Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 33

Lærum af Daníel

Lærum af Daníel

„Þú ert mikils metinn.“ – DAN. 9:23.

SÖNGUR 73 Veittu okkur hugrekki

YFIRLIT a

1. Hvers vegna fannst Babýloníumönnum mikið til Daníels spámanns koma?

 SPÁMAÐURINN Daníel var ungur maður þegar Babýloníumenn tóku hann til fanga og fluttu hann langt í burt frá heimalandi hans. En embættismönnum Babýloníu fannst greinilega mikið til Daníels koma. Þeir sáu „hið ytra“, að hann var ‚lýtalaus og myndarlegur‘ og af göfugum ættum. (1. Sam. 16:7) Babýloníumenn þjálfuðu hann því til að tilheyra yfirstétt þjóðfélagsins. – Dan. 1:3, 4, 6.

2. Hvernig leit Jehóva á Daníel? (Esekíel 14:14)

2 Jehóva elskaði Daníel ekki út af útliti hans og þjóðfélagsstöðu heldur vegna þess hvernig persóna þessi ungi maður kaus að vera. Daníel var kannski bara öðru hvoru megin við tvítugt þegar Jehóva fór fögrum orðum um hann ásamt Nóa og Job, mönnum sem höfðu byggt upp gott samband við Guð um áratuga skeið. (1. Mós. 5:32; 6:9, 10; Job. 42:16, 17; lestu Esekíel 14:14.) Jehóva elskaði Daníel alla hans löngu og viðburðaríku ævi. – Dan. 10:11, 19.

3. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

3 Í þessari námsgrein skoðum við tvo eiginleika Daníels sem gerðu hann dýrmætan í augum Jehóva. Fyrst skoðum við hvorn eiginleika fyrir sig og rifjum upp aðstæður þegar hann lét hann í ljós. Síðan skoðum við hvað hjálpaði Daníel að þroska með sér þessa eiginleika. Að lokum verður rætt um hvernig við getum líkt eftir honum. Þótt námsgreinin sé skrifuð með ungt fólk í huga getum við öll lært af Daníel.

LÍKJUM EFTIR HUGREKKI DANÍELS

4. Nefndu dæmi um hugrekki Daníels.

4 Hugrakkt fólk getur fundið til ótta en það lætur óttann ekki koma í veg fyrir að það geri það sem er rétt. Daníel var mjög hugrakkur ungur maður. Skoðum hvernig hann sýndi hugrekki við tvö tækifæri. Fyrra dæmið átti sér stað um tveim árum eftir að Babýloníumenn eyddu Jerúsalem. Nebúkadnesar konung Babýlonar dreymdi draum um risastórt líkneski sem kom honum í mikið uppnám. Hann hótaði að drepa alla vitringana, þar á meðal Daníel, ef þeir gætu ekki sagt honum hvað hann hafði dreymt og merkingu draumsins. (Dan. 2:3–5) Daníel þurfti að bregðast skjótt við, annars myndu margir missa lífið. Hann gekk „inn til konungs og bað hann um frest til að ráða drauminn fyrir hann“. (Dan. 2:16) Það kostaði hugrekki og trú. Það er ekkert sem gefur til kynna að Daníel hafi ráðið drauma áður. Hann bað félaga sína – sem höfðu fengið babýlonsku nöfnin Sadrak, Mesak og Abed Negó – „að biðja Guð himinsins að vera miskunnsamur og opinbera þennan leyndardóm“. (Dan. 2:18) Jehóva svaraði bænunum. Með hjálp Guðs réð Daníel draum Nebúkadnesars og lífi hans og félaga hans var þyrmt.

5. Hvernig reyndi aftur á hugrekki Daníels?

5 Einhvern tíma eftir að Daníel hafði ráðið drauminn um risastóra líkneskið reyndi aftur á hugrekki hans. Nebúkadnesar dreymdi annan draum sem gerði hann órólegan. Þessi draumur var um risavaxið tré. Daníel útskýrði hugrakkur merkingu draumsins fyrir konunginum, þar á meðal að konungurinn myndi missa vitið og konungdóminn um tíma. (Dan. 4:25) Konungurinn hefði auðveldlega getað litið svo á að Daníel væri að gera uppreisn og tekið hann af lífi. En Daníel var hugrakkur og dró ekkert undan.

6. Hvað ætli hafi hjálpað Daníel að vera hugrakkur?

6 Hvað ætli hafi hjálpað Daníel að vera hugrakkur alla ævi? Frá unga aldri hefur hann örugglega lært af fordæmi móður sinnar og föður. Þau fylgdu eflaust leiðbeiningum Jehóva til foreldra í Ísrael og kenndu honum lög Guðs. (5. Mós. 6:6–9) Daníel þekkti ekki aðeins grundvallaratriði laganna, eins og boðorðin tíu, heldur atriði eins og hvað Ísraelsmenn máttu borða og hvað ekki. b (3. Mós. 11:4–8; Dan. 1:8, 11–13) Daníel hafði líka fræðst um sögu þjóðar Guðs og vissi hvað gerðist þegar hún fór ekki eftir mælikvarða Jehóva. (Dan. 9:10, 11) Reynslan sem Daníel fékk um ævina sannfærði hann um að Jehóva og máttugir englar hans styddu hann. – Dan. 2:19–24; 10:12, 18, 19.

Daníel byggði upp hugrekki með því að rannsaka orð Jehóva, biðja til hans og treysta honum. (Sjá 7. grein.)

7. Hvað fleira hjálpaði Daníel að vera hugrakkur? (Sjá einnig mynd.)

7 Daníel rannsakaði það sem spámenn Jehóva höfðu skrifað, þar á meðal spádóma Jeremía. Það hjálpaði honum síðar að skilja að hin langa útlegð Gyðinga í Babýlon væri brátt á enda. (Dan. 9:2) Það styrkti vafalaust traust Daníels á Jehóva að sjá biblíuspádóma rætast, og þeir sem bera mikið traust til Guðs geta verið ótrúlega hugrakkir. (Samanber Rómverjabréfið 8:31, 32, 37–39.) Það sem mestu máli skiptir var að Daníel bað oft til föður síns á himnum. (Dan. 6:10) Hann játaði syndir sínar og tjáði honum tilfinningar sínar. Daníel bað líka um hjálp. (Dan. 9:4, 5, 19) Hann var mannlegur eins og við, hann fæddist ekki hugrakkur. Hann þroskaði þennan eiginleika með námi, og með því að biðja til Jehóva og treysta honum.

8. Hvernig getum við orðið hugrökk?

8 Hvað þurfum við að gera til að verða hugrökk? Foreldrar okkar hvetja okkur kannski til að vera hugrökk en við erfum ekki hugrekki eins og einhvern erfðagrip. Að öðlast hugrekki er eins og að læra eitthvað nýtt. Ein leið til að læra er að fylgjast vandlega með því sem leiðbeinandinn gerir og gera síðan eins og hann. Við getum líka lært að vera hugrökk með því að fylgjast með öðrum sem sýna þennan eiginleika og fylgja fordæmi þeirra. Hvað höfum við lært af Daníel? Eins og hann verðum við að þekkja orð Guðs vel. Við þurfum að byggja upp náið samband við Jehóva með því að tala oft og frjálslega við hann. Og við verðum að treysta Jehóva og vera sannfærð um að hann styðji okkur. Þá verðum við hugrökk þegar reynir á trú okkar.

9. Hvaða gagn höfum við af því að vera hugrökk?

9 Hugrekki gagnast okkur á marga vegu. Skoðum reynslu Bens. Hann var í skóla í Þýskalandi þar sem allir trúðu á þróun og álitu sköpunarsöguna bara goðsögn. Eitt sinn fékk Ben tækifæri til að flytja erindi þar sem hann útskýrði fyrir bekknum hvers vegna hann tryði að lífið hefði verið skapað. Hann sagði hugrakkur frá trú sinni. Hver var árangurinn? „Kennarinn minn hlustaði af athygli,“ segir Ben, „og fjölfaldaði efnið sem ég hafði notað til að rökstyðja trú mína og gaf öllum bekkjarfélögum mínum eintak.“ Hver voru viðbrögðin? „Margir hlustuðu með opnum huga,“ segir Ben, „og sýndu mér virðingu.“ Hugrakkt fólk ávinnur sér oft virðingu annarra eins og sést af reynslu Bens. Það getur líka laðað einlægt fólk að Jehóva. Við höfum sannarlega ástæðu til að þroska með okkur hugrekki.

LÍKJUM EFTIR TRÚFESTI DANÍELS

10. Hvað er trúfesti?

10 í Biblíunni lýsir hebreska orðið sem er þýtt „trúfesti“ eða „tryggur kærleikur“ hugmyndinni um hlýja væntumþykju sem er oft notuð til að lýsa kærleika Guðs til þjóna sinna. Sama orð er einnig notað til að lýsa kærleikanum sem þjónar Guðs sýna hver öðrum. (2. Sam. 9:6, 7) Trúfesti okkar getur orðið sterkari með tímanum. Skoðum hvernig þetta var raunin hjá Daníel.

Jehóva launar Daníel trúfestina með því að senda engil til hans og loka munni ljónanna. (Sjá 11. grein.)

11. Hvernig reyndi á trúfesti Daníels á gamals aldri? (Sjá forsíðumynd.)

11 Það reyndi á trúfesti Daníels við Jehóva alla ævi. En ein stærsta prófraunin kom þegar hann var á tíræðisaldri. Á þeim tíma hafði Babýlon verið hertekin af Medum og Persum og Daríus konungur var við völd. Mönnum við hirð konungsins var illa við Daníel og þeir báru litla virðingu fyrir þeim Guði sem hann tilbað. Þeir brugguðu því ráð um að láta taka Daníel af lífi. Þeir fengu konunginn til að skrifa undir lög sem myndu leiða í ljós hvort Daníel yrði trúr Guði sínum eða konungi. Það eina sem hann þurfti að gera til að sanna hollustu sína við konunginn og til að falla í hópinn var að hætta að biðja til Jehóva í 30 daga. Daníel neitaði að gera málamiðlun. Fyrir vikið var honum kastað í ljónagryfjuna. En Jehóva launaði Daníel trúfestina með því að bjarga honum úr gini ljónanna. (Dan. 6:12–15, 20–22) Hvernig getum við þroskað með okkur órjúfanlega trúfesti við Jehóva eins og Daníel sýndi?

12. Hvernig þroskaði Daníel með sér órjúfanlega trúfesti við Jehóva?

12 Eins og áður var minnst á er trúfesti við Jehóva knúin af sterkum kærleika. Trúfesti Daníels við Jehóva var órjúfanleg vegna þess að hann elskaði föður sinn á himnum innilega. Kærleikur Daníels til Jehóva varð vafalaust svo sterkur af því að hugleiða eiginleika hans og hvernig hann sýndi þá. (Dan. 9:4) Daníel íhugaði líka af þakklæti allt það góða sem Jehóva hafði gert fyrir hann og þjóð hans. – Dan. 2:20–23; 9:15, 16.

Þú getur þroskað með þér órjúfanlega trúfesti við Jehóva með því að elska hann innilega líkt og Daníel gerði. (Sjá 13. grein.)

13. (a) Hvernig reynir á trúfesti unga fólksins okkar? Nefndu dæmi. (Sjá einnig mynd.) (b) Hvernig gætirðu brugðist við þegar aðrir spyrja hvort vottar Jehóva styðji þá sem kjósa lífsstíl samkynhneigðra?

13 Unga fólkið okkar er, eins og Daníel, umkringt þeim sem bera enga virðingu fyrir Jehóva og mælikvarða hans. Þeim líkar ef til vill illa við þá sem segjast elska Guð. Sumir reyna jafnvel að þvinga unga fólkið okkar til að vera Jehóva ótrútt. Skoðum reynslu ungs manns sem heitir Graeme og býr í Ástralíu. Hann lenti í erfiðri aðstöðu þegar hann var í framhaldskóla. Kennarinn spurði nemendurna hvernig þeir myndu bregðast við ef vinur þeirra segði þeim að hann væri samkynhneigður. Kennarinn sagði að allir sem myndu styðja vininn og segðu að þessi lífsstíll væri í góðu lagi ættu að standa öðru megin í kennslustofunni og þeir sem gerðu það ekki ættu að standa hinum megin. Graeme segir: „Allur bekkurinn stóð þeim megin sem sýndi stuðning við þennan lífsstíl nema ég og annar vottur.“ Það sem gerðist næst reyndist veruleg prófraun á trúfesti Graemes við Jehóva. „Það sem eftir var kennslustundarinnar,“ segir hann, „hæddust hinir nemendurnir og jafnvel kennarinn að okkur. Ég gerði mitt besta til að verja trú mína og vera rólegur og skynsamur en þeir hlustuðu ekki á orð af því sem ég sagði.“ Hvaða áhrif hafði þetta á trúfesti Graemes? Hann segir: „Mér fannst óþægilegt að verða fyrir slíkri árás en ég var gríðarlega ánægður að ég gat varið trú mína án þess að gera málamiðlun.“ c

14. Hvernig getum við þroskað með okkur órjúfanlega trúfesti við Jehóva?

14 Því meira sem við elskum Jehóva því ákveðnari verðum við í að vera honum trúföst, rétt eins og Daníel var. Við gerum það með því að læra um eiginleika hans. Við getum til dæmis skoðað það sem hann hefur skapað. (Rómv. 1:20) Ef þig langar að styrkja kærleika þinn til Jehóva og virðingu fyrir honum gætirðu lesið stuttu greinarnar í greinaröðinni „Býr hönnun að baki?“ eða horft á myndböndin. Þú gætir líka lesið bæklingana Var lífið skapað? og The Origin of LifeFive Questions Worth Asking. Ester er ung systir frá Danmörku. Hún segir um þessa bæklinga: „Röksemdafærslan er frábær. Það er ekki sagt hverju maður eigi að trúa. Maður er einfaldlega upplýstur um staðreyndir og látinn um að mynda sér sína skoðun.“ Ben, sem áður er minnst á, segir: „Þetta efni var mjög trústyrkjandi. Það sannaði fyrir mér að Guð hefði skapað lífið.“ Þegar þú hefur rannsakað þetta efni muntu líklega vera sammála því sem Biblían segir: „Jehóva Guð okkar, þú ert þess verður að fá dýrðina, heiðurinn og máttinn því að þú skapaðir allt.“ – Opinb. 4:11. d

15. Hvað getum við gert annað til að styrkja samband okkar við Jehóva?

15 Önnur leið til að styrkja kærleikann til Jehóva er að rannsaka líf Jesú sonar hans. Samira er ung systir sem býr í Þýskalandi. Hún gerði þetta. Hún segir: „Ég kynntist Jehóva betur með því að kynnast Jesú.“ Þegar hún var barn átti hún í erfiðleikum með að skilja að Jehóva gæti haft tilfinningar. En hún skildi hvernig Jesú leið. „Mér þykir svo vænt um Jesú af því að hann var vinalegur og elskaði börn,“ segir hún. Því meir sem hún lærði um Jesú þeim mun sterkara varð samband hennar við Jehóva. Hvers vegna? Hún segir: „Ég fór að skilja að Jesús líkir fullkomlega eftir föður sínum. Þeir eru mjög líkir. Ég skildi að ein af ástæðunum fyrir því að Jehóva sendi Jesú til jarðarinnar var að gera mönnum kleift að kynnast sér betur.“ (Jóh. 14:9) Hvers vegna ekki að nota tíma til að læra allt sem þú getur um Jesú ef þú vilt styrkja sambandið við Jehóva? Ef þú gerir það mun kærleikur þinn til Jehóva og trúfesti styrkjast.

16. Hvernig njótum við góðs af því að vera trúföst? (Sálmur 18:25; Míka 6:8)

16 Þeir sem eru tryggir eiga gjarnan vini sem eru það líka. (Rut. 1:14–17) Fólk sem er trúfast Jehóva er auk þess líklegt til að hafa hugarró. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva lofar að vera þeim trúr sem eru honum trúfastir. (Lestu Sálm 18:25; Míka 6:8.) Hugsa sér! Almáttugur skapari okkar vill tengjast okkur sterkum tilfinningaböndum! Og þegar við eigum þetta nána samband við Jehóva munu engir erfiðleikar, engir andstæðingar, ekki einu sinni dauðinn sjálfur geta spillt því. (Dan. 12:13; Lúk. 20:37, 38; Rómv. 8:38, 39) Það er mjög mikilvægt að við líkjum eftir Daníel og séum Jehóva trúföst!

HÖLDUM ÁFRAM AÐ LÆRA AF DANÍEL

17, 18. Hvað fleira getum við lært af Daníel?

17 Í þessari námsgrein höfum við skoðað aðeins tvo af eiginleikum Daníels. En við getum lært miklu meira af honum. Daníel fékk til dæmis sýnir og drauma frá Jehóva og hæfileikann til að túlka spádómleg skilaboð. Margir þessara spádóma hafa þegar uppfyllst. Aðrir segja ítarlega frá ókomnum atburðum sem munu hafa áhrif á hvert mannsbarn á jörðinni.

18 Í næstu námsgrein skoðum við tvo spádóma sem Daníel skráði. Að skilja þá getur auðveldað okkur öllum, ungum sem öldnum, að taka viturlegar ákvarðanir núna. Þessir spádómar geta líka styrkt hugrekki okkar og trúfesti svo að við séum tilbúin að mæta þeim prófraunum sem eru rétt fram undan.

SÖNGUR 119 Við verðum að hafa trú

a Ungir þjónar Jehóva takast á við aðstæður sem reyna á hugrekki þeirra og hollustu við Jehóva. Bekkjarfélagar þeirra gera ef til vill grín að þeim fyrir að trúa á sköpun. Og jafnaldrarnir gefa í skyn að þeir séu heimskir að þjóna Jehóva og fylgja mælikvarða hans. En eins og kemur fram í þessari námsgrein eru þeir sem líkja eftir Daníel spámanni og þjóna Jehóva með hugrekki í raun vitrir.

b Daníel hafði þrjár mögulegar ástæður til að álíta matinn í Babýlon óhreinan: (1) Kjötið gæti hafa verið af dýrum sem mátti ekki borða samkvæmt lögunum. (5. Mós. 14:7, 8) (2) Ekki er víst að kjötið hafi verið rétt blóðgað. (3. Mós. 17:10–12) (3) Ef til vill var litið á það sem þátt í falsguðadýrkun að borða matinn. – Samanber 3. Mósebók 7:15 og 1. Korintubréf 10:18, 21, 22.

c Horfðu á myndbandið Ósvikið réttlæti skapar frið á jw.org.

d Þú gætir líka lesið bókina Nálægðu þig Jehóva til að styrkja kærleika þinn til hans en hún hefur að geyma ítarlega umfjöllun um eiginleika Jehóva og persónuleika.