Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 51

Framtíðarvon okkar bregst ekki

Framtíðarvon okkar bregst ekki

„Vonin bregst okkur ekki.“ – RÓMV. 5:5.

SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina

YFIRLIT a

1. Hvers vegna getum við sagt að von Abrahams hafi verið traust?

 JEHÓVA lofaði Abraham vini sínum að hann myndi eignast son og að allar þjóðir hlytu blessun vegna hans. (1. Mós. 15:5; 22:18) Hann var alveg viss um að loforð Guðs myndi rætast vegna þess að trú hans á Guð var sterk. En þegar Abraham var 100 ára og konan hans 90 ára höfðu þessi trúföstu hjón enn ekki eignast son. (1. Mós. 21:1–7) Samt segir Biblían: „[Abraham] trúði með von … að hann yrði faðir margra þjóða samkvæmt því sem sagt hafði verið.“ (Rómv. 4:18) Við vitum að von Abrahams varð að veruleika. Hann eignaðist soninn sem hann hafði svo lengi vonast eftir, Ísak. Hvernig gat Abraham verið svona viss?

2. Hvers vegna var Abraham alveg viss um að Jehóva stæði við loforð sitt?

2 Abraham var alveg sannfærður um að það sem Jehóva hafði lofað honum myndi rætast vegna þess að hann átti náið samband við hann. (Rómv. 4:21) Jehóva hafði velþóknun á Abraham og lýsti hann réttlátan vegna trúar hans. (Jak. 2:23) Von Abrahams var nátengd trú hans eins og kemur fram í Rómverjabréfinu 4:18. Skoðum núna það sem Páll postuli segir um von í 5. kafla Rómverjabréfsins.

3. Hvað útskýrir Páll í sambandi við von?

3 Páll útskýrir hvers vegna við getum verið viss um að ‚vonin bregðist okkur ekki‘. (Rómv. 5:5) Hann útskýrir líka hvernig von okkar getur orðið sterkari. Veltu fyrir þér þinni eigin reynslu þegar við skoðum það sem Páll segir í Rómverjabréfinu 5:1–5. Þú kemst trúlega að því að von þín er orðin sterkari. Og þú áttar þig líka á því hvernig þú getur styrkt hana enn meira. Skoðum fyrst þá stórkostlegu von sem Páll segir að bregðist okkur ekki.

STÓRKOSTLEG VON OKKAR

4. Um hvað er fjallað í Rómverjabréfinu 5:1, 2?

4 Lestu Rómverjabréfið 5:1, 2. Páll skrifaði þetta til safnaðarins í Róm. Bræður og systur þar höfðu lært um Jehóva og Jesú, höfðu iðkað trú og gerst kristin. Guð ‚lýsti þau réttlát vegna trúar‘ og smurði þau heilögum anda. Þau eignuðust dásamlega og trausta von.

5. Hver er von þeirra sem eru andasmurðir?

5 Páll skrifaði síðar til andasmurðra þjóna Guðs í Efesus um vonina sem Guð hafði gefið þeim. Hún fól meðal annars í sér ‚arf til hinna heilögu‘. (Ef. 1:18) Páll tók líka fram hvar von Kólossumanna yrði að veruleika. Hann sagði að hún ‚biði þeirra á himnum‘. (Kól. 1:4, 5) Von andasmurðra þjóna Guðs er því sú að þeir verði reistir upp til eilífs lífs á himni þar sem þeir munu ríkja með Kristi. – 1. Þess. 4:13–17; Opinb. 20:6.

Bróðir Frederick W. Franz lýsti vel hversu ljóslifandi vonin er smurðum þjónum Guðs. (Sjá 6. grein.)

6. Hvað sagði bróðir einn um von sína?

6 Smurðir þjónar Guðs meta von sína mikils. Einn þeirra, bróðir Frederick Franz, sagði: „Von okkar er örugg og hún mun rætast fullkomlega hjá hverjum einasta af hinum 144.000 einstaklingum litlu hjarðarinnar og í ríkari mæli en við höfum getað ímyndað okkur.“ Eftir að hafa þjónað Guði trúfastur í áratugi sagði bróðir Franz árið 1991: „[Við] höfum ekki misst sjónar á verðmæti þessarar vonar … við metum hana því meir sem við þurfum að bíða lengur eftir henni. Hún er þess virði að bíða eftir henni, jafnvel þótt biðin tæki milljón ár. Ég met von okkar meira en nokkru sinni fyrr.“

7, 8. Hver er von flestra? (Rómverjabréfið 8:20, 21)

7 Flestir sem tilbiðja Jehóva núna hafa aðra von. Það er vonin sem Abraham hafði – að fá eilíft líf á jörð undir stjórn Guðsríkis. (Hebr. 11:8–10, 13) Páll skrifaði um þessa stórkostlegu von. (Lestu Rómverjabréfið 8:20, 21.) Hvað heillaði þig mest þegar þú heyrðir fyrst um vonina sem Biblían gefur? Var það sú vitneskja að einn daginn muntu öðlast fullkomleika og ekki syndga framar? Eða fannst þér stórkostlegt að komast að því að látnir ástvinir þínir fá líf aftur á paradísarjörð? Við höfum til margs að hlakka vegna vonarinnar sem Guð hefur gefið okkur.

8 Hvort sem von okkar er að eignast eilíft líf á himni eða jörð eigum við dásamlega von sem gefur okkur ástæðu til að vera glöð. En von okkar getur orðið sterkari. Páll útskýrir hvernig það getur orðið. Skoðum það sem hann sagði um vonina. Þannig verðum við enn vissari um að hún bregðist okkur ekki.

HVERNIG STYRKIST VONIN?

Allir þjónar Guðs glíma við einhverja erfiðleika. (Sjá 9. og 10. grein.)

9, 10. Hverju geta þjónar Guðs búist við, samanber reynslu Páls? (Rómverjabréfið 5:3) (Sjá einnig myndir.)

9 Lestu Rómverjabréfið 5:3. Tökum eftir að raunir geta átt þátt í að styrkja vonina. Það hljómar kannski einkennilega. Reyndin er sú að fylgjendur Krists geta átt von á erfiðleikum. Páll var ekki ókunnugur þessu. Hann sagði við Þessaloníkumenn: „Þegar við vorum hjá ykkur sögðum við ykkur fyrir að við myndum verða fyrir erfiðleikum og þannig hefur líka farið.“ (1. Þess. 3:4) Og hann skrifaði til Korintumanna: „Við viljum ekki, bræður og systur, að ykkur sé ókunnugt um þá erfiðleika sem við urðum fyrir … við óttuðumst jafnvel um líf okkar.“ – 2. Kor. 1:8; 11:23–27.

10 Þjónar Guðs nú á dögum geta átt von á erfiðleikum. (2. Tím. 3:12) Hvað með þig? Hefur þú mátt þola andstöðu eftir að þú fórst að trúa á Jesú og fylgja honum? Vinir og ættingjar hafa kannski hæðst að þér. Þeir hafa jafnvel komið mjög illa fram við þig. Hefur ásetningur þinn um að vera heiðarlegur í öllu sem þú gerir orsakað vandamál í vinnunni? (Hebr. 13:18) Hefur þú þurft að þola andstöðu stjórnvalda vegna þess að þú talar við fólk um von þína? Páll segir að við ættum að gleðjast, hverjir sem erfiðleikar okkar kunni að vera. Hvers vegna?

11. Hvers vegna þurfum við að vera ákveðin í að halda út í erfiðleikum?

11 Við getum glaðst í raunum okkar vegna þess að við vitum að þær geta hjálpað okkur að þroska með okkur mikilvægan eiginleika. „Raunir leiða af sér þolgæði,“ eins og segir í Rómverjabréfinu 5:3. Allir þjónar Guðs upplifa erfiðleika og þurfa því á þolgæði að halda. Við þurfum að vera ákveðin að halda út í hvaða erfiðleikum sem við glímum við. Aðeins þannig verður vonin að veruleika. Við viljum ekki vera eins og þeir sem Jesús hafði í huga þegar hann talaði um korn sem féll í grýtta jörð. Þeir tóku við orðinu með fögnuði en féllu þegar „erfiðleikar eða ofsóknir“ urðu á vegi þeirra. (Matt. 13:5, 6, 20, 21) Það er að sjálfsögðu ekki auðvelt eða þægilegt að verða fyrir andstöðu eða erfiðleikum en ef við sýnum þolgæði getur slík reynsla verið gagnleg fyrir okkur. Hvernig þá?

12. Hvaða gagn höfum við af því að halda út í erfiðleikum?

12 Lærisveinninn Jakob benti á gagnið af því að halda út í erfiðleikum. Hann skrifaði: „Leyfið þolgæðinu að ljúka verki sínu svo að þið verðið heil og heilbrigð að öllu leyti og ykkur sé í engu ábótavant.“ (Jak. 1:2–4) Jakob lýsti þolgæði eins og það hefði verk að vinna, að það þjónaði ákveðnum tilgangi. Það getur hjálpað þér að styrkja eiginleika eins og þolinmæði, trú og traust á Guði. En þolgæði nýtist okkur á fleiri vegu.

13, 14. Hverju kemur þolgæði til leiðar og hvernig tengist það voninni? (Rómverjabréfið 5:4)

13 Lestu Rómverjabréfið 5:4. Páll bendir á að þolgæði veiti „velþóknun Guðs“. Þetta merkir ekki að Jehóva sé ánægður með að þú glímir við erfiðleika eða vandamál. Guð hefur velþóknun á þér. Þolgæði þitt veitir velþóknun hans. Er það ekki uppörvandi! – Sálm. 5:12.

14 Gleymum ekki að Abraham sýndi þolgæði í erfiðleikum og Jehóva var ánægður með hann. Jehóva leit á hann sem vin sinn og áleit hann réttlátan. (1. Mós. 15:6; Rómv. 4:13, 22) Það sama getur átt við um okkur. Guð byggir ekki velþóknun sína á því hversu miklu við áorkum í þjónustu hans eða hvaða verkefni við höfum. Hann hefur velþóknun á því þegar við erum trúföst þrátt fyrir erfiðleika. Óháð aldri, aðstæðum og hæfileikum getum við öll sýnt þolgæði. Ertu að glíma við erfiðleika núna en heldur þig fast við Jehóva? Ef svo er skaltu ekki gleyma því að þú gleður Jehóva. Sú vitneskja er dýrmæt og styrkir von okkar.

STERKARI VON

15. Á hvað bendir Páll frekar og hvaða spurningu gæti það vakið?

15 Eins og Páll benti á öðlumst við velþóknun Jehóva með því að vera trúföst og sýna þolgæði í erfiðleikum. Hann hélt áfram: „Velþóknun Guðs veitir von, og vonin bregst okkur ekki.“ (Rómv. 5:4, 5) Þetta gæti vakið spurningu. Páll hafði þegar bent á í Rómverjabréfinu 5:2 að kristnir menn í Róm hefðu ‚von um að hljóta dýrð Guðs‘. Hvað vakir fyrir honum að nefna vonina aftur við þetta tækifæri þar sem þessir kristnu menn höfðu þegar von?

Vonin sem var svo hrífandi í fyrstu hefur orðið traustari og skýrari. (Sjá 16. og 17. grein.)

16. Hvernig byrjar vonin að vaxa? (Sjá einnig myndir.)

16 Við áttum okkur á því hvað vakti fyrir Páli þegar við höfum hugfast að von getur farið vaxandi. Tökum dæmi: Manstu eftir því þegar þú heyrðir í fyrsta skipti um þá stórkostlegu von sem er að finna í orði Guðs? Þú hugsaðir ef til vill að hugmyndin um að lifa að eilífu í paradís væri draumsýn. En eftir því sem þú kynntist Jehóva og loforðum Biblíunnar betur fékkstu fullvissu um að þessi von yrði að veruleika.

17. Hvernig vex von þín eftir að þú hefur vígst Jehóva og látið skírast?

17 Jafnvel eftir að þú skírðist styrktist von þína enn frekar þegar þú kynntist Jehóva betur og elskaðir hann meira. (Hebr. 5:13–6:1) Þú hefur líklega upplifað það sem segir í Rómverjabréfinu 5:2–4. Þú hefur tekist á við mismunandi erfiðleika en sýnt þolgæði og skynjað velþóknun Guðs. Fullvissa um velþóknun hans gefur þér enn ríkari ástæðu til að trúa því að þú hljótir það sem hann hefur lofað. Von þín er orðin sterkari en hún var í upphafi. Hún er þér raunverulegri og persónulegri og hefur sterkari áhrif á þig. Hún hefur áhrif á allt líf þitt og breytir því hvernig þú kemur fram við fjölskyldu þína, hvernig þú tekur ákvarðanir og líka hvernig þú notar tímann.

18. Hvaða tryggingu gefur Jehóva?

18 Postulinn bendir á eitt í viðbót varðandi vonina sem þú hefur eftir að hafa fengið velþóknun Guðs. Hann fullvissar þig um að vonin muni rætast. Hvernig getum við verið viss? Páll bendir á að Guð ábyrgist að þjónar sínir fái að sjá vonina verða að veruleika: „Vonin bregst okkur ekki því að kærleika Guðs hefur verið úthellt í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur var gefinn.“ (Rómv. 5:5) Þú hefur fulla ástæðu til að treysta þessari von – von þinni.

19. Hvað geturðu verið viss um í sambandi við von þína?

19 Rifjum upp loforð Jehóva til Abrahams og að Jehóva hafði velþóknun á honum og leit á hann sem vin. Von Abrahams var ekki til einskis. Biblían segir: „Það var eftir að Abraham hafði beðið þolinmóður sem hann fékk þetta loforð.“ (Hebr. 6:15; 11:9, 18; Rómv. 4:20–22) Hann varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Þú getur líka verið viss um að þú hljótir þá umbun sem þú vonast eftir. Von þín er raunveruleg, hún gefur ástæðu til að gleðjast og veldur ekki vonbrigðum. (Rómv. 12:12) Páll skrifaði: „Megi Guð vonarinnar fylla ykkur gleði og friði þar sem þið treystið honum. Þannig styrkist þið enn meir í voninni með hjálp heilags anda.“ – Rómv. 15:13.

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

a Í þessari námsgrein skoðum við framtíðarvon okkar og hvers vegna við getum verið viss um að hún verði að veruleika. Rómverjabréfið 5. kafli auðveldar okkur að sjá hvernig von okkar hefur breyst frá því að við kynntumst sannleikanum fyrst.