Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 31

SÖNGUR 12 Jehóva, hinn mikli Guð

Hvað hefur Jehóva gert til að bjarga syndugum mönnum?

Hvað hefur Jehóva gert til að bjarga syndugum mönnum?

„Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn.“JÓH. 3:16.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig Jehóva hefur tekið frumkvæðið að því að hjálpa okkur að berjast gegn syndinni og hvernig hann hefur gefið okkur tækifæri til að hljóta eilíft líf og losna undan syndinni.

1, 2. (a) Hvað er synd og hvernig getum við sigrað í baráttunni gegn henni? (Sjá einnig „orðaskýringu“.) (b) Hvað ræðum við í þessari grein og hinum greinunum í þessu tölublaði? (Sjá einnig „Til lesenda“ í þessu tölublaði.)

 LANGAR þig til að vita hversu heitt Jehóva Guð elskar þig? Þú getur fengið svar við því með því að skoða vel hvað hann hefur gert til að bjarga þér úr klóm syndar og dauða. Syndin a er skelfilegur óvinur sem þú getur ekki sigrað í eigin mætti. Við syndgum öll á hverjum degi og við deyjum vegna syndarinnar. (Rómv. 5:12) Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að við getum sigrað syndina með hjálp Jehóva. Það er reyndar gulltryggt að við getum sigrað.

2 Jehóva hefur hjálpað mannkyninu í um 6.000 ár að berjast gegn syndinni. Af hverju? Af því að hann elskar okkur. Hann hefur elskað mennina allt frá upphafi og lagt mikið á sig til að hjálpa þeim í þessari baráttu. Guð veit að syndin leiðir til dauða og hann vill ekki að við deyjum. Hann vill að við lifum að eilífu. (Rómv. 6:23) Hann vill að þú fáir eilíft líf. Í þessari grein ræðum við þrjár spurningar: (1) Hvernig veitti Jehóva syndugum mönnum von? (2) Hvernig gat syndugt fólk á biblíutímanum þóknast Jehóva? (3) Hvernig kom Jesús syndugu mannkyni til bjargar?

HVERNIG VEITTI JEHÓVA SYNDUGUM MÖNNUM VON?

3. Hvernig atvikaðist það að foreldrar mannkyns syndguðu?

3 Þegar Jehóva skapaði fyrsta manninn og fyrstu konuna vildi hann að þau yrðu hamingjusöm. Hann gaf þeim fallegt heimili, þá gjöf sem hjónabandið er og spennandi verkefni. Þau áttu að fylla jörðina afkomendum sínum og gera hana alla að paradís eins og Edengarðinn. Það var aðeins eitt sem hann bannaði þeim. Og hann varaði þau við að ef þau brytu gegn banninu með því að gera vísvitandi uppreisn gegn honum myndi syndin draga þau til dauða. Við vitum hvernig fór. Ósýnilegur andi sem elskaði hvorki Guð né þau freistaði þeirra til að syndga. Adam og Eva létu hann hafa áhrif á sig. Þau treystu ekki kærleiksríkum föður sínum heldur syndguðu. Jehóva reyndist sannorður eins og við vitum. Þaðan í frá urðu þau að taka afleiðingunum: þau urðu gömul og dóu að lokum. Að lokum sneru þau aftur til moldarinnar. – 1. Mós. 1:28, 29; 2:8, 9, 16–18; 3:1–6, 17–19, 24; 5:5.

4. Af hverju hatar Jehóva syndina og hjálpar okkur að berjast gegn henni? (Rómverjabréfið 8:20, 21)

4 Jehóva lét skrásetja þessa sorgarsögu okkur til gagns. Þannig getum við áttað okkur á hvers vegna hann hatar syndina. Hún gerir okkur viðskila við hann, föður okkar, og leiðir til dauða. (Jes. 59:2) Það er þess vegna sem Satan, andaveran sem gerði uppreisn og hleypti öllum erfiðleikunum af stað, elskar syndina og ýtir undir hana. Kannski hélt hann sig hafa unnið stórsigur í Eden. En hann skildi ekki hve kærleiksríkur Jehóva er. Guð breytti aldrei fyrirætlun sinni með afkomendur Adams og Evu. Hann elskar mannkynið og gaf því öllum mönnum von án tafar. (Lestu Rómverjabréfið 8:20, 21.) Jehóva vissi að sumir afkomendur þeirra myndu elska hann og leita hjálpar hans til að berjast gegn syndinni. Sem faðir þeirra og skapari myndi hann opna þeim leið til að losna undan syndinni og eignast náið samband við hann. Hvernig myndi hann fara að því?

5. Hvenær veitti Jehóva syndugu mannkyni fyrstu vonarglætuna? Skýrðu svarið. (1. Mósebók 3:15)

5 Lestu 1. Mósebók 3:15. Jehóva veitti mönnum fyrstu vonarglætuna þegar hann felldi dóm yfir Satan. Hann sagði fyrir að ‚afkomandi‘ nokkur myndi koma mönnunum til bjargar. Þessi afkomandi myndi að lokum eyða Satan og öllu því illa sem hann olli í Eden. (1. Jóh. 3:8) En afkomandinn yrði þó að þjást. Satan myndi slá hann og verða honum að bana. Það yrði mjög sárt fyrir Jehóva. En það yrði þess virði því að það myndi að lokum bjarga óteljandi mönnum frá synd og dauða.

HVERNIG GÁTU SYNDUGIR MENN Á BIBLÍUTÍMANUM ÞÓKNAST JEHÓVA?

6. Hvað gerðu trúaðir menn eins og Abel og Nói til að eignast náið samband við Jehóva?

6 Á næstu öldum dró Jehóva smám saman upp skýrari mynd af því hvernig syndugir menn gætu eignast gott samband við hann. Abel, annar sonur Adams og Evu, var fyrsti maðurinn sem treysti á Jehóva eftir harmleikinn í Eden. Hann elskaði Jehóva. Abel færði honum fórn af því að hann vildi þóknast honum og eignast náið samband við hann. Abel var fjárhirðir og slátraði því einhverjum af lömbum sínum og færði þau Jehóva að fórn. Hvernig brást Jehóva við? Hann „leit með velþóknun á Abel og fórn hans“. (1. Mós. 4:4) Hann kunni að meta sambærilegar fórnir fólks sem elskaði hann og treysti honum – svo sem Nóa. (1. Mós. 8:20, 21) Með því að þiggja slíkar fórnir sýndi Jehóva að syndugir menn gætu hlotið velþóknun hans og eignast náið samband við hann. b

7. Hvað lærum við af því að Abraham skyldi vera fús til að fórna syni sínum?

7 Abraham var maður sem sýndi einstaka trú. Jehóva bað hann um að gera eitt það erfiðasta sem hægt er að hugsa sér – að færa Ísak son sinn að fórn. Abraham bjó sig undir að færa þessa fórn þótt það yrði ákaflega sárt fyrir hann. En Guð stöðvaði hann á síðustu stundu. Allir sem trúa læra samt sem áður mikilvægan sannleika af þessu atviki. Jehóva yrði fús til að fórna sínum eigin ástkæra syni. Svo heitt elskar hann mennina. – 1. Mós. 22:1–18.

8. Til hvers bentu þær mörgu fórnir sem kveðið var á um í lögunum? (3. Mósebók 4:27–29; 17:11)

8 Öldum síðar voru Ísraelsmönnum sett lög sem kváðu á um ýmsar fórnir til að friðþægja fyrir syndir þeirra. (Lestu 3. Mósebók 4:27–29; 17:11.) Þessar fórnir voru vísbending um meiri fórn sem myndi bjarga mönnum endanlega úr klóm syndarinnar. Spámönnum Guðs var innblásið að útskýra að afkomandinn, sem reyndist vera ákveðinn sonur Guðs, þyrfti að þjást og yrði tekinn af lífi. Honum yrði „slátrað“ eins og fórnardýri. (Jes. 53:1–12) Hugsaðu þér. Jehóva sá til þess að ástkærum syni hans væri fórnað til að bjarga mannkyninu – þar á meðal þér – frá synd og dauða.

HVERNIG KOM JESÚS MANNKYNINU TIL BJARGAR?

9. Hvað sýndi Jóhannes skírari fram á um Jesú? (Hebreabréfið 9:22; 10:1–4, 12)

9 Á fyrstu öld okkar tímatals beindi Jóhannes skírari athyglinni að Jesú frá Nasaret og sagði: „Sjáið, lamb Guðs sem tekur burt synd heimsins!“ (Jóh. 1:29) Þessi innblásnu orð sýndu fram á að Jesús væri afkomandinn sem Guð hafði lofað. Hann myndi gefa líf sitt að fórn. Nú var afkomandinn loksins kominn fram sem átti að bjarga mannkyninu endanlega úr greipum syndarinnar. – Lestu Hebreabréfið 9:22; 10:1–4, 12.

10. Hvernig sýndi Jesús að hann ‚kom til að kalla syndara‘?

10 Jesús gaf sérstakan gaum að fólki sem fann sárlega fyrir syndinni og bauð því að gerast fylgjendur sínir. Hann vissi að syndin var undirrótin að þjáningum mannanna. Hann lagði sig því fram um að aðstoða karla og konur sem voru þekkt fyrir syndugt líferni. Hann brá upp líkingu og sagði: „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.“ Síðan bætti hann við: „Ég kom ekki til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Matt. 9:12, 13) Jesús sýndi þetta líka í verki. Hann var hlýlegur við konuna sem þvoði fætur hans með tárum sínum og fyrirgaf syndir hennar. (Lúk. 7:37–50) Hann kenndi samversku konunni við brunninn mikilvæg sannindi þótt hann vissi að hún lifði siðlausu lífi. (Jóh. 4:7, 17–19, 25, 26) Guð gaf honum jafnvel kraft til að gera afleiðingar syndarinnar að engu. Jesús reisti fólk upp frá dauðum – bæði börn og fullorðna og af báðum kynjum. – Matt. 11:5.

11. Af hverju laðaðist syndugt fólk að Jesú?

11 Það er engin furða að jafnvel fólk sem lifði syndugu lífi skyldi laðast að Jesú. Hann sýndi því umhyggju og samúð og því fannst auðvelt að nálgast hann. (Lúk. 15:1, 2) Jesús hrósaði slíku fólki og umbunaði því fyrir að sýna að það trúði á hann. (Lúk. 19:1–10) Hann líkti fullkomlega eftir föður sínum. (Jóh. 14:9) Hann sýndi í orði og verki að góður og miskunnsamur faðir hans elskar fólk og vill hjálpa hverjum og einum að sigra í baráttunni við syndina. Jesús hjálpaði syndugu fólki að finna hjá sér hvöt til að breyta líferni sínu og fylgja honum. – Lúk. 5:27, 28.

12. Hverju sagðist Jesús koma til leiðar með dauða sínum?

12 Jesús vissi hvað var fram undan. Oftar en einu sinni sagði hann fylgjendum sínum að hann yrði svikinn og tekinn af lífi á kvalastaur. (Matt. 17:22; 20:18, 19) Hann vissi að með fórn sinni myndi hann taka burt synd heimsins eins og Jóhannes hafði boðað og spámennirnir sagt fyrir. Jesús sagði líka að hann myndi ‚draga til sín alls konar fólk‘ eftir að hafa fórnað lífi sínu. (Jóh. 12:32) Syndugir menn gætu þóknast Jehóva með því að viðurkenna Jesú sem Drottin sinn og feta í fótspor hans. Ef þeir gerðu það yrðu þeir að lokum ‚leystir undan syndinni‘. (Rómv. 6:14, 18, 22; Jóh. 8:32) Jesús var því hugrakkur og fús til að deyja kvalafullum dauðdaga. – Jóh. 10:17, 18.

13. Hvernig dó Jesús og hvað lærum við um Jehóva Guð af dauða hans? (Sjá einnig mynd.)

13 Jesús var svikinn, handtekinn, svívirtur, rægður, sakfelldur og meira að segja pyntaður. Hermenn fóru með hann á aftökustaðinn og negldu hann á staur. Jesús lét allar þessar þjáningar yfir sig ganga en það var annar sem þjáðist enn meira – Jehóva Guð. Hann hélt aftur af takmarkalausum mætti sínum og skarst ekki í leikinn. Af hverju? Hvað gat fengið ástríkan föður til að gera það? Það var kærleikur. Jesús sagði: „Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf.“ – Jóh. 3:16.

Jehóva lét óbærilega kvöl yfir sig ganga þegar hann leyfði að sonur sinn væri tekinn af lífi til að frelsa okkur undan synd og dauða. (Sjá 13. grein.)


14. Hvað lærirðu af fórn Jesú?

14 Fórn Jesú sýnir betur en nokkuð annað hve heitt Jehóva elskar afkomendur Adams og Evu. Hún sannar að Jehóva elskar þig mjög mikið. Hann lagði mikið í sölurnar og lét mestu þjáningar sem hugsast getur yfir sig ganga til að bjarga þér frá synd og dauða. (1. Jóh. 4:9, 10) Já, hann vill hjálpa okkur hverju og einu að berjast gegn syndinni – og sigra hana!

15. Hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af lausnarfórninni sem er gjöf Guðs?

15 Lausnarfórn Jesú er gjöf frá Guði. Með því að fórna einkasyni sínum gefur hann okkur tækifæri til að fá syndir okkar fyrirgefnar. En til að hljóta fyrirgefningu Guðs er eitt sem við þurfum að gera. Hvað er það? Jóhannes skírari og Jesús Kristur sjálfur svara því: „Iðrist, því að himnaríki er í nánd.“ (Matt. 3:1, 2; 4:17) Við þurfum að iðrast til að geta barist gegn syndinni og eignast náið samband við ástríkan föður okkar. En hvað felst í því að iðrast og hvernig hjálpar það okkur í baráttunni við syndina? Því er svarað í næstu námsgrein.

SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið

a ORÐASKÝRING: Í Biblíunni er orðið „synd“ stundum notað um rangan verknað, það að lifa ekki eða breyta í samræmi við siðferðisreglur Jehóva. En orðið „synd“ er líka notað um ófullkomleikann sem allir menn hafa erft frá Adam. Arfgeng synd er ástæðan fyrir því að við deyjum.

b Jehóva þáði fórnir trúfastra manna fyrir daga Krists á þeim grunni að Jesús myndi fórna lífi sínu í framtíðinni. Þannig myndi hann losa mennina endanlega við synd og dauða. – Rómv. 3:25.