Ertu tilbúinn að „erfa jörðina“?
VIÐ hlökkum til að sjá loforð Jesú uppfyllast: „Hinir hógværu eru hamingjusamir því að þeir erfa jörðina.“ (Matt. 5:5) Hinir andasmurðu erfa jörðina þegar þeir verða konungar og ríkja með Jesú á himnum. (Opinb. 5:10; 20:6) Flestir þjónar Jehóva hlakka til að erfa jörðina og lifa í friði og hamingju á henni sem fullkomnir menn og konur. Mikið verk bíður þeirra til að það verði að veruleika. Þau eiga til dæmis að leggja jörðina undir sig, annast þarfir þeirra sem rísa upp og kenna þeim. Hugleiddu hvað þú getur gert nú þegar til að sýna að þig langi til að taka þátt í þessu verki.
TILBÚIN AÐ BREYTA JÖRÐINNI Í PARADÍS
Þegar Jehóva sagði mönnunum að ,fylla jörðina og leggja hana undir sig‘ gaf hann til kynna að jörðin yrði með tímanum paradís. (1. Mós. 1:28) Þeir sem erfa jörðina þurfa að fara eftir þessum fyrirmælum. Það verður engin paradís til að byrja með, Edengarðurinn er ekki lengur til. Eftir Harmagedón verður mikil vinna að hreinsa eyðilögð svæði á jörðinni. Það verður meira en nóg að gera!
Þetta minnir á verkefnið sem beið Ísraelsmanna þegar þeir sneru aftur frá Babýlon. Landið hafði legið í eyði í 70 ár. En Jesaja sagði fyrir að Jehóva myndi hjálpa þeim að gera landið fallegt aftur. Í spádóminum segir: „Hann … gerir óbyggðir hennar sem Eden og eyðisléttu hennar sem garð Jehóva.“ (Jes. 51:3) Ísraelsmönnum tókst þetta með hjálp Jehóva. Hann hjálpar líka þeim sem erfa jörðina að leggja hana undir sig. Þú getur sýnt nú þegar að þig langi til að taka þátt í þessu verkefni.
Þú getur til dæmis sýnt það með því að hafa snyrtilegt í kringum þig, óháð því hvað nágrannar þínir gera. Þú getur hjálpað til við að þrífa ríkissalinn og mótshöllina. Ef aðstæður leyfa geturðu sótt um að taka þátt í hjálparstarfi þar sem þú býrð. Þannig sýnirðu að þú ert tilbúinn að rétta trúsystkinum þínum hjálparhönd ef þörf krefur. Spyrðu þig hvort þú gætir tileinkað þér færni sem mætti nýta ef Jehóva leyfir þér að erfa jörðina.
TILBÚIN AÐ ANNAST ÞARFIR HINNA UPPRISNU
Strax eftir að Jesús hafði reist dóttur Jaírusar til lífs á ný bað hann um að henni yrði gefið eitthvað að borða. (Mark. 5:42, 43) Það var kannski ekki mikið verk að annast þessa 12 ára stúlku. En hugsum okkur hvað það mun fela í sér þegar Jesús uppfyllir loforð sitt um að ,allir sem eru í minningargröfunum munu heyra rödd hans og rísa upp‘. (Jóh. 5:28, 29) Biblían segir ekki margt um hvað þetta felur í sér en við getum séð fyrir okkur að þeir sem rísa upp þurfi aðstoð til að hafa fæði, klæði og húsnæði. Geturðu sýnt nú þegar að þig langi til að hjálpa til? Hugleiddu nokkrar spurningar.
Hvað geturðu gert núna til að sýna að þú sért tilbúinn að erfa jörðina?
Býðurðu farandhirðinum í mat þegar tilkynnt er um heimsókn hans? Gætirðu aðstoðað þá við að finna húsnæði sem hafa fengið nýtt verkefni í söfnuði þínum eftir að hafa verið í sérstakri þjónustu í fullu starfi á Betel? Gætirðu hjálpað á svipaðan hátt þeim sem hafa hætt í farandstarfinu? Ef halda á umdæmismót eða sérmót þar sem þú býrð, gætirðu þá tekið þátt í sjálfboðastarfi fyrir eða eftir mótið eða verið til taks til að bjóða mótsgesti velkomna?
TILBÚIN AÐ KENNA HINUM UPPRISNU
Við búumst við að milljarðar manna verði reistir upp í samræmi við það sem segir í Postulasögunni 24:15. Margir höfðu ekki tækifæri til að kynnast Jehóva áður en þeir dóu en það breytist þegar þeir fá lífið aftur. a Trúfastir og reyndir þjónar Guðs taka þátt í að kenna þeim. (Jes. 11:9) Charlotte hlakkar til þess en hún hefur boðað trúna í Evrópu, Suður-Ameríku og Afríku. Hún segir glöð í bragði: „Ég hlakka til að kenna fólki sem fær lífið aftur. Þegar ég les um einhvern sem var uppi áður hugsa ég oft að líf hans hefði getað verið allt öðruvísi ef hann hefði þekkt Jehóva. Ég get varla beðið eftir að fá að segja upprisnu fólki frá Jehóva og hversu miklu betra lífið verður ef það kýs að þjóna honum.“
Jafnvel trúfastir þjónar Jehóva sem voru uppi áður en Jesús kom til jarðar munu eiga margt ólært. Ímyndum okkur hversu einstakt og gleðilegt það verður að fá að útskýra fyrir Daníel hvernig spádómar uppfylltust sem hann skráði en skildi ekki. (Dan. 12:8) Veltum fyrir okkur hvernig það verður að segja Rut og Naomí frá því að einn afkomenda þeirra varð Messías. Það verður yndislegt að taka þátt í þessu kennsluátaki um heim allan, laus við allt álag og truflanir sem einkenna þennan illa heim!
Hvernig geturðu sýnt núna að þú hafir áhuga á að taka þátt í þessu kennsluátaki? Þú getur gert það með því að leggja þig fram um að taka framförum sem kennari og taka reglulega þátt í boðuninni sem nú fer fram um heim allan. (Matt. 24:14) Jafnvel þótt aldur eða aðrar kringumstæður takmarki það sem þú getur gert sýnir þú með viðleitni þinni að þú sért tilbúinn að kenna þeim sem koma fram í upprisunni.
Það er gott að hugleiða þessar mikilvægu spurningar: Hlakka ég til að erfa jörðina? Er ég spenntur að taka þátt í að leggja jörðina undir okkur mennina, sjá þeim sem fá upprisu fyrir húsnæði og kenna þeim? Þú getur sýnt að þú sért tilbúinn með því að grípa tækifærið núna og taka þátt í verkefnum svipuðum þeim sem bíða þín þegar þú erfir jörðina.
a Sjá greinina „Mörgum beint til réttlætis“ í Varðturninum september 2022.