NÁMSGREIN 15
SÖNGUR 124 Sýnum tryggð
Styrkjum traust okkar til safnaðar Jehóva
„Hafið þá í huga sem fara með forystuna á meðal ykkar, sem hafa flutt ykkur orð Guðs.“ – HEBR. 13:7.
Í HNOTSKURN
Hvernig við styrkjum traust okkar til safnaðar Jehóva og viðhöldum því.
1. Hvernig var söfnuður Jehóva skipulagður á fyrstu öldinni?
ÞEGAR Jehóva gefur þjónum sínum verkefni væntir hann þess að þeir vinni það með skipulögðum hætti. (1. Kor. 14:33) Það er til dæmis vilji hans að fagnaðarboðskapurinn sé boðaður um alla jörðina. (Matt. 24:14) Jehóva hefur falið Jesú að fara með forystu fyrir þessu verki. Jesús hefur séð til þess að þetta verk er framkvæmt á skipulagðan hátt. Þegar söfnuðir voru stofnaðir víðs vegar á fyrstu öld voru öldungar útnefndir til að gefa leiðbeiningar og fara með forystuna. (Post. 14:23) Í Jerúsalem var stjórnandi ráð öldunga sem var skipað postulunum og öðrum öldungum. Þeir tóku ákvarðanir sem vænst var að allir söfnuðirnir fylgdu. (Post. 15:2; 16:4) Hlýðni bræðra og systra við leiðbeiningarnar stuðlaði að því að söfnuðirnir héldu áfram að styrkjast í trúnni og urðu fjölmennari. – Post. 16:5.
2. Hvernig hefur Jehóva séð fyrir leiðsögn og andlegri fæðu frá 1919?
2 Jehóva sér líka til þess að söfnuður hans sé skipulagður nú á dögum. Frá 1919 hefur Jesús stýrt boðun trúarinnar og séð fylgjendum sínum fyrir andlegri fæðu fyrir milligöngu lítils hóps andasmurðra manna. a (Lúk. 12:42) Það er augljóst að Jehóva blessar verk þessa hóps. – Jes. 60:22; 65:13, 14.
3, 4. (a) Nefndu dæmi um það hvernig við höfum gagn af því að söfnuðurinn vinnur á skipulagðan hátt. (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
3 Ef söfnuðurinn væri ekki skipulagður gætum við ekki unnið verkið sem Jesús fól okkur. (Matt. 28:19, 20) Ímyndum okkur til dæmis að það væru engin úthlutuð starfssvæði og allir myndu boða trúna þar sem þeim þóknaðist. Farið væri yfir sum svæði aftur og aftur en önnur yrðu alveg út undan. Kemur þú auga á önnur svið þar sem kemur sér vel að söfnuðurinn skuli vera skipulagður?
4 Það sem Jesús gerði á meðan hann var á jörðinni er fyrirmynd að því hvernig hann skipuleggur starf fylgjenda sinna nú á dögum. Í þessari námsgrein skoðum við fordæmi Jesú og hvernig söfnuðurinn fylgir því. Við fjöllum líka um það hvernig við getum sýnt að við kunnum að meta söfnuð Jehóva.
SÖFNUÐURINN FYLGIR FORDÆMI JESÚ
5. Nefndu dæmi um það hvernig við fylgjum fordæmi Jesú. (Jóhannes 8:28)
5 Jesús lærði af föður sínum á himnum hvað hann ætti að gera og segja. Söfnuður Jehóva fylgir fordæmi Jesú og byggir siðferðiskenningar sínar og leiðsögn á orði Guðs. (Lestu Jóhannes 8:28; 2. Tím. 3:16, 17) Við erum reglulega minnt á að lesa í orði Guðs og fylgja því. Hvaða gagn höfum við af því að fylgja þessum leiðbeiningum?
6. Nefndu mikilvæga ástæðu fyrir því að rannsaka Biblíuna.
6 Við höfum mikið gagn af því að rannsaka Biblíuna með hjálp ritanna okkar. Við getum til dæmis borið kenningar Biblíunnar saman við leiðsögnina sem við fáum frá söfnuðinum. Þegar við sjáum að leiðsögnin sem við fáum er byggð á Ritningunni styrkjum við traustið til safnaðar Jehóva. – Rómv. 12:2.
7. Hver var boðskapur Jesú og hvernig fylgir söfnuður Jehóva fordæmi hans?
7 Jesús flutti „fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs“. (Lúk. 4:43, 44) Hann fyrirskipaði lærisveinum sínum líka að boða ríkið. (Lúk. 9:1, 2; 10:8, 9) Nú á dögum boða allir í söfnuði Jehóva ríkið, sama hvar þeir búa eða hversu mikla ábyrgð þeir hafa í söfnuðinum.
8. Hvaða heiður hefur okkur hlotnast?
8 Okkur finnst það heiður að fá að segja frá ríki Guðs. Það er ekki sjálfsagt mál. Þegar Jesús var á jörðinni leyfði hann ekki illu öndunum að segja öðrum frá sér. (Lúk. 4:41) Áður en einhver fær leyfi til að boða trúna með þjónum Guðs nú á dögum þarf hann að uppfylla viss skilyrði. Við sýnum hversu mikið við kunnum að meta það með því að boða trúna við sérhvert tækifæri. Markmið okkar er eins og hjá Jesú að sá fræi sannleikans í hjörtu fólks og vökva það. – Matt. 13:3, 23; 1. Kor. 3:6.
9. Hvernig kunngerir söfnuðurinn nafn Guðs?
9 Jesús kunngerði nafn Guðs. Hann sagði í bæn til föður síns á himnum: „Ég hef kunngert þeim nafn þitt.“ (Jóh. 17:26) Söfnuður Jehóva fylgir fordæmi Jesú og gerir allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa fólki að kynnast nafni Guðs. Nýheimsþýðing Biblíunnar hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að nafn Guðs endurheimti þann sess sem því ber. Þessi biblíuþýðing er fáanleg í heild eða að hluta á meira en 270 tungumálum. Í 1. og 2. kafla Handbókar biblíunemandans geturðu kynnt þér nánar hvers vegna nafn Guðs hefur verið sett aftur í Biblíuna. Í viðauka C í námsútgáfu Nýheimsþýðingarinnar á öðrum tungumálum er að finna frekari rök fyrir því að nafn Guðs ætti að standa 237 sinnum í Grísku ritningunum.
10. Hvað má læra af því sem kona frá Mjanmar segir?
10 Við viljum, líkt og Jesús, hjálpa eins mörgum og við getum að kynnast nafni Guðs. Þegar 67 ára gömul kona frá Mjanmar fékk að heyra að Guð ætti sér nafn táraðist hún og sagði: „Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég hef heyrt að Guð heiti Jehóva … Þetta er það mikilvægasta sem ég hef nokkru sinni fengið að vita.“ Þessi frásaga sýnir okkur hversu kröftug áhrif nafn Guðs hefur á einlægt fólk.
HÖLDUM ÁFRAM AÐ SÝNA SÖFNUÐINUM TRAUST
11. Hvernig geta öldungar sýnt að þeir meti söfnuð Guðs að verðleikum? (Sjá einnig mynd.)
11 Hvernig geta öldungar sýnt að þeir kunni að meta söfnuð Guðs? Þegar þeir fá leiðbeiningar þurfa þeir að lesa þær vandlega og fylgja þeim síðan eins vel og þeir geta. Þeir fá til að mynda ekki aðeins leiðbeiningar um það hvernig þeir eigi að flytja atriði á samkomum og biðja fyrir hönd safnaðarins heldur líka hvernig þeir eiga að annast sauði Krists. Þegar öldungarnir fara eftir leiðbeiningunum finna bræður og systur að Jehóva elskar þau og annast.
12. (a) Hvers vegna ættum við að vera samstarfsfús við þá sem fara með forystuna? (Hebreabréfið 13:7, 17) (b) Hvers vegna ættum við að horfa á jákvæða eiginleika þeirra sem fara með forystuna?
12 Þegar við fáum leiðbeiningar frá öldungunum ættum við að fylgja þeim fúslega. Þá auðveldum við þeim að annast ábyrgð sína. Biblían hvetur okkur til að vera hlýðin og undirgefin þeim sem fara með forystuna. (Lestu Hebreabréfið 13:7, 17.) Það getur sundum reynt á þar sem þessir menn eru ófullkomnir. Ef við förum að einblína á neikvæða eiginleka þeirra frekar en mannkostina erum við farin að hjálpa óvinum okkar. Hvernig þá? Við værum að grafa undan trausti til safnaðar Guðs sem er einmitt það sem andstæðingurinn vill gera. Hvernig getum við komið auga á og hafnað áróðri óvina okkar?
LÁTUM EKKI AÐRA VEIKJA TRAUST OKKAR
13. Hvernig hafa óvinir Guðs reynt að sverta söfnuð hans?
13 Andstæðingar Guðs reyna að varpa neikvæðu ljósi á það sem er jákvætt í söfnuðinum. Við höfum til dæmis lært það frá Ritningunni að Jehóva ætlist til þess af tilbiðjendum sínum að þeir séu líkamlega, siðferðilega og andlega hreinir. Hann krefst þess að þeim sem heldur áfram að iðka það sem er rangt án þess að iðrast sé vikið úr söfnuði hans. (1. Kor. 5:11–13; 6:9, 10) Við hlýðum þessum fyrirmælum Biblíunnar. En andstæðingar okkar reyna að nota þetta gegn okkur og saka okkur um að vera umburðarlaus, dómhörð og kærleikslaus.
14. Hver stendur á bak við upplognar sögur um söfnuðinn?
14 Berum kennsl á þann sem stendur á bak við árásirnar. Satan Djöfullinn stendur á bak við lygasögurnar. Hann er „faðir lyginnar“. (Jóh. 8:44; 1. Mós. 3:1–5) Það kemur því ekki á óvart að hann noti stuðningsmenn sína til að halda á lofti lygum um söfnuð Jehóva. Þetta er einmitt það sem gerðist á fyrstu öldinni.
15. Hvernig komu trúarleiðtogarnir fram við Jesú og fylgjendur hans?
15 Þótt sonur Guðs, Jesús, hafi verið fullkominn og gert mörg stórkostleg kraftaverk notaði Satan fólk á fyrstu öld til að breiða út alls konar lygar um hann. Trúarleiðtogarnir sögðu til dæmis að krafturinn sem Jesús hafði til að reka út illa anda kæmi frá „höfðingja illu andanna“. (Mark. 3:22) Meðan á réttarhöldum Jesú stóð ákærðu trúarleiðtogarnir hann um guðlast og æstu mannfjöldann upp til að krefjast dauða hans. (Matt. 27:20) Síðar þegar fylgjendur Krists boðuðu fagnaðarboðskapinn æstu andstæðingar þeirra fólkið til að ofsækja kristna menn. (Post. 14:2, 19) Varðturninn 1. febrúar 1999 útskýrir Postulasöguna 14:2 með þessum orðum: „Andstæðingar af hópi Gyðinga létu sér ekki nægja að hafna boðskapnum sjálfir heldur hófu rógsherferð og reyndu að fylla heiðna menn á staðnum fordómum gegn kristnum mönnum.“
16. Hvað ættum við að muna ef við heyrum upplognar sögur?
16 Satan er hvergi nærri hættur að ljúga. Nú á dögum „afvegaleiðir [hann] alla heimsbyggðina“. (Opinb. 12:9) Ef þú heyrir neikvæðar sögur um söfnuðinn eða bræðurna sem fara með forystuna skaltu muna eftir því hvernig óvinir Guðs komu fram við Jesú og lærisveina hans á fyrstu öldinni. Nú á dögum eru þjónar Guðs ofsóttir og rægðir nákvæmlega eins og Biblían sagði fyrir. (Matt. 5:11, 12) Við förum ekki að trúa á lygasögur ef við munum hver stendur á bak við þær og gerum strax eitthvað til að bregðast við þeim. Hvernig ættum við að bregðast við þeim?
17. Hvernig getum við forðast að láta lygasögur skaða okkur? (2. Tímóteusarbréf 1:13) (Sjá einnig rammann „ Hvernig eigum við að bregðast við lygasögum?“)
17 Höfnum lygasögum. Páll postuli gaf okkur skýrar leiðbeiningar um hvað við ættum að gera ef við heyrðum lygasögur. Hann sagði Tímóteusi að skipa vissum mönnum að „vera ekki uppteknir af lygasögum“ og ‚hafna skammarlegum skröksögum‘. (1. Tím. 1:3, 4; 4:7) Þótt smábarn myndi í vanþekkingu sinni taka upp hlut af gólfinu og stinga upp í sig myndi þroskuð manneskja sem skilur áhættuna aldrei gera það. Við höfnum lygasögum af því að við vitum hvaðan þær koma. Við höldum okkur við ‚heilnæm orð‘ sannleikans. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 1:13.
18. Hvernig getum við sýnt að við treystum söfnuði Jehóva?
18 Við höfum bara skoðað hvernig söfnuður Guðs fylgir fordæmi Jesú á þrem sviðum. Þegar þú rannsakar Biblíuna skaltu taka eftir því hvernig söfnuður Jehóva fylgir fordæmi Jesú á fleiri sviðum. Hjálpaðu öðrum í söfnuði þínum að styrkja traust sitt til safnaðarins. Haltu áfram að sýna að þú kunnir að meta að þjóna Jehóva trúfastur áfram og haldir fast við söfnuðinn sem hann notar til að framkvæma vilja sinn. (Sálm. 37:28) Megum við halda áfram að meta að verðleikum þann heiður sem við höfum að tilheyra kærleiksríkri og trúfastri þjóð Jehóva.
HVERJU SVARAR ÞÚ?
-
Á hvaða hátt líkja þjónar Guðs eftir Jesú?
-
Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta söfnuð Jehóva?
-
Hvað ættum við að gera ef við heyrum lygasögur?
SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði
b MYND: Eftir að öldungarnir hafa skipulagt boðunina á almannafæri sýnir umsjónarmaður boðberum hvernig þeir eiga að standa í skjóli byggingar.