NÁMSGREIN 34
SÖNGUR 107 Guð er fyrirmynd um kærleikann
Að sýna þeim sem syndga kærleika og miskunn
„Guð reynir í góðvild sinni að leiða þig til iðrunar.“ – RÓMV. 2:4.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig öldungarnir reyna að hjálpa safnaðarmönnum sem drýgja alvarlega synd.
1. Hvað getur gerst í sumum tilfellum eftir að einhver hefur drýgt alvarlega synd?
Í GREININNI á undan kom fram hvernig Páll postuli tók á málunum þegar maður í söfnuðinum í Korintu syndgaði alvarlega. Syndarinn iðraðist ekki og það þurfti að vísa honum úr söfnuðinum. En eins og sjá má af steftexta greinarinnar er hægt að hjálpa sumum sem hafa drýgt alvarlega synd. Það er hægt að leiða þá til iðrunar. (Rómv. 2:4) Hvernig geta öldungarnir hjálpað þeim að iðrast?
2, 3. Hvað eigum við að gera ef við uppgötvum að trúsystkini hefur syndgað alvarlega og hvers vegna?
2 Áður en öldungarnir geta orðið að liði þurfa þeir að vita af málinu. Hvað eigum við þá að gera ef við uppgötvum að bróðir eða systir hefur syndgað alvarlega – svo alvarlega að það gæti þurft að vísa honum eða henni úr söfnuðinum? Við ættum að hvetja hinn brotlega til að leita hjálpar öldunganna. – Jes. 1:18; Post. 20:28; 1. Pét. 5:2.
3 En segjum að hinn brotlegi vilji ekki tala við öldungana. Þá ættum við sjálf að segja öldungunum frá til að tryggja að viðkomandi fái nauðsynlega hjálp. Þannig sýnum við kærleika því að við viljum ekki missa bróður okkar eða systur. Ef hinn brotlegi heldur áfram á rangri braut skaðar hann samband sitt við Jehóva enn frekar. Hann getur líka spillt orðspori safnaðarins. Við gerum því eitthvað í málinu, jafnvel þótt okkur finnist það ekki auðvelt, af því að við elskum Jehóva og þann sem syndgaði. – Sálm. 27:14.
HVERNIG AÐSTOÐA ÖLDUNGARNIR ÞÁ SEM SYNDGA ALVARLEGA?
4. Hvert er markmið öldunganna þegar þeir ræða við safnaðarmann sem hefur syndgað alvarlega?
4 Þegar einhver í söfnuðinum syndgar alvarlega velur öldungaráðið nefnd a þriggja hæfra bræðra til að ræða við hann. Þeir þurfa að vera hógværir og auðmjúkir. Þeir reyna að hjálpa hinum brotlega til að iðrast en vita að þeir geta ekki þvingað neinn til að breyta sér. (5. Mós. 30:19) Öldungarnir gera sér grein fyrir að það bregðast ekki allir jákvætt við aðstoð eins og Davíð konungur gerði. (2. Sam. 12:13) Sumir sem syndga vilja ekki hlusta á áminningar Jehóva. (1. Mós. 4:6–8) Hvað sem því líður er það markmið öldunganna að leiða hinn brotlega til iðrunar ef hægt er. Hvaða meginreglur hafa þeir að leiðarljósi þegar þeir ræða við hann?
5. Hvaða leiðbeiningar hafa öldungarnir í huga þegar þeir ræða við hinn brotlega? (2. Tímóteusarbréf 2:24–26) (Sjá einnig mynd.)
5 Öldungarnir líta á hinn brotlega sem dýrmætan týndan sauð. (Lúk. 15:4, 6) Þess vegna eru þeir hvorki hranalegir í tali eða viðmóti. Þeir líta ekki svo á að fundurinn sé bara formsatriði og að hlutverk þeirra sé aðeins að spyrja spurninga og draga fram staðreyndir. Þeir sýna heldur af sér þá eiginleika sem lýst er í 2. Tímóteusarbréfi 2:24–26. (Lestu.) Öldungarnir eru mildir, ljúfir og góðviljaðir og reyna að ná til hins brotlega.
6. Hvernig undirbúa öldungarnir sig í huga og hjarta áður en þeir ræða við brotlegan einstakling? (Rómverjabréfið 2:4)
6 Öldungarnir undirbúa sig í huga og hjarta. Þeir reyna að líkja eftir Jehóva í öllum samskiptum sínum við syndara og hafa í huga orð Páls: „Guð reynir í góðvild sinni að leiða þig til iðrunar.“ (Lestu Rómverjabréfið 2:4.) Öldungarnir þurfa að hafa hugfast að þeir eru fyrst og fremst hirðar undir handleiðslu Krists. (Jes. 11:3, 4; Matt. 18:18–20) Áður en nefndin fundar með hinum brotlega ræðir hún við Jehóva í bæn um markmið sitt: að leiða þann sem syndgaði til iðrunar. Nefndarmenn lesa sér til í Biblíunni og ritunum okkar og biðja Jehóva að gefa sér góða dómgreind. Þeir hugleiða hvað þeir þurfa að vita um bakgrunn og aðstæður viðkomandi sem kann að hafa orðið til þess að hann hugsaði og gerði eins og hann gerði. – Orðskv. 20:5.
7, 8. Hvernig geta öldungarnir líkt eftir þolinmæði Jehóva þegar þeir ræða við syndara?
7 Öldungarnir líkja eftir þolinmæði Jehóva. Þeir hafa í huga hvernig Jehóva kom fram við syndara forðum daga. Hann rökræddi þolinmóður við Kain, varaði hann við afleiðingum þess að syndga og benti á að það væri honum til blessunar að snúa við blaðinu. (1. Mós. 4:6, 7) Jehóva sendi Natan spámann til að ávíta Davíð og Natan sagði honum dæmisögu sem snerti hann djúpt. (2. Sam. 12:1–7) Jehóva sendi líka spámenn sína „aftur og aftur“ til hinna fráhverfu Ísraelsmanna. (Jer. 7:24, 25) Hann beið ekki eftir að þjónar hans iðruðust áður en hann hjálpaði þeim. Hann tók frumkvæðið og hvatti þá til að iðrast.
8 Öldungar líkja eftir Jehóva þegar þeir reyna að hjálpa þeim sem hafa syndgað alvarlega. Þeir ræða „með mikilli þolinmæði“ við þá eins og hvatt er til í 2. Tímóteusarbréfi 4:2. Öldungur þarf alltaf að sýna stillingu og þolinmæði til að reyna að vekja löngun með hinum brotlega til að gera það sem er rétt. Ef öldungurinn yrði reiður eða pirraður gæti það orðið til þess að syndarinn vildi ekki hlusta eða iðrast.
9, 10. Hvernig geta öldungar hjálpað syndaranum að átta sig á hvað hann hefur gert?
9 Öldungarnir reyna að átta sig á hvaða aðstæður voru undanfari syndarinnar. Hvað varð til þess að samband bróðurins eða systurinnar við Jehóva veiktist? Fór viðkomandi að vanrækja sjálfsnám eða boðunina? Urðu bænirnar óreglulegar eða yfirborðskenndar? Leyfði hann röngum löngunum að hafa áhrif á sig? Var hann óskynsamur í vali á félagsskap eða afþreyingu? Hvaða áhrif getur þetta hafa haft á hjarta hans? Skilur hann hvað Jehóva föður hans finnst um ákvarðanir hans og verk undanfarið?
10 Öldungar geta spurt viðeigandi spurninga án þess að vera nærgöngulir og þannig hjálpað syndaranum að átta sig á hvað hann hafi gert. (Orðskv. 20:5) Þeir geta líka brugðið upp líkingum eða dæmum eins og Natan spámaður gerði til að hann átti sig á hversu alvarlega honum varð á. Kannski gerist það á fyrsta fundinum að hinn brotlegi fer að sjá eftir því sem hann gerði. Hann gæti jafnvel iðrast.
11. Hvernig kom Jesús fram við syndara?
11 Öldungarnir leggja sig fram um að líkja eftir Jesú. Hinn upprisni Jesús spurði Sál frá Tarsus spurningar sem hjálpaði honum að líta í eigin barm. „Sál, Sál, hvers vegna ofsækirðu mig?“ spurði hann til að vekja hann til umhugsunar um hvað hann hefði gert. (Post. 9:3–6) Og um „konuna Jesebel“ sagði Jesús: „Ég hef gefið henni tíma til að iðrast.“ – Opinb. 2:20, 21.
12, 13. Hvernig geta öldungarnir gefið syndara tíma til að iðrast? (Sjá einnig mynd.)
12 Öldungarnir líkja eftir Jesú og álykta ekki í fljótheitum að hinn brotlegi eigi ekki eftir að iðrast. Sumir iðrast strax á fyrsta fundi nefndarinnar með þeim en aðrir þurfa meiri tíma. Öldungarnir gætu því ákveðið að hitta hinn brotlega oftar en einu sinni. Eftir fyrsta fundinn fer hann kannski að hugsa alvarlega um það sem rætt var um. Hann leitar ef til vill til Jehóva í auðmjúkri bæn. (Sálm. 32:5; 38:18) Þar af leiðandi sýnir hann kannski annað hugarfar á öðrum fundinum en hann sýndi áður.
13 Öldungarnir sýna samkennd og góðvild til að reyna að leiða þann sem syndgaði til iðrunar. Þeir vona og biðja að Jehóva blessi viðleitni þeirra og að syndarinn komist til sjálfs sín og iðrist. – 2. Tím. 2:25, 26.
14. Hverjum er það að þakka þegar syndari iðrast og hvers vegna?
14 Það er mikið gleðiefni ef sá sem syndgar iðrast. (Lúk. 15:7, 10) Hverjum er það að þakka? Öldungunum? Munum hvað Páll skrifaði um þá sem syndga: „Ef til vill gefur Guð þeim tækifæri til að iðrast.“ (2. Tím. 2:25) Það er því Jehóva en ekki menn sem hjálpa kristnum manni sem syndgar að breyta hugarfari sínu. Páll nefnir líka þá blessun sem fylgir því að iðrast. Viðkomandi fær dýpri þekkingu á sannleikanum, kemst til sjálfs sín og getur sloppið úr snöru Satans. – 2. Tím. 2:26.
15. Hvernig geta öldungarnir veitt iðrandi safnaðarmanni áframhaldandi hjálp?
15 Þegar syndari iðrast sér nefndin til þess að hann fái hirðisheimsóknir. Þannig getur hann fengið áframhaldandi hjálp til að forðast snörur Satans og ganga beinar brautir. (Hebr. 12:12, 13) Öldungarnir segja auðvitað ekki neinum frá hvað sá sem syndgar hefur gert. Um hvað gæti samt þurft að upplýsa söfnuðinn?
„ÁMINNTU Í VIÐURVIST ALLRA“
16. Hvað átti Páll við með orðunum „í viðurvist allra“ í 1. Tímóteusarbréfi 5:20?
16 Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:20. Páll gaf Tímóteusi, samöldungi sínum, þessar leiðbeiningar varðandi „þá sem syndga“. Hvað átti hann við? Með orðunum „í viðurvist allra“ átti Páll ekki endilega við allan söfnuðinn. Hann var öllu heldur að tala um fáeina einstaklinga sem gætu þegar vitað af syndinni. Þetta gátu verið sjónarvottar eða einhverjir sem viðkomandi trúði fyrir því sem hafði gerst. Öldungarnir gátu sagt þeim einslega að tekið hefði verið á málinu og að sá sem syndgaði hefði fengið áminningu.
17. Hvað yrði tilkynnt og hvers vegna ef margir í söfnuðinum vita af alvarlegri synd eða frétta líklega af henni?
17 Í sumum tilfellum hafa margir í söfnuðinum frétt af syndinni eða eiga líklega eftir að gera það. Orðin „í viðurvist allra“ eiga í slíku tilfelli við allan söfnuðinn. Öldungur myndi þá tilkynna söfnuðinum að bróðirinn eða systirin hafi verið áminnt. Af hverju? Páll segir að það sé „hinum til viðvörunar“ svo að þeir geri sig ekki líka seka um að syndga.
18. Hvernig taka öldungar á málum skírðra einstaklinga undir lögræðisaldri? (Sjá einnig mynd.)
18 Hvað er gert ef skírður einstaklingur undir lögræðisaldri – undir 18 ára – syndgar alvarlega? Öldungaráðið velur tvo öldunga til að ræða við hann ásamt kristnum foreldrum hans. b Öldungarnir kanna hvað foreldrarnir hafa þegar gert til að hjálpa barninu sínu að iðrast. Ef einstaklingurinn sýnir jákvætt hugarfar og hlustar á ráð foreldra sinna geta öldungarnir tveir ákveðið að ekki þurfi að gera meira í málinu. Þegar allt kemur til alls hefur Guð falið foreldrum þá ábyrgð að leiðrétta börnin sín á kærleiksríkan hátt. (5. Mós. 6:6, 7; Orðskv. 6:20; 22:6; Ef. 6:2–4) Öldungarnir munu síðan heyra í foreldrunum af og til og kanna hvort einstaklingurinn fær þá hjálp sem hann þarf. En hvað ef skírður einstaklingur undir lögræðisaldri iðrast ekki og heldur áfram á rangri braut? Þá myndi nefnd öldunga ræða við hann ásamt kristnum foreldrum hans.
„JEHÓVA ER MJÖG UMHYGGJUSAMUR OG MISKUNNSAMUR“
19. Hvernig reyna öldungar að líkja eftir Jehóva þegar þeir ræða við bróður eða systur sem hefur syndgað alvarlega?
19 Öldungar sem sitja í nefndum bera þá ábyrgð gagnvart Jehóva að halda söfnuðinum hreinum. (1. Kor. 5:7) En þeir vilja auðvitað að þeir sem syndga iðrist ef hægt er. Þess vegna eru þeir jákvæðir þegar þeir reyna að hjálpa þeim. Þeir vilja líkja eftir Jehóva sem er „mjög umhyggjusamur og miskunnsamur“. (Jak. 5:11) Tökum eftir hvernig Jóhannes postuli sýndi þetta hugarfar. Hann skrifaði: „Börnin mín, ég skrifa ykkur þetta til að þið syndgið ekki. En ef einhver drýgir synd höfum við hjálpara hjá föðurnum, Jesú Krist sem er réttlátur.“ – 1. Jóh. 2:1.
20. Um hvað er rætt í síðustu greininni í þessari greinaröð?
20 Því miður gerist það stundum að einhver í söfnuðinum iðrast ekki alvarlegrar syndar. Ef svo er þarf að vísa honum úr söfnuðinum. Hvernig taka öldungarnir á málum af því tagi? Um það er rætt í síðustu greininni í þessari greinaröð.
SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði
a Þessar nefndir hafa verið kallaðar dómnefndir en það er ekki gert lengur þar sem það að dæma er bara einn þáttur í verkefni þeirra. Héðan í frá tölum við þess vegna um öldunganefnd.
b Það sem sagt er um foreldra á líka við um lagalegan forráðamann eða aðra sem gegna hlutverki foreldris gagnvart einstaklingi undir lögræðisaldri.