Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 52

Hjálpum öðrum að halda út í erfiðleikum

Hjálpum öðrum að halda út í erfiðleikum

„Neitaðu þeim ekki um hjálp sem þarfnast hennar ef það er á þínu færi að gera þeim gott.“ – ORÐSKV. 3:27.

SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði

YFIRLIT a

1. Hvernig svarar Jehóva oft bænum þjóna sinna?

 VISSIR þú að Jehóva getur notað þig til að svara innilegum bænum annarra? Hann getur notað þig hvort sem þú ert öldungur, safnaðarþjónn, brautryðjandi eða boðberi. Það sama á við hvort sem þú ert ungur eða gamall, bróðir eða systir. Þegar einhver sem elskar Jehóva grátbiður hann um að hjálpa sér notar hann oft öldunga eða aðra trúfasta þjóna sína til að vera honum „til mikillar hughreystingar“. (Kól. 4:11) Það er stórkostlegt að fá að þjóna Jehóva og trúsystkinum okkar á þennan hátt. Við getum fengið tækifæri til þess þegar sjúkdómar geisa eða þegar hamfarir eða ofsóknir verða.

HJÁLPUM ÖÐRUM ÞEGAR SJÚKDÓMAR GEISA

2. Hvers vegna gæti verið erfitt að hjálpa öðrum þegar sjúkdómar geisa?

2 Faraldur getur gert okkur erfitt fyrir að hjálpa öðrum. Okkur langar kannski að heimsækja vini okkar en það er ekki víst að það sé öruggt að gera það. Og kannski er ekki hægt að bjóða trúsystkinum sem eiga í fjárkröggum í mat þótt okkur langi til þess. Okkur gæti langað að hjálpa öðrum en það getur verið erfitt ef okkar eigin fjölskylda glímir líka við erfiðleika. Við viljum samt hjálpa trúsystkinum okkar og það gleður Jehóva þegar við gerum það eins vel og við getum. (Orðskv. 3:27; 19:17) Hvað getum við gert?

3. Hvað getum við lært af öldungunum í söfnuði Desi? (Jeremía 23:4)

3 Það sem öldungar geta gert. Ef þú ert öldungur, kynnstu þá sauðunum vel. (Lestu Jeremía 23:4.) Í síðustu námsgrein var vitnað í Desi. b Hún segir: „Öldungarnir í starfshópnum mínum voru vanir að boða trúna með mér og öðrum og voru með okkur í frístundum.“ Þetta gerði þeim auðveldara fyrir að hjálpa Desi eftir að COVID-19-faraldurinn braust út og hún missti ættingja úr sjúkdóminum.

4. Hvernig gátu öldungarnir hjálpað Desi og hvað getum við lært af því?

4 Desi segir: „Það var auðveldara fyrir mig að tala við öldungana um áhyggjur mínar og hvernig mér leið vegna þess að þeir voru orðnir vinir mínir.“ Hvað geta öldungar lært af þessu? Verið hirðar þeirra sem eru í ykkar umsjá áður en erfiðleika ber að garði. Verið vinir þeirra. Ef þið getið ekki hitt þau augliti til auglitis vegna þess að sjúkdómur geisar hafið þá samband við þau eftir öðrum leiðum. „Stundum hringdu nokkrir öldungar í mig eða sendu skilaboð á einum og sama degi,“ segir Desi. „Biblíuversin sem þeir sendu mér snertu mig jafnvel þótt ég þekkti þau vel.“

5. Hvernig geta öldungar fundið út hvers bræður og systur þarfnast og hvernig geta þeir hjálpað þeim?

5 Ein leið til að vita hvers bræður þínir og systur þarfnast er að spyrja þau nærgætinna spurninga. (Orðskv. 20:5) Hafa þau nóg að borða, nauðsynleg lyf og aðrar nauðsynjar? Eiga þau á hættu að missa vinnuna eða jafnvel húsnæðið? Vantar þau hjálp til að sækja sér aðstoð yfirvalda? Desi fékk efnislega aðstoð frá trúsystkinum sínum. En kærleikurinn sem öldungarnir sýndu henni og hvatningin sem þeir gáfu henni frá Biblíunni hjálpuðu henni mest. Hún segir: „Öldungarnir báðu til Jehóva með mér. Ég man ekki nákvæmlega hvað þeir sögðu en ég man hvernig mér leið. Jehóva var í raun að segja mér að ég væri ekki ein.“ – Jes. 41:10, 13.

Það gleður bróður sem sér um dagskrárlið á samkomu að heyra svör viðstaddra, meðal annars veiks bróður sem svarar með hjálp fjarfundabúnaðar. (Sjá 6. grein.)

6. Hvað geta margir í söfnuðinum gert til að hjálpa öðrum? (Sjá mynd.)

6 Það sem aðrir geta gert. Við væntum þess réttilega að öldungarnir taki forystuna. En Jehóva vill að allir í söfnuðinum hjálpi hver öðrum og uppörvi hver annan. (Gal. 6:10) Jafnvel lítið góðverk getur verið mjög uppörvandi fyrir þann sem er veikur. Barn gæti sent póstkort eða teikningu til að uppörva bróður. Unglingur gæti hjálpað systur að versla eða sinna erindi. Aðrir í söfnuðinum gætu útbúið máltíð handa þeim sem er veikur og fært honum. Auðvitað þurfa allir í söfnuðinum uppörvun þegar útbreiddur sjúkdómur geisar. Við getum kannski staldrað við í smá stund eftir samkomu til að tala við bræður og systur, hvort sem það er augliti til auglitis eða með fjarfundabúnaði. Og öldungarnir þarfnast líka uppörvunar. Sumir vottar hafa sent þakkarkort til öldunga sem eru uppteknari en nokkru sinni þegar sjúkdómur geisar. Það er frábært þegar við gerum okkar í að halda „áfram að uppörva og styrkja hvert annað“. – 1. Þess. 5:11.

HJÁLPUM ÞEIM SEM VERÐA FYRIR NÁTTÚRUHAMFÖRUM

7. Hvaða erfiðleika hafa náttúruhamfarir í för með sér?

7 Náttúruhamfarir geta umturnað lífi fólks á augabragði. Fórnalömbin missa ef til vill eigur sínar, heimili og jafnvel ástvini. Bræðrum okkar og systrum er ekki hlíft við slíkum hörmungum. Hvað getum við gert til að hjálpa þeim?

8. Hvað geta öldungar og höfuð fjölskyldunnar gert áður en hamfarir verða?

8 Það sem öldungar geta gert. Öldungar, hjálpið bræðrum og systrum að vera viðbúin áður en hamfarir verða. Gangið úr skugga um að allir í söfnuðinum viti hvað þeir eiga að gera til að tryggja öryggi sitt og hafa samband við öldungana. Margaret sem var sagt frá í námsgreininni á undan segir: „Öldungarnir voru með umfjöllun í dagskrárliðnum ,staðbundnar þarfir‘ um að enn væri hætta á skógareldum á svæðinu. Þeir sögðu að ef yfirvöld fyrirskipuðu rýmingu á svæðinu eða hættuástand skapaðist yrðum við samstundis að yfirgefa það.“ Þetta reyndust vera tímabærar leiðbeiningar vegna þess að mjög hættulegir skógareldar brutust út fimm vikum síðar. Í biblíunámi fjölskyldunnar getur fjölskylduhöfuðið rifjað upp hvað hver og einn í fjölskyldunni á að gera þegar neyðartilfelli kemur upp. Það eru meiri líkur á að þið haldið ró ykkar þegar hörmungar dynja yfir ef þið og börnin ykkar eruð viðbúin.

9. Hvernig geta öldungar staðið að málum fyrir og eftir náttúruhamfarir?

9 Ef þú ert umsjónarmaður starfshóps skaltu ekki bíða eftir því að náttúruhamfarir dynji yfir áður en þú gengur úr skugga um að þú hafir nákvæmar upplýsingar um alla í starfshópnum. Skrifaðu lista og uppfærðu hann öðru hvoru. Þá geturðu verið í sambandi við hvern og einn boðbera þegar náttúruhamfarir verða til að kanna hvers hann þarfnast. Láttu umsjónarmann öldungaráðsins fá þessar upplýsingar strax og hann mun síðan hafa samband við farandhirðinn. Þegar þessir bræður vinna saman geta þeir veitt bestu hjálpina. Eftir skógareldana vakti farandhirðir Margaretar samfleytt í 36 klukkustundir. Hann var önnum kafinn við að skipuleggja starf öldunganna meðan þeir reyndu að hafa samband við þau 450 trúsystkini sem höfðu þurft að yfirgefa heimili sín og sinna þörfum þeirra. (2. Kor. 11:27) Þannig gátu þeir hjálpað öllum og allir fengu húsaskjól.

10. Hvers vegna álíta öldungar mikilvægt að sinna hirðastarfinu? (Jóhannes 21:15)

10 Það er ábyrgð öldunganna að gefa bræðrum og systrum hughreystingu frá Biblíunni og veita þeim tilfinningalegan stuðning. (1. Pét. 5:2) Þegar hamfarir dynja yfir ættu öldungarnir að fullvissa sig um að bræður og systur séu örugg og hafi fæði, klæði og húsaskjól. En þótt margir mánuðir séu liðnir frá hamförunum þurfa þeir sem lifa af líklega áfram á hvatningu frá Biblíunni að halda ásamt tilfinningalegum stuðningi. (Lestu Jóhannes 21:15.) „Það tekur tíma að ná sér,“ segir Harold en hann starfar í deildarnefnd og hefur hitt marga bræður og systur sem hafa þurft að glíma við afleiðingar náttúruhamfara. „Líf þeirra kemst smám saman í venjulegar skorður en minningar um ástvini, erfðagripi sem þau mátu mikils eða hættuástandið sem þau voru í geta haldið áfram að skjóta upp kollinum. Þessar minningar geta kallað fram sorg alveg upp á nýtt. Þetta er ekki skortur á trú heldur eðlileg viðbrögð.“

11. Hvers gætu fjölskyldur þarfnast áfram?

11 Öldungarnir fylgja leiðbeiningunum um að ,gráta með þeim sem gráta‘. (Rómv. 12:15) Öldungar þurfa að fullvissa þá sem hafa lifað af náttúruhamfarir um að Jehóva og trúsystkini þeirra elski þau enn. Öldungarnir vilja hjálpa fjölskyldum að halda áfram að biðja, rannsaka Biblíuna, mæta á samkomur og boða trúna. Öldungarnir geta líka hvatt foreldra til að hjálpa börnunum sínum að beina athyglinni að því sem engar hamfarir geta eyðilagt. Foreldrar, minnið börnin ykkar á að Jehóva verður alltaf vinur þeirra og mun alltaf vera til staðar fyrir þau. Og útskýrið fyrir þeim að þau munu alltaf geta verið hluti af alheimsfjölskyldu bræðra og systra sem er tilbúin að veita hjálp hvenær sem er. – 1. Pét. 2:17.

Gætir þú gerst sjálfboðaliði eftir náttúruhamfarir á þínu svæði? (Sjá 12. grein.) e

12. Hvað geta aðrir gert til að taka þátt í hjálparstarfi? (Sjá mynd.)

12 Það sem aðrir geta gert. Ef hamfarir verða í nágrenni þínu skaltu spyrja öldungana hvernig þú getur orðið að liði. Þú getur ef til vill boðið fram tímabundið húsaskjól fyrir þá sem hafa misst heimili eða fyrir þá sem hjálpa til við neyðaraðstoð. Þú gætir ef til vill komið mat og vistum til boðbera sem þurfa á að halda. Ef hamfarir verða lengra í burtu frá þér geturðu líka hjálpað til. Hvernig? Með því að biðja fyrir þeim sem verða fyrir áhrifum þeirra. (2. Kor. 1:8–11) Þú gætir stutt hjálparstarfið með fjárframlagi til alþjóðastarfsins. (2. Kor. 8:2–5) Ef þú hefur tök á að fara á hamfarasvæði og hjálpa til skaltu spyrja öldungana hvað þú eigir að gera. Ef þér er boðið að taka þátt í hjálparstarfi færðu líklega einhverja þjálfun þannig að hægt sé að nýta krafta þína þegar og þar sem þörfin er mest.

HJÁLPUM BRÆÐRUM OG SYSTRUM AÐ HALDA ÚT Í OFSÓKNUM

13. Hvaða erfiðleikum standa bræður okkar og systur frammi fyrir í löndum þar sem starfsemi okkar er bönnuð?

13 Í löndum þar sem starfsemi okkar er bönnuð gera ofsóknir lífið erfiðara. Bræður og systur í þessum löndum takast líka á við fjárhagserfiðleika, veikjast og missa ástvini. Vegna bannsins getur verið að öldungar geti ekki farið á milli til að eiga samskipti við þá sem þurfa á uppörvun að halda. Þannig voru aðstæður hjá Andrei sem minnst var á í námsgreininni á undan. Systir í starfshópnum hans átti við fjárhagserfiðleika að stríða. Síðan lenti hún í bílslysi. Hún þurfti að fara í nokkrar skurðaðgerðir og var óvinnufær. Þrátt fyrir bannið og faraldurinn gerðu bræðurnir það sem þeir gátu til að hjálpa og Jehóva fylgdist með.

14. Hvernig geta öldungar sett gott fordæmi með því að treysta á Jehóva?

14 Það sem öldungar geta gert. Andrei bað til Jehóva og gerði eins vel og hann gat. Hvernig brást Jehóva við? Hann fékk mismunandi trúsystkini sem gátu gert meira til að hjálpa henni. Sumir keyrðu hana til læknis. Aðrir gáfu henni peninga. Jehóva knúði þau til að hjálpa henni. Hann sá til þess að bræður og systur í söfnuðinum sæju henni fyrir öllu sem hún þurfti. (Hebr. 13:16) Öldungar, biðjið aðra um hjálp þegar hömlur eru á starfsemi okkar. (Jer. 36:5, 6) Treystið umfram allt á Jehóva. Hann getur hjálpað ykkur að annast þarfir bræðra og systra.

15. Hvernig getum við varðveitt kristna einingu í ofsóknum?

15 Það sem aðrir geta gert. Þegar starfsemi okkar er bönnuð gætum við þurft að hittast í minni hópum. Það er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að hafa frið okkar á milli. Við erum í stríði við Satan, ekki hvert annað. Leiðum hjá okkur mistök bræðra og systra og greiðum fljótt úr ágreiningi sem kemur upp. (Orðskv. 19:11; Ef. 4:26) Tökum frumkvæðið og hjálpum hvert öðru. (Tít. 3:14) Það hafði jákvæð áhrif á starfshópinn þegar aðrir í hópnum hjálpuðu systurinni sem þarfnaðist hjálpar. Bræður og systur tengdust nánari böndum og urðu eins og ein fjölskylda. – Sálm. 133:1.

16. Hvernig getum við komið bræðrum okkar og systrum sem verða fyrir ofsóknum til hjálpar samkvæmt Kólossubréfinu 4:3, 18?

16 Tugþúsundir bræðra okkar og systra þjóna Jehóva þrátt fyrir hömlur yfirvalda. Sum þeirra sitja í fangelsi vegna trúar sinnar. Við getum beðið fyrir þeim og fjölskyldum þeirra. Við getum einnig beðið fyrir þeim sem sýna hugrekki og styðja þau sem eru í fangelsi þrátt fyrir hættuna á að vera sjálf handtekin. Þau hvetja þessa bræður og systur til að halda áfram að treysta Jehóva, sjá þeim fyrir því sem þau þurfa og verja þau fyrir dómstólum. c (Lestu Kólossubréfið 4:3, 18.) Vanmetum aldrei mátt bænarinnar. – 2. Þess. 3:1, 2; 1. Tím. 2:1, 2.

Hvernig geturðu búið fjölskylduna þína núna undir ofsóknir? (Sjá 17. grein.)

17. Hvernig getum við búið okkur undir ofsóknir núna?

17 Þú og fjölskylda þín getið búið ykkur núna undir ofsóknir. (Post. 14:22) Reynið ekki að ímynda ykkur allt það slæma sem gæti gerst. Styrkið þess í stað vináttu ykkar við Jehóva og hjálpið börnunum ykkar að gera slíkt hið sama. Úthellið hjörtum ykkar fyrir Guði ef þið finnið stundum fyrir kvíða. (Sálm. 62:7, 8) Ræðið saman í fjölskyldunni allar ástæðurnar fyrir því að þið getið treyst honum. d Undirbúningur ykkar og traust á Jehóva gefur börnunum ykkar hugrekki og hugarró þegar ógæfa dynur yfir.

18. Hvaða framtíð bíður okkar?

18 Friður Guðs gefur okkur öryggiskennd. (Fil. 4:6, 7) Með honum gefur Jehóva okkur hugarró, þrátt fyrir faraldra, hamfarir og ofsóknir sem geta haft áhrif á okkur nú á dögum. Hann sér okkur fyrir duglegum öldungum sem annast okkur. Og hann treystir okkur öllum til að hjálpa hvert öðru. Friðurinn sem við njótum núna býr okkur undir meiri prófraunir fram undan og jafnvel undir ,þrenginguna miklu‘. (Matt. 24:21) Þá þurfum við að varðveita ró okkar og hjálpa öðrum að gera það líka. En eftir þann atburð þurfum við ekki framar að takast á við erfiðleika sem valda okkur kvíða. Þá munum við njóta þess sem Jehóva hefur alltaf ætlað okkur – fullkomins og varanlegs friðar. – Jes. 26:3, 4.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

a Jehóva notar oft trúfasta þjóna sína til að hjálpa þeim sem ganga í gegnum erfiðleika. Hann getur notað þig til að veita bræðrum þínum og systrum hughreystingu. Við skulum skoða hvernig við getum aðstoðað þá sem þurfa á hjálp að halda.

b Sumum nöfnum hefur verið breytt.

c Deildarskrifstofan og aðalstöðvarnar geta ekki séð um að áframsenda bréf frá einstaklingum til bræðra og systra sem eru í fangelsi.

d Sjá greinina „Búðu þig núna undir ofsóknir“ í Varðturninum júlí 2019.

e MYND: Hjón koma með mat í neyðarskýli til fjölskyldu sem hefur orðið fyrir náttúruhamförum.