NÁMSGREIN 49
Við getum lifað að eilífu
„Gjöf Guðs er eilíft líf.“ – RÓMV. 6:23.
SÖNGUR 147 Loforð um eilíft líf
YFIRLIT a
1. Hvaða áhrif hefur það á okkur að hugleiða loforð Jehóva um eilíft líf?
JEHÓVA lofar að gefa þeim sem hlýða honum „eilíft líf“. (Rómv. 6:23) Kærleikur okkar til Jehóva styrkist þegar við hugleiðum það sem hann býður okkur. Það er alveg einstakt að faðir okkar á himnum skuli elska okkur svo heitt að við þurfum aldrei að vera aðskilin frá honum.
2. Hvernig hjálpar loforðið um eilíft líf okkur?
2 Loforð Guðs um eilíft líf hjálpar okkur að halda út í erfiðleikum. Við hættum ekki að þjóna Jehóva jafnvel þótt óvinir okkar hóti að drepa okkur. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að við vitum að ef við deyjum trúföst Jehóva reisir hann okkur aftur upp til lífs og þá þurfum við aldrei nokkurn tíma að deyja aftur. (Jóh. 5:28, 29; 1. Kor. 15:55–58; Hebr. 2:15) Hvers vegna getum við verið viss um að við getum fengið að lifa að eilífu? Hugleiðum nokkrar ástæður.
JEHÓVA LIFIR AÐ EILÍFU
3. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva er fær um að viðhalda lífi okkar að eilífu? (Sálmur 102:12, 24, 27)
3 Við vitum að Jehóva er fær um að viðhalda lífi okkar að eilífu vegna þess að hann er uppspretta lífsins og hann lifir sjálfur að eilífu. (Sálm. 36:9) Skoðum fáein biblíuvers sem staðfesta að Jehóva hefur alltaf verið til og mun alltaf vera til. Í Sálmi 90:2 segir að Jehóva sé „frá eilífð til eilífðar“. Svipuð hugmynd kemur fram í Sálmi 102. (Lestu Sálm 102:12, 24, 27.) Spámaðurinn Habakkuk skrifaði um föður okkar á himni: „Ert þú ekki frá eilífð, Jehóva? Minn heilagi, Guð minn, þú deyrð aldrei.“ – Hab. 1:12.
4. Ættum við að hafa of miklar áhyggjur ef við eigum erfitt með að skilja að Jehóva hafi alltaf verið til? Útskýrðu svarið.
4 Finnst þér erfitt að skilja að Jehóva hafi verið til um „alla eilífð“? (Jes. 40:28) Ef svo er ertu ekki einn um það. Elíhú sagði um Guð: „Aldur hans er óskiljanlegur.“ (Job. 36:26) En þótt við skiljum ekki sumt merkir það samt ekki að það sé ekki satt og rétt. Þýðir til dæmis það að við skiljum ekki hvernig ljós verður til að það sé ekki til? Að sjálfsögðu ekki. Á svipaðan hátt getur verið að við skiljum aldrei til fulls hvernig það má vera að Jehóva hefur alltaf verið til og mun alltaf vera til. En það þýðir samt ekki að Guð lifi ekki að eilífu. Skaparinn er ekki takmarkaður af því sem við skiljum eða skiljum ekki. (Rómv. 11:33–36) Og hann var til á undan efnisheiminum, þar á meðal ljósgjöfum eins og sólinni og stjörnunum. Jehóva fullvissar okkur um að hann „skapaði jörðina með mætti sínum“. Hann var til áður en hann „þandi út himininn“. (Jer. 51:15; Post. 17:24). Hver er önnur ástæða fyrir því að það er mögulegt að við getum lifað að eilífu?
VIÐ VORUM SKÖPUÐ TIL AÐ LIFA AÐ EILÍFU
5. Hvaða möguleika höfðu fyrstu hjónin?
5 Allar lifandi verur sem Jehóva skapaði voru skapaðar til að deyja að lokum, nema maðurinn. Hann gaf manninum þann einstaka möguleika að þurfa aldrei að deyja. En Jehóva varaði Adam við og sagði: „Af skilningstré góðs og ills máttu ekki borða því að sama dag og þú borðar af því muntu deyja.“ (1. Mós. 2:17) Ef Adam og Eva hefðu hlýtt Jehóva hefðu þau aldrei dáið. Það er rökrétt að álykta að á endanum hefði Jehóva leyft þeim að borða af „tré lífsins“. Það hefði þýtt að hann hefði gefið þeim loforð sitt um að þau myndu lifa „að eilífu“. b – 1. Mós. 3:22.
6, 7. (a) Hvað fleira gefur til kynna að mönnum var ekki ætlað að deyja? (b) Hvaða áhugamálum langar þig að sinna? (Sjá myndir.)
6 Það er mjög athyglisvert að vísindamenn hafa komist að því að mannsheilinn hefur getu til að geyma miklu fleiri upplýsingar en við getum safnað á einni ævi. Samkvæmt grein í tímaritinu Scientific American Mind sem birtist árið 2010 hefur verið áætlað að mannsheilinn geti geymt 2,5 milljónir gígabæta af upplýsingum. Það samsvarar þrem milljónum klukkustunda (rúmlega 300 árum) af sjónvarpsupptökum. Og mögulega getur heilinn geymt miklu meiri upplýsingar en það. Hvað sem því líður sýnir þetta að Jehóva hannaði heila okkar til að meðhöndla miklu meiri upplýsingar en við náum að safna á aðeins 70 eða 80 árum. – Sálm. 90:10.
7 Jehóva hefur áskapað okkur sterka löngun til að lifa. Í Biblíunni segir að Guð hafi „lagt eilífðina í hjörtu mannanna“. (Préd. 3:11) Það er ein af ástæðunum fyrir því að við lítum á dauðann sem óvin. (1. Kor. 15:26) Ef við veikjumst alvarlega sættum við okkur ekki bara við ástandið og gefumst upp. Við förum að öllum líkindum til læknis og fáum kannski lyf til að sigrast á veikindunum. Við gerum allt sem við mögulega getum til að forðast að deyja. Og ef ástvinur deyr, hvort sem hann er ungur eða gamall, finnum við til í langan tíma. (Jóh. 11:32, 33) Kærleiksríkur skapari okkar hefði að sjálfsögðu aldrei gefið okkur löngun og hæfileika til að halda áfram að lifa ef hann ætlaði ekki að gefa okkur tækifæri til þess. En við höfum fleiri góðar ástæður til að trúa að við getum lifað að eilífu. Skoðum sumt sem Jehóva hefur gert áður og gerir núna sem sýnir að hann hefur ekki breytt upprunalegri fyrirætlun sinni.
FYRIRÆTLUN JEHÓVA HEFUR EKKI BREYST
8. Hvað getum við verið viss um varðandi fyrirætlun Jehóva fyrir okkur, samanber Jesaja 55:11?
8 Jehóva breytti ekki út af fyrirætlun sinni þótt Adam og Eva hafi syndgað og leitt dauða yfir afkomendur sína. (Lestu Jesaja 55:11.) Það er enn fyrirætlun hans að gefa trúföstum mönnum eilíft líf. Það má sjá af því sem Jehóva hefur sagt og gert til að vinna í samræmi við hana.
9. Hverju hefur Guð lofað? (Daníel 12:2, 13)
9 Jehóva hefur lofað að reisa hina dánu til lífs á ný og gefa þeim tækifæri til að lifa að eilífu. (Post. 24:15; Tít. 1:1, 2) Hinn trúfasti maður Job var viss um að Jehóva þráir að reisa upp þá sem hafa dáið. (Job. 14:14, 15) Daníel spámaður vissi að menn myndu verða reistir upp og fá tækifæri til að lifa að eilífu. (Sálm. 37:29; lestu Daníel 12:2, 13.) Gyðingar á dögum Jesú vissu líka að Jehóva gæti gefið trúföstum þjónum sínum „eilíft líf“. (Lúk. 10:25; 18:18) Jesús talaði oftsinnis um þetta loforð og hann var sjálfur reistur upp af föður sínum. – Matt. 19:29; 22:31, 32; Lúk. 18:30; Jóh. 11:25.
10. Fram á hvað sýna dæmi í Biblíunni um upprisu? (Sjá mynd.)
10 Jehóva er hinn mikli lífgjafi og hefur mátt til að gefa fólki lífið aftur. Hann gerði Elía spámanni kleift að reisa son ekkju í Sarefta til lífs á ný. (1. Kon. 17:21–23) Síðar reisti Elísa spámaður upp son konu frá Súnem með hjálp Guðs. (2. Kon. 4:18–20, 34–37) Þessi og önnur dæmi um upprisu sýna að Jehóva hefur mátt til að gefa fólki lífið aftur. Jesús sýndi fram á að faðir hans hafði gefið honum þetta vald þegar hann var hér á jörð. (Jóh. 11:23–25, 43, 44) Jesús er nú á himnum og honum hefur verið gefið „allt vald á himni og jörð“. Hann getur þess vegna uppfyllt loforðið um að allir sem eru í minningargröfunum verði aftur reistir upp til lífs og fái tækifæri til að lifa að eilífu. – Matt. 28:18; Jóh. 5:25–29.
11. Hvernig gerir lausnargjaldið okkur mögulegt að fá eilíft líf?
11 Hvers vegna leyfði Jehóva að ástkær sonur hans dæi kvalafullum dauða? Jesús benti á svarið þegar hann sagði: „Guð elskaði heiminn svo heitt að hann gaf einkason sinn til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Með því að gefa son sinn sem lausnargjald til að hylja syndir okkar gerir Guð okkur mögulegt að fá eilíft líf. (Matt. 20:28) Páll postuli útskýrði þennan mikilvæga þátt í fyrirætlun Guðs þegar hann skrifaði: „Þar sem dauðinn kom vegna manns kemur upprisa dauðra líka vegna manns. Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam verða líka allir lífgaðir vegna sambands síns við Krist.“ – 1. Kor. 15:21, 22.
12. Hvernig gerir ríki Guðs fyrirætlun Jehóva að veruleika?
12 Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um að ríki Guðs kæmi og að vilji Guðs yrði gerður á jörðinni. (Matt. 6:9, 10) Liður í fyrirætlun Guðs er að mannkynið lifi að eilífu á jörðinni. Til að gera það að veruleika hefur Jehóva útnefnt son sinn konung Messíasarríkisins. Og hann hefur verið að safna 144.000 einstaklingum frá jörðinni til að vinna með Jesú svo að vilji sinn verði gerður. – Opinb. 5:9, 10.
13. Hvað er Jehóva að gera núna og hvað þurfum við þar af leiðandi að gera?
13 Jehóva safnar nú saman miklum múg af fólki og þjálfar það til að vera þegna ríkis síns. (Opinb. 7:9, 10; Jak. ) Þeir sem tilheyra þessum hópi leitast við að sigrast á öllu hatri, hvort heldur milli þjóða, ættflokka eða einstaklinga, þótt þeir búi í heimi sem er sundraður af hatri og stríði. Þeir sýna með verkum sínum að þeir eru þegar farnir að smíða plógjárn úr sverðum sínum í táknrænni merkingu. ( 2:8Míka 4:3, Biblían 2010) Í stað þess að taka þátt í stríði, sem kostar svo marga lífið, hjálpa þeir öðrum að finna „hið sanna líf“ með því að fræða þá um hinn sanna Guð og fyrirætlun hans. (1. Tím. 6:19) Einhverjir í fjölskyldunni gætu snúist gegn þeim eða stuðningur þeirra við Guðsríki gæti bitnað á þeim fjárhagslega. En Jehóva sér til þess að þeir hafi það sem þeir þurfa. (Matt. 6:25, 30–33; Lúk. 18:29, 30) Þetta fullvissar okkur um að ríki Guðs sé raunverulegt og að það muni halda áfram að uppfylla fyrirætlun Jehóva.
DÁSAMLEG FRAMTÍÐ
14, 15. Hvernig uppfyllist loforð Jehóva um að afmá dauðann að eilífu?
14 Jesús er nú konungur í ríki Guðs á himni og vinnur að því að uppfylla öll loforð Jehóva. (2. Kor. 1:20) Hann hefur drottnað meðal óvina sinna síðan 1914. (Sálm. 110:1, 2) Innan skamms hrósa Jesús og meðstjórnendur hans fullnaðarsigri og eyða hinum illu. – Opinb. 6:2.
15 Í þúsundáraríki Jesú rísa dánir upp og hlýðnu mannkyni er lyft til fullkomleika. Eftir lokaprófið munu þeir sem Jehóva dæmir réttláta „erfa jörðina og búa á henni að eilífu“. (Sálm. 37:10, 11, 29) Það verður mikið gleðiefni þegar ,síðasti óvinurinn, dauðinn, verður gerður að engu‘. – 1. Kor. 15:26.
16. Hver ætti að vera aðalástæðan fyrir því að við þjónum Jehóva?
16 Eins og við höfum séð er von okkar um að lifa að eilífu traustlega byggð á orði Guðs. Þessi von getur hjálpað okkur að vera trúföst á þessum erfiðu síðustu dögum. En til að gleðja Jehóva verður að koma eitthvað meira til en löngun til að lifa. Aðalástæðan fyrir því að við viljum vera trúföst Jehóva og Jesú er að við elskum þá innilega. (2. Kor. 5:14, 15) Þessi kærleikur hvetur okkur til að líkja eftir þeim og að segja öðrum frá von okkar. (Rómv. 10:13–15) Eftir því sem við lærum betur að vera óeigingjörn og örlát verðum við þannig persónur sem Jehóva vill eiga að vinum að eilífu. – Hebr. 13:16.
17. Hvaða ábyrgð höfum við hvert og eitt? (Matteus 7:13, 14)
17 Verðum við meðal þeirra sem fá eilíft líf? Jehóva hefur opnað okkur þann möguleika. Nú er það okkar að halda okkur á veginum til lífsins. (Lestu Matteus 7:13, 14.) Hvernig verður eilífa lífið? Við ræðum það í næstu námsgrein.
SÖNGUR 141 Lífið er kraftaverk
a Hlakkar þú til að lifa að eilífu? Jehóva hefur lofað okkur því að sá dagur renni upp að við getum lifað lífinu án þess að hafa áhyggjur af því að þurfa nokkurn tíma að deyja. Í þessari námsgrein skoðum við sumar af ástæðunum fyrir því að við getum verið alveg viss um að Jehóva uppfylli loforð sitt.
b Sjá rammann „ ,Að eilífu‘ og ,eilífur‘ í Biblíunni“.
c MYND: Eldri bróðir ímyndar sér hvað hann mun geta gert þegar eilíft líf verður að veruleika.