Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 14

SÖNGUR 56 Trúin verður þín

Sækjum fram til þroska

Sækjum fram til þroska

„Við skulum því sækja fram til þroska.“HEBR. 6:1.

Í HNOTSKURN

Í þessari námsgrein verður skoðað hvernig þroskaður kristinn einstaklingur hugsar og hegðar sér í samræmi við vilja Guðs og tekur skynsamlegar ákvarðanir.

1. Hvers væntir Jehóva af okkur?

 FÁTT veitir hjónum meiri gleði en að eignast heilbrigt barn. En þótt foreldrar elski nýfædda barnið sitt mjög mikið vilja þeir ekki að það verði ungbarn til frambúðar. Það myndi valda þeim miklum áhyggjum ef barnið hætti að vaxa. Jehóva er líka glaður þegar hann horfir á okkur taka fyrstu skrefin sem fylgjendur Jesú en hann vill ekki að við höldum áfram að vera andleg ungbörn. (1. Kor. 3:1) Hann vill að við verðum þroskaðir kristnir einstaklingar. – 1. Kor. 14:20.

2. Um hvað er fjallað í þessari námsgrein?

2 Hvað merkir það að ná kristnum þroska? Hvernig förum við að því að ná slíkum þroska? Hvaða hlutverki gegnir föst fæða í andlegum þroska? Og hvers vegna þurfum við að gæta þess að verða ekki of örugg með okkur? Þessum spurningum er svarað í þessari námsgrein.

HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR AÐ VERÐA ÞROSKAÐUR KRISTINN EINSTAKLINGUR?

3. Hvað felur það í sér að verða þroskaður kristinn einstaklingur?

3 Í Biblíunni getur gríska orðið sem er þýtt „þroskaður“ líka þýtt „fullorðinn“. a (1. Kor. 2:6) Við ættum að halda áfram að vaxa í trúnni rétt eins og barn vex úr grasi og verður fullorðinn einstaklingur. Þannig náum við kristnum þroska. Og þótt við höfum náð því marki ættum við aldrei að hætta að taka andlegum framförum. (1. Tím. 4:15) Allir geta verið andlega þroskaðir, líka hinir ungu. En hvað gefur til kynna hvort við höfum náð þroska í trúnni?

4. Hvað einkennir þroskaðan kristinn einstakling?

4 Þroskaður kristinn einstaklingur er sá sem lifir eftir öllum kröfum Guðs en velur ekki aðeins þær sem henta honum. Þar sem hann er ófullkominn gerir hann að sjálfsögðu mistök öðru hvoru. En hann sýnir í daglegu lífi að hann vill líkja eftir Guði í hugsun og verki. Hann hefur íklæðst hinum nýja manni og leitast stöðugt við að hugsa eins og Guð. (Ef. 4:22–24) Hann hefur þjálfað sig í að taka skynsamlegar ákvarðanir byggðar á lögum og meginreglum Jehóva og þarf því ekki langan lista af reglum til að segja sér hvað hann á að gera. Þegar hann tekur ákvörðun hefur hann sjálfsaga til að fylgja henni eftir. – 1. Kor. 9:26, 27.

5. Í hvaða hættu er óþroskaður kristinn einstaklingur? (Efesusbréfið 4:14, 15)

5 Sá sem þroskast hins vegar ekki í trúnni gæti auðveldlega fallið fyrir „brögðum og blekkingum“ og lent á villigötum. Hann gæti farið að trúa villandi fréttum, umtali og röngum sögusögnum fjölmiðla og fráhvarfsmanna. b (Lestu Efesusbréfið 4:14, 15.) Hann gæti verið í meiri hættu að verða öfundsjúkur, lenda í deilum, móðgast eða falla fyrir freistingu. – 1. Kor. 3:3.

6. Við hvað má líkja því að þroskast í trúnni? (Sjá einnig mynd.)

6 Eins og áður hefur verið minnst á líkir Biblían því að vaxa í trúnni við barn sem vex úr grasi og verður fullorðinn einstaklingur. Börn skortir gjarnan skilning og þurfa því á vernd og eftirliti fullorðinna að halda. Móðir gæti viljað leiða dóttur sína þegar þær ganga yfir götu. Þegar stelpan stækkar leyfir mamman henni kannski að fara einni yfir götuna en minnir hana á að gæta að sér og líta til beggja hliða. Þegar hún er orðin fullorðin getur hún sjálf varað sig á slíkum hættum. Rétt eins og ung börn þurfa hjálp fullorðinna til að forðast hættur þurfa óþroskaðir kristnir einstaklingar oft á hjálp þeirra að halda sem eru reyndari í trúnni til að forðast andlegar hættur og taka skynsamlegar ákvarðanir. En þegar þroskaður einstaklingur þarf að taka ákvörðun tekur hann mið af meginreglum Biblíunnar til að skilja hvernig Jehóva hugsar og breytir síðan í samræmi við það.

Óþroskaðir kristnir einstaklingar þurfa að læra að taka skynsamlegar ákvarðanir með því að fylgja meginreglum Biblíunnar. (Sjá 6. grein.)


7. Þurfa þroskaðir kristnir einstaklingar hjálp annarra?

7 Þarf þroskaður kristinn einstaklingur þá aldrei á hjálp annarra að halda? Jú. Þroskaðir einstaklingar þurfa líka stundum að biðja um hjálp. En sá sem hefur ekki tekið út andlegan þroska væntir þess ef til vill að aðrir segi honum hvað hann eigi að gera eða taki ákvörðun fyrir hann. Þroskaður maður nýtir sér hins vegar visku og reynslu annarra en viðurkennir jafnframt að Jehóva væntir þess að hann beri sjálfur „sína byrði“. – Gal. 6:5.

8. Hvernig eru þroskaðir kristnir einstaklingar ólíkir?

8 Rétt eins og fullorðnir einstaklingar líta ekki allir eins út hafa þroskaðir kristnir einstaklingar mismunandi eiginleika eins og visku, hugrekki, örlæti og samkennd. Þannig geta tveir þroskaðir einstaklingar í sömu aðstæðum komist að mismunandi niðurstöðu þótt þeir byggi þær báðir á meginreglum Biblíunnar. Þetta á sérstaklega við um samviskumál. Þeir dæma ekki hvor annan ef ákvarðanir þeirra eru ólíkar heldur einbeita sér að því að vera sameinaðir. – Rómv. 14:10; 1. Kor. 1:10.

HVERNIG VERÐUM VIÐ ÞROSKUÐ Í TRÚNNI?

9. Þroskumst við sjálfkrafa í trúnni? Skýrðu svarið.

9 Með tímanum stækkar barn og verður fullorðið en enginn tekur sjálfkrafa út andlegan þroska. Bræður og systur í Korintu tóku við fagnaðarboðskapnum, létu skírast, fengu heilagan anda og nutu gagns af leiðbeiningum Páls postula. (Post. 18:8–11) Samt voru sumir þeirra enn óþroskaðir nokkrum árum eftir skírnina. (1. Kor. 3:2) Hvað getum við gert til að forðast það?

10. Hvað þurfum við að gera til að ná þroska í trúnni? (Júdasarbréfið 20)

10 Til þess að ná þroska í trúnni verðum við fyrst að hafa löngun til þess. Þeir sem kjósa að vera andleg ungbörn áfram með því að „elska fáfræðina“ taka engum framförum. (Orðskv. 1:22) Við viljum ekki vera eins og þeir sem eru orðnir fullorðnir en halda áfram að reiða sig á foreldra sína til að taka ákvarðanir fyrir sig. Við viljum axla ábyrgð og halda áfram að styrkja sambandið við Jehóva. (Lestu Júdasarbréfið 20.) Ef þú ert enn að vinna að því að ná andlegum þroska skaltu biðja Jehóva að gefa þér „bæði löngun og kraft til að gera það“. – Fil. 2:13.

11. Hvaða hjálp fáum við til að ná andlegum þroska? (Efesusbréfið 4:11–13)

11 Jehóva væntir þess ekki að við náum andlegum þroska upp á eigin spýtur. Hann hefur gefið okkur hirða og kennara í söfnuðinum til að hjálpa okkur að verða fullorðin í andlegum skilningi, að ná „fullum þroska eins og Kristur“. (Lestu Efesusbréfið 4:11–13.) Jehóva sér okkur líka fyrir heilögum anda til að hjálpa okkur að hafa „huga Krists“. (1. Kor. 2:14–16) Og hann gaf okkur fjögur innblásin guðspjöll til að veita okkur innsýn í það hvernig Jesús hugsaði, talaði og breytti þegar hann var á jörðinni. Með því að líkja eftir honum er hægt að ná því markmiði að verða þroskaður í trúnni.

MIKILVÆGI FÖSTU FÆÐUNNAR

12. Hver er ‚byrjendafræðslan um Krist‘?

12 Til að þroskast í trúnni verðum við líka að segja „skilið við byrjendafræðsluna um Krist“, það er að segja undirstöðukenningar kristinnar trúar. Þær fjalla meðal annars um iðrun, trú, skírn og upprisu. (Hebr. 6:1, 2) Þegar Pétur flutti ræðu á hvítasunnunni talaði hann um þessar kenningar. (Post. 2:32–35, 38) Við þurfum að viðurkenna þær til að verða lærisveinar Krists. Páll sýndi til dæmis fram á að ef við tryðum ekki kenningunni um upprisu gætum við ekki sagst vera sannkristin. (1. Kor. 15:12–14) Við megum hins vegar ekki láta okkur nægja undirstöðuþekkingu á sannleikanum.

13. Hvað þurfum við að gera til að nýta okkur föstu andlegu fæðuna sem er minnst á í Hebreabréfinu 5:14? (Sjá einnig mynd.)

13 Ólíkt byrjendafræðslunni felur fasta andlega fæðan ekki bara í sér lög Jehóva heldur einnig meginreglur sem hjálpa okkur að skilja hvernig hann hugsar. Til að nýta okkur þessa andlegu fæðu verðum við að rannsaka og hugleiða orð Guðs og gera síðan okkar besta til að fara eftir því. Þannig lærum við að taka ákvarðanir sem Jehóva er ánægður með. cLestu Hebreabréfið 5:14.

Djúp andleg sannindi kenna okkur að taka ákvarðanir sem Jehóva er ánægður með. (Sjá 13. grein.) d


14. Hvernig hjálpaði Páll Korintumönnum að þroskast í trúnni?

14 Óþroskaðir kristnir menn eiga oft í erfiðleikum með að taka rétta ákvörðun þegar það eru ekki nein sérstök lög í Biblíunni sem segja þeim hvað þeir eigi að gera. Sumum finnst kannski að þeir geti gert það sem þeim sýnist ef það eru ekki nein ákveðin lög um tiltekið mál. Aðrir vilja ef til vill hafa reglur þar sem þess er ekki krafist. Kristnir menn í Korintu báðu Pál til dæmis um reglu varðandi það hvort þeir mættu borða mat sem hafði verið fórnað skurðgoðum. Páll sagði þeim ekki hvað þeir ættu að gera heldur sýndi fram á að þetta væri samviskumál og benti á að hver og einn hefði valfrelsi. Hann benti á nokkrar meginreglur Biblíunnar sem gátu hjálpað þeim að taka ákvörðun svo að þeir gætu haft góða samvisku og hneyksluðu ekki aðra. (1. Kor. 8:4, 7–9) Páll hjálpaði Korintumönnum þannig að þroskast í trúnni svo að þeir gætu notað eigin dómgreind í stað þess að reiða sig á aðra eða setja reglu um málið.

15. Hvernig hjálpaði Páll kristnum Hebreum að taka framförum í trúnni?

15 Við getum dregið dýrmætan lærdóm af því sem Páll skrifaði kristnum Hebreum. Sumir höfðu hætt að þroskast í trúnni og þeim hafði ‚farið aftur svo að þeir þurftu enn á ný að fá mjólk en ekki fasta andlega fæðu‘. (Hebr. 5:12) Þeir meðtóku ekki það nýja sem Jehóva kenndi þeim fyrir milligöngu safnaðarins. (Orðskv. 4:18) Margir Gyðingar í söfnuðinum vildu til dæmis halda fast við Móselögin þótt 30 ár væru liðin síðan þau féllu úr gildi á grundvelli lausnarfórnar Jesú. (Rómv. 10:4; Tít. 1:10) Þeir höfðu því haft nægan tíma til að skilja að þeir þurftu ekki á lögunum að halda. Páll var nú að reyna að hjálpa þeim að taka við dýpri sannindum. Bréf hans leiddi þeim fyrir sjónir að hið nýja tilbeiðsluform fyrir atbeina Jesú væri miklu betra og veitti þeim líka hugrekki til að halda áfram að boða trúna þrátt fyrir andstöðu Gyðinga. – Hebr. 10:19–23.

VERUM EKKI OF ÖRUGG MEÐ OKKUR

16. Hvað verðum við að gera auk þess að taka út andlegan þroska?

16 Við þurfum að leggja okkur fram, ekki bara til að ná andlegum þroska heldur þurfum við líka að viðhalda honum. Við verðum því að gæta þess að verða ekki of örugg með okkur. (1. Kor. 10:12) Við þurfum stöðugt að rannsaka okkur sjálf til að vera viss um að við höldum áfram að taka framförum. – 2. Kor. 13:5.

17. Hvernig sýnir bréf Páls til Kólossumanna þörfina á að viðhalda þroskanum?

17 Í bréfi sínu til Kólossumanna undirstrikar Páll aftur þörfina á að halda sér sterkum í trúnni. Þótt kristnir menn í Kólossu væru þroskaðir í trúnni sagði Páll þeim að gæta sín á því að láta ekki blekkjast af hugsun fólks í heiminum. (Kól. 2:6–10) Og Epafras, sem þekkti greinilega fólkið í söfnuðinum vel, bað stöðugt að það mætti verða fullþroskað í trúnni. (Kól. 4:12) Bæði Páll og Epafras skildu að það krefst stöðugrar viðleitni og stuðnings frá Guði að viðhalda andlegum þroska. Þeir vildu að kristnir menn í Kólossu stæðu stöðugir í trúnni, væru fullþroskaðir kristnir einstaklingar sama hvaða erfiðleikum þeir stæðu frammi fyrir.

18. Hvað gæti hent þroskaðan kristinn einstakling? (Sjá einnig mynd.)

18 Páll varaði Hebrea við því að þroskaður kristinn maður gæti misst velþóknun Guðs varanlega. Hann gæti orðið svo forhertur að hann gæti ekki lengur iðrast og fengið fyrirgefningu Guðs. En Hebrearnir voru ekki svo illa á vegi staddir. (Hebr. 6:4–9) Hvað um þá sem verða óvirkir nú á dögum eða er vikið úr söfnuðinum en iðrast síðar? Ef þeir iðrast í einlægni sýna þeir að það sem Páll skrifaði á ekki við um þá. Þegar þeir snúa aftur til Jehóva þurfa þeir að sjálfsögðu að fá hjálp frá honum. (Esek. 34:15, 16) Öldungarnir geta séð til þess að reyndur vottur hjálpi þeim að endurheimta andlegan styrk.

Jehóva hjálpar þeim sem þurfa að endurheimta andlegan styrk. (Sjá 18. grein.)


19. Hvaða markmið ættum við að setja okkur?

19 Ef þú keppir að því að ná kristnum þroska geturðu náð markmiði þínu. Haltu áfram að næra þig á fastri andlegri fæðu og laga hugsunarhátt þinn meir og meir að hugsun Jehóva. Og ef þú hefur þegar náð andlegum þroska skaltu viðhalda honum.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað merkir það að ná kristnum þroska?

  • Hvernig getum við náð kristnum þroska?

  • Hvers vegna ættum við ekki að vera of örugg með okkur?

SÖNGUR 65 Sækjum fram

a Þótt orðin „þroski“ og „vanþroski“ sé ekki að finna í Hebresku ritningunum koma sömu hugmyndir þar fram. Orðskviðirnir bera til dæmis saman unga og óreynda manneskju og vitra og skynsama manneskju. – Orðskv. 1:4, 5.

b Sjá „Vertu á verði gagnvart röngum upplýsingum“ undir greinaröðinni „Fleiri viðfangsefni“ á jw.org og í JW Library.®

c Sjá rammann „Námsverkefni“ í þessu blaði.

d MYND: Bróðir fylgir meginreglunum sem hann hefur lært í orði Guðs þegar hann velur afþreyingarefni.