Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 49

SÖNGUR 147 Loforð um eilíft líf

Hvernig geturðu fengið eilíft líf ?

Hvernig geturðu fengið eilíft líf ?

„Allir sem viðurkenna soninn og trúa á hann [hljóta] eilíft líf.“JÓH. 6:40.

Í HNOTSKURN

Námsgreinin fjallar um hvernig bæði hinir andasmurðu og aðrir sauðir njóta gagns af lausnarfórn Jesú Krists.

1. Hvað finnst sumum um að lifa að eilífu?

 MARGIR hugsa um mataræðið og stunda líkamsrækt til að stuðla að góðri heilsu. En þeir vita samt að það kemur ekki í veg fyrir að þeir eldist og deyi að lokum. Eilíft líf er hvorki raunhæft né eftirsóknarvert í huga þeirra. En Jesús talaði um að menn gætu fengið „eilíft líf“, eins og kemur fram í Jóhannesi 3:16 og 5:24.

2. Hvað segir um eilíft líf í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls? (Jóhannes 6:39, 40)

2 Eins og við sáum í námsgreininni á undan gaf Jesús þúsundum manna brauð og fisk að borða með kraftaverki. (Jóh. 6:5–35) Það var mjög sérstakt. Það sem hann sagði daginn eftir við hóp fólks sem fylgdi honum til Kapernaúm, sem er við Galíleuvatn, var enn merkilegra. Hann sagði að hann myndi reisa fólk upp frá dauðum og að það gæti lifað að eilífu. (Lestu Jóhannes 6:39, 40.) Hugsaðu þér hvaða þýðingu það hefur fyrir vini þína og ástvini sem þú hefur misst. Það sem Jesús sagði gefur til kynna að margir sem eru dánir fái upprisu og bæði þú og ástvinir þínir getið hlotið eilíft líf. En það sem hann segir í framhaldinu í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls hefur vafist fyrir mörgum. Lítum nánar á það sem hann sagði.

3. Hvað segir Jesús samkvæmt Jóhannesi 6:51?

3 Eftir að Jesús hafði gefið fólkinu brauð að borða tengdi það brauðið við mannað sem Jehóva hafði gefið Ísraelsmönnum í óbyggðunum öldum áður. Í Biblíunni er þetta manna kallað „brauð af himni“. (Sálm. 105:40; Jóh. 6:31) Jesús benti Gyðingum því næst á að forfeður þeirra sem fengu manna fyrir kraftaverk hafi samt allir dáið að lokum. (Jóh. 6:49) En Jesús kallaði sjálfan sig „hið sanna brauð af himni“, „brauð Guðs“ og „brauð lífsins“. (Jóh. 6:32, 33, 35) Hann benti á grundvallarmun á mannanu og sjálfum sér. Hann sagði: „Ég er hið lifandi brauð sem kom niður af himni. Sá sem borðar af þessu brauði lifir að eilífu.“ (Lestu Jóhannes 6:51.) Þetta ruglaði Gyðingana í ríminu. Hvernig gat Jesús haldið því fram að hann væri „brauð“ sem hefði komið niður af himni og að þetta brauð væri betra en mannað sem Guð hafði gefið forfeðrum þeirra? Jesús sagði þá: „Brauðið er hold mitt“. Hvað átti hann við? Það er mikilvægt að skilja það af því að svarið leiðir í ljós hvernig við og ástvinir okkar getum hlotið eilíft líf. Skoðum hvað Jesús átti við.

BRAUÐ LÍFSINS OG HOLD HANS

4. Af hverju komust sumir í uppnám yfir því sem Jesús sagði?

4 Sumir áheyrenda Jesú komust í uppnám þegar hann sagðist ætla að gefa hold sitt heiminum til lífs. Héldu þeir kannski að hann ætlaði að gefa þeim bókstaflegt hold sitt að borða? (Jóh. 6:52) Það sem Jesús sagði næst olli þeim örugglega enn meiri heilabrotum. Hann sagði: „Ef þið borðið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans hafið þið ekki líf í ykkur.“ – Jóh. 6:53.

5. Hvernig vitum við að Jesús átti ekki við að fólk ætti að drekka blóð hans í bókstaflegum skilningi?

5 Á dögum Nóa bannaði Guð mönnum að neyta blóðs. (1. Mós. 9:3, 4) Jehóva endurtók þessi fyrirmæli í lögunum sem hann gaf Ísrael til forna. Sá sem borðaði blóð skyldi „tekinn af lífi“. (3. Mós. 7:27, neðanmáls) Jesús hvatti Gyðinga til að fylgja öllum lögum Guðs. (Matt. 5:17–19) Það er því óhugsandi að hann myndi hvetja Gyðinga til að borða bókstaflegt hold sitt og drekka blóð sitt. Jesús var aftur á móti að kenna fólki hvernig það gæti hlotið líf – „eilíft líf“. – Jóh. 6:54.

6. Hvernig ber að skilja orð Jesú um að borða hold hans og drekka blóð hans?

6 Það er augljóst að Jesús notaði myndmál við þetta tækifæri, rétt eins og þegar hann sagði við samversku konuna nokkru áður: „Sá sem drekkur af vatninu sem ég gef honum verður aldrei þyrstur framar því að vatnið sem ég gef honum verður að uppsprettu í honum sem streymir fram og veitir eilíft líf.“ (Jóh. 4:7, 14) a Jesús var ekki að gefa í skyn að samverska konan gæti fengið eilíft líf með því einfaldlega að drekka venjulegt vatn úr ákveðnum brunni. Hann var heldur ekki að segja að mannfjöldinn sem hann talaði við í Kapernaúm myndi lifa að eilífu með því að borða bókstaflega hold hans og drekka blóð hans.

ÓLÍKAR AÐSTÆÐUR

7. Hvernig skilja sumir orð Jesú í Jóhannesarguðspjalli 6:53?

7 Sumt trúað fólk heldur því fram að þegar Jesús talaði um að borða hold sitt og drekka blóð sitt í Jóhannesi 6:53 hafi hann verið að útskýra hvað ætti að gera við kvöldmáltíð Drottins vegna þess að hann notaði svipað orðalag við það tækifæri. (Matt. 26:26–28) Þetta fólk segir að allir sem sækja kvöldmáltíð Drottins ættu að taka af brauðinu og víninu þegar það er látið ganga milli viðstaddra. Á að gera það? Það er mikilvægt að vita hið rétta í málinu vegna þess að árlega sækja milljónir manna um allan heim þennan viðburð með okkur. Við eigum eftir að sjá að það sem Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli 6:53 merkir ekki það sama og hann sagði við kvöldmáltíð Drottins.

8. Hvað er ólíkt við þessar tvennar aðstæður? (Sjá einnig myndir.)

8 Skoðum tvennt sem er ólíkt við þessar tvennar aðstæður. Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á hvar og hvenær Jesús sagði það sem kemur fram í Jóhannesi 6:53–56. Hann var að tala við hóp Gyðinga í Galíleu árið 32. Það var um ári áður en hann stofnsetti kvöldmáltíð Drottins í Jerúsalem. Í öðru lagi þurfum við að vita hverja hann var að tala við. Flestir áheyrenda hans í Galíleu höfðu meiri áhuga á að fullnægja stundlegum líkamlegum þörfum en að sinna andlegum þörfum sínum. (Jóh. 6:26) Þeir hættu fljótlega að hlusta á Jesú þegar hann talaði um það sem þeim fannst erfitt að skilja. Sumir lærisveina hans hættu jafnvel að fylgja honum. (Jóh. 6:14, 36, 42, 60, 64, 66) Berum þennan atburð saman við það sem gerðist um ári síðar árið 33 við kvöldmáltíð Drottins. Þeir stóðu með honum við þetta tækifæri þótt þeir skildu ekki til fulls allt sem hann kenndi þeim. Ólíkt flestum í Galíleu voru trúfastir postular Jesú sannfærðir um að hann væri sonur Guðs kominn frá himnum. (Matt. 16:16) Hann hrósaði þeim og sagði: „Það eruð þið sem hafið staðið með mér í prófraunum mínum.“ (Lúk. 22:28) Aðstæður sýna að í Jóhannesi 6:53 var Jesús ekki að útskýra það sem ætti að gera við kvöldmáltíð Drottins. Og það eru fleiri rök fyrir því.

Í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls er greint frá því sem Jesús sagði við hóp Gyðinga í Galíleu (til vinstri). Ári síðar talaði hann við lítinn hóp trúfastra postula sinna í Jerúsalem (til hægri). (Sjá 8. grein.)


ÞETTA SNERTIR ÞIG

9. Við hverja talaði Jesús þegar hann stofnsetti kvöldmáltíðina?

9 Jesús gaf postulum sínum ósýrt brauð við kvöldmáltíð Drottins og sagði þeim að það táknaði líkama sinn. Síðan lét hann bikar með víni ganga milli þeirra og sagði að það táknaði „blóð sáttmálans“. (Mark. 14:22–25; Lúk. 22:20; 1. Kor. 11:24) Þetta er mjög þýðingarmikið. Hinn nýi sáttmáli var ekki gerður við mannkynið í heild heldur við andlega Ísraelsmenn sem verða „í ríki Guðs“. (Hebr. 8:6, 10; 9:15) Postularnir skildu þetta ekki til fullnustu á þessum tíma en fljótlega myndu þeir verða smurðir heilögum anda og eiga aðild að nýja sáttmálanum til að vera með Jesú á himnum. – Jóh. 14:2, 3.

10. Hvað annað er ólíkt með því sem Jesús sagði við kvöldmáltíðina og því sem hann sagði í Galíleu? (Sjá einnig mynd.)

10 Tökum eftir að við kvöldmáltíð Drottins beindi Jesús orðum sínum að ‚litlu hjörðinni‘. Trúfastir postular hans sem voru með honum voru þeir fyrstu sem tilheyrðu þessum hópi. (Lúk. 12:32) Þeir áttu, ásamt öðrum sem myndu síðar tilheyra hópnum, að taka af brauðinu og víninu. Þetta eru þeir sem verða með Jesú á himnum. Það sem Jesús sagði við postula sína við kvöldmáltíð Drottins var aðeins ætlað litlum hópi fólks. Hann var að tala um annað þegar hann ávarpaði langtum stærri mannfjölda í Galíleu.

Aðeins lítill hópur fólks tekur af brauðinu og víninu en allir sem trúa á Jesú geta fengið eilíft líf. (Sjá 10. grein.)


11. Hvað sagði Jesús í Galíleu sem sýnir að hann var ekki að vísa til afmarkaðs hóps?

11 Þegar Jesús var í Galíleu árið 32 var hann aðallega að beina orðum sínum til Gyðinga sem sóttust eftir að hann sæi þeim fyrir mat. En hann beindi athygli þeirra að því sem er langtum þýðingarmeira en bókstafleg fæða – ráðstöfun sem gæfi þeim kost á eilífu lífi. Og Jesús sagði að þeir sem dæju gætu fengið upprisu á síðasta degi og lifað að eilífu. Hann var ekki að tala um fáeina útvalda, eins og hann gerði síðar við kvöldmáltíð Drottins. Þess í stað talaði hann um blessun sem stæði öllum til boða. Hann sagði: „Sá sem borðar af þessu brauði lifir að eilífu. Brauðið er hold mitt sem ég gef heiminum til lífs.“ – Jóh. 6:51.

12. Hvers er þörf til að njóta góðs af því sem Jesús talaði um?

12 Þegar Jesús talaði við Gyðingana í Galíleu var hann ekki að meina að allir sem hefðu einhvern tíma verið á lífi myndu hljóta þessa blessun. Aðeins þeir sem ‚borðuðu af þessu brauði‘, þeir sem tryðu á Jesú, myndu gera það. Margir nú á dögum segjast trúa á Jesú og álíta hann frelsara sinn. (Jóh. 6:29) En sumir í mannfjöldanum sem trúðu á hann í fyrstu yfirgáfu hann. Hvers vegna?

13. Hvað merkir það í raun að trúa á Jesú?

13 Flestir þeirra sem Jesús gaf að borða fylgdu honum eins lengi og hann sá þeim fyrir því sem þeir vildu. Þeir höfðu áhuga á lækningu fyrir kraftaverk, ókeypis mat eða kennslu sem passaði við þeirra eigin hugmyndir. En Jesús sýndi að meira er krafist af sönnum lærisveinum hans. Hann kom ekki til jarðar einfaldlega til að uppfylla langanir fólks. Fólk þurfti að ‚koma til hans‘ með því að hlýða og fylgja öllu sem hann kenndi. – Jóh. 5:40; 6:44.

14. Hvað verðum við að gera til að hafa gagn af holdi og blóði Jesú?

14 Jesús lagði áherslu á þörfina að trúa. Trúa á hvað? Að hold hans og blóð, sem hann átti eftir að fórna, myndi frelsa fólk. Slík trú var nauðsynleg fyrir Gyðinga og hún er enn þá nauðsynleg. (Jóh. 6:40) Við þurfum að trúa á lausnarfórnina til að hafa gagn af holdi og blóði Jesú eins og kemur fram í Jóhannesi 6:53. Þetta stendur ótakmörkuðum fjölda fólks til boða. – Ef. 1:7.

15, 16. Hvað höfum við lært af Jóhannesarguðspjalli 6. kafla?

15 Frásagan í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls er mjög mikilvæg fyrir okkur og ástvini okkar. Hún dregur fram hversu vænt Jesú þykir um fólk. Í Galíleu læknaði hann veika, fræddi fólk um ríkið og sá til þess að það fengi að borða. (Lúk. 9:11; Jóh. 6:2, 11, 12) En það sem meira máli skiptir er að hann upplýsti fólkið um að hann væri „brauð lífsins“. – Jóh. 6:35, 48.

16 Þeir sem hann kallaði „aðra sauði“ taka ekki og ættu ekki að taka af brauðinu og víninu við kvöldmáltíð Drottins. (Jóh. 10:16) Engu að síður hafa þeir gagn af holdi og blóði Jesú Krists með því að sýna trú á lausnarfórnina og allt það stórkostlega sem hún hefur í för með sér. (Jóh. 6:53) Aftur á móti ættu þeir sem eiga aðild að nýja sáttmálanum og eru væntanlegir erfingjar ríkisins á himnum að taka af brauðinu og víninu. Hvort sem við tilheyrum hinum andasmurðu eða öðrum sauðum hefur frásagan í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls greinilega mikla þýðingu fyrir okkur. Hún undirstrikar hversu mikilvægt er að trúa á lausnarfórnina til að fá eilíft líf.

SÖNGUR 150 Leitum hjálpræðis Guðs

a Vatnið sem Jesús minnist á táknar ráðstafanir Jehóva til að menn geti fengið eilíft líf.