Spurningar frá lesendum
Hverjir eru ‚hinir útvöldu englar‘ sem er minnst á í 1. Tímóteusarbréfi 5:21?
Páll postuli skrifaði til Tímóteusar sem var öldungur eins og hann: „Ég legg ríkt á við þig, frammi fyrir Guði og Kristi Jesú og hinum útvöldu englum, að fylgja þessum fyrirmælum án allra fordóma og hlutdrægni.“ – 1. Tím. 5:21.
Fyrst skoðum við um hverja getur ekki verið að ræða. Hérna getur augljóslega ekki verið átt við einhverja af hinum 144.000. Upprisa andasmurðra einstaklinga hafði ekki hafist þegar Páll skrifaði Tímóteusi. Postularnir og aðrir andasmurðir voru ekki enn orðnir andaverur þannig að þeir geta ekki hafa verið ‚hinir útvöldu englar‘. – 1. Kor. 15:50–54; 1. Þess. 4:13–17; 1. Jóh. 3:2.
‚Hinir útvöldu englar‘ geta ekki hafa verið englarnir sem óhlýðnuðust á tímum flóðsins. Þeir tóku afstöðu með Satan og urðu illir andar og andstæðingar Jesú. (1. Mós. 6:2; Lúk. 8:30, 31; 2. Pét. 2:4) Í framtíðinni verða þeir lokaðir í undirdjúpi í 1.000 ár og þeim síðan eytt ásamt Djöflinum. – Júd. 6; Opinb. 20:1–3, 10.
‚Hinir útvöldu englar‘ sem Páll nefnir hljóta að hafa verið englar á himnum sem studdu ‚Guð og Krist Jesú‘ sem eru báðir nefndir í þessu versi.
Trúfastir englar eru tugþúsundir. (Hebr. 12:22, 23) Svo virðist sem þeir hafi ekki allir sama verkefnið. (Opinb. 14:17, 18) Eins og við munum fékk aðeins einn þeirra það verkefni að tortíma 185.000 hermönnum Assýringa. (2. Kon. 19:35) Margir englar hafa mögulega fengið það verkefni að „fjarlægja úr ríki [Jesú] allt sem verður öðrum að falli og fólk sem gerir illt“. (Matt. 13:39–41) Aðrir taka ef til vill þátt í að „safna saman hans útvöldu“ til himna. (Matt. 24:31) Og enn aðrir ‚gæta okkar á öllum vegum okkar‘. – Sálm. 91:11; Matt. 18:10; samanber Matteus 4:11 og Lúkas 22:43.
‚Hinir útvöldu englar‘ sem eru nefndir í 1. Tímóteusarbréfi 5:21 fengu líklega það verkefni að hjálpa til við að annast söfnuðina. Páll gaf leiðbeiningar um hvernig öldungar ættu að sinna ábyrgð sinni og hvernig bræður og systur ættu að sýna öldungunum virðingu. Hann sagði að öldungar ættu að sinna ábyrgð sinni „án allra fordóma og hlutdrægni“ og taka ekki ákvarðanir nema að vel athuguðu máli. Þeir höfðu ríka ástæðu til að fylgja innblásnum leiðbeiningum Páls því að þeir þjónuðu trúsystkinum sínum „frammi fyrir Guði og Kristi Jesú og hinum útvöldu englum“. Það er því augljóst að sumir englar hafa það verkefni að annast söfnuðina. Þeir vernda þjóna Guðs og hjálpa þeim í boðuninni og veita Jehóva upplýsingar um þá. – Matt. 18:10; Opinb. 14:6.