NÁMSGREIN 33
SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega
Hvernig getur söfnuðurinn endurspeglað viðhorf Jehóva til þeirra sem syndga alvarlega?
„Ef einhver drýgir synd höfum við hjálpara.“ – 1. JÓH. 2:1.
Í HNOTSKURN
Við drögum lærdóm af því hvernig tekið var á máli bróður í söfnuðinum í Korintu á fyrstu öld þegar hann syndgaði alvarlega.
1. Hvers óskar Jehóva öllu fólki?
JEHÓVA skapaði mennina með frjálsan vilja. Við notum þessa gjöf til að taka ákvarðanir. Mikilvægasta ákvörðunin sem hver og einn tekur er að vígja líf sitt Jehóva og tilheyra fjölskyldu hans. Jehóva vill að allir geri það. Hann vill fólki það besta af því að hann elskar það. Hann vill að allir eignist vináttu hans og eilíft líf. – 5. Mós. 30:19, 20; Gal. 6:7, 8.
2. Hvernig lítur Jehóva á iðrunarlausa syndara? (1. Jóhannesarbréf 2:1)
2 Jehóva þvingar hins vegar engan til að þjóna sér. Hann virðir rétt hvers og eins til að ákveða hvað hann vill gera. Segjum að skírður þjónn Guðs syndgi alvarlega og iðrist ekki. Í slíku tilfelli er nauðsynlegt að vísa honum úr söfnuðinum. (1. Kor. 5:13) En jafnvel þá vonar Jehóva innilega að hann snúi aftur. Þetta er ein mikilvæg ástæða þess að hann sá fyrir lausnargjaldinu – til að geta fyrirgefið iðrandi syndurum. (Lestu 1. Jóhannesarbréf .) Guð er kærleiksríkur og hvetur þá sem hafa syndgað alvarlega til að iðrast. – 2:1Sak. 1:3; Rómv. 2:4; Jak. 4:8.
3. Hvað er til umfjöllunar í þessari námsgrein?
3 Jehóva vill að við tileinkum okkur viðhorf sitt til synda og þeirra sem drýgja alvarlegar syndir. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum gert það. Þegar þú lest hana skaltu vera vakandi fyrir því (1) hvernig tekið var á alvarlegu máli í söfnuðinum í Korintu á fyrstu öld, (2) hvaða leiðbeiningar Páll postuli gaf þegar syndari iðraðist og (3) hvað þessi frásaga Biblíunnar gefur til kynna um viðhorf Jehóva til þeirra sem syndga alvarlega.
HVERNIG VAR TEKIÐ Á ALVARLEGU MÁLI Á FYRSTU ÖLDINNI?
4. Hvaða mál kom upp í söfnuðinum í Korintu á fyrstu öld? (1. Korintubréf 5:1, 2)
4 Lestu 1. Korintubréf 5:1, 2. Páll var í þriðju trúboðsferðinni þegar hann fékk slæmar fréttir af söfnuðinum í Korintu sem þá var nýlega stofnaður. Bróðir í söfnuðinum þar átti í kynferðislegu sambandi við stjúpmóður sína. Slík hegðun var hneykslanleg og ‚viðgekkst ekki einu sinni meðal þjóðanna‘. Safnaðarmönnum fannst í góðu lagi að bróðirinn væri enn þá í söfnuðinum og þeir voru jafnvel stoltir af því. Ef til vill fannst sumum að þeir endurspegluðu þannig hversu miskunnsamur og skilningsríkur Guð væri gagnvart ófullkomnu fólki. En Jehóva lætur ekki slíkt siðleysi viðgangast meðal þjóna sinna. Með blygðunarlausri hegðun sinni skaðaði maðurinn vissulega orðstír safnaðarins. Hann gæti líka hafa haft áhrif á aðra kristna menn sem hann umgekkst. Hvaða leiðbeiningar gaf Páll söfnuðinum?
5. Hvað sagði Páll söfnuðinum að gera og hvað átti hann við? (1. Korintubréf 5:13) (Sjá einnig mynd.)
5 Lestu 1. Korintubréf 5:13. Páll skrifaði bréf undir innblæstri þar sem hann gaf leiðbeiningar um að þessum iðrunarlausa syndara skyldi vísað úr söfnuðinum. Hvernig áttu þeir sem voru í söfnuðinum að koma fram við hann? Páll sagði þeim að „hætta að umgangast“ hann. Hvað átti hann við? Páll útskýrði að það fæli í sér að þeir skyldu „ekki einu sinni borða með slíkum manni“. (1. Kor. 5:11) Þegar maður borðar með öðrum verður það gjarnan til þess að samskiptin verða meiri. Páll vildi greinilega að söfnuðurinn hefði ekki félagsskap við manninn. Þannig yrði söfnuðurinn ekki fyrir skaðlegum áhrifum. (1. Kor. 5:5–7) Og maðurinn gæti áttað sig á hversu langt hann væri kominn frá Jehóva og iðrast.
6. Hvaða áhrif hafði bréfið á söfnuðinn og syndarann?
6 Eftir að Páll hafði sent bréfið til safnaðarins í Korintu velti hann fyrir sér hvernig söfnuðurinn myndi bregðast við. Það leið ekki á löngu þar til Títus færði honum góðar fréttir. Söfnuðurinn brást vel við bréfinu. (2. Kor. 7:6, 7) Hann hafði fylgt leiðbeiningum Páls. Og ekki löngu eftir að Páll sendi bréfið iðraðist maðurinn. Hann hafði breytt hegðun sinni og viðhorfi í samræmi við réttlátan mælikvarða Jehóva. (2. Kor. 7:8–11) Hvaða leiðbeiningar gaf Páll söfnuðinum þessu næst?
HVERNIG ÁTTI SÖFNUÐURINN AÐ KOMA FRAM VIÐ IÐRUNARFULLAN SYNDARANN?
7. Hvað gerði maðurinn eftir að hafa verið vísað úr söfnuðinum? (2. Korintubréf 2:5–8)
7 Lestu 2. Korintubréf 2:5–8. Páll benti á að aginn sem maðurinn hafði hlotið af flestum ætti að nægja. Aginn skilaði árangri og maðurinn iðraðist. – Hebr. 12:11.
8. Hvað sagði Páll söfnuðinum því næst að gera?
8 Páll sagði söfnuðinum „að fyrirgefa honum fúslega og hughreysta hann“ og fullvissa hann um kærleika sinn. Tökum eftir að Páll vildi að söfnuðurinn gerði meira en að leyfa manninum að koma aftur í fjölskyldu Jehóva. Páll vildi að bræður og systur fullvissuðu manninn í orði og verki um að þau hefðu fyrirgefið honum og elskuðu hann. Þannig myndu þau sýna að þau væru ánægð að fá hann aftur í söfnuðinn.
9. Hvers vegna voru sumir ef til vill hikandi að fyrirgefa iðrandi bróðurnum?
9 Voru sumir tregir til að bjóða iðrandi manninn aftur velkominn í söfnuðinn? Það er möguleiki þótt ekki sé greint frá því. Hegðun hans hafði jú komið söfnuðinum í uppnám og sumum fannst ef til vill orðspor sitt flekkað vegna þess sem hann hafði gert. Sumum gæti hafa fundist ósanngjarnt að hann fengi svona hlýjar móttökur þegar þeir sjálfir höfðu haft svo mikið fyrir því að halda sér siðferðilega hreinum. (Samanber Lúkas 15:28–30.) Hvers vegna var samt mikilvægt að söfnuðurinn sýndi bróðurnum sannan kærleika?
10, 11. Hvaða áhrif hefði það geta haft ef öldungarnir hefðu neitað að fyrirgefa iðrandi bróðurnum?
10 Ímyndum okkur hvað hefði getað gerst ef öldungarnir hefðu neitað að taka iðrunarfullan manninn aftur inn í söfnuðinn eða ef bræður og systur hefðu neitað að sýna honum kærleika. Hann hefði getað „bugast af hryggð“. Hann hefði auðveldlega getað misst vonina og jafnvel dregið þá ályktun að hann gæti aldrei endurheimt sambandið við Guð.
11 Bræður og systur hefðu líka stofnað sambandi sínu við Jehóva í hættu ef þau hefðu neitað að fyrirgefa manninum. Þau hefðu ekki endurspeglað viðhorf Jehóva til iðrandi syndara heldur líkt eftir Satan sem er harður og miskunnarlaus. Þau hefðu leyft Satan að nota sig sem verkfæri til að draga kjarkinn úr manninum. – 2. Kor. 2:10, 11; Ef. 4:27.
12. Hvernig gat söfnuðurinn líkt eftir Jehóva?
12 Hvernig gat söfnuðurinn í Korintu líkt eftir Jehóva en ekki Satan? Með því að koma fram við iðrandi syndara eins og Jehóva. Tökum eftir hvað sumir biblíuritarar sögðu um Jehóva. Hann er „góður og fús til að fyrirgefa“, sagði Davíð. (Sálm. 86:5) Míka skrifaði: „Hvaða guð er eins og þú? Þú fyrirgefur syndir og horfir fram hjá misgerðum.“ (Míka 7:18) Og Jesaja sagði: „Illmennið láti af illsku sinni og hinn vondi af illum hugsunum sínum. Hann snúi aftur til Jehóva sem miskunnar honum, til Guðs okkar því að hann fyrirgefur fúslega.“ – Jes. 55:7.
13. Hvers vegna var rétt að leyfa iðrandi manninum að koma aftur inn í söfnuðinn? (Sjá rammagreinina „ Hvenær var maðurinn í Korintu tekinn aftur inn í söfnuðinn?“)
13 Til að líkja eftir Jehóva þurfti söfnuðurinn í Korintu að taka vel á móti iðrandi manninum og fullvissa hann um kærleika sinn. Með því að fylgja leiðbeiningum Páls sýndu bræður og systur í söfnuðinum að þau væru „hlýðin í öllu“. (2. Kor. 2:9) Hann hafði tekið við aganum og iðrast. Það var því engin ástæða fyrir öldungana að bíða með að taka manninn aftur inn í söfnuðinn þó að aðeins fáeinir mánuðir væru liðnir frá því að honum hafði verið vísað úr honum.
LÍKJUM EFTIR RÉTTLÆTI OG MISKUNN JEHÓVA
14, 15. Hvað getum við lært af því sem gerðist í Korintu til forna? (2. Pétursbréf 3:9) (Sjá einnig mynd.)
14 Frásagan af því hvernig tekið var á málum í Korintu til forna var rituð og varðveitt til þess að ‚við gætum lært af henni‘. (Rómv. 15:4) Við lærum að Jehóva umber ekki alvarlegar syndir í söfnuðinum. Sumir gætu haldið að vegna þess að Jehóva er miskunnsamur leyfi hann iðrunarlausum syndurum að vera áfram í söfnuðinum. En það er ekki þannig sem Jehóva sýnir miskunn. Þótt hann sé miskunnsamur er hann ekki undanlátssamur og breytir ekki mælikvarða sínum á hvað er rétt og rangt. (Júd. 4) Ef hann gerði það sýndi hann í raun ekki miskunn vegna þess að þá stofnaði hann öllum söfnuðinum í hættu. – Orðskv. 13:20; 1. Kor. 15:33.
15 En við sjáum líka að Jehóva vill ekki að neinn farist. Hann vill bjarga fólki hvenær sem það er mögulegt. Hann sýnir fólki miskunn sem breytir hugsun sinni og verkum og vill þjóna honum. (Esek. 33:11; lestu 2. Pétursbréf 3:9.) Þess vegna fól Jehóva Páli að útskýra fyrir söfnuðinum í Korintu að hann ætti að fyrirgefa manninum sem sneri við blaðinu og bjóða hann velkominn.
16. Hvað finnst þér um það hvernig var tekið á málum í Korintu?
16 Frásagan af söfnuðinum í Korintu hjálpar okkur að skilja að Jehóva er kærleiksríkur, réttlátur og réttvís. (Sálm. 33:5) Hvetur það þig ekki til að lofa Guð enn frekar? Við erum jú öll syndarar – hvert og eitt okkar – og þurfum á fyrirgefningu hans að halda. Við höfum ástæðu til að vera þakklát Jehóva fyrir lausnargjaldið sem gerir okkur kleift að fá fyrirgefningu. Það er mjög uppörvandi að vita að Jehóva elskar þjóna sína innilega og vill þeim hið allra besta.
17. Hvað skoðum við í næstu námsgreinum?
17 Hvernig er tekið á málum nú á dögum? Hvernig geta safnaðaröldungar líkt eftir kærleika Jehóva og leitt syndara til iðrunar? Hvernig ætti söfnuðurinn að bregðast við ef öldungarnir ákveða að vísa einhverjum úr söfnuðinum eða taka hann inn aftur? Þessum spurningum verður svarað í næstu námsgreinum.
SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars