Spurningar frá lesendum
Hvernig var varpað skýrara ljósi á trú okkar varðandi nafn Jehóva og drottinvald í greininni „Við biðjum að nafn þitt helgist“ í Varðturninum júní 2020?
Í greininni kemur fram að eitt mikilvægt mál hefur áhrif á allar vitsmunaverur sem Guð hefur skapað: Helgun hins mikla nafns Jehóva. Spurningin um drottinvald – hvort stjórnarfar Jehóva sé það besta – er þáttur í þessu mikilvæga máli. Spurningin um ráðvendni manna er það líka.
Hvers vegna leggjum við nú áherslu á að nafn Jehóva og helgun þess sé mikilvægast allra mála? Skoðum þrjár ástæður fyrir því.
Í fyrsta lagi kastaði Satan rýrð á nafn Jehóva og mannorð í Edengarðinum. Lúmsk spurning Satans til Evu gaf í skyn að Jehóva væri nískur Guð sem setti ósanngjarnar hömlur á þjóna sína. Það sem hann sagði síðan stangaðist algerlega á við það sem Jehóva hafði sagt. Hann fullyrti í raun að Guð væri lygari. Þannig kastaði hann rýrð á nafn Jehóva. Hann gerði sig að „Djöflinum“ sem merkir „rógberi“. (Jóh. 8:44) Eva trúði lygum Satans. Hún óhlýðnaðist Guði og gerði uppreisn gegn drottinvaldi hans. (1. Mós. 3:1–6) Allt fram á þennan dag hefur Satan kastað rýrð á nafn Guðs með því að dreifa lygum um Jehóva. Þeir sem trúa slíkum lygum eru líklegri til að óhlýðnast honum. Að kasta rýrð á heilagt nafn Jehóva er því hámark óréttlætisins í huga þjóna hans. Það er meginástæða allra þjáninga og illsku í heiminum.
Í öðru lagi er Jehóva ákveðinn í að hreinsa nafn sitt af öllum ásökunum, allri sköpuninni til góðs. Það er Jehóva einstaklega mikilvægt. Hann segir þess vegna: „Ég ætla að helga mitt mikla nafn.“ (Esek. 36:23) Og Jesús undirstrikaði hvað ætti að vera mikilvægast í bænum trúfastra þjóna Jehóva þegar hann sagði: „Við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matt. 6:9) Biblían leggur aftur og aftur áherslu á mikilvægi þess að nafn Jehóva sé heiðrað. Skoðum fáein dæmi: „Veitið Jehóva það lof sem nafn hans á skilið.“ (1. Kron. 16:29; Sálm. 96:8) „Lofsyngið dýrlegt nafn hans.“ (Sálm. 66:2) „Ég … heiðra nafn þitt að eilífu.“ (Sálm. 86:12) Eitt af þeim skiptum sem Jehóva sjálfur talaði frá himnum var þegar Jesús var í musterinu í Jerúsalem og sagði: „Faðir, gerðu nafn þitt dýrlegt.“ Jehóva svaraði: „Ég hef gert það dýrlegt og geri það aftur dýrlegt.“ – Jóh. 12:28. a
Í þriðja lagi er fyrirætlun Jehóva til langs tíma tengd nafni hans, eða mannorði. Leiðum hugann að mikilvægi nafns Jehóva eftir lokaprófið við lok þúsundáraríkis Krists. Munu vitsmunaverur sem Jehóva hefur skapað halda áfram að skiptast í fylkingar í þessum mikilvæga máli varðandi
helgun nafns hans? Til að fá svar við því skulum við rifja upp tvo þætti málsins: spurninguna um ráðvendni manna og málið sem snýr að drottinvaldi alheimsins. Munu þeir sem hafa sannað ráðvendni sína halda áfram að eiga í baráttu við að vera ráðvandir? Nei. Þeir verða fullkomnir og fullreyndir. Þeir hafa hlotið eilíft líf. Mun málið sem snýr að drottinvaldi í alheimi halda áfram að vera til umræðu og jafnvel valda sundrung meðal vitsmunavera sem Guð hefur skapað? Nei. Yfirburðir og réttmæti stjórnarfars Guðs verður óumdeilanlegt um alla eilífð. En hvað með nafn Jehóva?Allir munu þá vita sannleikann um Jehóva og nafn hans verður algerlega helgað. Nafn Jehóva heldur samt áfram að vera það sem skiptir þjóna hans á jörðu og himni mestu máli. Hvers vegna? Þeir munu sjá Jehóva halda áfram að gera stórkostlega hluti. Jehóva ‚verður öllum allt‘ þegar Jesús afhendir auðmjúkur alla stjórn í hendur honum. (1. Kor. 15:28) Eftir það njóta allir á jörðinni ‚dýrlegs frelsis barna Guðs‘. (Rómv. 8:21) Og Jehóva uppfyllir fyrirheit sitt um að sameina allar vitsmunaverur á himni og jörð í eina stóra fjölskyldu. – Ef. 1:10.
Hvaða áhrif mun þetta hafa á fjölskyldu Jehóva á himni og jörð? Við höldum örugglega áfram að hafa brennandi löngun til að lofa nafn Jehóva. Sálmaskáldinu Davíð var innblásið að skrifa: „Lofaður sé Jehóva Guð … Lofað sé dýrlegt nafn hans að eilífu.“ (Sálm. 72:18, 19) Við munum sífellt uppgötva nýjar ástæður til að gera það um alla framtíð.
Nafn Jehóva stendur fyrir allt sem hann er. Nafn hans minnir okkur fyrst og fremst á kærleika hans. (1. Jóh. 4:8) Við munum aldrei gleyma að Jehóva skapaði okkur vegna kærleika síns, að hann sá fyrir lausnarfórninni vegna kærleika síns og að stjórn hans er alltaf réttlát og kærleiksrík. En við höldum áfram að finna fyrir kærleika hans um alla eilífð. Við munum leitast við að styrkja sambandið við hann sem föður okkar og lofsyngja dýrlegt nafn hans. – Sálm. 73:28.