Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 35

Höldum áfram að sýna þolinmæði

Höldum áfram að sýna þolinmæði

„Íklæðist … þolinmæði.“ – KÓL. 3:12.

SÖNGUR 114 Verum þolinmóð

YFIRLIT a

1. Hvers vegna kannt þú að meta þá sem sýna þolinmæði?

 VIÐ kunnum öll að meta fólk sem sýnir þolinmæði. Við berum virðingu fyrir þeim sem geta beðið eftir einhverju án þess að verða pirraðir. Við kunnum að meta að aðrir sýni okkur þolinmæði þegar við gerum mistök. Og við erum þakklát biblíukennara okkar fyrir að sýna okkur þolinmæði þegar við áttum í basli við að læra, tileinka okkur eða fara eftir því sem Biblían kennir. Umfram allt erum við þakklát Jehóva Guði fyrir að sýna okkur þolinmæði. – Rómv. 2:4.

2. Við hvaða aðstæður gæti verið erfitt að sýna þolinmæði?

2 En þótt við kunnum að meta þolinmæði annarra er oft hægara sagt en gert að sýna þennan eiginleika sjálf. Við eigum til dæmis kannski erfitt með að vera róleg þegar við tefjumst í umferðinni, sérstaklega ef við erum orðin of sein. Við missum kannski stjórn á skapi okkar þegar aðrir pirra okkur. Og stundum gæti okkur þótt erfitt að bíða eftir að loforð Jehóva um nýjan heim verði að veruleika. Langar þig að vera þolinmóðari? Í þessari námsgrein skoðum við hvað það þýðir að vera þolinmóður og hvers vegna það er svona mikilvægt. Við athugum líka hvað getur hjálpað okkur að temja okkur þolinmæði.

HVAÐ FELST Í ÞVÍ AÐ VERA ÞOLINMÓÐUR?

3. Hvernig bregst þolinmóður maður við þegar einhver kemur honum í uppnám?

3 Athugum hvernig þolinmæði birtist á mismunandi vegu. Í fyrsta lagi: Þolinmóður maður er seinn til reiði. Hann reynir að halda ró sinni og gjalda ekki í sömu mynt þegar einhver kemur illa fram við hann. Og hann lætur það ekki bitna á öðrum þegar hann er undir álagi. Orðalagið „seinn til reiði“ kemur fyrst fyrir í Biblíunni þegar Jehóva er lýst sem ‚miskunnsömum og samúðarfullum Guði sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður‘. – 2. Mós. 34:6.

4. Hvernig bregst þolinmóður maður við þegar hann þarf að bíða?

4 Í öðru lagi: Þolinmóður maður getur beðið rólegur. Ef eitthvað tekur lengri tíma en búist var við reynir hann að verða ekki órólegur eða pirraður. (Matt. 18:26, 27) Við þurfum að bíða róleg við ýmsar aðstæður. Við þurfum til dæmis að hlusta af þolinmæði þegar einhver talar, án þess að grípa fram í. (Job. 36:2) Við þurfum kannski að vera þolinmóð þegar við hjálpum biblíunemanda að skilja Biblíuna eða losa sig við vonda venju.

5. Á hvaða annan veg birtist þolinmæði?

5 Í þriðja lagi: Þolinmóður maður tekur ekki ákvarðanir í fljótfærni. Sumar aðstæður krefjast þess að sjálfsögðu að maður bregðist fljótt við. En þegar þolinmóður maður þarf að vinna mikilvægt verk hespir hann því ekki af. Hann skipuleggur sig þannig að hann hafi nægan tíma til að ljúka því. Síðan tekur hann sér tíma til að sinna verkinu vel.

6. Hvernig bregst þolinmóður maður við þegar hann glímir við erfiðleika?

6 Í fjórða lagi: Þolinmóður maður leitast við að takast á við erfiðleika án þess að kvarta. Að þessu leyti er þolinmæði náskyld þolgæði. Það er að sjálfsögðu ekki rangt að opna sig fyrir nánum vini og tjá líðan sína þegar við glímum við erfiðleika. En sá sem er þolinmóður gerir sitt besta til að sýna þolgæði og vera jákvæður. (Kól. 1:11) Þjónar Jehóva þurfa að sýna þolinmæði á alla þessa mismunandi vegu. Hvers vegna? Skoðum nokkrar ástæður fyrir því.

HVERS VEGNA ER ÞOLINMÆÐI SVONA MIKILVÆG?

Við bíðum þolinmóð og erum sannfærð um að Jehóva uppfylli öll loforð sín á réttum tíma rétt eins og bóndi bíður þolinmóður og treystir því að uppskeran komi á réttum tíma. (Sjá 7. grein.)

7. Hvers vegna er þolinmæði svona mikilvæg samkvæmt Jakobsbréfinu 5:7, 8? (Sjá einnig mynd.)

7 Þolinmæði er nauðsynleg til að hljóta hjálpræði. Við þurfum að bíða þolinmóð eftir að loforð Guðs rætist rétt eins og trúfastir þjónar Guðs til forna. (Hebr. 6:11, 12) Í Biblíunni er aðstæðum okkar líkt við aðstæður bónda. (Lestu Jakobsbréfið 5:7, 8.) Bóndinn vinnur hörðum höndum að því að planta og vökva en hann veit ekki nákvæmlega hvenær vöxturinn kemur. Hann bíður því þolinmóður í trausti þess að hann muni fá uppskeru. Við erum líka önnum kafin í þjónustu Jehóva þótt við ‚vitum ekki hvaða dag Drottinn okkar kemur‘. (Matt. 24:42) Við bíðum þolinmóð, fullviss um að Jehóva uppfylli öll loforð sín á réttum tíma. Ef við yrðum óþolinmóð gætum við orðið þreytt á að bíða og smám saman fjarlægst Jehóva. Við gætum líka farið að eltast við hluti sem veita okkur ánægju strax. En ef við erum þolinmóð getum við haldið út allt til enda og bjargast. – Míka 7:7; Matt. 24:13.

8. Hvernig gagnast þolinmæði okkur vel í samskiptum við aðra? (Kólossubréfið 3:12, 13)

8 Þolinmæði gagnast okkur vel í samskiptum við aðra. Hún hjálpar okkur að hlusta af athygli þegar aðrir tala. (Jak. 1:19) Þolinmæði stuðlar líka að friði. Hún forðar okkur frá því að bregðast of fljótt við og segja eitthvað óvinsamlegt þegar við erum undir álagi. Og þegar við erum þolinmóð erum við ekki fljót að reiðast þegar einhver særir okkur. Í stað þess að gjalda í sömu mynt ‚höldum við áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega‘. – Lestu Kólossubréfið 3:12, 13.

9. Hvernig hjálpar þolinmæði okkur þegar við þurfum að taka ákvarðanir? (Orðskviðirnir 21:5)

9 Þolinmæði getur líka hjálpað okkur að taka betri ákvarðanir. Í stað þess að vera fljótfær eða hvatvís tökum við okkur tíma til að skoða og meta möguleikana sem við höfum. (Lestu Orðskviðina 21:5.) Ef við erum til dæmis að leita að vinnu gætum við haft tilhneigingu til að taka þá fyrstu sem býðst jafnvel þótt það þýði að við missum af samkomum eða gerum minna í boðuninni. En ef við erum þolinmóð tökum við okkur tíma til að skoða þætti eins og staðsetningu, vinnutíma og áhrifin sem vinnan gæti haft á fjölskyldu okkar og sambandið við Jehóva. Þolinmæði getur forðað okkur frá því að taka ranga ákvörðun.

HVERNIG ÞROSKUM VIÐ MEÐ OKKUR MEIRI ÞOLINMÆÐI?

10. Hvernig getur þjónn Guðs þroskað með sér þolinmæði og viðhaldið henni?

10 Biddu Jehóva um meiri þolinmæði. Þolinmæði er hluti af ávexti andans. (Gal. 5:22, 23) Við getum því beðið Jehóva um heilagan anda og hjálp til að rækta ávöxt hans. Ef við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem reyna á þolinmæði okkar ‚höldum við áfram að biðja‘ um heilagan anda til að vera þolinmóð. (Lúk. 11:9, 13) Við getum beðið Jehóva um hjálp til að sjá málin frá hans sjónarhorni. Síðan verðum við að gera okkar besta til að vera þolinmóð. Því meira sem við biðjum um þennan eiginleika og leggjum okkur fram um að sýna hann í verki því betur festir hann rætur í hjarta okkar og verður hluti af persónuleika okkar.

11, 12. Hvernig hefur Jehóva sýnt þolinmæði?

11 Hugleiddu frásögur úr Biblíunni. Í Biblíunni er að finna frásögur af fólki sem sýndi þolinmæði. Með því að hugleiða þær getum við lært að sýna þolinmæði við mismunandi aðstæður. En áður en við lítum á nokkrar þeirra skulum við læra af bestu fyrirmyndinni í að sýna þolinmæði – Jehóva.

12 Í Edengarðinum kastaði Satan rýrð á nafn Jehóva og orðstír hans sem sanngjarns og kærleiksríks stjórnanda. Jehóva sýndi þolinmæði og sjálfstjórn frekar en að útrýma rógberanum strax, vitandi að það tæki tíma að sanna að stjórn sín væri sú besta. Og meðan hann bíður hefur hann þolað allt sem hefur verið logið upp á hann. Auk þess hefur Jehóva sýnt þolinmæði og beðið til að fleiri fengju tækifæri til að öðlast eilíft líf. (2. Pét. 3:9, 15) Fyrir vikið hafa milljónir manna kynnst honum. Þegar við horfum á kostina við þolinmæði Jehóva eigum við trúlega auðveldara með að bíða eftir tíma hans til að binda enda á þennan illa heim.

Þolinmæði hjálpar okkur að vera sein til reiði þegar okkur er ögrað. (Sjá 13. grein.)

13. Hvernig hefur Jesús líkt fullkomlega eftir þolinmæði föður síns? (Sjá einnig mynd.)

13 Jesús líkir fullkomlega eftir þolinmæði föður síns og hann sýndi það þegar hann var á jörðinni. Það hefur örugglega ekki alltaf verið auðvelt fyrir hann að sýna þolinmæði, sérstaklega gagnvart hræsnisfullum fræðimönnum og faríseum. (Jóh. 8:25–27) En Jesús var seinn til reiði eins og faðir hans. Hann galt ekki í sömu mynt þegar hann var smánaður eða honum ögrað. (1. Pét. 2:23) Jesús var þolinmóður og hélt út í prófraunum án þess að kvarta. Það er engin furða að Biblían skuli segja okkur að ‚virða hann vandlega fyrir okkur sem hefur þolað slíkan fjandskap syndara‘. (Hebr. 12:2, 3) Með hjálp Jehóva getum við líka haldið út í hvaða prófraunum sem verða á vegi okkar.

Ef við líkjum eftir þolinmæði Abrahams getum við verið viss um að Jehóva launi okkur núna og jafnvel enn meira í komandi nýjum heimi hans. (Sjá 14. grein.)

14. Hvað getum við lært af þolinmæði Abrahams? (Hebreabréfið 6:15) (Sjá einnig mynd.)

14 En hvað ef væntingar okkar varðandi endinn eru enn óuppfylltar? Við áttum kannski von á að endirinn kæmi fyrir löngu. Við óttumst kannski að við lifum ekki nógu lengi til að sjá hann. Hvað getur hjálpað okkur að halda áfram að bíða með þolinmæði? Skoðum fordæmi Abrahams. Þegar hann var 75 ára gamall og barnlaus lofaði Jehóva honum: „Ég geri þig að mikilli þjóð.“ (1. Mós. 12:1–4) Sá Abraham loforðið uppfyllast? Ekki að öllu leyti. Eftir að hafa farið yfir ána Efrat og beðið í 25 ár upplifði hann það kraftaverk að sjá Ísak son sinn fæðast og eftir 60 ár til viðbótar fæddust Esaú og Jakob sonarsynir hans. (Lestu Hebreabréfið 6:15.) En Abraham sá afkomendur sína aldrei verða að mikilli þjóð sem fengi fyrirheitna landið í arf. Þessi trúfasti maður átti hins vegar náið vináttusamband við skapara sinn. (Jak. 2:23) Og Abraham á eftir að verða himinlifandi þegar hann fær upprisu og kemst að því hvað trú hans og þolinmæði hefur reynst mikil blessun fyrir allar þjóðir. (1. Mós. 22:18) Hvað lærum við? Við sjáum kannski ekki öll loforð Jehóva verða að veruleika strax. En ef við erum þolinmóð eins og Abraham getum við verið viss um að Jehóva muni launa okkur það nú og jafnvel enn meir í nýjum heimi sínum. – Mark. 10:29, 30.

15. Hvað gætum við skoðað í sjálfsnámi okkar?

15 Í Biblíunni er að finna margar fleiri frásögur af fólki sem sýndi þolinmæði. (Jak. 5:10) Hvernig væri að gera það að námsverkefni að rannsaka slík dæmi? b Davíð var til dæmis smurður á unga aldri til að verða konungur Ísraels en þurfti að bíða í mörg ár áður en hann tók að ríkja sem konungur. Símeon og Anna tilbáðu Jehóva trúfastlega meðan þau biðu komu hins fyrirheitna Messíasar. (Lúk. 2:25, 36–38) Þegar þú rannsakar slíkar frásögur skaltu reyna að finna svör við spurningum eins og: Hvað ætli hafi hjálpað þessari persónu að sýna þolinmæði? Hvernig hafði hún gagn af því að sýna þennan eiginleika? Hvernig get ég líkt eftir henni? Þú gætir líka lært eitthvað af einstaklingum sem sýndu ekki þolinmæði. (1. Sam. 13:8–14) Þú gætir spurt: Hvað stuðlaði að því að þeir voru óþolinmóðir? Hvaða afleiðingar hafði það fyrir þá?

16. Hverjir eru kostir þess að vera þolinmóður?

16 Hugleiddu kosti þess að vera þolinmóður. Við erum ánægðari og rólegri þegar við erum þolinmóð. Það stuðlar að góðri andlegri og líkamlegri heilsu. Það stuðlar líka að góðum samskiptum við aðra og meiri einingu í söfnuðinum okkar. Ef við erum sein til reiði kemur það í veg fyrir að ástandið versni þegar einhver skapraunar okkur. (Sálm. 37:8; Orðskv. 14:29) En það sem mestu máli skiptir er að við líkjum eftir föður okkar á himnum þegar við erum þolinmóð og eigum jafnvel enn nánara samband við hann.

17. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

17 Þolinmæði er aðlaðandi og gagnlegur eiginleiki. Þótt það sé ekki alltaf auðvelt að sýna þolinmæði getum við með hjálp Jehóva haldið áfram að þroska með okkur þennan eiginleika. Og ef við bíðum þolinmóð eftir nýja heiminum getum við verið viss um að „augu Jehóva vaka yfir þeim sem óttast hann, þeim sem vona á tryggan kærleika hans“. (Sálm. 33:18) Verum ákveðin í að íklæðast þolinmæði.

SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir

a Í heimi Satans er skortur á þolinmæði. En Biblían segir okkur að íklæðast þolinmæði. Í þessari námsgrein verður fjallað um það hvers vegna þessi eiginleiki er svo mikilvægur og hvernig við getum orðið þolinmóðari.

b Til að finna frásögur í Biblíunni um þolinmæði gætirðu leitað undir viðfangsefninu „Þolinmæði“ í Efnislykli að ritum Votta Jehóva og undir viðfangsefninu „Patience“ í Watch Tower Publications Index.