Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Ég hef haldið áfram að læra allt mitt líf

Ég hef haldið áfram að læra allt mitt líf

ÉG ER innilega þakklátur að Jehóva skuli vera minn „mikli kennari“. (Jes. 30:20) Hann kennir þjónum sínum með orði sínu, Biblíunni, stórkostlegu sköpunarverki sínu og í söfnuðinum. Hann kennir okkur líka fyrir atbeina bræðra okkar og systra. Þótt ég sé 97 ára gamall held ég áfram að hafa gagn af leiðbeiningum Jehóva eftir öllum þessum leiðum. Mig langar að segja ykkur aðeins nánar frá því.

Með fjölskyldunni árið 1948.

Ég fæddist árið 1927 í litlum bæ nálægt Chicago í Bandaríkjunum. Mamma og pabbi áttu fimm börn, Jethu, Don, mig, Karl og Joy. Við vorum öll ákveðin í að þjóna Jehóva heilshugar. Jetha sótti annan bekk Gíleaðskólans árið 1943. Don fór á Betel í Brooklyn í New York 1944, Karl 1947 og Joy 1951. Gott fordæmi þeirra og foreldra okkar hafði mikil áhrif á mig.

FJÖLSKYLDAN KYNNIST SANNLEIKANUM

Mamma og pabbi lásu Biblíuna og elskuðu Guð. Þau kveiktu þennan sama kærleika hjá okkur börnunum. Pabbi hafði samt misst virðingu fyrir kirkjunum eftir að hafa barist í fyrri heimstyrjöldinni. Þakklát að hafa fengið hann lifandi úr styrjöldinni sagði mamma: „Karl, förum í kirkju eins og við vorum vön.“ Pabbi svaraði: „Ég skal fylgja þér en ég fer ekki inn.“ „Hvers vegna ekki?“ spurði hún. „Prestar beggja vegna víglínunnar blessuðu hermennina og vopnin þótt þeir væru sömu trúar og andstæðingarnir! Var Guð beggja vegna víglínunnar?“

Seinna þegar mamma var í messu bönkuðu tveir vottar Jehóva upp á hjá okkur. Þeir buðu pabba tvær bækur með heitinu Light sem fjölluðu um Opinberunarbókina. Þær vöktu áhuga pabba og hann þáði þær. Þegar mamma kom auga á bækurnar fór hún að lesa þær. Dag einn sá hún auglýsingu í dagblaði þar sem áhugasömum var boðið biblíunámskeið með hjálp þessara bóka. Hún ákvað að grípa þetta tækifæri. Þegar hún mætti á staðinn kom eldri kona til dyra. Með aðra bókina í hendi spurði mamma: „Er það hér sem verið er að skoða þessa bók?“ „Já, vinan, gakktu í bæinn,“ svaraði konan. Viku síðar tók mamma okkur krakkana með og upp frá því fórum við vikulega með henni.

Á einni samkomunni bað sá sem stýrði umræðunum mig um að lesa Sálm 144:15. Þar segir að þeir sem tilbiðja Jehóva séu hamingjusamir. Þetta vers og tvö önnur höfðu mikil áhrif á mig, 1. Tímóteusarbréf 1:11 sem segir að Jehóva sé „hinn hamingjusami Guð“ og Efesusbréfið 5:1 sem hvetur okkur til að ‚líkja eftir Guði‘. Ég skildi að ég ætti að þjóna Jehóva með gleði og vera þakklátur að fá að gera það. Þetta hef ég reynt að tileinka mér allt mitt líf.

Söfnuðurinn sem var næstur okkur var í Chicago í 32 kílómetra fjarlægð frá heimili okkar. Engu að síður sóttum við samkomur og þekking mín á Biblíunni jókst. Eitt sinn fékk Jetha að svara. Ég man að ég hugsaði: „Ég vissi þetta. Ég hefði getað rétt upp hönd til að svara.“ Þá fór ég að undirbúa mín eigin svör. Og það sem meira máli skiptir varð samband mitt við Jehóva sterkara eins og hjá systkinum mínum. Ég lét skírast árið 1941.

JEHÓVA KENNIR MÉR Á MÓTUM

Ég man sérstaklega eftir móti í Cleveland í Ohio árið 1942. Fjölskylda mín dvaldi í tjöldum ásamt mörgum öðrum fjölskyldum nálægt mótsstaðnum. Bræður og systur gátu auk þess hlustað á dagskrána í síma á meira en 50 öðrum stöðum í Bandaríkjunum. Síðari heimstyrjöldin geisaði enn og andstaða gegn vottum Jehóva magnaðist. Um kvöldið sá ég hóp bræðra leggja bílum sínum þannig að ljósin vísuðu frá tjaldsvæðinu. Þeir höfðu komið sér saman um að hafa einhvern á verði í hverjum bíl alla nóttina. Ef hætta virtist í aðsigi áttu bræðurnir að nota bílflautuna og kveikja á framljósunum til að blinda árásarmennina. Aðrir gætu þá komið þeim til hjálpar. Ég hugsaði með mér: Þjónar Jehóva eru viðbúnir öllu. Ég fann til öryggis og svaf vel og allt gekk vandræðalaust.

Löngu síðar áttaði ég mig á því að mamma sýndi engin merki um kvíða eða hræðslu við þetta tækifæri. Hún treysti Jehóva og söfnuði hans algerlega. Ég mun aldrei gleyma fordæmi hennar.

Stuttu fyrir mótið hafði mamma gerst brautryðjandi. Hún veitti ræðunum um þjónustu í fullu starfi sérstakan gaum. Á leiðinni heim sagði hún: „Mig langar að halda áfram í brautryðjendastarfinu en ég get ekki bæði sinnt því og séð vel um heimilið.“ Hún spurði okkur hvort við værum tilbúin að hjálpa til. Við sögðum já og hún gaf hverju okkar verkefni að þrífa eitt eða tvö herbergi fyrir morgunmat. Þegar við vorum farin í skólann athugaði hún hvort allt væri í röð og reglu á heimilinu og síðan fór hún í boðunina. Hún var önnum kafin en vanrækti þó aldrei okkur börnin. Þegar við komum heim í hádegismat og eftir skóla var hún alltaf til staðar fyrir okkur. Suma daga fórum við með henni í boðunina eftir skóla og það hjálpaði okkur að skilja hvað felst í því að vera brautryðjandi.

ÉG BYRJA SEM BRAUTRYÐJANDI

Ég byrjaði í brautryðjendastarfi þegar ég var 16 ára. Pabbi fylgdist með hvernig mér gekk þótt hann væri ekki orðinn vottur enn þá. Kvöld eitt sagði ég honum að ég hefði ekki fundið neinn sem vildi þiggja biblíunámskeið þótt ég hefði lagt mig allan fram. Ég beið smástund og spurði svo: „Vilt þú þiggja biblíunámskeið?“ Hann hugsaði sig um litla stund og svaraði síðan: „Hvers vegna ekki!“ Fyrsti biblíunemandinn minn var pabbi. Ég var mjög ánægður með það.

Við lásum saman bókina „The Truth Shall Make You Free“. Með tímanum áttaði ég mig á að pabbi hjálpaði mér að verða betri nemandi og kennari. Dag einn þegar við lásum saman sagði hann: „Ég sé hvað segir í bókinni. En hvernig veistu að hún fer með rétt mál?“ Ég var ekki viðbúinn spurningunni og sagði: „Ég get ekki sannað það fyrir þér núna en næst þegar við lesum saman ætti ég að geta svarað þér.“ Og ég gerði það. Ég fann biblíuvers sem studdu það sem hafði verið til umræðu. Eftir þetta bjó ég mig betur undir námsstundirnar með því að rannsaka efnið. Það hjálpaði mér að verða betri biblíunemandi og nýttist pabba líka. Hann fór eftir því sem hann lærði og lét skírast 1952.

ÉG LÆRI MEIRA Á BETEL

Ég fór að heiman þegar ég var 17 ára. Jetha a varð trúboði og Don Betelíti. Þau voru mjög ánægð og það var mér hvatning. Ég sótti því bæði um að starfa á Betel og komast í Gíleaðskólann og lét málin síðan í hendur Jehóva. Útkoman varð sú að mér var boðið á Betel árið 1946.

Ég hef sinnt mörgum mismunandi verkefnum á Betel og fengið að læra margt. Á 75 árum hef ég lært að prenta bækur og sjá um bókhald. Ég lærði líka að kaupa inn það sem þurfti á Betel og sjá um vöruflutninga þaðan. Ég hef samt haft mesta ánægju af þeirri menntun sem okkur er séð fyrir á Betel, dagstextaumræðunni og ýmsum fyrirlestrum.

Að kenna á öldunganámskeiði.

Ég hef líka lært af Karli, yngri bróður mínum, sem kom á Betel 1947. Hann var framúrskarandi nemandi og biblíukennari. Ég leitaði einu sinni til hans þegar ég var að undirbúa ræðu. Ég sagði honum að ég hefði fundið mikið efni en væri í vandræðum með það hvernig ég ætti að nota það. Hann hjálpaði mér að leysa málið með einni spurningu: „Joel, hvert er stef ræðunnar?“ Ég skildi hvað hann átti við. Ég þurfti bara að nýta það efni sem tengdist stefinu en sleppa hinu. Ég gleymi þessu aldrei.

Til að vera ánægð á Betel þurfum við að taka fullan þátt í boðuninni. Það hefur ýmislegt jákvætt í för með sér. Ég man sérstaklega eftir einu tilviki í boðuninni í Bronx í New York. Ég fór ásamt öðrum bróður til konu sem hafði áður þegið Varðturninn og Vaknið! Við kynntum okkur og ég sagði: „Í kvöld erum við að ræða við fólk um jákvæðan boðskap sem er að finna í Biblíunni.“ „Ef þið viljið tala um Biblíuna megið þið koma inn,“ sagði hún. Við lásum nokkur biblíuvers um Guðsríki og nýja heiminn og spjölluðum um þau. Það hafði greinilega mikil áhrif á hana og hún bauð nokkrum vinum að vera með þegar við hittumst viku seinna. Hún fór síðar að þjóna Jehóva ásamt eiginmanni sínum.

ÉG LÆRI AF KONUNNI MINNI

Ég hafði verið í giftingarhugleiðingum í 10 ár áður en ég kynntist eiginkonu minni. Hvað hjálpaði mér að finna góða konu? Ég bað til Jehóva og hugleiddi hvers konar líf ég vildi með eiginkonu.

Með Mary í farandstarfinu.

Eftir mótið í Yankee Stadium árið 1953 hitti ég systur sem hét Mary Aniol. Hún hafði verið með Jethu í öðrum bekk Gíleaðsskólans og þær voru trúboðar á sama svæði. Mary sagði mér af miklum áhuga frá trúboðsverkefni sínu í Karíbahafi og biblíunámskeiðunum sem hún hafði haldið í gegnum árin. Þegar við kynntumst betur sáum við að við höfðum sömu andleg markmið. Ástin kviknaði milli okkar og hún óx og við giftum okkur í apríl 1955. Mary var að mörgu leyti gjöf frá Jehóva og góð fyrirmynd. Hún var alltaf ánægð með verkefnin sem hún fékk. Hún lagði hart að sér, var umhugað um aðra og hafði alltaf Guðsríki í fyrsta sæti í lífinu. (Matt. 6:33) Við vorum í farandstarfinu í þrjú ár og árið 1958 var okkur boðið að starfa á Betel.

Ég lærði margt af Mary. Fljótlega eftir að við giftum okkur ákváðum við að lesa Biblíuna saman, 15 vers í hvert skipti. Eftir að annað okkar hafði lesið töluðum við saman um versin og hvernig við gætum farið eftir þeim. Mary sagði mér oft frá því sem hún hafði lært í Gíleaðskólanum eða í trúboðsstarfinu. Þetta gaf mér innsæi og hjálpaði mér að verða betri ræðumaður og vita hvernig ég gæti uppörvað systur. – Orðskv. 25:11.

Mary mín féll frá 2013. Ég hlakka innilega til að sjá hana aftur í nýja heiminum. Þangað til held ég ótrauður áfram að læra og treysta Jehóva af öllu hjarta. (Orðskv. 3:5, 6) Það gefur mér gleði og huggun að velta því fyrir mér hvað þjónar Jehóva eiga eftir að gera í nýja heiminum. Við fáum örugglega enn frekari kennslu hjá okkar mikla kennara. Ég get ekki nógsamlega þakkað honum fyrir allt sem hann hefur kennt mér hingað til og einstaka góðvild sem hann hefur sýnt mér á svo marga vegu.