Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 19

Hvernig getum við styrkt trú okkar á loforð Jehóva um nýjan heim?

Hvernig getum við styrkt trú okkar á loforð Jehóva um nýjan heim?

„Gerir [Jehóva] ekki það sem hann segir?“ – 4. MÓS. 23:19.

SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina

YFIRLIT a

1, 2. Hvað þurfum við að gera meðan við bíðum eftir nýja heiminum?

 VIÐ metum mikils loforð Jehóva um að afmá þennan heim og láta nýjan og réttlátan heim koma í staðinn. (2. Pét. 3:13) Við vitum ekki nákvæmlega hvenær nýi heimurinn verður að veruleika en það sem er að gerast í heiminum sýnir að þess er skammt að bíða. – Matt. 24:32–34, 36; Post. 1:7.

2 En meðan við bíðum þurfum við að styrkja trú okkar á þetta loforð, óháð því hve lengi við höfum þjónað Jehóva. Hvers vegna? Jafnvel sterk trú getur veikst. Páll kallaði trúarskort „syndina sem er auðvelt að flækja sig í“. (Hebr. 12:1) Til að koma í veg fyrir að trú okkar dvíni þurfum við reglulega að skoða rökin fyrir því að nýi heimurinn sé í nánd. – Hebr. 11:1.

3. Hvað ræðum við í þessari námsgrein?

3 Í þessari grein skoðum við þrennt sem við getum gert til að styrkja trú okkar á loforð Jehóva um nýjan heim. Við getum (1) hugleitt lausnargjaldið, (2) hugleitt mátt Jehóva og (3) stundað það sem styrkir sambandið við hann. Síðan skoðum við hvernig það sem Jehóva sagði við Habakkuk getur styrkt trú okkar. En lítum fyrst á aðstæður sem við búum ef til vill við núna og kalla á sterka trú á nýja heiminn.

AÐSTÆÐUR SEM KALLA Á STERKA TRÚ

4. Hvaða ákvarðanir kalla á sterka trú?

4 Við tökum ákvarðanir daglega sem krefjast sterkrar trúar. Við tökum til dæmis ákvarðanir varðandi félagskap, afþreyingu, menntun, hjónaband, börn og vinnu. Það er gott að spyrja sig: Sýna ákvarðanir mínar að ég sé sannfærður um að dagar þessa heims séu bráðlega taldir og að nýr heimur komi í hans stað? Eða litast ákvarðanir mínar af fólki sem lifir eins og þetta líf sé allt og sumt? (Matt. 6:19, 20; Lúk. 12:16–21) Við tökum bestu ákvarðanirnar ef við styrkjum trú okkar á að nýi heimurinn sé í nánd.

5, 6. Hvers vegna þurfum við sterka trú á erfiðum tímum? Nefndu dæmi.

5 Við þurfum líka sterka trú til að takast á við prófraunir sem við verðum fyrir. Við sætum kannski ofsóknum, eigum við langvinn veikindi að glíma eða tökumst á við annað sem dregur úr okkur kjark. Okkur finnst ef til vill ganga vel að takast á við prófraunir okkar til að byrja með. En ef þær dragast á langinn, eins og oft vill verða, þurfum við að hafa sterka trú til að þrauka og halda áfram að þjóna Jehóva með gleði. – Rómv. 12:12; 1. Pét. 1:6, 7.

6 Þegar við göngum gegnum prófraun gæti okkur fundist eins og nýi heimurinn komi aldrei. Ber það vitni um veika trú? Ekki endilega. Tökum dæmi. Ef frosthörkur eru miklar um vetur finnst okkur kannski eins og sumarið komi aldrei. En það kemur nú samt. Á svipaðan hátt gæti okkur liðið eins og nýi heimurinn komi aldrei þegar við erum mjög kjarklítil. En ef trú okkar er sterk vitum við samt að loforð Guðs rætast. (Sálm. 94:3, 14, 15; Hebr. 6:17–19) Með slíku trúartrausti getum við haldið áfram að hafa tilbeiðsluna á Jehóva í fyrsta sæti.

7. Hvaða viðhorfi verðum við að vera á varðbergi gagnvart?

7 Skoðum annað svið þar sem sterk trú er nauðsynleg – þegar við boðum trúna. Mörgum sem við boðum ‚fagnaðarboðskapinn‘ um nýjan heim Guðs finnst það sem við segjum of gott til að vera satt. (Matt. 24:14; Esek. 33:32) Við viljum ekki láta það hafa áhrif á trú okkar. Til að koma í veg fyrir það verðum við stöðugt að efla trú okkar. Skoðum þrennt sem við getum gert.

HUGLEIÐUM LAUSNARGJALDIÐ

8, 9. Hvaða áhrif getur það haft á okkur að hugleiða lausnargjaldið?

8 Það er trústyrkjandi að hugleiða lausnargjaldið. Lausnargjaldið er trygging fyrir því að loforð Guðs rætist. Þegar við hugleiðum vandlega hvers vegna Jehóva sá okkur fyrir því og hversu miklu hann kostaði til styrkjum við trú okkar á að loforð hans um endalaust líf í betri heimi verði uppfyllt. Hvers vegna getum við sagt það?

9 Hvað felur lausnargjaldið í sér? Jehóva sendi einkason sinn, nánasta vin sinn, frá himni til að fæðast sem fullkominn maður hér á jörðinni. Hér þurfti hann að þola margs konar raunir. Hann þurfti að þjást og dó að lokum kvalafullum dauða. Þetta var Jehóva dýrkeypt! Kærleiksríkur Guð okkar hefði aldrei leyft að sonur sinn þjáðist og dæi aðeins til að bæta líf okkar í skamman tíma. (Jóh. 3:16; 1. Pét. 1:18, 19) Hann greiddi hátt gjald og mun sjá til þess að eilíft líf í nýjum heimi verði að veruleika.

HUGLEIÐUM MÁTT JEHÓVA

10. Hvað er Jehóva fær um samkvæmt Efesusbréfinu 3:20?

10 Við getum líka styrkt trúna með því að hugleiða mátt Jehóva. Hann hefur mátt til að standa við allt sem hann lofar. Margir líta svo á að eilíft líf í nýjum heimi sé ekki mögulegt fyrir okkur mennina. En Jehóva hefur oft lofað að gera það sem menn gætu aldrei gert. Hann er almáttugur Guð. (Job. 42:2; Mark. 10:27) Við gerum því ekki ráð fyrir því að loforð hans séu neitt venjuleg! – Lestu Efesusbréfið 3:20.

11. Nefndu dæmi um óvenjuleg loforð Guðs. (Sjá rammann „ Óvenjuleg loforð sem rættust“.)

11 Skoðum sumt sem Jehóva lofaði fólki sínu til forna og gat virst ómögulegt. Hann sagði Abraham og Söru að þau myndu eignast son í elli sinni. (1. Mós. 17:15–17) Hann sagði líka Abraham að hann myndi gefa afkomendum hans Kanaansland. Meðan þeir voru þrælar í Egyptalandi í mörg ár hefur það örugglega virst ómögulegt að þetta loforð rættist. En það rættist samt. Seinna tilkynnti Jehóva Elísabetu að hún myndi eignast son þótt hún væri orðin gömul. Hann sagði líka Maríu, sem var hrein mey, að hún myndi fæða son. Sú fæðing myndi uppfylla loforð sem Jehóva gaf í Eden þúsundum ára áður. – 1. Mós. 3:15.

12. Hvað sannfærir það okkur um varðandi mátt Jehóva sem segir í Jósúabók 23:14 og Jesaja 55:10, 11?

12 Að hugleiða loforð sem Jehóva hefur gefið og síðan uppfyllt styrkir trú okkar á mátt hans til að koma á nýjum heimi. (Lestu Jósúabók 23:14; Jesaja 55:10, 11.) Það gerir okkur betur undir það búin að hjálpa öðrum að skilja að loforðið um nýja heiminn er engin draumsýn eða óskhyggja. Jehóva hefur sjálfur sagt um nýjan himin og nýja jörð: „Þessi orð eru áreiðanleg og sönn.“ – Opinb. 21:1, 5.

LEGGJUM STUND Á ÞAÐ SEM STYRKIR SAMBANDIÐ VIÐ JEHÓVA

SAFNAÐARSAMKOMUR

Hvernig getur það sem myndin sýnir styrkt trú okkar? (Sjá 13. grein.)

13. Hvernig geta safnaðarsamkomur styrkt trú okkar? Skýrðu svarið.

13 Við eflum trú okkar þegar við gerum það sem styrkir sambandið við Jehóva. Hugleiðum til dæmis gagnið sem við höfum af safnaðarsamkomum. Anna hefur þjónað í fullu starfi svo áratugum skiptir. Hún segir: „Samkomurnar hjálpa mér að halda trú minni sterkri. Jafnvel þegar ræðumaður hefur takmarkaða kennsluhæfileika eða nefnir ekkert nýtt heyri ég oft eitthvað sem hjálpar mér að skilja sannindi Biblíunnar betur og það styrkir trú mína.“ b Trú okkar getur líka styrkst þegar við hlustum á svör trúsystkina okkar á samkomum. – Rómv. 1:11, 12; 10:17.

BOÐUNIN

Hvernig getur það sem myndin sýnir styrkt trú okkar? (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig styrkir boðunin trú okkar?

14 Við styrkjum líka trúna þegar við tökum þátt í boðuninni. (Hebr. 10:23) Barbara hefur þjónað Jehóva í meira en 70 ár. Hún segir: „Mér hefur alltaf fundist boðunin trústyrkjandi. Því meira sem ég tala við aðra um dásamleg loforð Jehóva þeim mun sterkari verður trú mín.“

SJÁLFSNÁM

Hvernig getur það sem myndin sýnir styrkt trú okkar? (Sjá 15. grein.)

15. Hvernig getur sjálfsnám styrkt trú okkar? (Sjá einnig myndir.)

15 Annað sem styrkir trúna er sjálfsnám. Susan finnst gagnlegt að hafa námsáætlun. Hún segir: „Á sunnudögum bý ég mig undir Varðturnsnámið fyrir næstu viku. Ég bý mig undir samkomuna í miðri viku á mánudögum og þriðjudögum. Hina daga vikunnar fylgi ég minni eigin dagskrá.“ Susan styrkir trú sína stöðugt vegna þess að hún heldur sig við áætlun sína. Irene hefur þjónað við aðalstöðvarnar í nokkra áratugi. Henni finnst trústyrkjandi að rannsaka spádóma Biblíunnar. Hún segir: „Mér finnst stórkostlegt að spádómar Jehóva skuli rætast í minnstu smáatriðum.“ c

„ÞAÐ ER ÖRUGGT AÐ HÚN RÆTIST“

16. Hvers vegna hefur það sem Jehóva sagði við Habakkuk þýðingu fyrir okkur?

16 Sumir þjónar Jehóva hafa beðið lengi eftir endi þessa heims. Frá mannlegum bæjardyrum séð getur litið út fyrir að uppfyllingu loforðs Jehóva seinki. Jehóva veit þetta og ræddi það við Habakkuk spámann: „Sýnin rætist á tilsettum tíma, hún nálgast takmarkið óðfluga og bregst ekki. Þótt hún dragist skaltu vænta hennar því að það er öruggt að hún rætist. Henni seinkar ekki.“ (Hab. 2:3) Var Jehóva að veita aðeins Habakkuk þessa fullvissu? Eða hefur það sem hann sagði þýðingu fyrir okkur? Páll postuli heimfærði það sem Jehóva sagði við Habakkuk á kristna menn sem bíða með eftirvæntingu eftir nýja heiminum. (Lestu Hebreabréfið 10:36, 37.) Við getum því verið viss um að þótt björgun okkar virðist seinka er öruggt að loforð Jehóva mun rætast og uppfyllingu þess seinkar ekki.

17. Hvernig fór systir ein eftir því sem Jehóva sagði við Habakkuk?

17 Margir þjónar Jehóva hafa tekið til sín hvatningu Jehóva um að bíða með eftirvæntingu, jafnvel í marga áratugi. Louise byrjaði að þjóna Jehóva árið 1939. Hún segir: „Ég hélt að Harmagedón kæmi áður en ég væri búin í framhaldsskóla. En sú varð ekki raunin. Í gegnum árin hefur mér fundist gagnlegt að lesa frásögur af fólki sem beið eftir að Jehóva uppfyllti loforð sín, eins og til dæmis Nóa, Abraham, Jósef og öðrum. Þeir þurftu að bíða lengi eftir að Jehóva umbunaði þeim eins og hann hafði lofað. Að halda eftirvæntingunni hefur hjálpað mér og öðrum að viðhalda sannfæringunni um að nýi heimurinn sé í nánd.“ Margir sem hafa þjónað Jehóva lengi geta tekið undir með systur okkar.

18. Hvernig getur það styrkt trú okkar að virða fyrir okkur sköpunarverkið?

18 Nýi heimurinn er enn ókominn. En hugleiðum sumt sem er fyrir hendi – stjörnurnar, trén, dýrin og fólk. Enginn efast um að þetta sé allt saman til en það hefur samt ekki alltaf verið það. Þetta er til vegna þess að Jehóva skapaði það. (1. Mós. 1:1, 26, 27) Guð okkar hefur líka áformað að koma á nýjum heimi og hann stendur við það sem hann hefur sagt. Í nýja heiminum fær fólk að búa við fullkomna heilsu að eilífu. Á tilsettum tíma Guðs verður nýi heimurinn jafn raunverulegur og alheimurinn er núna. – Jes. 65:17; Opinb. 21:3, 4.

19. Hvernig getum við styrkt trú okkar?

19 Notum þau tækifæri sem við höfum til að styrkja trú okkar núna. Glæðum þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið. Hugleiðum mátt Jehóva. Og leggjum stund á það sem styrkir sambandið við hann. Þá verðum við meðal þeirra „sem vegna trúar og þolinmæði erfa það sem lofað hefur verið“. – Hebr. 6:11, 12; Rómv. 5:5.

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

a Margir nú á dögum trúa ekki loforði Biblíunnar um nýjan heim. Þeir hugsa að það hljóti að vera of gott til að vera satt. Við erum hins vegar viss um að öll loforð Jehóva verði uppfyllt. En við þurfum samt að styrkja trú okkar jafnt og þétt. Hvernig gerum við það? Við skoðum það í þessari námsgrein.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Sjá til dæmis greinina „Spádómar Jehóva rætast alltaf“ í Varðturninum 1. janúar 2008. Finna má fleiri greinar um spádóma Biblíunnar undir viðfangsefninu „Biblían“ og flettunni „Spádómar“ í Efnislykli að ritum Votta Jehóva og undir viðfangsefninu „Prophecy“ í Watch Tower Publications Index.