Vissir þú?
Hvers vegna voru útlendingar í her Davíðs konungs?
Á MEÐAL útlendra stríðskappa sem þjónuðu í her Davíðs voru þeir Selek Ammóníti, Úría Hetíti og Jítma Móabíti. a (1. Kron. 11:39, 41, 46) Í liði Davíðs voru einnig „Keretarnir og Peletarnir og Gatítarnir“. (2. Sam. 15:18) Almennt er talið að Keretar og Peletar hafi verið náskyldir Filisteum. (Esek. 25:16) Gatítar voru frá borginni Gat í Filisteu. – Jós. 13:2, 3; 1. Sam. 6:17, 18.
Hvers vegna leyfði Davíð útlendingum að vera í hernum? Hann treysti því að þeir styddu hann heilshugar og það sem meira máli skiptir efaðist hann ekki um að þeir yrðu trúfastir Jehóva. Í biblíuskýringarritinu The New Interpreter’s Dictionary of the Bible segir um Keretana og Peletana: „Þeir héldu tryggð við Davíð þegar mest á reyndi í stjórnartíð hans.“ Þegar „allir Ísraelsmenn“ yfirgáfu Davíð konung og snerust til fylgis við uppreisnarsegginn Seba voru það Keretarnir og Peletarnir sem stóðu áfram við hlið hans og hjálpuðu honum að bæla niður uppreisn Seba. (2. Sam. 20:1, 2, 7) Adónía sonur Davíðs reyndi einhverju sinni að sölsa undir sig konungdóminn. En Keretarnir og Peletarnir voru eftir sem áður hliðhollir Davíð og studdu þá sem komu Salómon til valda því að Jehóva hafði valið hann sem eftirmann konungs. – 1. Kon. 1:24–27, 38, 39.
Ittaí Gatíti er annar útlendingur sem stóð með Davíð í gegnum þykkt og þunnt. Ittaí og 600 stríðskappar hans studdu Davíð konung þegar Absalon sonur hans gerði uppreisn og sneri hjörtum Ísraelsmanna gegn konungi. Davíð benti Ittaí á að það væri ekki í hans verkahring að berjast fyrir konung þar sem hann væri útlendingur. En Ittaí svaraði á þessa leið: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir og svo sannarlega sem herra minn og konungur lifir þá fylgi ég herra mínum, konunginum, hvert sem hann fer, jafnvel þótt það kosti mig lífið!“ – 2. Sam. 15:6, 18–21.
Keretar, Peletar og Gatítar voru vissulega útlendingar en þeir báru djúpa virðingu fyrir Jehóva sem hinum sanna Guði og litu á Davíð sem smurðan þjón hans. Davíð hlýtur að hafa verið mjög þakklátur fyrir stuðning þessara tryggu manna.
a Samkvæmt lögum Guðs sem eru skráð í 5. Mósebók 23:3–6 máttu Ammónítar og Móabítar ekki ganga í söfnuð Ísraelsmanna. Það virðist þó ekki merkja að þeim hafi verið bannað að umgangast fólk Guðs eða búa meðal þess heldur að þeir gætu ekki orðið fullgildir þegnar þjóðarinnar. Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 95.