Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í 2. Þessaloníkubréfi 3:14 er talað um að „merkja“ ákveðna einstaklinga. Eru það öldungarnir eða boðberar í söfnuðinum sem gera það?

Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Ef einhver hlýðir ekki því sem við segjum í þessu bréfi skuluð þið merkja hann.“ (2. Þess. 3:14) Við höfum áður sagt að þetta væru leiðbeiningar til öldunganna. Ef einhver í söfnuðinum héldi áfram að sniðganga meginreglur Biblíunnar þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir gætu öldungarnir flutt ræðu til að vara fólk við. Safnaðarmenn myndu þá ekki eiga félagslegt samneyti við þann sem hefur verið merktur.

En hér er endurskoðunar þörf. Páll er greinilega að tala um ákvörðun sem einstakir safnaðarmenn áttu að taka við ákveðnar aðstæður. Öldungarnir þurfa því ekki að flytja ræðu um málið. Af hverju hefur skilningur okkar breyst? Skoðum í hvaða samhengi Páll gefur þessar leiðbeiningar.

Páll benti á að sumir í söfnuðinum væru ‚óstýrilátir‘. Þeir tóku ekki mark á innblásnum leiðbeiningum hans. Þegar hann var í Þessaloníku hafði hann gefið þessar leiðbeiningar: „Ef einhver vill ekki vinna á hann ekki heldur að fá að borða.“ En sumir voru ekki enn farnir að vinna fyrir sér þó að þeir væru færir um það. Þeir blönduðu sér líka í mál sem þeim komu ekki við. Hvernig áttu safnaðarmenn að koma fram við þá sem hegðuðu sér þannig? – 2. Þess. 3:6, 10–12.

‚Þið skuluð merkja hann,‘ sagði Páll. Gríska orðið gefur til kynna að taka sérstaklega eftir viðkomandi og vara sig á áhrifum hans. Páll beinir þessum leiðbeiningum til alls safnaðarins, ekki bara öldunganna. (2. Þess. 1:1; 3:6) Einstakir safnaðarmenn sem hafa tekið eftir að einhver í söfnuðinum hlýðir ekki innblásnum leiðbeiningum ákveða því að „hætta að umgangast“ hann.

Merkir þetta að komið yrði fram við hann eins og honum hefði verið vísað úr söfnuðinum? Nei, því að Páll bætir við: „Áminnið hann áfram sem bróður.“ Þeir sem kjósa að eiga ekki félagslegt samneyti við hinn merkta eða stunda afþreyingu með honum myndu eftir sem áður blanda geði við hann á samkomum og í boðuninni. Hvers vegna forðast þeir félagslegt samneyti við hann? Til að hann „skammist sín“, sagði Páll. „Merkingin“ gæti orðið til þess að hinn óstýriláti skammaðist sín og bætti ráð sitt. – 2. Þess. 3:14, 15.

Hvernig getum við farið eftir ráðleggingum Páls? Í fyrsta lagi þurfum við að ganga úr skugga um að einstaklingurinn sé í rauninni „óstýrilátur“ eins og Páll orðaði það. Hann var ekki að tala um mál sem snerist um ólíka samvisku eða smekk. Og hann átti ekki við þá sem hafa einfaldlega sært okkur. Páll var að tala um þá sem höfðu fengið leiðbeiningar frá Biblíunni en kusu samt að óhlýðnast þeim.

Ef við tökum eftir að einhver í söfnuðinum heldur áfram að óhlýðnast leiðbeiningum Biblíunnar a ákveðum við sjálf að eiga ekki félagslegt samneyti við hann. Þar sem þetta er persónuleg ákvörðun ættum við ekki að ræða hana utan veggja heimilisins. Og við myndum halda áfram að umgangast einstaklinginn á samkomum og í boðuninni. Ef hann bætir ráð sitt tökum við upp eðlileg samskipti við hann.

a Það gæti til dæmis verið að einhver í söfnuðinum vilji ekki vinna fyrir sér þótt hann sé fær um það, dragi sig eftir manneskju sem er ekki í trúnni þrátt fyrir viðvaranir, andmæli leiðbeiningum sem söfnuðurinn fær, gagnrýni kenningar Biblíunnar eða beri út skaðlegt slúður. (1. Kor. 7:39; 2. Kor. 6:14; 2. Þess. 3:11, 12; 1. Tím. 5:13) Þeir sem gera slíkt og vilja ekki hætta því eru álitnir ‚óstýrilátir‘.