Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 50

SÖNGUR 135 Jehóva hvetur: „Vertu vitur, sonur minn.“

Foreldrar – hjálpið barninu ykkar að styrkja trú sína

Foreldrar – hjálpið barninu ykkar að styrkja trú sína

„Þið getið sannreynt hver sé hinn góði og fullkomni vilji Guðs og hvað honum sé þóknanlegt.“RÓMV. 12:2.

Í HNOTSKURN

Ráð handa foreldrum til að eiga góð samskipti við barnið sitt og hjálpa því að styrkja trú sína á Guð og Biblíuna.

1, 2. Hvað ætti foreldrum að finnast um spurningar barns um Guð og Biblíuna?

 MARGIR eru sammála því að það sé mikil vinna að ala upp barn. Ef þú átt ungt barn ertu örugglega að gera allt sem þú getur til að styrkja trú þess og það gleður Jehóva. (5. Mós. 6:6, 7) Þegar barnið vex úr grasi spyr það kannski mikilvægra spurninga um trúarskoðanir okkar, eins og varðandi siðferðismælikvarða Biblíunnar.

2 Spurningar barnsins valda þér kannski áhyggjum. Þú gætir jafnvel ályktað að barnið hefði ekki nógu sterka trú. En barn sem er að þroskast þarf að spyrja spurninga til að styrkja trú sína. (1. Kor. 13:11) Það er engin ástæða til að vera áhyggjufullur. Þú getur notað tækifærið þegar barnið spyr einlægra spurninga til að hjálpa því að þroska dómgreindina.

3. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

3 Í þessari námsgrein skoðum við hvernig foreldrar geta hjálpað barni sínu eða börnum að (1) byggja upp sína eigin sannfæringu, (2) læra að meta siðferðismælikvarða Biblíunnar og (3) verja trú sína. Við skoðum líka hvers vegna það er jákvætt að barnið spyrji spurninga og hvað foreldrar geta gert með börnum sínum sem býður upp á tækifæri til að tala um trúna.

HJÁLPAÐU BARNINU AÐ BYGGJA UPP EIGIN SANNFÆRINGU

4. Hvaða spurningar gæti barn spurt og hvers vegna?

4 Kristnir foreldrar gera sér ljóst að börn fá ekki sjálfkrafa sterka trú. Þú fæddist ekki með trú á Jehóva og ekki barnið þitt heldur. Barnið gæti farið að spyrja spurninga eins og: Hvernig get ég vitað að Guð sé til? Er hægt að treysta Biblíunni? Í Biblíunni erum við hvött til að byggja trú „á skynsemi“ og ‚sannreyna allt‘. (Rómv. 12:1; 1. Þess. 5:21) Hvernig geturðu hjálpað barni þínu að styrkja trúna?

5. Hvernig geta foreldrar hjálpað barni sínu að trúa því sem segir í Biblíunni? (Rómverjabréfið 12:2)

5 Hvettu barnið þitt til að sannreyna sannleikann. (Lestu Rómverjabréfið 12:2.) Notaðu tækifærið þegar barnið þitt spyr spurninga til að sýna því hvernig það sjálft getur fundið svörin með því að nota leitarverkfæri eins og Efnislykilinn að ritum Votta Jehóva. Með því að leita undir „Biblían“ og síðan „innblásin af Guði“ er hægt að finna sannanir fyrir því að Biblían sé ekki einungis góð bók skrifuð af mönnum heldur ‚orð Guðs‘. (1. Þess. 2:13) Það gæti verið hugmynd að fá barnið til að lesa um Níníve, hina fornu borg Assýringa. Áður fyrr héldu sumir biblíugagnrýnendur því fram að Níníve hefði aldrei verið til. En um árið 1850 fundust rústir hennar og þær staðfestu áreiðanleika Biblíunnar. (Sef. 2:13–15) Barnið gæti líka lesið greinina „Vissir þú?“ í Varðturninum í nóvember 2021 til að sjá hvernig eyðing Níníve uppfyllti spádóm í Biblíunni. Með því að bera saman það sem segir í ritum okkar og það sem er að finna í alfræðibókum og öðrum áreiðanlegum heimildum getur barnið styrkt þá sannfæringu sína að Biblían fari með rétt mál.

6. Hvernig getur foreldri hjálpað barni sínu að sjá sannanir fyrir því að Biblían sé nákvæm? Nefndu dæmi. (Sjá einnig mynd.)

6 Hjálpaðu barninu þínu að sannreyna að Biblían sé nákvæm. Foreldrum gefast alls konar tækifæri til að tala við börnin sín um Biblíuna og trúna á Guð. Hægt er að heimsækja safn, almenningsgarð, grasagarð eða fara í skoðunarferð á deildarskrifstofu Votta Jehóva. Þegar þið farið á safn, hvort sem þið heimsækið það eða skoðið á netinu, gætirðu bent barninu þínu á sögulega atburði eða hluti sem geta styrkt trú þess á að Biblían sé nákvæm. Veit barnið þitt að nafn Guðs er að finna á 3000 ára gamalli steinhellu sem kallast Móabítasteinninn? Upprunalegi Móabítasteinninn er til sýnis á Louvre-safninu í París í Frakklandi. Eftirmynd hans er til sýnis á sýningunni „Biblían og nafn Guðs“ í höfuðstöðvum Votta Jehóva í Warwick í New York. Móabítasteinninn segir frá uppreisn Mesa, konungs í Móab, gegn Ísrael. Það er í samræmi við það sem segir í Biblíunni. (2. Kon. 3:4, 5) Þegar barnið sér sannanir fyrir áreiðanleika Biblíunnar og nákvæmni fær það sterkari trú. – Samanber 2. Kroníkubók 9:6.

Gætirðu styrkt trú barns þíns með því að sýna því hluti sem er að finna á söfnum? (Sjá 6. grein.)


7, 8. (a) Hvað getum við lært af fegurðinni og hönnuninni í náttúrunni? Nefndu dæmi. (Sjá einnig mynd.) (b) Hvaða spurningar geta styrkt trú barnsins þíns á skapara?

7 Hvettu barnið til að skoða náttúruna. Bentu barninu á áhugaverð mynstur sem er að finna í náttúrunni þegar þið gangið úti eða vinnið saman í garðinum. Þessi mynstur endurspegla hugvit og hönnun. Vísindamenn hafa til dæmis í mörg ár rannsakað skrúfulaga mynstur í náttúrunni. Vísindamaðurinn Nicola Fameli segir að skrúfulaga form séu áberandi í náttúrunni. Þegar þau eru skoðuð nánar kemur ákveðin talnaruna í ljós sem einkennir þessi form. Hún hefur verið kölluð Fibonacci-talnarunan. Skrúfulaga form er til dæmis að finna í lögun vetrarbrauta, skel perlusnekkjunnar, laufblöðum og krónu sólblóma. a

8 Þegar barnið þitt lærir meira um vísindi í skólanum uppgötvar það að ákveðin lögmál ráða lögun margra hluta í náttúrunni. Hvert snjókorn myndast í samræmi við ákveðið stærðfræðilegt mynstur sem er endurtekið aftur og aftur. Slík mynstur er líka að finna annars staðar í náttúrunni. En hver bjó til formúluna á bak við þessi fallegu mynstur? Þegar barnið grandskoðar þessa stórkostlegu hluti sem Jehóva hefur skapað hjálpar það því að styrkja trú sína. (Hebr. 3:4) Þegar barnið stálpast þarftu líka að hjálpa því að skilja hvers vegna það er mikilvægt að hlýða siðferðisreglum Guðs. Þú getur spurt barnið: Veit Guð ekki best hvað við þurfum að gera til að vera hamingjusöm ef hann skapaði okkur? Síðan geturðu bent á að Guð gaf okkur Biblíuna til að leiðbeina okkur í lífinu.

NASA, ESA og Hubble Heritage (STScl/AURA)-ESA/Hubble Collaboration

Hver stendur á bak við fegurðina og hönnunina sem við sjáum í náttúrunni? (Sjá 7. og 8. grein.)


HJÁLPAÐU BARNINU AÐ META SIÐFERÐISMÆLIKVARÐA BIBLÍUNNAR AÐ VERÐLEIKUM

9. Hvers vegna gæti barn dregið siðferðismælikvarða Biblíunnar í efa?

9 Barnið þitt gæti dregið siðferðismælikvarða Biblíunnar í efa. Reyndu að komast að því hvers vegna það hugsar þannig. Er það í raun ósammála siðferðisreglunum eða er málið frekar að barnið veit ekki hvernig það á að svara fyrir trúarskoðanir sínar? Hvort heldur er geturðu hjálpað barninu að skilja hvers vegna er gott að hlýða siðferðismælikvarða Biblíunnar með því að rannsaka saman efni bókarinnar Von um bjarta framtíð. b

10. Hvernig geturðu hvatt barnið þitt til að verða vinur Jehóva?

10 Hvettu barnið þitt til að gera Jehóva að besta vini sínum. Þegar þú rannsakar Biblíuna með barninu þínu skaltu nota viðhorfsspurningar og myndir í bókinni Von um bjarta framtíð til að hvetja það til að tjá sig. (Orðskv. 20:5) Í 8. kafla er Jehóva líkt við umhyggjusaman vin sem varar okkur við hættum og vill okkur vel. Eftir að hafa rætt um 1. Jóhannesarbréf 5:3 gætirðu spurt: Hvað ætti okkur að finnast um það sem Jehóva segir okkur að gera fyrst hann er góður vinur? Þetta virðist kannski einföld spurning en hún gæti örvað barnið þitt til að líta á lög Guðs sem sönnun fyrir því að hann elski það. – Jes. 48:17, 18.

11. Hvernig geturðu hjálpað barninu þínu að skilja að það er gott að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar? (Orðskviðirnir 2:10, 11)

11 Ræðið saman um gagnsemi þess að fylgja meginreglum Biblíunnar. Þegar þið lesið dagstextann eða biblíuvers ræðið þá hvernig meginreglur Biblíunnar hafa gert fjölskyldunni gott. Þú getur bent barninu á gildi þess að vera vinnusamur og heiðarlegur. (Hebr. 13:18) Þú getur líka útskýrt hvernig meginreglur Biblíunnar stuðla að betri heilsu og hamingju. (Orðskv. 14:29, 30) Þegar þið ræðið þannig saman skilur barnið trúlega betur hversu gott er að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. – Lestu Orðskviðina 2:10, 11.

12. Hvernig hjálpar faðir syni sínum að meta betur ráð Biblíunnar?

12 Steve, bróðir í Frakklandi, greinir frá því hvernig þau hjónin hjálpa Ethani syni sínum að skilja hvernig lög Jehóva byggjast á kærleika: „Við spyrjum hann spurninga eins og: Hvers vegna ætli Jehóva vilji að við fylgjum þessum fyrirmælum? Hvernig sýnir þetta að hann elskar okkur? Hvað myndi gerast ef þú færir ekki eftir þessari meginreglu?“ Slíkar samræður hafa hjálpað Ethani að tileinka sér meginreglur Jehóva. Steve bætir við: „Við reynum að hjálpa Ethani að skilja að Biblían hefur að geyma visku sem er langtum æðri visku manna.“

13. Hvernig geta foreldrar kennt barni sínu að fylgja meginreglum Biblíunnar? Nefndu dæmi.

13 Kenndu barninu þínu að fylgja meginreglum Biblíunnar. Barnið þitt gæti fengið heimaverkefni í skólanum að lesa ákveðna bók. Sögupersónurnar eru kannski siðlausar eða ofbeldishneigðar og gefið er í skyn að slík hegðun sé í góðu lagi. Þú gætir hvatt barnið til velta því fyrir sér hvað Jehóva finnst um slíka hegðun. (Orðskv. 22:24, 25; 1. Kor. 15:33; Fil. 4:8) Þá gæti barnið átt auðveldara með að útskýra trúarskoðanir sínar þegar efni bókarinnar er rætt í kennslustund.

BÚÐU BARNIÐ ÞITT UNDIR AÐ VERJA TRÚARSKOÐANIR SÍNAR

14. Hvað gæti ungum einstaklingi fundist erfitt að ræða við aðra og hvers vegna?

14 Ungt fólk skortir stundum sjálfstraust til að verja trú sína. Það gæti orðið óöruggt þegar þróunarkenningin er til umræðu í tímum. Kennarar halda því stundum fram að þróun sé staðreynd en ekki kenning. Ef þú ert foreldri hvernig geturðu hjálpað barninu þínu að hvika ekki frá sannfæringu sinni?

15. Hvað getur hjálpað ungum einstaklingi að vera sannfærður um að trú hans sé rétt?

15 Hjálpaðu barninu þínu að styrkja sannfæringu sína. Barnið þarf ekki að skammast sín fyrir að trúa á skapara. (2. Tím. 1:8) Staðreyndin er sú að margir vísindamenn álykta að lífið hafi ekki orðið til fyrir tilviljun eða af sjálfu sér. Þeir viðurkenna að einhver skynsemigæddur hönnuður hljóti að hafa skapað allt þetta fjölbreytta líf. Fyrir vikið viðurkenna þeir ekki þróunarkenninguna sem er almennt kennd í skólum um allan heim. Barnið getur sannfærst enn frekar með því að kynna sér hvað hefur sannfært aðra bræður og systur um að lífið hafi verið skapað. c

16. Hvernig geta foreldrar hjálpað barni sínu að verja trú sína á skapara? (1. Pétursbréf 3:15) (Sjá einnig mynd.)

16 Búðu barnið undir að verja trú sína á skapara. (Lestu 1. Pétursbréf 3:15.) Þér gæti fundist gagnlegt að skoða með barninu greinar á jw.org í greinaröðinni „Ungt fólk spyr – sköpun eða þróun?“ Barnið getur síðan valið þau rök sem því finnst gott að nota til að benda öðrum á að til sé skapari. Æfið saman hvernig hægt er að færa rök fyrir trúnni. Minntu barnið á að fara ekki út í þrætur við skólafélagana. Hvettu það til að nota einföld rök ef einhver sýnir áhuga á að ræða málin. Skólafélagi gæti sagt: „Ég trúi bara því sem ég sé og ég hef aldrei séð Guð.“ Barnið gæti sagt: „Ímyndaðu þér að þú gangir í skógi langt frá mannabyggð og rekist á kofa. Hvað myndirðu álykta? Einhver hlýtur að hafa byggt kofann. Það sama á við um plánetuna okkar og allt líf á henni. Einhver hlýtur að hafa skapað það allt!“

Notaðu einföld rök þegar þú talar við skólafélagana. (Sjá 16. og 17. grein.) d


17. Hvernig geta foreldrar hjálpað barni að finna leiðir til að segja öðrum frá sannindum Biblíunnar? Nefndu dæmi.

17 Hvettu barnið til að finna leiðir til að segja öðrum frá sannindum Biblíunnar. (Rómv. 10:10) Að segja öðrum frá trúnni má líkja við það að læra að spila á hljóðfæri. Í fyrstu æfir maður lög sem er auðvelt að spila. Með tímanum verður auðveldara að leika á hljóðfæri. Eins gæti ung manneskja byrjað að boða trúna með einföldum hætti. Hún gæti spurt skólafélaga: „Vissirðu að verkfræðingar líkja oft eftir hönnun í náttúrunni? Má ég sýna þér flott myndband?“ Eftir að hafa sýnt myndband í þáttaröðinni Býr hönnun að baki? væri hægt að segja: „Ef vísindamaður fær lof fyrir hönnun sem er þegar til í náttúrunni hver á þá skilið lof fyrir upprunalegu útgáfuna?“ Einföld nálgun eins og þessi gæti vakið áhuga ungrar manneskju á að kynnast Jehóva.

HJÁLPAÐU BARNINU AÐ STYRKJA TRÚ SÍNA

18. Hvernig geta foreldrar styrkt trú barns síns á Guð?

18 Við búum í heimi sem er fullur af fólki sem trúir ekki á Jehóva. (2. Pét. 3:3) Foreldrar, þegar þið lesið Biblíuna með barninu ykkar skuluð þið hvetja það til að rannsaka viðfangsefni sem auka virðingu þess fyrir Biblíunni og siðferðisreglum Guðs. Hjálpaðu barninu að styrkja trúna á Jehóva með því að benda á ýmislegt í sköpunarverki hans og tala um það. Sýndu því hvernig stórmerkilegir biblíuspádómar hafa uppfyllst. Og það sem mikilvægast er, biddu með barninu og biddu Jehóva að hjálpa því. Þú getur verið viss um að hann launi þér viðleitnina að hjálpa barninu að styrkja trú sína. – 2. Kron. 15:7.

SÖNGUR 133 Tilbiðjum Jehóva á æskuárunum

a Horfðu á myndbandið Undur sköpunarverksins opinbera dýrð Guðs - mynstur á jw.org til að fá frekari upplýsingar.

b Ef barnið þitt hefur farið yfir bókina Von um bjarta framtíð gætuð þið rifjað upp nokkra kafla í 3. og 4. hlutanum þar sem er fjallað um siðferðismælikvarða Biblíunnar.

c Sjá greinina „Hvers vegna við trúum á skapara“ í Vaknið! í september 2006 og bæklinginn Uppruni lífsins – fimm áhugaverðar spurningar. Þú finnur fleiri dæmi í þáttaröðinni Viðhorf til uppruna lífsins á jw.org.

d MYND: Ungur vottur sýnir skólafélaga sem hefur áhuga á drónum myndband í þáttaröðinni Býr hönnun að baki?