NÁMSGREIN 51
SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust
Jehóva gleymir ekki tárum þínum
„Safnaðu tárum mínum í skinnbelg þinn, þau eru skráð í bók þína.“ – SÁLM. 56:8.
Í HNOTSKURN
Jehóva skilur sársaukafullar tilfinningar okkar og sér okkur fyrir þeirri huggun sem við þörfnumst.
1, 2. Hvað gæti fengið okkur til að gráta?
ALLIR hafa einhvern tíma haft ástæðu til að gráta. Stundum grátum við af gleði. Þú grést ef til vill þegar eitthvað mikilvægt eða sérstakt gerðist í lífi þínu – eins og þegar barnið þitt fæddist, þegar þú rifjaðir upp hjartnæman atburð eða þegar þú tókst á móti góðum vini sem þú hafðir ekki séð í mörg ár.
2 En oftast grátum við vegna þess að við erum döpur og finnum til sársauka. Við gætum grátið þegar einhver veldur okkur miklum vonbrigðum. Og við gætum grátið af sársauka vegna þrálátra veikinda eða ef við höfum misst ástvin. Á slíkum stundum gæti okkur liðið eins og Jeremía spámanni þegar Jerúsalem féll í hendur Babýloníumanna. Hann sagði: „Táralækir streyma frá augum mínum … Ég græt linnulaust, án afláts.“ – Harmlj. 3:48, 49.
3. Hvaða áhrif hefur það á Jehóva þegar þjónar hans þjást? (Jesaja 63:9)
3 Jehóva veit nákvæmlega hversu oft við höfum grátið vegna erfiðra aðstæðna. Við erum fullvissuð um það í Biblíunni að hann sé meðvitaður um alla erfiðleika sem valda þjónum hans þjáningum og að hann heyri þegar við biðjum hann um hjálp. (Sálm. 34:15) En Jehóva gerir meira en bara að taka eftir okkur, hann hlustar líka á okkur. Hann er faðir okkar og elskar okkur innilega. Það hryggir hann því þegar við grátum og honum er umhugað um að hjálpa okkur. – Lestu Jesaja 63:9.
4. Hvað lærum við um Jehóva af frásögum í Biblíunni?
4 Jehóva segir okkur frá því í orði sínu hvaða áhrif það hafði á hann þegar þjónum hans á biblíutímanum leið illa og hvernig hann brást við. Skoðum frásögur af Hönnu, Davíð og Hiskía konungi. Hvers vegna grétu þau? Hvernig brást Jehóva við þegar þau kölluðu á hjálp? Og hvernig getur fordæmi þeirra hughreyst okkur þegar við grátum vegna þess að við erum sorgmædd, örvæntingarfull eða höfum verið svikin?
SORG
5. Hvernig leið Hönnu?
5 Hanna átti við ýmis vandamál að glíma sem ollu henni sorg. Hún var gift manni sem átti aðra konu, Peninnu, sem fyrirleit hana. Og ekki nóg með það. Hanna hafði ekki eignast nein börn en Peninna átti nokkur. (1. Sam. 1:1, 2) Peninna gerði stöðugt lítið úr Hönnu fyrir að geta ekki átt börn. Hvernig hefði þér liðið? Hönnu leið svo illa „að hún fór að gráta og vildi ekki borða“ og hún „var í miklu uppnámi“. – 1. Sam. 1:6, 7, 10.
6. Hvað gerði Hanna til að fá huggun?
6 Hvað gerði Hanna til líða betur? Eitt sem hjálpaði henni var að fara til tjaldbúðarinnar, miðstöðvar sannrar tilbeiðslu. Þegar hún kom þangað, hugsanlega nálægt innganginum að forgarði tjaldbúðarinnar, ‚bað hún til Jehóva og hágrét‘. Hún bað: ‚Líttu á eymd ambáttar þinnar og minnstu mín.‘ (1. Sam. 1:10b, 11) Hanna úthellti hjarta sínu í bæn til Jehóva. Hann hefur eflaust fundið til þegar hann sá þessa dýrmætu dóttur sína gráta svona sárt.
7. Hvernig leið Hönnu eftir að hafa létt á hjarta sínu við Jehóva?
7 Hvernig leið Hönnu eftir að hafa létt á hjarta sínu við Jehóva í bæn og Elía æðstiprestur hafði fullvissað hana um að Jehóva myndi svara henni? Frásagan heldur áfram: „Síðan fór hún leiðar sinnar, byrjaði aftur að borða og var ekki lengur döpur í bragði.“ (1. Sam. 1:17, 18) Þótt ástandið hefði ekki batnað leið Hönnu langtum betur. Þungu fargi var létt af henni þegar hún hafði treyst Jehóva fyrir tilfinningum sínum. Hann tók eftir vanlíðan hennar og tárum og blessaði hana síðan með því að hún varð barnshafandi. – 1. Sam. 1:19, 20; 2:21.
8, 9. Hvers vegna ættum við að gera allt sem við getum til að sækja safnaðarsamkomur samkvæmt Hebreabréfinu 10:24, 25? (Sjá einnig mynd.)
8 Það sem við getum lært. Ert þú að takast á við erfiðleika sem valda þér mikilli sorg? Þú syrgir kannski ástvin. Þá er bara eðlilegt að vilja vera í einrúmi. En rétt eins og Hanna fékk huggun þegar hún fór til tjaldbúðarinnar geturðu fengið huggun með því að sækja samkomur – þótt þú sért ekki upp á þitt besta. (Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.) Jehóva getur hjálpað okkur að skipta út neikvæðum hugsunum fyrir jákvæðar þegar við hlustum á huggandi orð hans lesin í Biblíunni á samkomum. Það getur hjálpað okkur að hafa stjórn á tilfinningum okkar jafnvel þótt aðstæðurnar batni ekki strax.
9 Á samkomum njótum við líka uppbyggjandi félagsskapar trúsystkina sem sýna samkennd og okkur líður betur þegar við finnum kærleika þeirra. (1. Þess. 5:11, 14) Skoðum reynslu sérbrautryðjanda sem missti eiginkonu sína. Hann sagði: „Ég er enn þá viðkvæmur. Stundum þarf ég bara að fá að gráta í friði. En á samkomum fæ ég uppörvun. Það sem bræður og systur segja veitir mér huggun. Mér líður alltaf betur á samkomum, sama hversu kvíðinn eða áhyggjufullur ég er áður en ég mæti.“ Jehóva getur hjálpað okkur fyrir atbeina bræðra og systra á samkomunum.
10. Hvað getum við lært af Hönnu þegar við erum mjög döpur?
10 Hönnu leið betur eftir að hafa opnað hjarta sitt fyrir Jehóva í bæn. Þú getur líka ‚varpað öllum áhyggjum þínum‘ á Jehóva í fullu trausti þess að hann heyri. (1. Pét. 5:7) Systir sem átti mann sem var drepinn í vopnuðu ráni segir: „Mér leið eins og hjartað í mér hefði sprungið og ég myndi aldrei jafna mig. En þegar ég bað til Jehóva, sem elskar mig, róaði það mig. Stundum gat ég ekki fundið réttu orðin en hann skildi mig. Þegar ég var alveg í rusli bað ég hann um að gefa mér hugarfrið. Þá fann ég hvernig ró færðist yfir huga minn og hjarta.“ Jehóva finnur mjög mikið til með þér og skilur hvernig þér líður þegar þú úthellir hjarta þínu fyrir honum og segir honum frá vanlíðan þinni. Og þótt vandamálið hverfi ekki getur Jehóva huggað þig og veitt þér hugarró. (Sálm. 94:19; Fil. 4:6, 7) Hann sér allt sem þú gerir til að sýna honum trúfesti og launar þér. – Hebr. 11:6.
SVIK
11. Hvaða áhrif hafði það á Davíð þegar aðrir komu illa fram við hann?
11 Davíð þurfti að þola ýmsa erfiðleika í lífinu sem ollu honum sársauka. Margir hötuðu hann og jafnvel sumir sem hann treysti sviku hann og reyndu að gera honum illt. (1. Sam. 19:10, 11; 2. Sam. 15:10–14, 30) Á erfiðum tíma sagði hann: „Ég er örmagna af andvörpum mínum, alla nóttina væti ég rúm mitt tárum, baða hvílu mína í táraflóði.“ Hvers vegna leið Davíð þannig? Hann svarar því: „Sakir þeirra sem ofsækja mig.“ (Sálm. 6:6, 7) Í sumum tilfellum fóru aðrir svo illa með Davíð að hann grét sárlega.
12. Um hvað var Davíð viss samkvæmt Sálmi 56:8?
12 Davíð var ekki í vafa um að Jehóva elskaði hann þrátt fyrir erfiðleikana sem hann mátti þola. Hann sagði: „Jehóva heyrir grát minn.“ (Sálm. 6:8) Við annað tækifæri orti hann Sálm 56:8. (Lestu.) Það sem þar segir dregur upp einstaka mynd af ástríkri umhyggju Jehóva. Davíð leið eins og Jehóva safnaði tárum hans í skinnbelg eða skráði þau í bók. Davíð vissi að Jehóva tók eftir sársauka hans og gleymdi honum ekki. Hann vissi að kærleiksríkur faðir hans á himnum var ekki bara meðvitaður um hvað hann hafði gengið í gegnum heldur líka hvaða áhrif það hafði á hann.
13. Hverju megum við ekki gleyma þegar aðrir valda okkur vonbrigðum? (Sjá einnig mynd.)
13 Það sem við getum lært. Ert þú niðurbrotinn vegna þess að einhver sem þú treystir hefur valdið þér vonbrigðum eða svikið þig? Þú ert ef til vill miður þín vegna þess að hjónaband þitt eða trúlofun hefur skyndilega endað eða vegna þess að einhver sem þú elskar er hættur að þjóna Jehóva. Bróðir nokkur var giftur konu sem hélt fram hjá honum og yfirgaf hann. Hann sagði: „Ég var í áfalli og vildi ekki trúa þessu. Mér fannst ég einskis nýtur og ég var dapur og reiður.“ Ef einhver hefur valdið þér miklum vonbrigðum eða svikið þig skaltu hugga þig við að Jehóva mun aldrei yfirgefa þig. Bróðirinn sagði: „Ég hef komist að því að fólk getur brugðist manni en ég get alltaf reitt mig á Jehóva. Hann er alltaf tilbúinn að hjálpa okkur, sama hvað gerist. Hann yfirgefur aldrei þá sem eru honum trúir.“ (Sálm. 37:28) Ekki gleyma því að Jehóva elskar þig meira en nokkur manneskja getur gert. Það er mjög sársaukafullt að vera svikinn af þeim sem maður elskar. En það breytir því ekki hvaða augum Jehóva lítur mann. Þú ert dýrmætur í augum hans. (Rómv. 8:38, 39) Gleymdu því ekki að sama hvernig hefur verið komið fram við þig, þá elskar faðir þinn á himnum þig.
14. Hverju er okkur lofað í Sálmi 34:18?
14 Ef þú hefur verið svikinn getur það sem Davíð sagði í Sálmi 34:18 huggað þig. (Lestu.) Í biblíuskýringarriti einu segir að þegar talað er um þá „sem eru niðurbrotnir“ geti verið átt við þá sem „hafa ekki til neins að hlakka“. Hvernig hjálpar Jehóva þeim sem líður þannig vegna mikilla vonbrigða? Jehóva er nálægur okkur eins og ástríkt foreldri sem heldur á grátandi barni til að hugga það. Hann er samúðarfullur og tilbúinn að hjálpa okkur þegar einhver hefur svikið okkur eða yfirgefið. Honum er mikið í mun að hugga okkur þegar við erum niðurbrotin eða okkur finnst við einskis virði. Og hann gefur okkur margt að hlakka til en það hjálpar okkur að halda út í erfiðleikum. – Jes. 65:17.
ÖRVÆNTING
15. Hvers vegna var Hiskía örvæntingarfullur?
15 Hiskía konungur í Júda varð alvarlega veikur þegar hann var 39 ára. Jesaja spámaður kom með orð frá Jehóva um að Hiskía myndi deyja af völdum veikindanna. (2. Kon. 20:1) Útlitið virtist vonlaust fyrir Hiskía. Hann var niðurbrotinn og grét sárlega. Hann bað innilega til Jehóva. – 2. Kon. 20:2, 3.
16. Hvernig brást Jehóva við grátbeiðni Hiskía?
16 Þegar Jehóva heyrði grátbeiðni Hiskía fann hann til samúðar og sagði við hann: „Ég hef heyrt bæn þína. Ég hef séð tár þín. Ég ætla að lækna þig.“ Fyrir milligöngu Jesaja lofaði Jehóva að lengja líf Hiskía og bjarga Jerúsalem úr höndum Assýringa. – 2. Kon. 20:4–6.
17. Hvernig styður Jehóva okkur þegar við glímum við alvarleg heilsuvandamál? (Sálmur 41:3) (Sjá einnig mynd.)
17 Það sem við getum lært. Ert þú að glíma við heilsuvandamál sem fyllir þig vonleysi? Leitaðu þá til Jehóva í bæn, jafnvel þótt þú gerir það grátandi. Biblían fullvissar okkur um að „faðir innilegrar samúðar og Guð allrar huggunar“ huggi okkur í öllum prófraunum okkar. (2. Kor. 1:3, 4) Við getum ekki vænst þess að Jehóva taki burt öll vandamál okkar en við getum reitt okkur á stuðning hans. (Lestu Sálm 41:3.) Jehóva notar heilagan anda sinn til að gefa okkur styrk, visku og innri frið til að takast á við aðstæðurnar. (Orðskv. 18:14; Fil. 4:13) Hann hughreystir okkur líka með voninni um að í framtíðinni verði enginn veikur. – Jes. 33:24.
18. Hvaða biblíuvers hefur veitt þér huggun þegar þú hefur tekist á við mjög erfiðar aðstæður? (Sjá rammann „ Huggunarorð“.)
18 Orð Jehóva hugguðu Hiskía. Við getum líka fundið huggun í orði Guðs. Orð Jehóva í Biblíunni geta róað okkur og endurnært þegar við glímum við mjög erfiðar aðstæður. (Rómv. 15:4) Systir í Vestur-Afríku grét oft þegar hún greindist með krabbamein. Hún segir: „Jesaja 26:3 er vers sem veitir mér mikla huggun. Við getum sjaldan haft stjórn á prófraunum okkar en þetta vers fullvissar mig um að Jehóva geti gefið mér þann innri frið sem hjálpar mér að bregðast rétt við erfiðleikunum.“ Hefur þú fundið biblíuvers sem þér finnst sérstaklega huggandi í mjög erfiðum og að því er virðist vonlausum aðstæðum?
19. Hvaða framtíð bíður okkar?
19 Endir þessarar heimskipanar er mjög nálægur og við getum því vænst þess að upplifa meiri erfiðleika sem valda okkur sársauka. En eins og við höfum séð af frásögunum um Hönnu, Davíð og Hiskía konung sér Jehóva tár okkar og þau snerta hann mjög. Hann elskar okkur fyrir að vera honum trúföst þrátt fyrir sársaukann og hann gleymir ekki tárum okkar. Við viljum úthella hjarta okkar í bæn til Jehóva þegar við glímum við erfiðar aðstæður. Einangrum okkur aldrei frá kærleiksríkum bræðrum og systrum í söfnuðinum. Og með því að lesa í Biblíunni fáum við huggun frá Jehóva. Við getum verið fullviss um að Jehóva launi okkur ef við höldum trúföst áfram. Hann lofar að sá tími komi að hann þerri hvert tár sem kemur til vegna sorgar, svika eða örvæntingar. (Opinb. 21:4) Þá grátum við einungis af gleði.
SÖNGUR 4 Jehóva er minn hirðir