Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 50

Trú og verk geta leitt til réttlætis

Trú og verk geta leitt til réttlætis

‚Fetum í fótspor föður okkar Abrahams og sýnum sömu trú og hann hafði.‘ – RÓMV. 4:12.

SÖNGUR 119 Við verðum að hafa trú

YFIRLIT a

1. Hverju gætum við velt fyrir okkur þegar við hugsum um trú Abrahams?

 MARGIR hafa heyrt um Abraham en vita samt lítið um hann. Þú veist hins vegar heilmikið um hann. Þú veist til dæmis að Abraham er kallaður „faðir allra … sem trúa“. (Rómv. 4:11) Samt veltirðu kannski fyrir þér hvort þú getir fetað í fótspor hans og haft jafn sterka trú og hann. En það er á þínu færi eins og við munum sjá.

2. Hvers vegna er mikilvægt að skoða vandlega fordæmi Abrahams? (Jakobsbréfið 2:22, 23)

2 Við getum ræktað trú eins og Abraham hafði, meðal annars með því að kynna okkur vel fordæmi hans. Hann fór til fjarlægs lands að fyrirmælum Guðs, bjó í tjöldum áratugum saman og var tilbúinn að fórna Ísaki syni sínum sem hann elskaði heitt. Allt endurspeglaði þetta sterka trú Abrahams. Hann gladdi Jehóva með trú sinni og verkum og varð fyrir vikið vinur hans. (Lestu Jakobsbréfið 2:22, 23.) Jehóva vill að við, þú líka, njótum þess að hafa velþóknun hans og séum vinir hans. Þess vegna innblés hann biblíuriturunum Páli og Jakobi að nefna fordæmi Abrahams. Við skulum skoða það sem segir um hann í 4. kafla Rómverjabréfsins og 2. kafla Jakobsbréfsins. Í báðum köflunum er að finna athyglisverða yfirlýsingu um Abraham.

3. Hvaða biblíuvers vitnuðu bæði Páll og Jakob í?

3 Páll og Jakob vitna báðir í 1. Mósebók 15:6 sem segir: „Abram trúði Jehóva og þess vegna taldi hann Abram réttlátan.“ Að vera réttlátur felur í sér að vera þóknanlegur Guði, jafnvel saklaus. Það er ákaflega merkilegt að ófullkomnir menn skuli geta verið saklausir í augum hans. Það er líklegt að þú viljir að þetta eigi við um þig, og það er vel hægt. Til að vita hvernig, þurfum við að skilja hvers vegna þetta var sagt um Abraham.

TRÚ ER NAUÐSYNLEG TIL AÐ VERA RÉTTLÁTUR

4. Hvað hindrar mennina í að vera réttlátir?

4 Í bréfi sínu til Rómverja sagði Páll að allir menn væru syndarar. (Rómv. 3:23) Hvernig má það þá vera að Guð geti álitið menn réttláta eða saklausa og verið vinur þeirra? Páll notar Abraham sem dæmi til að hjálpa þjónum Guðs að skilja þetta.

5. Á hvaða grundvelli lýsti Jehóva Abraham réttlátan? (Rómverjabréfið 4:2–4)

5 Jehóva lýsti Abraham réttlátan meðan hann bjó í Kanaanslandi. Það var ekki vegna þess að Abraham færi eftir Móselögunum. Hvernig vitum við það? (Rómv. 4:13) Þessi lög voru gefin Ísraelsþjóðinni meira en 400 árum eftir að Guð lýsti Abraham réttlátan. Hvað varð þá til þess að Jehóva gerði það? Jehóva sýndi þá einstöku góðvild að lýsa Abraham réttlátan vegna trúar hans. – Lestu Rómverjabréfið 4:2–4.

6. Hvernig lýsir Jehóva syndara réttlátan?

6 Páll sagði að þegar einhver trúir á Guð sé hann „talinn réttlátur vegna trúar sinnar“. (Rómv. 4:5) Hann bætti við: „Davíð segir líka að sá maður sé hamingjusamur sem Guð álítur réttlátan óháð verkum hans: ‚Þeir eru hamingjusamir sem hafa fengið afbrot sín fyrirgefin og syndir sínar huldar. Sá er hamingjusamur sem Jehóva lætur ekki standa reikningsskap synda sinna.‘“ (Rómv. 4:6–8; Sálm. 32:1, 2) Guð fyrirgefur eða hylur syndir þeirra sem trúa á hann. Hann fyrirgefur þeim algerlega. Hann álítur þá saklausa og réttláta vegna trúar þeirra.

7. Í hvaða skilningi getum við sagt að þjónar Guðs til forna hafi verið réttlátir?

7 Abraham, Davíð og aðrir trúfastir þjónar Jehóva voru vissulega lýstir réttlátir en þeir voru eftir sem áður ófullkomnir. Vegna trúar þeirra áleit Guð þá samt saklausa, sérstaklega í samanburði við þá sem höfðu enga trú á hann. (Ef. 2:12) Páll sýnir þannig skýrt fram á í bréfi sínu að trú sé algerlega nauðsynleg til að eiga vináttusamband við Guð. Þannig var það hjá Abraham og Davíð og þannig er það hjá okkur.

HVER ERU TENGSLIN MILLI TRÚAR OG VERKA?

8, 9. Hvaða röngu ályktun hafa sumir dregið af skrifum Páls og Jakobs og hvers vegna?

8 Tengslin milli trúar og verka hafa verið þrætuepli í kristna heiminum um aldaraðir. Sumir trúarleiðtogar kenna að allt sem þurfi að gera sé að trúa bara á Drottin Jesú Krist. Þú hefur kannski heyrt einhvern þeirra segja: „Taktu á móti Jesú Kristi og láttu frelsast.“ Þeir vitna jafnvel í orð Páls: „Guð álítur [mann] réttlátan óháð verkum hans.“ (Rómv. 4:6) Aðrir halda því fram að hægt sé að hljóta hjálpræði með því að fara í pílagrímsferðir og rækja aðrar skyldur sem kirkjan hefur ákveðið. Þeir vitna kannski í Jakobsbréfið 2:24: „Maður er lýstur réttlátur vegna verka sinna en ekki aðeins vegna trúar.“

9 Þar sem trúarskoðanir eru svona ólíkar hafa sumir höfundar trúarrita dregið þá ályktun að Páll og Jakob hafi verið ósammála um tengsl trúar og verka. Trúarleiðtogar gætu haldið því fram að Páll hafi verið þeirrar skoðunar að menn séu lýstir réttlátir vegna trúar án verka en að Jakob hafi hins vegar kennt að verk séu nauðsynleg til að hafa velþóknun Guðs. Prófessor í guðfræði orðar þetta svona: „Jakob skildi ekki hvers vegna Páll lagði áherslu á að trú ein og sér væri nóg til að vera lýstur réttlátur og að ekki væri þörf á verkum.“ En Jehóva innblés bæði Páli og Jakobi að skrifa það sem þeir skrifuðu. (2. Tím. 3:16) Það hlýtur því að vera auðvelt að samræma skrif þeirra. Við gerum það með því að skoða það sem þeir skrifuðu í samhengi.

Páll lagði áherslu á við kristna Gyðinga í Róm að trú væri nauðsynleg en ekki verk byggð á Móselögunum. (Sjá 10. grein.) b

10. Hvers konar verk var Páll aðallega að ræða um? (Rómverjabréfið 3:21, 28) (Sjá einnig mynd.)

10 Hvers konar verk talaði Páll um í 3. og 4. kafla Rómverjabréfsins? Hann var aðallega að tala um „verk byggð á lögunum“ sem voru gefin Ísraelsmönnum. (Lestu Rómverjabréfið 3:21, 28.) Á dögum Páls virðast sumir kristnir Gyðingar hafa átt erfitt með að skilja að ekki þurfti lengur að halda Móselögin. Páll notaði þess vegna Abraham sem dæmi til að sýna fram á að „verk byggð á lögunum“ væru ekki nauðsynleg til að vera réttlátur í augum Guðs. Trú væri hins vegar nauðsynleg. Þessi vitneskja er hvetjandi vegna þess að hún auðveldar okkur að sjá að gott samband við Guð er okkur innan seilingar. Við getum verið Guði þóknanleg ef við ræktum trú á Guð og Jesú Krist.

Jakob hvatti kristna menn til að sýna trú í verki, eins og með því að gera gott án þess að fara í manngreinarálit. (Sjá 11. og 12. grein.) c

11. Hvaða verk var Jakob að tala um?

11 Á hinn bóginn eru verkin sem eru til umræðu í 2. kafla Jakobsbréfsins ekki „verk byggð á lögunum“ heldur verk sem þjónar Jehóva vinna í daglega lífinu. Slík verk leiða í ljós hvort kristinn maður trúi á Guð í raun. Skoðum tvö dæmi sem Jakob nefndi.

12. Hvernig útskýrði Jakob tengslin milli trúar og verka? (Sjá einnig mynd.)

12 Í fyrra dæminu ræðir Jakob um að þjónar Jehóva þurfi að vera óhlutdrægir í samskiptum við aðra. Hann dregur líkingu af manni sem gerir vel við ríkan mann en lítur niður á fátækan mann. Jakob bendir á að slíkur maður gæti fullyrt að hann hefði trú en verk hans afhjúpuðu að svo væri ekki. (Jak. 2:1–5, 9) Í hinu dæminu talar Jakob um trúsystkin sem sér bróður eða systur vanta föt eða mat en veitir enga hjálp. Trúsystkinið gæti sagst hafa trú en hefði samt ekki verk sem sýndu trúna í verki. Slík trú væri gagnslaus. Jakob sagði: „Eins er líka trúin ein og sér dauð ef verkin vantar.“ – Jak. 2:14–17.

13. Hvaða dæmi notaði Jakob til að sýna fram á að bæði trú og verk séu nauðsynleg? (Jakobsbréfið 2:25, 26)

13 Jakob nefnir Rahab sem dæmi um manneskju sem sýndi trú sína í verki. (Lestu Jakobsbréfið 2:25, 26.) Hún hafði heyrt um Jehóva og skildi að Ísraelsmenn hefðu stuðning hans. (Jós. 2:9–11) Hún sýndi trú í verki þegar hún verndaði tvo ísraelska njósnara sem voru í lífshættu. Þessi kona var ófullkomin og hélt ekki Móselögin en var samt lýst réttlát, rétt eins og Abraham. Fordæmi hennar undirstrikar hversu mikilvægt sé að sýna trú í verki.

14. Hvers vegna getum við sagt að það sé fullt samræmi milli skrifa Páls og Jakobs?

14 Biblíuritararnir Páll og Jakob nálguðust einfaldlega tengslin milli trúar og verka frá mismunandi sjónarhorni. Páll sagði kristnum Gyðingum að þeir gætu aldrei öðlast velþóknun Guðs með því að vinna verk byggð á Móselögunum. Jakob lagði áherslu á að allir þjónar Guðs þyrftu að láta trú sína í ljós með því að gera öðrum gott.

Knýr trúin þig til að vinna verk sem Jehóva hefur velþóknun á? (Sjá 15. grein.)

15. Nefndu dæmi um það hvernig við getum sýnt trú okkar í verki. (Sjá einnig myndir.)

15 Jehóva fer ekki fram á að við gerum allt nákvæmlega eins og Abraham gerði til að vera réttlát í augum hans. Það eru margar leiðir til að sýna trú í verki. Við getum tekið vel á móti nýjum sem koma í söfnuðinn, hjálpað trúsystkinum sem eru hjálparþurfi og gert fjölskyldu okkar gott. Allt þetta gleður Jehóva og færir okkur blessun hans. (Rómv. 15:7; 1. Tím. 5:4, 8; 1. Jóh. 3:18) Ein mikilvægasta leiðin til að sýna trú okkar í verki er að boða öðrum fagnaðarboðskapinn af kappi. (1. Tím. 4:16) Við getum öll sýnt með verkum okkar að við trúum að loforð Jehóva rætist og að vegir hans séu þeir bestu. Ef við gerum þetta megum við vera þess fullviss að Jehóva álíti okkur réttlát og kalli okkur vini sína.

BJÖRT VON STYRKIR TRÚNA

16. Hvernig tengdist von Abrahams trú hans?

16 Í 4. kafla Rómverjabréfsins er bent á annað sem við getum lært af fordæmi Abrahams – mikilvægi vonar. Jehóva lofaði að ‚margar þjóðir‘ hlytu blessun fyrir tilstuðlan Abrahams. Þetta loforð hefur eflaust verið honum mikið tilhlökkunarefni. (1. Mós. 12:3; 15:5; 17:4; Rómv. 4:17) En þegar Abraham var orðinn 100 ára og Sara 90 höfðu þau ekki enn eignast son. Frá mannlegum bæjardyrum séð var óhugsandi að það myndi gerast. Þetta reyndi á trú Abrahams. En „hann trúði með von … að hann yrði faðir margra þjóða“. (Rómv. 4:18, 19) Og von hans rættist. Hann eignaðist Ísak, soninn sem hann hafði beðið svo lengi eftir. – Rómv. 4:20–22.

17. Hvernig vitum við að við getum verið talin réttlát sem vinir Guðs?

17 Við getum haft velþóknun Guðs og verið álitin réttlát sem vinir hans, rétt eins og Abraham. Páll tók það fram þegar hann sagði: „Orðin ‚þess vegna var [Abraham] talinn réttlátur‘ voru ekki aðeins skrifuð hans vegna heldur einnig okkar vegna. Við verðum álitin réttlát af því að við trúum á hann sem reisti Jesú Drottin okkar upp frá dauðum.“ (Rómv. 4:23, 24) Eins og Abraham þurfum við að hafa til að bera bæði trú og verk, ásamt von. Í 5. kafla Rómverjabréfsins ræðir Páll meira um von okkar. Það er efni næstu námsgreinar.

SÖNGUR 28 Hver er vinur þinn, Guð?

a Okkur langar að hafa velþóknun Guðs og vera álitin réttlát í augum hans. Í þessari námsgrein er útskýrt hvernig það er mögulegt. Stuðst er við skrif Páls og Jakobs og útskýrt hvernig trú og verk sé hvort tveggja nauðsynlegt til að öðlast velþóknun Jehóva.

b MYND: Páll hvatti kristna Gyðinga til að einbeita sér að trú, en ekki ‚verkum byggðum á lögunum‘, eins og að vera með blátt garn saumað í fötin sín, halda páska og stunda helgisiðaþvott.

c MYND: Jakob hvatti kristna menn til að sýna trú í verki með því að gera öðrum gott, eins og til dæmis að koma fátækum til hjálpar.