Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 48

SÖNGUR 97 Lífið er háð orði Guðs

Brauð fyrir kraftaverk

Brauð fyrir kraftaverk

„Ég er brauð lífsins. Sá sem kemur til mín verður ekki hungraður.“JÓH. 6:35.

Í HNOTSKURN

Það sem við getum lært af frásögunni í Jóhannesi 6. kafla þar sem sagt er frá því þegar Jesús gaf þúsundum að borða með fáeinum brauðum og fiskum.

1. Hvaða þýðingu hafði brauð fyrir fólk á biblíutímanum?

 BRAUÐ var uppistaðan í fæðu margra á biblíutímanum. (1. Mós. 14:18; Lúk. 4:4) Það var reyndar svo algengt að Biblían notar stundum orðið „brauð“ yfir mat almennt. (Matt. 6:11) Tvö af þekktum kraftaverkum Jesú snerust um brauð. (Matt. 16:9, 10) Við getum lesið um annað þeirra í Jóhannesi 6. kafla. Við ætlum að skoða hvað lærum af þessari frásögu og hvernig við getum farið eftir því.

2. Við hvaða aðstæður kom upp þörf fyrir mat?

2 Eftir að postularnir höfðu verið í boðunarferð með Jesú fóru þeir með honum á báti yfir Galíleuvatn til að hvíla sig. (Mark. 6:7, 30–32; Lúk. 9:10) Þeir komu á óbyggðan stað nálægt Betsaídu. En fljótlega þyrptust að þeim þúsundir manna. Jesús hunsaði þá ekki. Hann sýndi þeim góðvild og tók sér tíma til að fræða þá um Guðsríki og lækna veika. Þegar leið á daginn veltu lærisveinarnir fyrir sér hvernig allt þetta fólk gæti fengið eitthvað að borða. Sumir hafa ef til haft smávegis af mat meðferðis en flestir hafa þurft að fara í þorpin til að kaupa mat. (Matt. 14:15; Jóh. 6:4, 5) Hvað gerði Jesús?

JESÚS SÁ FYRIR BRAUÐI MEÐ KRAFTAVERKI

3. Hvernig brást Jesús við þörfum fólksins? (Sjá einnigmynd.)

3 Jesús sagði við postulana: „Fólkið þarf ekki að fara. Þið getið gefið því að borða.“ (Matt. 14:16) Það virtist ómögulegt því að um 5.000 karlar voru viðstaddir. Og ef konur og börn eru talin með gæti fólkið hafa verið um 15.000 talsins. (Matt. 14:21) Þá sagði Andrés: „Hér er drengur með fimm byggbrauð og tvo smáfiska en hvað er það handa svona mörgum?“ (Jóh. 6:9) Byggbrauð voru algeng fæða fátækra sem og annarra og smáfiskarnir hafa ef til vill verið saltaðir og þurrkaðir. En þetta leit ekki út fyrir að vera nóg til að gefa svona mörgum að borða.

Jesús annaðist bæði líkamlegar og andlegar þarfir fólksins. (Sjá 3. grein.)


4. Hvað getum við lært af Jóhannesi 6:11–13? (Sjá einnig myndir.)

4 Jesús vildi sýna fólkinu gestrisni og bauð því að skipta sér í hópa og setjast í grasið. (Mark. 6:39, 40; lestu Jóhannes 6:11–13.) Síðan þakkaði Jesús föður sínum fyrir brauðið og fiskinn. Það var mjög viðeigandi að þakka Guði því að hann er sá sem sér okkur fyrir fæðu. Við viljum að sjálfsögðu fylgja fordæmi Jesú og fara með bæn áður en við borðum, hvort sem við erum ein eða með öðrum. Jesús lét síðan dreifa matnum og allir fengu nóg að borða. Það voru meira að segja afgangar sem Jesús vildi ekki að færu til spillis. Hann lét því safna þeim saman til að nota síðar. Jesús setti okkur gott fordæmi í að fara vel með það sem við eigum. Ef þú átt börn geturðu skoðað þessa frásögu með þeim og kennt þeim ýmislegt um bæn, gestrisni og örlæti.

Spyrðu þig: Fylgi ég fordæmi Jesú og fer með bæn áður en ég borða? (Sjá 4. grein.)


5. Hvað vildi fólkið gera eftir að það sá kraftaverk Jesú og hvernig brást Jesús við því?

5 Fólkið var undrandi á kennslu Jesú og kraftaverkunum sem hann gerði. Það vissi að Móse hafði sagt að Guð myndi skipa sérstakan spámann og það gæti því hafa velt fyrir sér hvort Jesús væri þessi spámaður. (5. Mós. 18:15–18) Fólkið ályktaði líklega að Jesús yrði stórkostlegur stjórnandi og gæti jafnvel brauðfætt alla þjóðina. Fólkið gerði sig því líklegt til að „taka [Jesú] með valdi til að gera hann að konungi“. (Jóh. 6:14, 15) Ef hann hefði leyft það hefði hann blandað sér í stjórnmál Gyðinga sem voru undir stjórn Rómverja. Hvað gerði Jesús? Hann tók skýra afstöðu og ‚fór upp á fjallið‘. Hann blandaði sér því ekki í stjórnmál þrátt fyrir þrýsting annarra. Þetta er skýr kennsla fyrir okkur.

6. Hvernig getum við líkt eftir Jesú? (Sjá einnig mynd.)

6 Við verðum auðvitað ekki beðin um að sjá fyrir mat með kraftaverki eða lækna aðra. Og það verður heldur ekki þrýst á okkur að verða þjóðarleiðtogar eða konungar. En fólk gæti þrýst á okkur að taka pólitíska afstöðu með því að kjósa eða sýna einstaklingi stuðning sem það álítur geta stuðlað að betrumbótum. En Jesús setti skýrt fordæmi. Hann neitaði að blanda sér í pólitísk deilumál og sagði jafnvel síðar: „Ríki mitt tilheyrir ekki þessum heimi.“ (Jóh. 17:14; 18:36) Við sem erum kristin viljum líkja eftir Jesú í hugsun og verki. Við styðjum ríki Guðs, berum vitni um það og biðjum að það komi. (Matt. 6:10) En snúum okkur aftur að frásögunni af því þegar Jesús sá fólki fyrir brauði með kraftaverki og sjáum hvað fleira við getum lært.

Jesús setti fylgjendum sínum fordæmi þegar hann blandaði sér ekki í stjórnmál Gyðinga eða Rómverja. (Sjá 6. grein.)


„HVAÐ ÞAÐ MERKTI SEM GERÐIST MEÐ BRAUÐIN“

7. Hvað gerðu Jesús og postularnir? (Jóhannes 6:16–20)

7 Eftir að Jesús gaf mannfjöldanum að borða sagði hann postulunum að fara aftur til Kapernaúm með báti en sjálfur fór hann upp á fjallið til að koma í veg fyrir að mannfjöldinn gerði hann að konungi. (Lestu Jóhannes 6:16–20.) Þegar postularnir reru á vatninu gerði mikinn storm með tilheyrandi öldugangi. Þá kom Jesús til þeirra gangandi á vatninu. Hann bauð Pétri postula að ganga með sér á vatninu. (Matt. 14:22–31) Þegar Jesús steig um borð í bátinn lægði vindinn. Lærisveinarnir voru agndofa og sögðu: „Þú ert sannarlega sonur Guðs.“ a (Matt. 14:33) Það er athyglisvert að lærisveinarnir sögðu þetta eftir að Jesús gekk á vatninu en ekki eftir að hann gaf mannfjöldanum að borða fyrir kraftaverk. Markús sagði um sama atburð: „[Postularnir] urðu agndofa því að þeir höfðu ekki skilið hvað það merkti sem gerðist með brauðin og hjörtu þeirra voru enn skilningssljó.“ (Mark. 6:50–52) Þeir skildu ekki hversu stórkostlegan mátt Jehóva hafði gefið Jesú til að vinna kraftaverk. Fljótlega eftir þetta minnti hann þá á kraftaverkið með brauðið. Við getum dregið dýrmætan lærdóm af því.

8, 9. Hvers vegna leitaði mannfjöldinn að Jesú? (Jóhannes 6:26, 27)

8 Fólkinu sem Jesús hafði gefið að borða var efst í huga að fullnægja líkamlegum þörfum sínum og löngunum. Daginn eftir sá það að Jesús og postularnir voru farnir. Fólkið fór um borð í báta sem höfðu komið frá Tíberías og hélt til Kapernaúm til að leita að Jesú. (Jóh. 6:22–24) Vildi fólkið heyra meira um Guðsríki? Nei. Það var fyrst og fremst að hugsa um að fá brauð. Hvernig vitum við það?

9 Tökum eftir hvað gerðist þegar fólkið fann Jesú nálægt Kapernaúm. Jesús sagði fólkinu hreinskilnislega að það hugsaði fyrst og fremst um líkamlegar þarfir sínar. Hann sagði að fólkið hefði ‚etið af brauðinu og orðið satt‘ af „fæðu sem eyðist“. Hann sagði því að vinna frekar fyrir „fæðu sem endist og veitir eilíft líf“. (Lestu Jóhannes 6:26, 27.) Jesús sagði að faðir hans sæi fyrir slíkri fæðu. Hugmyndin um að matur gæti fært þeim eilíft líf hlýtur að hafa vakið undrun. Hvaða fæða gæti gert það og hvernig gætu áheyrendur Jesú orðið sér úti um hana?

10. Um hvaða „verk Guðs“ þurfti fólkið að læra?

10 Gyðingunum fannst augljóslega að þeir þyrftu að vinna ákveðin verk til að geta fengið slíka fæðu. Þeir voru ef til vill að hugsa um „verk“ samkvæmt Móselögunum. En Jesús sagði þeim: „Guð vill að þið trúið á þann sem hann sendi.“ (Jóh. 6:28, 29) Að trúa á fulltrúa Guðs er nauðsynlegt til að hljóta „eilíft líf“. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Jesús sagði það. (Jóh. 3:16–18, 36) Og hann átti síðar eftir að tala meira um hvernig við öðlumst eilíft líf. – Jóh. 17:3.

11. Hvernig sást að Gyðingarnir hugsuðu enn þá bara um að fá bókstaflega fæðu? (Sálmur 78:24, 25)

11 Þessir Gyðingar voru ekki móttækilegir fyrir því sem Jesús sagði um „verk Guðs“. Þeir spurðu hann: „Hvaða tákn gerirðu svo að við getum séð það og trúað þér?“ (Jóh. 6:30) Þeir sögðu að forfeður þeirra á dögum Móse hefðu fengið manna, sem mætti líkja við brauð. (Neh. 9:15; lestu Sálm 78:24, 25.) Þeir voru greinilega fastir í þeirri hugsun að fá bókstaflegt brauð. Og þegar Jesús talaði næst um „hið sanna brauð af himni“, sem gat ólíkt manna gefið þeim eilíft líf, spurðu þeir ekki einu sinni hvað hann átti við. (Jóh. 6:32) Þeir voru svo uppteknir af líkamlegum þörfum sínum að þeir hunsuðu andlegu sannindin sem Jesús var að reyna að kenna þeim. Hvað lærum við af þessari frásögu?

HVAÐ ÆTTI AÐ VERA OKKUR MIKILVÆGAST?

12. Hvernig benti Jesús á hvað væri mikilvægast?

12 Við lærum mikilvægan hlut í Jóhannesi 6. kafla. Að hlýða Guði og eiga gott samband við hann ætti að vera það mikilvægasta í lífi okkar. Jesús benti einmitt á þetta þegar Satan freistaði hans. (Matt. 4:3, 4) Og í fjallræðunni lagði hann áherslu á að skynja andlega þörf sína. (Matt. 5:3) Við ættum því að spyrja okkur: Sýni ég með lífi mínu að ég leggi meiri áherslu á að uppfylla andlegar þarfir mínar en líkamlegar langanir?

13. (a) Hvers vegna er ekki rangt að njóta þess að borða? (b) Hvað þurfum við að varast? (1. Korintubréf 10:6, 7, 11)

13 Það er viðeigandi að biðja Guð að sinna líkamlegum þörfum okkar og það er ekki rangt að njóta þess sem hann veitir okkur. (Lúk. 11:3) Biblían segir að það sé gott að „borða og drekka og njóta erfiðis síns“ og að það komi „úr hendi hins sanna Guðs“. (Préd. 2:24; 8:15; Jak. 1:17) En við verðum að passa að efnislegir hlutir verði ekki það mikilvægasta í lífi okkar. Páll postuli lagði áherslu á það þegar hann skrifaði til kristinna manna. Hann rifjaði upp atburði í sögu Ísraelsþjóðarinnar, þar á meðal það sem gerðist skammt frá Sínaífjalli. Hann varaði kristna menn við því að „girnast það sem er illt eins og [Ísraelsmenn] gerðu“. (Lestu 1. Korintubréf 10:6, 7, 11.) Jehóva hafði séð Ísraelsmönnum fyrir mat með kraftaverki en græðgi þeirra í mat fékk þá til að líta á ráðstafanir Jehóva sem illar. (4. Mós. 11:4–6, 31–34) Þegar þeir tilbáðu gullkálfinn sýndu þeir að þeir hugsuðu meira um að borða, drekka og skemmta sér en að hlýða Jehóva. (2. Mós. 32:4–6) Páll vitnaði í þessi dæmi til viðvörunar kristnum mönnum sem lifðu við endalok heimsskipanar Gyðinga árið 70. Við lifum við endalok núverandi heimsskipanar og ættum því að taka ráð Páls alvarlega.

14. Hverju megum við búast við í nýja heiminum varðandi mat?

14 Þegar Jesús kenndi okkur að biðja um „brauð fyrir daginn í dag“ sagði hann okkur líka að biðja um að vilji Guðs yrði gerður „á jörð eins og á himni“. (Matt. 6:9–11) Hvernig sérðu lífið fyrir þér þegar það verður? Biblían gefur til kynna að vilji Guðs á jörðinni feli meðal annars í sér að fólk njóti góðs matar. Samkvæmt Jesaja 25:6–8 verður meira en nóg af ljúffengum mat fyrir alla undir stjórn Guðsríkis. Og í Sálmi 72:16 segir: „Gnóttir korns verða á jörðinni, jafnvel á fjallatindunum vex það í ríkum mæli.“ Hlakkar þú til að nota þetta korn til að baka uppáhaldsbrauðið þitt eða prófa nýjar uppskriftir? Auk þess geturðu notið ávaxta víngarðanna sem þú hefur plantað. (Jes. 65:21, 22) Og allir jarðarbúar munu njóta þess sama.

15. Hvaða menntun hljóta þeir sem fá upprisu? (Jóhannes 6:35)

15 Lestu Jóhannes 6:35. Hvað bíður þeirra sem borðuðu af brauðinu og fiskinum sem Jesús sá fyrir? Kannski hittir þú einhverja þeirra í upprisunni. Þó að margir þeirra trúðu ekki á Jesú fá þeir ef til vill upprisu. (Jóh. 5:28, 29) En þeir þurfa að skilja hvað Jesús átti við þegar hann sagði: „Ég er brauð lífsins. Sá sem kemur til mín verður ekki hungraður.“ Þeir þurfa að byggja upp trú á lausnarfórn Jesú, að hann hafi gefið líf sitt fyrir þá. Þeir ásamt þeim börnum sem fæðast í nýja heiminum munu kynnast sannleikanum um Jehóva og fyrirætlun hans. Það verður frábært að fá að taka þátt í þessu fræðslustarfi – enn ánægjulegra en að njóta góðrar líkamlegrar fæðu.

16. Hvað skoðum við í næstu námsgrein?

16 Við höfum skoðað hluta frásögunnar í Jóhannesi 6. kafla en Jesús hafði miklu meira að segja um „eilíft líf“. Það verðskuldaði athygli Gyðinganna og verðskuldar athygli okkar núna. Við höldum áfram að fjalla um Jóhannes 6. kafla í næstu námsgrein.

SÖNGUR 20 Þú gafst þinn kæra son

a Nánari upplýsingar um þessa spennandi frásögu er að finna í bókunum Jesus – The Way, the Truth, the Life, bls. 131 og Imitate Their Faith, bls. 185.