvörum. Jafnvel sannkristnir menn gætu orðið hissa þegar þeir verða vitni að því hversu skyndilega þetta gerist. En ólíkt hinum illu verður okkur ekki eytt.

4. Á hvaða vegu er dagur Jehóva eins og fæðingarhríðir?

4 „Eins og fæðingarhríðir yfir ófríska konu.“ (1. Þess. 5:3) Kona sem á von á barni getur ekki sagt nákvæmlega fyrir um hvenær fæðingin fer af stað. Hún efast samt ekki um að það gerist. Þegar að því kemur brestur fæðingin líklega skyndilega á, er sársaukafull og ekkert getur stöðvað hana. Við vitum ekki heldur daginn né stundina þegar dagur Jehóva hefst. En við erum ekki í nokkrum vafa um að hann kemur og að dómur Guðs yfir hinum illu verður skyndilegur og óumflýjanlegur.

5. Á hvaða hátt er þrengingin mikla eins og dögun?

5 Eins og dögun. Þriðja myndin sem Páll dregur upp lýsir líka þjófum sem stela á nóttu. En í þetta sinn er sjónarhorn Páls annað því að hann virðist líkja degi Jehóva við dögun. (1. Þess. 5:4) Innbrotsþjófar sem brjótast inn að nóttu geta verið svo uppteknir að þeir gleyma tímanum. Dagsbirtan gæti komið þeim í opna skjöldu og afhjúpað þá. Þrengingin mikla mun líka afhjúpa þá sem, eins og þjófar, eru enn í myrkrinu með því að iðka verk sem eru Guði vanþóknanleg. Ólíkt þeim getum við verið viðbúin með því að hafna hegðun sem Jehóva mislíkar en tileinka okkur ‚hvers kyns góðvild, réttlæti og sannleika‘. (Ef. 5:8–12) Páll notar því næst tvær myndir til að lýsa þeim sem lifa ekki af.

HVERJIR LIFA EKKI AF DAG JEHÓVA?

6. Í hvaða skilningi er flest fólk sofandi? (1. Þessaloníkubréf 5:6, 7)

6 „Þeir sem sofa.“ (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:6, 7.) Páll líkti þeim sem lifa ekki af dag Jehóva við fólk sem sefur. Það fylgist hvorki með umhverfi sínu né tímanum. Það fylgist því ekki með þegar eitthvað mikilvægt gerist og getur ekki brugðist við því. Flest fólk nú á dögum er sofandi í andlegum skilningi. (Rómv. 11:8) Það skeytir ekki um sannanir fyrir því að við lifum á „síðustu dögum“ og að þrengingin mikla komi fljótlega. Meiri háttar heimsatburðir vekja það kannski af andlegum svefni og fá það til að sýna boðskap okkar um Guðsríki smá áhuga. En margt fólk heldur sér ekki vakandi heldur sofnar aftur. Sumir sem trúa því að bundinn verði endi á þetta heimskerfi halda jafnvel að það sé langt þangað til. (2. Pét. 3:3, 4) Við trúum hins vegar að þessar innblásnu leiðbeiningar um að vera vakandi séu mikilvægari með hverjum deginum.

7. Hvernig eru þeir sem Guð mun eyða eins og drykkjumenn?

7 „Þeir sem drekka sig drukkna.“ Postulinn líkti þeim sem Guð mun eyða við drykkjumenn. Fólk sem er undir áhrifum áfengis bregst seint við því sem gerist í kringum það og tekur vondar ákvarðanir. Á líkan hátt taka hinir illu ekki mark á viðvörunum Guðs. Þeir velja lífsstefnu sem leiðir til tortímingar. Þjónum Guðs er sagt að hugsa skýrt, að vera allsgáðir. (1. Þess. 5:6) Biblíufræðingur segir að þetta þýði að vera „yfirvegaður í hugsun og vega og meta hluti rétt sem gerir manni kleift að taka réttar ákvarðanir“. Hvers vegna þurfum við að vera yfirveguð í hugsun? Til að við blöndum okkur ekki í stjórnmál eða þjóðfélagsmál. Þrýstingur til að taka afstöðu á þessum sviðum eykst eftir því sem dagur Jehóva færist nær. Við þurfum samt ekki að óttast það hvernig við bregðumst við. Andi Guðs getur hjálpað okkur að vera róleg og yfirveguð í hugsun og taka viturlegar ákvarðanir. – Lúk. 12:11, 12.

HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ BÚA OKKUR UNDIR DAG JEHÓVA?

Margt fólk er áhugalaust en við höldum áfram að vera viðbúin degi Jehóva með því að íklæðast trú og kærleika sem brynju og voninni sem hjálmi. (Sjá 8. og 12. grein.)

8. Hvernig lýsir 1. Þessaloníkubréf 5:8 eiginleikunum sem hjálpa okkur að halda okkur vakandi og hugsa skýrt? (Sjá einnig mynd.)

8 ‚Klæðumst brynju og hjálmi.‘ Páll líkti okkur við hermenn sem eru viðbúnir og búnir til orrustu. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:8.) Hermaður við skyldustörf verður alltaf að vera til taks. Við erum í svipaðri stöðu. Við höldum áfram að vera viðbúin degi Jehóva með því að klæðast brynju trúar og kærleika og hjálmi vonar. Þessir eiginleikar geta hjálpað okkur mikið.

9. Hvernig verndar trúin okkur?

9 Brynja verndaði hjarta hermanns. Trú og kærleikur vernda táknrænt hjarta okkar og hjálpa okkur að þjóna Guði og fylgja Jesú. Trúin fullvissar okkur um að Jehóva muni umbuna okkur fyrir að leita hans af öllu hjarta. (Hebr. 11:6) Hún fær okkur til vera trú leiðtoga okkar, Jesú, jafnvel þótt við þurfum að þola erfiðleika. Við getum byggt upp trú sem hjálpar okkur að komast í gegnum erfiðleika með því að læra af einstaklingum á okkar dögum sem hafa verið trúfastir þrátt fyrir ofsóknir og fjárhagserfiðleika. Og við getum forðast snöru efnishyggjunnar með því að líkja eftir þeim sem hafa einfaldað líf sitt til að setja hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti í lífinu. b

10. Hvernig hjálpar kærleikur til Guðs og náungans okkur að halda út?

10 Kærleikur er líka nauðsynlegur til að halda okkur vakandi og hugsa skýrt. (Matt. 22:37–39) Kærleikur til Guðs hjálpar okkur að halda áfram að boða trúna þrátt fyrir erfiðleikana sem það gæti þýtt fyrir okkur. (2. Tím. 1:7, 8) Kærleikur okkar nær til þeirra sem þjóna ekki Jehóva og þess vegna höldum við áfram að boða trúna á svæði okkar, líka með því að hringja í fólk eða skrifa því bréf. Við gefum ekki upp vonina um að dag einn breytist fólk og fari að gera það sem er rétt. – Esek. 18:27, 28.

11. Hvernig hjálpar kærleikur til trúsystkina okkur? (1. Þessaloníkubréf 5:11)

11 Okkur þykir líka vænt um bræður okkar og systur. Við sýnum það með því að „uppörva og styrkja hvert annað“. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:11.) Við hvetjum hvert annað eins og hermenn sem berjast hlið við hlið. Hermaður gæti auðvitað af slysni sært félaga sinn í orrustu en hann myndi aldrei gera það vísvitandi. Við myndum heldur aldrei særa bróður eða systur viljandi eða gjalda illt með illu. (1. Þess. 5:13, 15) Við sýnum líka kærleika okkar með því að virða bræður sem veita söfnuðinum forystu. (1. Þess. 5:12) Söfnuðurinn í Þessaloníku hafði verið starfandi innan við ár þegar Páll skrifaði þetta bréf. Útnefndir bræður hafa að öllum líkindum verið óreyndir og gerðu kannski mistök. En þeir áttu samt virðingu skilið. Þegar þrengingin mikla nálgast gætum við þurft að reiða okkur á leiðbeiningar öldunga á svæðinu jafnvel meira en við gerum nú. Við gætum misst tengsl við aðalstöðvarnar og deildarskrifstofuna þannig að það er mikilvægt að sýna öldungum okkar kærleika og virðingu. Hvað sem á eftir að gerast skulum við hugsa skýrt og ekki horfa á ófullkomleika þeirra heldur á þá staðreynd að Jehóva leiðbeinir þessum trúföstu mönnum fyrir milligöngu Krists.

12. Hvernig verndar vonin hugsun okkar?

12 Von okkar um björgun verndar hugsun okkar rétt eins og hjálmur verndar höfuð hermanns. Sterk von hjálpar okkur að sjá að það sem þessi heimur býður upp á er einskis virði. (Fil. 3:8) Vonin hjálpar okkur að vera róleg og í jafnvægi. Þetta fengu Wallace og Laurinda að reyna en þau starfa í Afríku. Á þriggja vikna tímabili misstu þau bæði foreldri. Vegna COVID-19 faraldursins gátu þau ekki farið heim til að vera með fjölskyldum sínum. Wallace skrifaði: „Upprisuvonin hjálpar mér að hugsa til þeirra, ekki eins og þau voru síðustu dagana sína í þessu lífi, heldur eins og þau verða fyrstu dagana í nýjum heimi. Þessi von gefur mér ró þegar ég glími við sorgina og missinn.“

13. Hvað getum við gert til að fá heilagan anda?

13 „Slökkvið ekki eld andans.“ (1. Þess. 5:19) Páll líkti heilögum anda við eld innra með okkur. Þegar við höfum anda Guðs geislum við af áhuga fyrir því sem er rétt og höfum kraft til að vinna fyrir Jehóva. (Rómv. 12:11) Hvað getum við gert til að fá heilagan anda? Við getum beðið Jehóva um hann, rannsakað innblásið orð Guðs og starfað með söfnuði hans sem er undir leiðsögn andans. Þannig fáum við hjálp til að rækta ‚ávöxt andans‘. – Gal. 5:22, 23.

Spyrðu þig: Sýna verk mín að ég vilji halda áfram að fá anda Guðs? (Sjá 14. grein.)

14. Hvað verðum við að forðast til að halda áfram að fá anda Guðs? (Sjá einnig mynd.)

14 Þegar Guð hefur gefið okkur heilagan anda sinn verðum við að gæta þess að ‚slökkva ekki eld andans‘. Guð gefur aðeins þeim anda sinn sem halda áfram að hugsa og breyta rétt. Hann heldur ekki áfram að gefa okkur anda sinn ef við nærum óhreinar hugsanir og breytum í samræmi við þær. (1. Þess. 4:7, 8) Til að halda áfram að fá heilagan anda megum við ekki heldur ‚fyrirlíta spádóma‘. (1. Þess. 5:20) „Spádómar“ vísa hér til boðskapar sem við fáum fyrir milligöngu heilags anda eins og til dæmis þess sem varðar dag Jehóva og mikilvægi tímanna sem við lifum. Við ýtum deginum ekki á undan okkur og hugsum sem svo að Harmagedón verði ekki meðan við lifum. Nei, við flýtum honum frekar – höfum hann skýrt í huga – með því að breyta rétt og vera upptekin og með því að vera „guðrækin og heilög í hegðun“ alla daga. – 2. Pét. 3:11, 12.

„SANNREYNIÐ ALLT“

15. Hvernig getum við forðast að láta blekkjast af röngum upplýsingum og áróðri illra anda? (1. Þessaloníkubréf 5:21)

15 Í náinni framtíð lýsa andstæðingar Guðs yfir með einum eða öðrum hætti: „Friður og öryggi!“ (1. Þess. 5:3) Áróður illra anda mun fylla jörðina og afvegaleiða flesta. (Opinb. 16:13, 14) Hvað með okkur? Við látum ekki blekkjast ef við ‚sannreynum allt‘, eða fullvissum okkur um allt. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:21.) Gríska orðið sem er þýtt „sannreynið“ var notað í tengslum við að prófa dýrmæta málma. Við þurfum því að meta hvort það sem við heyrum og lesum sé ekta, eða rétt. Það var mikilvægt fyrir Þessaloníkumenn og verður jafnvel enn mikilvægara fyrir okkur eftir því sem þrengingin mikla nálgast. Í stað þess að trúa öllu sem aðrir segja beitum við dómgreind til að bera það sem við lesum og heyrum saman við það sem Biblían og söfnuður Jehóva segja. Þannig látum við ekki blekkjast af áróðri illra anda. – Orðskv. 14:15; 1. Tím. 4:1.

16. Hvaða traustu von höfum við og hvað erum við ákveðin í að gera?

16 Sem hópur munu þjónar Jehóva komast í gegnum þrenginguna miklu. Sem einstaklingar vitum við ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. (Jak. 4:14) En hvort sem við lifum í gegnum þrenginguna miklu eða deyjum áður verður okkur umbunað með eilífu lífi ef við höldum áfram að vera trúföst. Hinir smurðu verða með Kristi á himnum. Aðrir sauðir verða í paradís á jörð. Við skulum öll horfa til dásamlegrar framtíðar okkar og vera viðbúin degi Jehóva!

SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs

a Í 1. Þessaloníkubréfi kafla 5 er að finna líkingar sem upplýsa okkur um dag Jehóva sem er fram undan. Hver er þessi dagur og hvernig kemur hann? Hverjir lifa hann af? Hverjir lifa hann ekki af? Hvernig getum við búið okkur undir hann? Við skoðum það sem Páll postuli sagði og fáum svör við þessum spurningum.

b Sjá greinaröðina „Þau buðu sig fúslega fram“.