Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 17

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

Yfirgefum aldrei andlegu paradísina

Yfirgefum aldrei andlegu paradísina

„Gleðjist því og fagnið að eilífu yfir því sem ég skapa.“ – JES. 65:18.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvaða gagn við höfum af því að vera í andlegu paradísinni og hvernig við getum laðað aðra að henni.

1. Hvað er andlega paradísin og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

 PARADÍS er til á jörðinni núna og þar er mikið um að vera. Milljónir manna búa þar við ósvikinn frið. Þeir sem eiga þar heima eru ákveðnir í að yfirgefa hana aldrei. Þeir vilja líka að sem flestir utan hennar fái tækifæri til að vera með þeim og upplifa þessar einstöku aðstæður. Við erum að tala um andlegu paradísina. a

2. Hvað er merkilegt við andlegu paradísina?

2 Jehóva hefur á undraverðan hátt skapað friðsamlegt umhverfi í heimi sem Satan hefur breytt í hættulegan stað, fullan af hatri og illsku. (1. Jóh. 5:19; Opinb. 12:12) Kærleiksríkur faðir okkar sér hve skaðleg áhrif þessa heims eru og veitir þjónum sínum öruggt umhverfi þar sem þeir geta þjónað honum með gleði. Í orði hans er andlegu paradísinni lýst sem ‚athvarfi‘ og ‚vel vökvuðum garði‘. (Jes. 4:6; 58:11) Vegna blessunar Jehóva geta þeir sem búa í þessari paradís verið glaðir og öruggir á þessum síðustu dögum. – Jes. 54:14; 2. Tím. 3:1.

3. Hvernig rættist spádómurinn í 65. kafla Jesajabókar til forna?

3 Jehóva innblés Jesaja spámanni að lýsa aðstæðum þeirra sem myndu búa í andlegu paradísinni. Lýsinguna er að finna í Jesaja kafla 65 en þessi spádómur uppfylltist fyrst árið 537 f.Kr. Þá voru iðrunarfullir Gyðingar leystir úr ánauð í Babýlon og sneru til heimalands síns. Jehóva blessaði fólk sitt og hjálpaði því að fegra aftur Jerúsalem sem þá var rústir einar og gera musterið aftur að miðstöð sannrar tilbeiðslu í Ísrael. – Jes. 51:11; Sak. 8:3.

4. Hvernig hefur spádómurinn í 65. kafla Jesajabókar ræst á okkar dögum?

4 Önnur uppfylling spádóms Jesaja hófst árið 1919 þegar tilbiðjendur Jehóva voru leystir úr haldi Babýlonar hinnar miklu. Þaðan í frá fór andlega paradísin að taka á sig mynd og dreifast um alla jörð. Kappsamir boðberar Guðsríkis stofnuðu marga söfnuði og sýndu af sér kristna eiginleika. Karlar og konur sem höfðu einu sinni verið ofbeldisfull og sýnt af sér dýrslega eiginleika ‚íklæddust hinum nýja manni sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs‘. (Ef. 4:24) Margt af því sem Jesaja spáði fyrir um á sér auðvitað stað bókstaflega í nýja heiminum. En jafnvel núna höfum við mikið gagn af því að vera í táknrænu paradísinni. Skoðum hvaða áhrif það hefur á okkur að vera í henni og hvers vegna við ættum aldrei að yfirgefa hana.

EINKENNI ÞEIRRA SEM BÚA Í ANDLEGU PARADÍSINNI

5. Hvers njótum við í andlegu paradísinni eins og lofað var í Jesaja 65:13?

5 Heilbrigðir og vel nærðir. Spádómur Jesaja sýnir hversu mikill munur er á lífi þeirra sem búa í paradísinni og þeirra sem eru fyrir utan. (Lestu Jesaja 65:13.) Jehóva fullnægir andlegum þörfum tilbiðjenda sinna. Við fáum heilagan anda, höfum orð Jehóva og ríkulega andlega fæðu svo að við getum ‚borðað‘, ‚drukkið‘ og ‚glaðst‘. (Samanber Opinberunarbókina 22:17.) Þeir sem eru fyrir utan andlegu paradísina eru hins vegar ‚hungraðir‘, ‚þyrstir‘ og ‚verða auðmýktir‘. Andlegum þörfum þeirra er ekki mætt. – Amos 8:11.

6. Hvernig er því lýst í Jóel 2:21–24 sem Jehóva gefur okkur og hvernig getur það gagnast okkur?

6 Í spádómi sínum nefndi Jóel nauðsynjavörur eins og korn, vín og olíu til að undirstrika að Jehóva sjái fólki sínu örlátlega fyrir því sem það þarf, þar á meðal andlegri fæðu. (Jóel 2:21–24) Hann hefur gefið okkur Biblíuna, biblíutengd rit, vefsetur okkar, samkomur og mót. Við getum nýtt okkur það sem hann sér okkur fyrir á hverjum degi og þegar við gerum það hressir það okkur og endurnærir.

7. Hvað ‚gleður hjarta‘ okkar? (Jesaja 65:14)

7 Glaðir og ánægðir. Þjónar Jehóva geta ‚hrópað af glöðu hjarta‘ vegna þess að þeir eru honum þakklátir. (Lestu Jesaja 65:14.) Hvetjandi sannindi og hughreystandi loforð í orði Guðs og traust von sem byggist á lausnarfórn Krists gleðja hjarta okkar. Við verðum glöð og ánægð þegar við ræðum þetta við bræður okkar og systur. – Sálm. 34:8; 133:1–3.

8. Hver eru tvö af aðaleinkennum andlegu paradísarinnar?

8 Kærleikurinn og einingin sem ríkir meðal þjóna Jehóva eru tvö af helstu einkennum andlegu paradísarinnar. (Kól. 3:14) Þetta er sýnishorn af því hvernig lífið verður í nýja heiminum þar sem kærleikur og eining þjóna Jehóva mun styrkjast enn meira. Ein trúsystir okkar nefnir hverju hún tók eftir þegar hún hitti þjóna Guðs í fyrsta skipti. Hún segir: „Ég vissi ekki hvað hamingja var, ekki einu sinni innan fjölskyldu minnar. Það var hjá vottum Jehóva sem ég upplifði fyrst kærleika í verki.“ Þeir sem vilja finna ósvikna hamingju þurfa að koma í andlegu paradísina. Óháð því hvað heimurinn hugsar um þjóna Jehóva hafa þeir gott mannorð hjá honum og öllum sem tilbiðja hann. – Jes. 65:15.

9. Hverju er lofað í Jesaja 65:16, 17 varðandi erfiðleika okkar?

9 Rólegir í huga og hjarta. Í Jesaja 65:14 segir um þá sem kjósa að halda sig utan andlegu paradísarinnar að þeir ‚hrópi af kvöl í hjarta og kveini af örvæntingu‘. En hvað um allt sem hefur valdið fólki Guðs þjáningum? Allar raunir munu um síðir „verða gleymdar, þær verða huldar augum [Guðs]“. (Lestu Jesaja 65:16, 17.) Jehóva fjarlægir erfiðleika okkar og með tímanum munum við losna við allan sársauka sem þeir hafa valdið okkur.

10. Hvers vegna ertu þakklátur fyrir að eiga félagsskap við bræður og systur? (Sjá einnig mynd.)

10 En jafnvel núna veitir það okkur hugarró að vera á samkomum þar sem við getum slakað á og fengið hvíld frá öllu sem veldur okkur erfiðleikum í illum heimi. Við stuðlum að friðinum sem ríkir í þessu andlega umhverfi þegar við sýnum eiginleika eins og kærleika, gleði, frið, góðvild og mildi, en þeir eru hluti af ávexti andans. (Gal. 5:22, 23) Það er mikil blessun að mega tilheyra söfnuði Guðs. Þeir sem halda sig í andlegu paradísinni eiga eftir að sjá Guð uppfylla loforð sitt um að skapa „nýjan himin og nýja jörð“.

Það er blessun að fá að vera í andlegu paradísinni með fjölskyldu Guðs. (Sjá 10. grein.) c


11. Hvaða áhrif ætti andlega paradísin að hafa á okkur samkvæmt Jesaja 65:18, 19?

11 Þakklátir og spenntir. Jesaja útskýrir hvers vegna við höfum góða ástæðu til að ‚gleðjast og fagna‘ í andlegu paradísinni. Það var Jehóva sem bjó til þennan táknræna stað. (Lestu Jesaja 65:18, 19.) Það er því ekki nema eðlilegt að hann skuli hafa falið okkur að hjálpa fólki að yfirgefa stofnanir manna sem veita enga andlega hjálp og koma inn í andlegu paradísina. Við erum glöð vegna alls þess góða sem við njótum vegna þess að við höfum kynnst sannleikanum og finnum okkur knúin til að segja öðrum frá honum. – Jer. 31:12.

12. Hvað finnst þér um loforðin í Jesaja 65:20–24 og hvers vegna?

12 Við erum líka þakklát og full eftirvæntingar vegna vonarinnar sem við höfum í andlegu paradísinni. Hugsum okkur allt sem við eigum eftir að sjá og gera í nýjum heimi Guðs! Biblían lofar: „Þar verður ekkert ungbarn framar sem lifir aðeins fáeina daga né gamalmenni sem deyr fyrir aldur fram.“ Við munum „byggja hús og búa í þeim og planta víngarða og neyta ávaxta þeirra“. Við ‚stritum ekki til einskis‘ vegna þess að við erum „fólk sem Jehóva hefur blessað“. Hann lofar okkur lífi sem einkennist af öryggi, ánægju og tilgangi. „Jafnvel áður en þeir kalla“ veit hann þarfir hvers og eins og hann „uppfyllir langanir alls sem lifir“. – Jes. 65:20–24; Sálm. 145:16.

13. Hvernig lýsir Jesaja 65:25 breytingunum sem fólk gerir í lífi sínu þegar það byrjar að þjóna Jehóva?

13 Friðsamir og öruggir. Margir sem létu áður í ljós dýrslega eiginleika hafa gert stórkostlegar breytingar með hjálp anda Guðs. (Lestu Jesaja 65:25.) Þeir hafa losað sig við óæskilega eiginleika. (Rómv. 12:2; Ef. 4:22–24) Þjónar Guðs eru auðvitað eftir sem áður ófullkomnir og gera mistök. En Jehóva hefur sameinað „alls konar fólk“ sem elskar Jehóva og hvert annað og býr þess vegna við frið og einingu. (Tít. 2:11) Enginn annar en almáttugur Guð hefði getað framkvæmt þetta kraftaverk!

14. Hvernig hefur það sem segir í Jesaja 65:25 reynst vera rétt í tilfelli bróður?

14 Getur fólk virkilega breytt persónuleika sínum? Hugleiðum eftirfarandi dæmi. Ungur maður lifði siðlausu lífi, var ofbeldisfullur og hafði fyrir tvítugt verið í fangelsi mörgum sinnum fyrir bílþjófnað, innbrot og aðra alvarlega glæpi. Hann var alltaf til í að slást. Um leið og hann heyrði sannleika Biblíunnar og byrjaði að sækja samkomur Votta Jehóva sannfærðist hann um að andlega paradísin sem hann hafði fundið væri þess virði að lifa fyrir. Eftir að hann lét skírast hugsaði hann oft um hvernig Jesaja 65:25 átti við hann. Það var eins og hann hefði breyst úr grimmum úlfi í friðsamt lamb.

15. Hvers vegna viljum við bjóða öðrum að vera með okkur í andlegu paradísinni og hvernig getum við gert það?

15 Jesaja 65:13 hefst á yfirlýsingu: „Þess vegna segir alvaldur Drottinn Jehóva.“ Vers 25 endar á orðunum „segir Jehóva“. Orð hans rætast alltaf. (Jes. 55:10, 11) Andlega paradísin er nú þegar til. Jehóva hefur skapað fjölskyldu tilbiðjenda sem er einstök. Meðal fólks hans er mesti friður sem hægt er að hafa núna og við getum verið örugg. (Sálm. 72:7) Við viljum þess vegna hjálpa eins mörgum og hægt er að verða hluti af þessari fjölskyldu. Við getum gert það með því að einbeita okkur að því að gera fólk að lærisveinum. – Matt. 28:19, 20.

HVERNIG LÖÐUM VIÐ FÓLK AÐ ANDLEGU PARADÍSINNI?

16. Hvernig getum við stuðlað að því að fólk vilji koma inn í andlegu paradísina?

16 Við eigum hvert og eitt okkar mikilvægu hlutverk að gegna í að gera andlegu paradísina aðlaðandi í augum annarra. Við getum gert það með því að líkja eftir Jehóva. Hann þvingar engan í söfnuð sinn heldur ‚dregur‘ hann fólk mjúklega til sín. (Jóh. 6:44; Jer. 31:3) Hjartahreint fólk sem kynnist góðum eiginleikum Jehóva og aðlaðandi persónuleika dregst óhjákvæmilega að honum. Hvernig getum við laðað fólk að andlegu paradísinni með því að sýna af okkur góða eiginleika og hegðun?

17. Hvernig getum við laðað fólk að andlegu paradísinni?

17 Við getum laðað aðra að andlegu paradísinni með því að koma fram við trúsystkini okkar af kærleika og vinsemd. Þegar áhugasamir sækja samkomur viljum við að þeir dragi sömu ályktun og fólk í Korintu til forna sem var ekki í trúnni og sótti líklega samkomur. Það sagði: „Guð er sannarlega hjá ykkur.“ (1. Kor. 14:24, 25; Sak. 8:23) Við þurfum þess vegna alltaf að fara eftir hvatningunni um að ‚lifa í friði hvert við annað‘. – 1. Þess. 5:13.

18. Hvað getur laðað fólk að söfnuðinum?

18 Við ættum alltaf að reyna að sjá bræður okkar og systur sömu augum og Jehóva. Við gerum það með því að einbeita okkur að góðum eiginleikum þeirra en ekki ófullkomleikanum sem þeir eiga eftir að losna við. Við getum leyst ágreining í kærleika með því að ‚vera góð hvert við annað, samúðarfull og fyrirgefa hvert öðru fúslega‘. (Ef. 4:32) Þá laðast fólk sem vill að komið sé þannig fram við sig að andlegu paradísinni. b

HÖLDUM OKKUR Í ANDLEGU PARADÍSINNI

19. (a) Hvað hafa sumir sagt eftir að hafa snúið aftur í andlegu paradísina eins og kemur fram í rammanum „ Þau fóru en sneru aftur“? (b) Hverju ættum við að vera staðráðin í? (Sjá einnig mynd.)

19 Við erum þakklát fyrir andlegu paradísina. Hún er fegurri en nokkru sinni fyrr og fleiri tilbiðjendur Jehóva búa í henni en nokkurn tíma áður. Megum við alltaf vera þakklát fyrir paradísina sem Jehóva hefur búið okkur. Allir sem vilja vera endurnærðir og ánægðir, rósamir og öruggir verða að koma í andlegu paradísina og yfirgefa hana aldrei. Við þurfum að gæta okkar því að Satan reynir það sem hann getur að tæla okkur burt frá henni. (1. Pét. 5:8; Opinb. 12:9) Honum má ekki takast það. Leggjum okkur öll fram við að vernda fegurðina, hreinleikann og friðinn í andlegu paradísinni.

Þeir sem halda sig í andlegu paradísinni fá líka að njóta þess í framtíðinni að vera í bókstaflegri paradís. (Sjá 19. grein.)


HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað er andlega paradísin?

  • Hvaða blessunar njótum við í andlegu paradísinni?

  • Hvernig getum við laðað fólk að andlegu paradísinni?

SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin

a ORÐASKÝRING: Með hugtakinu „andleg paradís“ er átt við það umhverfi og aðstæður þar sem við þjónum Jehóva. Í þessari paradís eigum við friðsamlegt samband við Jehóva og hvert við annað.

b Skoðaðu myndbandið Hvar eru þau núna? Alena Žitníková: Draumurinn rættist til að sjá þá blessun sem systir naut í andlegu paradísinni.

c MYND: Meðan margir njóta góðs af því að tala við aðra á samkomu blandar einn bróðirinn ekki geði við aðra.