Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 36

Berum það sem við þurfum og losum okkur við hitt

Berum það sem við þurfum og losum okkur við hitt

‚Losum okkur við allar byrðar … Hlaupum þolgóð í hlaupinu sem við eigum fram undan.‘ – HEBR. 12:1.

SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva

YFIRLIT a

1. Hvað þurfum við að gera til að komast í mark í hlaupinu um lífið samkvæmt Hebreabréfinu 12:1?

 Í BIBLÍUNNI er lífi þjóna Jehóva líkt við kapphlaup. Hlaupararnir sem klára hlaupið hljóta eilíft líf. (2. Tím. 4:7, 8) Við þurfum að leggja allt kapp á að halda áfram að hlaupa, sérstaklega þar sem við erum svo nálægt endamarkinu. Páll postuli kláraði sitt kapphlaup og benti á hvað getur hjálpað okkur að sigra í hlaupinu. Hann sagði okkur að ‚losa okkur við allar byrðar og hlaupa þolgóð í hlaupinu sem við eigum fram undan‘. – Lestu Hebreabréfið 12:1.

2. Hvað merkir að „losa okkur við allar byrðar“?

2 Átti Páll við að þjónar Guðs ættu ekki að bera neinar byrðar þegar hann skrifaði að við yrðum að „losa okkur við allar byrðar“? Nei, hann átti ekki við það. Hann var að tala um að við þyrftum að losa okkur við allar óþarfa byrðar. Slíkar byrðar gætu hægt á okkur eða þreytt okkur. Til að halda út þurfum við að átta okkur fljótt á því hvort við séum með óþarfa byrðar sem hægja á okkur. En við viljum samt ekki kasta af okkur byrði sem við ættum að bera. Annars gætum við verið dæmd úr leik í hlaupinu. (2. Tím. 2:5) Hvaða byrðar verðum við að bera?

3. (a) Hvað verðum við að bera samkvæmt Galatabréfinu 6:5? (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein og hvers vegna?

3 Lestu Galatabréfið 6:5. Páll benti á það sem við þurfum að bera. Hann skrifaði: „Hver og einn þarf að bera sína byrði.“ Hann átti við þá persónulegu ábyrgð sem við berum gagnvart Guði og enginn annar getur borið fyrir okkur. Í þessari námsgrein athugum við hvað felst í þessari byrði og hvernig við getum borið hana. Við skoðum líka hvaða óþarfa byrðar við gætum verið að bera og lærum hvernig við getum losað okkur við þær. Að bera okkar eigin byrði og losa okkur við óþarfa byrðar auðveldar okkur að komast á leiðarenda í hlaupinu um lífið.

BYRÐI SEM VIÐ VERÐUM AÐ BERA

Að bera okkar eigin byrði felur meðal annars í sér að lifa í samræmi við vígsluheit okkar við Jehóva, uppfylla skyldur okkar í fjölskyldunni og sætta okkur við afleiðingar ákvarðana okkar. (Sjá 4.–9. grein.)

4. Hvers vegna er vígsluheit okkar ekki íþyngjandi? (Sjá einnig mynd.)

4 Vígsluheit okkar. Þegar við vígðumst Jehóva hétum við að tilbiðja hann og gera vilja hans. Við þurfum að halda þetta heit. Að standa við allt sem við höfum heitið honum er alvarleg ábyrgð en hún er samt ekki íþyngjandi. Jehóva skapaði okkur til að gera vilja sinn. (Opinb. 4:11) Hann áskapaði okkur andlega þörf og við erum sköpuð eftir hans mynd. Við getum fyrir vikið nálgast hann og fundið gleði í að gera vilja hans. (Sálm. 40:8) Og þegar við gerum vilja hans og fylgjum syni hans ‚endurnærumst við‘. – Matt. 11:28–30.

(Sjá 4. og 5. grein.)

5. Hvað getur hjálpað þér að standa við vígsluheit þitt? (1. Jóhannesarbréf 5:3)

5 Hvernig geturðu borið byrðina? Tvennt getur komið að gagni. Í fyrsta lagi skaltu halda áfram að styrkja kærleika þinn til Jehóva. Þú getur það með því að hugleiða allt það góða sem hann hefur gert fyrir þig og blessunina sem bíður þín. Því meir sem kærleikur þinn til Guðs vex því auðveldara verður að hlýða honum. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:3.) Í öðru lagi skaltu líkja eftir Jesú. Hann gat gert vilja Guðs vegna þess að hann bað til Jehóva um hjálp og horfði fram til launanna. (Hebr. 5:7; 12:2) Biddu til Jehóva um styrk og hafðu vonina um eilíft líf skýrt í huga, rétt eins og Jesús gerði. Þú getur staðið við vígsluheit þitt þegar þú styrkir kærleika þinn til Guðs og líkir eftir syni hans.

6. Hvers vegna verðum við að rækja skyldur okkar í fjölskyldunni? (Sjá einnig mynd.)

6 Fjölskylduábyrgð okkar. Í hlaupinu um lífið verðum við að elska Jehóva og Jesú meira en ættingja okkar. (Matt. 10:37) Það þýðir ekki að við megum vanrækja fjölskylduábyrgð okkar, eins og hún væri hindrun í að gera vilja Guðs og Krists. Við þurfum þvert á móti að rækja skyldur okkar gagnvart fjölskyldunni til að vera Guði og Kristi þóknanleg. (1. Tím. 5:4, 8) Við erum hamingjusamari þegar við gerum það. Jehóva veit að fjölskyldur eru hamingjusamar þegar eiginmaður og eiginkona koma fram við hvort annað af kærleika og virðingu, þegar foreldrar elska börnin sín og kenna þeim og þegar börn hlýða foreldrum sínum. – Ef. 5:33; 6:1, 4.

(Sjá 6. og 7. grein.)

7. Hvernig geturðu axlað ábyrgð þína í fjölskyldunni?

7 Hvernig geturðu borið byrðina? Hvert sem hlutverk þitt er í fjölskyldunni skaltu treysta visku Biblíunnar frekar en eigin tilfinningum, menningu eða því sem svokallaðir sérfræðingar segja. (Orðskv. 24:3, 4) Notfærðu þér vel biblíutengd rit okkar. Þar er að finna gagnlegar tillögur um hvernig má heimfæra meginreglur Biblíunnar. Í greinaröðinni „Góð ráð handa fjölskyldunni“ er að finna ráð fyrir hjón, foreldra og unglinga til að takast á við ákveðnar áskoranir. b Vertu ákveðinn í að fara eftir því sem Biblían segir, jafnvel þótt aðrir í fjölskyldunni geri það ekki. Það mun koma fjölskyldu þinni að gagni og þú nýtur blessunar Jehóva þegar þú gerir það. – 1. Pét. 3:1, 2.

8. Hvernig geta ákvarðanir okkar haft áhrif á okkur?

8 Við berum ábyrgð á ákvörðunum okkar. Jehóva hefur gefið okkur frjálsan vilja og vill að við tökum góðar ákvarðanir því að það gerir okkur hamingjusöm. En hann hlífir okkur ekki við afleiðingum af slæmum ákvörðunum. (Gal. 6:7, 8) Þess vegna sættum við okkur við afleiðingar lélegra ákvarðana, hugsunarlausra orða og þess að gera eitthvað í fljótfærni. Kannski höfum við slæma samvisku yfir einhverju sem við höfum gert. En það að vita að ákvörðunum okkar fylgir ábyrgð hvetur okkur til að játa syndir okkar, leiðrétta okkur og forðast að endurtaka mistökin. Þetta getur hjálpað okkur að gefast ekki upp í kapphlaupinu um lífið.

(Sjá 8. og 9. grein.)

9. Hvað geturðu gert ef þú hefur tekið slæma ákvörðun? (Sjá einnig mynd.)

9 Hvernig geturðu borið byrðina? Hvað geturðu gert ef þú hefur tekið slæma ákvörðun? Þú getur ekki breytt því sem liðið er. Ekki eyða orkunni í að réttlæta þig, eða þá að ásaka þig eða aðra fyrir slæma ákvörðun. Viðurkenndu frekar mistök þín og gerðu það besta miðað við aðstæður þínar. Ef þú hefur sektarkennd yfir að hafa gert rangt skaltu leita til Jehóva í auðmjúkri bæn, viðurkenna það og biðja hann að fyrirgefa þér. (Sálm. 25:11; 51:3, 4) Biddu þá fyrirgefningar sem þú hefur sært og leitaðu hjálpar öldunganna ef nauðsynlegt er. (Jak. 5:14, 15) Lærðu af mistökum þínum og reyndu að endurtaka þau ekki. Þá geturðu verið viss um að Jehóva sýni þér miskunn og gefi þér þann styrk sem þú þarft. – Sálm. 103:8–13.

BYRÐI SEM VIÐ VERÐUM AÐ „LOSA OKKUR VIГ

10. Hvers vegna eru óraunhæfar væntingar þung byrði? (Galatabréfið 6:4)

10 Óraunhæfar væntingar. Við gætum íþyngt okkur með óraunhæfum væntingum ef við berum okkur saman við aðra. (Lestu Galatabréfið 6:4.) Og ef við gerum það stanslaust gætum við orðið öfundsjúk og farið að keppa við aðra. (Gal. 5:26) Við getum hamast svo mikið umfram eigin getu og aðstæður til að ná sama árangri og aðrir að það skaðar okkur. Og ef „langdregin eftirvænting gerir hjartað sjúkt“ hversu miklum skaða geta þá væntingar valdið sem við getum aldrei fengið uppfylltar! (Orðskv. 13:12) Við gætum orðið svo þreytt að það myndi hægja á okkur í kapphlaupinu um lífið. – Orðskv. 24:10.

11. Hvað getur hjálpað þér að forðast óraunhæfar kröfur?

11 Hvernig geturðu losað þig við byrðina? Ekki vænta meira af sjálfum þér en Jehóva fer fram á. Hann ætlast ekki til þess að þú gefir það sem þú átt ekki til. (2. Kor. 8:12) Þú getur verið viss um að Jehóva ber ekki saman það sem þú getur gert við það sem aðrir gera. (Matt. 25:20–23) Hann metur mikils heilshugar þjónustu þína, trúfesti þína og þolgæði þitt. Vertu lítillátur og viðurkenndu að þú getur kannski ekki gert allt sem þú vilt núna vegna aldurs þíns, heilsu eða aðstæðna. Vertu tilbúinn að afþakka verkefni ef heilsa eða aldur gerir þér erfitt fyrir að þiggja það, rétt eins og Barsillaí gerði. (2. Sam. 19:35, 36) Þiggðu hjálp og dreifðu ábyrgðinni á aðra þegar það er viðeigandi, eins og Móse gerði. (2. Mós. 18:21, 22) Slík hógværð kemur í veg fyrir að þú gerir óraunhæfar kröfur til sjálfs þín sem gætu gert þig úrvinda í kapphlaupinu um lífið.

12. Erum við ábyrg fyrir slæmum ákvörðunum annarra? Skýrðu svarið.

12 Að finnast maður ábyrgur fyrir slæmum ákvörðunum annarra. Við getum ekki tekið ákvarðanir fyrir aðra. Og við getum ekki forðað þeim frá afleiðingum slæmra ákvarðana þeirra. Sonur eða dóttir gæti til dæmis ákveðið að hætta að þjóna Jehóva. Sú ákvörðun getur valdið foreldrunum mikilli sorg. Foreldrar sem kenna sér um slæmar ákvarðanir barns síns bera þunga byrði. Það er ekki byrði sem Jehóva ætlast til að þeir beri. – Rómv. 14:12.

13. Hvernig getur foreldri brugðist við slæmri ákvörðun barns?

13 Hvernig geturðu losað þig við byrðina? Viðurkenndu að Jehóva hefur gefið okkur öllum frjálsan vilja. Hann leyfir hverjum og einum að taka sína ákvörðun. Það felur líka í sér að ákveða hvort maður vilji þjóna honum. Jehóva veit að þú ert ekki fullkomið foreldri, hann vill einfaldlega að þú gerir þitt besta. Það sem barnið þitt velur að gera er ábyrgð þess en ekki þín. (Orðskv. 20:11) En þú getur kannski ekki hætt að hugsa um mistökin sem þú gerðir sem foreldri. Ef sú er raunin skaltu segja Jehóva hvernig þér líður og biðja um fyrirgefningu hans. Hann veit að þú getur ekki breytt því sem liðið er. Og hann væntir þess ekki að þú komir í veg fyrir að barnið þitt uppskeri eins og það hefur sáð. Mundu að ef barnið sýnir einhverja viðleitni til að snúa aftur til hans er hann fús til að taka á móti því. – Lúk. 15:18–20.

14. Hvers vegna er óhófleg sektarkennd byrði sem við ættum að losa okkur við?

14 Óhófleg sektarkennd. Það er skiljanlegt að við finnum til sektarkenndar þegar við syndgum. En óhófleg sektarkennd er byrði sem okkur var aldrei ætlað að bera. Það er byrði sem við verðum að losa okkur við. Ef við höfum játað synd okkar, iðrast og erum að gera allt sem við getum til að endurtaka hana ekki getum við treyst því að Jehóva hafi fyrirgefið okkur. (Post. 3:19) Þegar við höfum gert þetta vill Jehóva ekki að við höldum áfram að finna til sektarkenndar. Hann veit hversu skaðleg þrálát sektarkennd getur verið. (Sálm. 31:10) Ef hryggð okkar verður of mikil getum við gefist upp í kapphlaupinu um lífið. – 2. Kor. 2:7.

Jehóva hugsar ekki um syndir þínar eftir að þú hefur iðrast í einlægni og þú ættir ekki heldur að gera það. (Sjá 15. grein.)

15. Hvað getur hjálpað þér að losa þig við óhóflega sektarkennd? (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) (Sjá einnig mynd.)

15 Hvernig geturðu losað þig við byrðina? Beindu athyglinni að ‚sannri fyrirgefningu‘ sem Jehóva veitir ef þú þjáist af óhóflegri sektarkennd. (Sálm. 130:4) Þegar hann fyrirgefur þeim sem iðrast í einlægni lofar hann að ‚minnast ekki framar synda þeirra‘. (Jer. 31:34) Þetta þýðir að Jehóva lætur okkur ekki gjalda synda okkar. Þú skalt því ekki hugsa sem svo að erfiðleikar þínir núna merki að Jehóva hafi ekki fyrirgefið þér. Og refsaðu ekki sjálfum þér vegna þess að þú hefur misst verkefni í söfnuðinum vegna mistaka þinna. Jehóva heldur ekki áfram að hugsa um syndir þínar og þú ættir ekki að gera það heldur. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.

HLAUPUM TIL SIGURS

16. Hverju þurfum við að átta okkur á í hlaupinu um lífið?

16 Í kapphlaupi lífsins þurfum við að ‚hlaupa þannig að við hljótum sigurlaunin‘. (1. Kor. 9:24) Við getum það ef við þekkjum muninn á þeim byrðum sem við verðum að bera og þeim sem við verðum að losa okkur við. Í þessari námsgrein höfum við skoðað fáein dæmi um það sem við þurfum að bera og það sem við þurfum að losa okkur við. En þetta er ekki tæmandi listi. Jesús sagði að við gætum íþyngt okkur „með ofáti, drykkju og áhyggjum lífsins“. (Lúk. 21:34) Þessi biblíuvers og önnur geta hjálpað okkur að koma auga á hvar við gætum þurft að leiðrétta eitthvað hjá okkur í kapphlaupinu um lífið.

17. Hvernig getum við verið viss um að vinna í kapphlaupinu um lífið?

17 Við getum verið viss um að sigra í kapphlaupinu um lífið vegna þess að Jehóva gefur okkur styrkinn sem við þurfum til þess. (Jes. 40:29–31) Látum ekki deigan síga! Líkjum eftir Páli postula sem lagði sig allan fram við hljóta verðlaunin. (Fil. 3:13, 14) Enginn getur hlaupið fyrir þig en með hjálp Jehóva kemstu í mark. Jehóva getur hjálpað þér að bera þína byrði og losa þig við óþarfa byrðar. (Sálm. 68:19) Með Jehóva þér við hlið geturðu haldið út og unnið sigur!

SÖNGUR 65 Sækjum fram

a Þessi námsgrein mun hjálpa okkur í hlaupi lífsins. Í því hlaupi berum við ákveðna byrði. Hún felur meðal annars í sér vígsluheit okkar, fjölskylduábyrgð og þá ábyrgð sem fylgir þeim ákvörðunum sem við höfum tekið. En við verðum að losa okkur við allar óþarfa byrðar sem gætu hægt á okkur. Hvaða byrðar eru það? Þeirri spurningu er svarað í námsgreininni.

b Þú finnur greinaröðina „Góð ráð handa fjölskyldunni“ á jw.org. Dæmi um greinar fyrir hjón eru: „Að sýna makanum virðingu“ og „Sýnið þakklæti“. Fyrir foreldra: „Að kenna börnunum skynsemi í sambandi við snjallsíma“ og „Að eiga tjáskipti við unglinginn“. Og fyrir unglinga: „Að standast hópþrýsting“ og „Að sigrast á einmanaleika“.