Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Ýkti sálmaskáldið Davíð eða var hann óraunsær þegar hann skrifaði að hann vildi lofsyngja nafn Guðs „að eilífu“, eins og kemur fram í Sálmi 61:8?

Nei. Það sem Davíð skrifaði er raunhæft.

Skoðum það sem hann skrifaði í þessu versi og öðrum svipuðum: ,Ég skal lofsyngja nafn þitt að eilífu og efna heit mín dag eftir dag.‘ „Ég lofa þig, Jehóva Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu.“ „Ég lofa nafn þitt um alla eilífð.“ – Sálm. 61:8; 86:12; 145:1, 2.

Þegar Davíð skrifaði þetta hugsaði hann ekki sem svo að hann myndi aldrei deyja. Hann vissi að Jehóva hafði sagt að synd myndi leiða til dauða og hann viðurkenndi að hann væri syndugur. (1. Mós. 3:3, 17–19; Sálm. 51:4, 5) Hann vissi að jafnvel menn sem Guð hafði velþóknun á, eins og Abraham, Ísak og Jakob, höfðu dáið. Og hann gerði sér grein fyrir að hans eigið líf tæki enda. (Sálm. 37:25; 39:4) En það sem hann sagði í Sálmi 61:8 endurspeglaði löngun hans og ásetning að lofsyngja Guð ævinlega, allt sitt líf. – 2. Sam. 7:12.

Davíð skráði stundum eigin reynslusögur, eins og sjá má af yfirskrift 18., 51. og 52. sálmsins. Davíð var góður fjárhirðir og í 23. sálminum lýsir hann Jehóva sem hirði og segir að hann veiti leiðsögn, endurnæringu og vernd. Þess vegna vildi hann þjóna honum ,svo lengi sem hann lifði‘. – Sálm. 23:6.

Höfum líka í huga að það var Jehóva sem innblés Davíð að skrifa. Sumt af því voru spádómar um það sem átti eftir að gerast miklu seinna. Í Sálmi 110 talaði Davíð til dæmis um að Drottinn hans myndi sitja Guði til hægri handar á himni og fá mikið vald. Til að gera hvað? Til að drottna meðal óvina Guðs og ,fullnægja dómi yfir þjóðunum‘. Davíð var forfaðir Jesú sem yrði Messías. Hann myndi ríkja frá himnum og vera „prestur að eilífu“. (Sálm. 110:1–6) Jesús staðfesti að spádómurinn í Sálmi 110 rættist á sér og myndi uppfyllast í framtíðinni. – Matt. 22:41–45.

Davíð var því innblásið að skrifa bæði um tímann þegar hann var uppi og þann tíma í framtíðinni þegar hann rís upp og getur notið þess að lofsyngja Jehóva að eilífu. Það auðveldar okkur að skilja að það sem segir í Sálmi 37:10, 11, 29 lýsir aðstæðum í Ísrael til forna en líka aðstæðum sem verða um heim allan þegar Guð uppfyllir loforð sín. – Sjá 8. grein í námsgreininni „Þú verður með mér í paradís“ í þessu blaði.

Sálmur 61:8 og önnur svipuð vers sýna því að Davíð vildi vegsama Jehóva eins lengi og hann lifði. Og þau bera með sér að Davíð fær aftur tækifæri til að gera það þegar Jehóva gefur honum lífið á ný í framtíðinni.