Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 16

„Bróðir þinn mun rísa upp“

„Bróðir þinn mun rísa upp“

„Jesús sagði við [Mörtu]: ‚Bróðir þinn mun rísa upp.‘“ – JÓH. 11:23.

SÖNGUR 151 Hann mun kalla

YFIRLIT a

1. Hvernig tjáði drengur trú sína á upprisuna?

 DRENGUR sem heitir Matthew glímir við erfið veikindi og hefur þurft að fara í margar skurðaðgerðir. Þegar hann var sjö ára var hann eitt sinn að horfa á mánaðarþátt í Sjónvarpi Votta Jehóva með fjölskyldunni sinni. Í lok þáttarins var tónlistarmyndband sem fjallar um að taka á móti látnum ástvinum í upprisunni. b Eftir þáttinn fór Matthew til foreldra sinna, tók í hönd þeirra og sagði: „Mamma og pabbi, þarna sjáið þið, jafnvel þótt ég deyi vakna ég í upprisunni. Þið bíðið eftir mér, þetta verður allt í lagi.“ Geturðu ímyndað þér hvernig foreldrunum hlýtur að hafa liðið þegar þau fundu hve upprisuvonin er syni þeirra raunveruleg?

2, 3. Hvers vegna er gott fyrir okkur að hugsa um upprisuvonina?

2 Það er gott fyrir okkur öll að hugleiða við og við loforð Biblíunnar um upprisuna í framtíðinni. (Jóh. 5:28, 29) Hvers vegna? Vegna þess að við gætum orðið alvarlega veik eða misst einhvern sem við elskum. (Préd. 9:11; Jak. 4:13, 14) Upprisuvonin getur hjálpað okkur að halda út við slíkar aðstæður. (1. Þess. 4:13) Biblían fullvissar okkur um að faðir okkar á himnum þekki okkur vel og að honum þyki innilega vænt um okkur. (Lúk. 12:7) Hugsa sér hvað Jehóva Guð þarf að þekkja okkur vel til að endurskapa okkur með persónuleika okkar og minningar. Hann elskar okkur mjög heitt og hefur gefið okkur tækifæri til að lifa að eilífu. Jafnvel þótt við deyjum mun hann reisa okkur aftur til lífs.

3 Í þessari námsgrein skoðum við hvaða ástæður við höfum til að treysta á upprisuvonina. Síðan beinum við athyglinni að trústyrkjandi frásögu Biblíunnar sem hefur að geyma stef námsgreinarinnar: „Bróðir þinn mun rísa upp.“ (Jóh. 11:23) Að lokum skoðum við hvernig við getum látið upprisuvonina verða okkur raunverulegri.

HVERS VEGNA GETUM VIÐ TRÚAÐ LOFORÐINU UM UPPRISU?

4. Hvað verðum við að vera viss um til að treysta loforði? Nefndu dæmi.

4 Til að treysta loforði verðum við að vera viss um að sá sem gefur það hafi bæði löngun og mátt til að standa við það. Tökum dæmi. Ímyndaðu þér að húsið þitt skemmist í óveðri. Vinur þinn hefur samband við þig og lofar að hjálpa þér að endurbyggja húsið. Hann er heiðarlegur og þú ert viss um að hann langi til að hjálpa þér. Hann er líka laghentur húsasmiður og á nauðsynleg verkfæri þannig að þú veist að hann getur hjálpað þér. Þú treystir því loforðinu sem hann gefur. Hvað með loforð Guðs um upprisuna? Hefur hann löngun og mátt til að standa við það?

5, 6. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva hefur löngun til að reisa hina dánu til lífs á ný?

5 Hefur Jehóva löngun til að reisa hina dánu til lífs ný? Það hefur hann sannarlega. Hann innblés mörgum biblíuriturum að skrifa um upprisuna í framtíðinni. (Jes. 26:19; Hós. 13:14; Opinb. 20:11–13) Og þegar Jehóva gefur loforð stendur hann alltaf við það. (Jós. 23:14) Hann hlakkar reyndar til að reisa hina dánu aftur til lífs. Hvers vegna getum við sagt það?

6 Skoðum það sem Job sagði. Hann var viss um að ef hann dæi myndi Jehóva þrá að sjá hann á lífi aftur. (Job. 14:14, 15) Jehóva ber sömu tilfinningar til allra tilbiðjenda sinna sem eru dánir. Hann er spenntur að vekja þá aftur til lífs, hrausta og ánægða. Hvað með þá milljarða manna sem hafa dáið án þess að fá tækifæri til að læra sannleikann um Jehóva? Kærleiksríkur Guð okkar vill líka vekja þá til lífs á ný. (Post. 24:15) Hann vill gefa þeim tækifæri til að eignast vináttu við sig og lifa að eilífu á jörðinni. (Jóh. 3:16) Jehóva hefur greinilega löngun til að reisa hina dánu aftur til lífs.

7, 8. Hvers vegna vitum við að Jehóva hefur mátt til að reisa hina dánu til lífs?

7 Býr Jehóva líka yfir mætti til að reisa hina dánu til lífs? Svo sannarlega! Hann er „hinn almáttugi“. (Opinb. 1:8) Hann býr yfir svo miklum mætti að hann getur sigrað hvaða óvin sem er, jafnvel dauðann. (1. Kor. 15:26) Þessi vitneskja gefur okkur styrk og huggun. Skoðum reynslu systur sem heitir Emma Arnold. Það reyndi verulega á trú hennar og fjölskyldu hennar í seinni heimstyrjöldinni. Til að hugga dóttur sína þegar ástvinur dó í fangabúðum nasista sagði Emma: „Væri dauðinn ekki orðinn Jehóva yfirsterkari ef hann héldi fólki varanlega í greipum sér?“ Auðvitað er ekkert sterkara en Jehóva! Almáttugur Guð sem skapaði lífið getur sannarlega gefið þeim aftur líf sem hafa dáið.

8 Önnur ástæða fyrir því að við vitum að Jehóva getur reist hina dánu aftur til lífs er sú að hann hefur takmarkalaust minni. Hann nefnir hverja stjörnu með nafni. (Jes. 40:26) Hann man líka eftir þeim sem eru dánir. (Job. 14:13; Lúk. 20:37, 38) Hann á auðvelt með að muna minnstu smáatriði um þá sem hann mun reisa aftur til lífs, þar á meðal erfðalykil þeirra, reynslu í lífinu og minningar.

9. Hvers vegna treystir þú loforði Jehóva um upprisu í framtíðinni?

9 Við getum augljóslega treyst loforði Jehóva um upprisu í framtíðinni vegna þess að við vitum að hann hefur bæði löngun og mátt til að efna það. Skoðum aðra ástæðu sem við höfum til að treysta loforði Guðs um upprisu. Jehóva hefur þegar reist dána til lífs á ný. Á biblíutímanum gerði hann nokkrum trúföstum mönnum, þar á meðal Jesú, kleift að reisa dána aftur til lífs. Skoðum eina af frásögunum af því þegar Jesús reisti einstakling upp frá dauðum. Það er greint frá henni í Jóhannesi 11. kafla.

NÁINN VINUR JESÚ DEYR

10. Hvað gerist þegar Jesús boðar trúna hinum megin við Jórdan í tveggja daga leið frá Betaníu og hvað gerir hann? (Jóhannes 11:1–3)

10 Lestu Jóhannes 11:1–3. Sjáðu fyrir þér það sem átti sér stað í Betaníu undir lok ársins 32. Jesús á nána vini í þessu þorpi – Lasarus og systur hans tvær, Maríu og Mörtu. (Lúk. 10:38–42) En Lasarus er veikur og systur hans eru áhyggjufullar. Þær senda skilaboð til Jesú en hann er staddur hinum megin við Jórdan í tveggja dagleiða fjarlægð frá Betaníu. (Jóh. 10:40) Því miður deyr Lasarus á svipuðum tíma og sendiboðinn kemur til Jesú. Þótt Jesús viti að vinur hans sé dáinn er hann áfram um kyrrt í meira en tvo daga áður en hann fer til Betaníu. Þegar Jesús kemur þangað hefur Lasarus því verið dáinn í fjóra daga. Jesús hefur í hyggju að gera nokkuð sem kemur vini hans að gagni og vegsamar Guð. – Jóh. 11:4, 6, 11, 17.

11. Hvað getum við lært af þessari frásögu?

11 Við lærum svolítið um vináttu af þessari frásögu. Í skilaboðum sínum til Jesú báðu María og Marta hann ekki að koma til Betaníu. Þær sögðu einfaldlega að kær vinur hans væri veikur. (Jóh. 11:3) Eftir að Lasarus lést hefði Jesús getað reist hann til lífs úr fjarlægð. En hann kaus að fara til Betaníu og hitta Maríu og Mörtu, vinkonur sínar. Átt þú vin sem kemur þér til hjálpar án þess að hann sé beðinn um það? Ef svo er veistu að þú getur reitt þig á hann „á raunastund“. (Orðskv. 17:17) Við viljum líkja eftir Jesú og vera þannig vinir. En höldum áfram að skoða frásöguna og sjáum hvað gerist næst.

12. Hverju lofar Jesús Mörtu og hvers vegna er það ekki innantómt loforð? (Jóhannes 11:23–26)

12 Lestu Jóhannes 11:23–26. Marta fréttir að Jesús sé nálægt Betaníu. Hún flýtir sér af stað og segir þegar hún hittir hann: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ (Jóh. 11:21) Hann hefði getað læknað hann áður en hann dó. En það sem Jesús ætlaði að gera var enn merkilegra. Hann lofaði: „Bróðir þinn mun rísa upp.“ Hann gefur Mörtu enn meiri ástæðu til að treysta loforði hans þegar hann segir: „Ég er upprisan og lífið.“ Hann hefur mátt frá Guði til að reisa fólk upp frá dauðum. Áður hafði hann reist unga stúlku til lífs stuttu eftir að hún dó og hann reisti líka upp ungan mann, líka sama dag og hann dó. (Lúk. 7:11–15; 8:49–55) En getur hann reist upp mann sem hefur verið dáinn í fjóra daga og er byrjaður að rotna?

„LASARUS, KOMDU ÚT!“

Jesús fann til innilegrar samúðar með syrgjandi vinum sínum. (Sjá 13. og 14. grein.)

13. Hvernig bregst Jesús við þegar hann sér Maríu og aðra gráta eins og kemur fram í Jóhannesi 11:32–35? (Sjá einnig mynd.)

13 Lestu Jóhannes 11:32–35. Sjáðu fyrir þér það sem gerist næst. María, hin systir Lasarusar, fer og hittir Jesú. Hún endurtekur það sem systir hennar sagði: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ Hún er mjög sorgmædd og líka þeir sem eru með henni. Jesús verður mjög hryggur þegar hann sér þau gráta. Hann finnur svo innilega til með þeim að hann grætur líka. Hann skilur hversu sársaukafullt það er að missa ástvin. Hann vill ákafur taka burt það sem veldur sorg þeirra.

14. Hvað lærum við um Jehóva af viðbrögðum Jesú þegar María grét?

14 Viðbrögð Jesú þegar María grætur sýna að Jehóva er Guð innilegrar samúðar. Hvers vegna getum við sagt það? Eins og kom fram í námsgreininni á undan endurspeglar Jesús fullkomlega hugsun og tilfinningar föður síns. (Jóh. 12:45) Innileg samúð Jesú með syrgjandi vinum sínum kom honum til að gráta. Við getum því ályktað að Jehóva finni líka mjög mikið til með okkur þegar hann sér tár okkar og sorgir. (Sálm. 56:8) Það hefur þau áhrif að við löðumst enn meir að samúðarfullum Guði okkar.

Jesús sýndi vald sitt yfir dauðanum. (Sjá 15. og 16. grein.)

15. Hvað gerist við gröf Lasarusar eins og kemur fram í Jóhannesi 11:41–44? (Sjá einnig mynd.)

15 Lestu Jóhannes 11:41–44. Jesús kemur að gröf Lasarusar og biður um að steinninn sem er fyrir henni sé fjarlægður. Marta mælir á móti því og segir að það hljóti að vera komin lykt af honum. Jesús segir: „Sagði ég þér ekki að þú myndir sjá dýrð Guðs ef þú tryðir?“ (Jóh. 11:39, 40) Jesús lítur síðan upp og fer upphátt með bæn. Hann vill gefa Jehóva allan heiðurinn af því sem gerist næst. Hann kallar: „Lasarus, komdu út!“ Og Lasarus gengur út úr gröfinni! Jesús hefur gert það sem sumir héldu að væri ómögulegt. – Sjá greinina Hvers vegna liðu fjórir dagar frá því að Lasarus dó þangað til Jesús kom að gröf hans?“ í Varðturninum 1. janúar 2008.

16. Hvernig styrkir frásagan í Jóhannesi 11. kafla trú okkar á upprisuvonina?

16 Frásagan í Jóhannesi 11. kafla styrkir trú okkar á upprisuna. Hvernig þá? Munum eftir loforðinu sem Jesús gaf Mörtu: „Bróðir þinn mun rísa upp.“ (Jóh. 11:23) Jesús hefur eins og faðir hans löngun og mátt til að standa við það loforð. Tár hans gefa til kynna sterka löngun hans til að afmá dauðann og sorgina sem hann veldur. Og þegar Lasarus gekk út úr gröfinni sannaðist aftur að Jesús hefur mátt til að reisa dána til lífs. Og gleymum ekki því sem Jesús minnti Mörtu á: „Sagði ég þér ekki að þú myndir sjá dýrð Guðs ef þú tryðir?“ (Jóh. 11:40) Við höfum góða ástæðu til að treysta því að loforð Guðs um upprisuna rætist. Hvað getum við gert til að gera vonina enn raunverulegri?

HVERNIG GETUM VIÐ GERT UPPRISUVONINA ENN RAUNVERULEGRI?

17. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við lesum frásögur Biblíunnar af því þegar fólk fékk upprisu?

17 Lesum og hugleiðum frásögur af fólki sem fékk upprisu. Í Biblíunni er að finna átta frásögur af fólki sem var reist aftur til lífs á jörð. c Hvernig væri að skoða hverja frásögu vandlega? Þegar við gerum það er gott að muna að þetta var raunverulegt fólk – karlar, konur og börn. Reyndu að koma auga á hvað þær kenna okkur. Hugsaðu um hvernig hver þeirra sýnir löngun Guðs og mátt til að vekja dána til lífs. Og hugleiðum umfram allt mikilvægasta dæmið um upprisu – upprisu Jesú. Munum að hún var staðfest af hundruðum sjónarvotta og gefur okkur því traustan grundvöll til að byggja trú okkar á. – 1. Kor. 15:3–6, 20–22.

18. Hvernig getum við nýtt okkur söngvana okkar sem fjalla um upprisuvonina? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

18 Nýtum okkur vel ‚andleg ljóð‘ sem minnast á upprisuvonina. d (Ef. 5:19) Þessir söngvar geta gert upprisuna raunverulegri í huga okkar og styrkt trú okkar á þessa dýrmætu von. Hlustum á þá. Æfum þá og ræðum textana í námsstund fjölskyldunnar. Lærum textana utanbókar og hugleiðum þá vandlega svo að þeir snerti hjarta okkar og styrki trúna. Ef við skyldum síðar meir standa andspænis aðstæðum þar sem líf okkar er í hættu eða við missum ástvin, mun andi Jehóva hjálpa okkur að muna þessa söngva. Þannig getum við fengið hughreystingu og huggun.

19. Hvernig getum við séð upprisuna fyrir okkur? (Sjá rammann „ Hvað myndirðu vilja spyrja þau um?“)

19 Notum ímyndunaraflið. Jehóva hefur gefið okkur hæfileikann til að sjá okkur sjálf í nýja heiminum. Systir ein segir: „Ég hef notað svo mikinn tíma í að sjá sjálfa mig í nýja heiminum að ég get nánast fundið ilminn af rósum í paradís.“ Ímyndum okkur hvernig verður að hitta trúfasta karla og konur frá biblíutímanum. Hvern hlakkar þú til að hitta? Hvers langar þig að spyrja hann eða hana? Ímyndum okkur líka hvernig verður að hitta aftur ástvini sem við höfum misst. Veltum fyrir okkur hvernig það verður – fyrstu orðin, hlý faðmlögin og gleðitárin.

20. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

20 Við erum þakklát Jehóva fyrir loforð hans um upprisuna. Við getum verið viss um að loforðið rætist vegna þess að Jehóva hefur bæði löngun og mátt til að efna það. Verum staðráðin í að styrkja trú okkar á þessa dýrmætu von. Þá verður samband okkar við Jehóva enn nánara og það er eins og hann segi við hvert og eitt okkar: „Ástvinir þínir munu rísa upp!“

SÖNGUR 147 Loforð um eilíft líf

a Ef þú hefur misst ástvin veitir upprisuvonin þér örugglega mikla huggun. Hvernig myndir þú útskýra fyrir öðrum hvers vegna þú treystir þessu loforði? Og hvernig geturðu gert upprisuvonina enn raunverulegri? Tilgangur þessarar námsgreinar er að hjálpa okkur öllum að styrkja trú okkar á upprisuvonina.

b Tónlistarmyndbandið ber heitið Paradís á næsta leiti og var í Sjónvarpinu í nóvember 2016.

c Sjá rammann „Frásögur Biblíunnar af upprisu átta einstaklinga“ í Varðturninum 1. september 2015, bls. 4.

d Skoðaðu eftirfarandi söngva í Syngjum af gleði fyrir Jehóva:Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum“ (söngur 139), „Horfðu á sigurlaunin“ (söngur 144) og „Hann mun kalla“ (söngur 151). Skoðaðu líka „Paradís á næsta leiti“, „The New World to Come“ og „You Will See“ á jw.org.