NÁMSGREIN 53
Ungu bræður – hvernig getið þið náð þroska í trúnni?
‚Verið sterkir og sýnið karlmennsku.‘ – 1. KON. 2:2.
SÖNGUR 135 Jehóva hvetur: „Vertu vitur, sonur minn“
YFIRLIT a
1. Hvað þarf kristinn karlmaður að gera til að vera farsæll?
DAVÍÐ konungur sagði við Salómon: „Vertu … sterkur og sýndu karlmennsku.“ (1. Kon. 2:1–3) Þetta ráð er mikilvægt öllum kristnum karlmönnum. Til að geta farið eftir því þurfa þeir að læra að hlýða lögum Guðs og heimfæra meginreglur Biblíunnar á öllum sviðum lífsins. (Lúk. 2:52) Hvers vegna er mikilvægt að ungir bræður nái kristnum þroska?
2, 3. Hvers vegna er mikilvægt fyrir ungan bróður að ná kristnum þroska?
2 Kristinn karlmaður hefur margþættu hlutverki að gegna í fjölskyldunni og í söfnuðinum. Þið ungu bræður hafið eflaust hugleitt þau verkefni sem þið gætuð fengið í framtíðinni. Þú hefur kannski sett þér það markmið að þjóna í fullu starfi og verða safnaðarþjónn og seinna meir öldungur. Þig langar ef til vill líka að kvænast og eignast börn. (Ef. 6:4; 1. Tím. 3:1) Til að ná þessum markmiðum og vera farsæll þarftu að ná kristnum þroska. b
3 Hvað getur hjálpað þér að ná kristnum þroska? Þú þarft að tileinka þér ákveðna færni. Hvað geturðu gert núna til að búa þig undir framtíðarverkefni og verða farsæll?
NÁÐU KRISTNUM ÞROSKA
4. Hvar finnurðu góðar fyrirmyndir? (Sjá einnig mynd.)
4 Veldu góðar fyrirmyndir. Í Biblíunni er að finna fjölda góðra fyrirmynda fyrir unga karlmenn. Þessir karlmenn elskuðu Guð og sinntu ýmiss konar ábyrgðarhlutverkum í söfnuði Guðs. Þroskaðir kristnir karlmenn innan fjölskyldunnar og í söfnuðinum gætu líka verið góðar fyrirmyndir. (Hebr. 13:7) Og Jesús Kristur er fullkomin fyrirmynd. (1. Pét. 2:21) Veltu fyrir þér einstökum eiginleikum þessara manna þegar þú skoðar vandlega fordæmi þeirra. (Hebr. 12:1, 2) Ákveddu síðan hvernig þú ætlar að líkja eftir þeim.
5. Hvernig geturðu þroskað með þér skarpskyggni og hvers vegna er það mikilvægt? (Sálmur 119:9)
5 Þroskaðu með þér og „varðveittu … skarpskyggni.“ (Orðskv. 3:21) Maður sem er skarpskyggn hugleiðir hvaða möguleikar eru í stöðunni áður en hann framkvæmir. Leggðu þig fram við að þroska þennan hæfileika. Hvers vegna? Flestir ungir menn láta eigin hugmyndir eða tilfinningar ráða því hvað þeir gera. (Orðskv. 7:7; 29:11) Sjónvarp, kvikmyndir, netið og samfélagsmiðlar geta líka haft áhrif á það hvernig menn hugsa og haga sér. En hvernig er hægt að öðlast skarpskyggni? Byrjaðu á að kynnast meginreglum Biblíunnar og hugleiddu hvers vegna þær eru gagnlegar. Notaðu þær síðan til að hjálpa þér að taka ákvarðanir sem gleðja Jehóva. (Lestu Sálm 119:9.) Að tileinka sér þennan eiginleika er dýrmætur áfangi í þroska kristins manns. (Orðskv. 2:11, 12; Hebr. 5:14) Skoðum hvernig skarpskyggni nýtist þér við tvenns konar aðstæður: (1) hvernig þú kemur fram við systur og (2) þegar þú tekur ákvarðanir í sambandi við útlit og klæðaburð.
6. Hvernig hjálpar skarpskyggni ungum bróður að sýna systrum virðingu?
6 Maður sem hefur lært að hugsa eins og Jehóva sýnir konum virðingu. Það er eðlilegt og ekkert óviðeigandi við að ungur bróðir hafi áhuga á að kynnast trúsystur betur. En ungur karlmaður sem er skarpskyggn segir ekki, skrifar eða gerir nokkuð sem endurspeglar rómantískan áhuga á systur nema hann líti á hana sem mögulegan maka. (1. Tím. 5:1, 2) Ef hann er að kynnast systur ætti hann að huga að mannorði hennar og gæta þess að vera aldrei einn með henni án þess að hafa velsæmisvörð. – 1. Kor. 6:18.
7. Hvernig hjálpar skarpskyggni ungum bróður að taka ákvarðanir í sambandi við útlit og klæðaburð?
7 Ungur karlmaður sýnir líka að hann hefur lært að hugsa eins og Jehóva með því að taka góðar ákvarðanir í sambandi við útlit og klæðaburð. Fæstir tískuhönnuðir og auglýsendur bera virðingu fyrir Jehóva og margir þeirra lifa siðlausu lífi. Það endurspeglast í þröngum fötum og fötum sem gera karlmenn kvenlega. Ungur maður sem tekur út kristinn þroska lætur meginreglur Biblíunnar leiðbeina sér og líkir eftir góðum fyrirmyndum í söfnuðinum. Hann getur spurt sig: Endurspeglar val mitt skynsemi og tillitssemi við aðra? Hjálpar klæðaval mitt öðrum að trúa því að ég þjóni Guði heilshugar? (1. Kor. 10:31–33; Tít. 2:6) Ungur skarpskyggn karlmaður ávinnur sér virðingu bræðra og systra en líka föður síns á himnum.
8. Hvernig getur ungur bróðir lært að vera áreiðanlegur?
8 Vertu áreiðanlegur. Ungur maður sem er áreiðanlegur annast af kostgæfni allt sem hann ber ábyrgð á. (Lúk. 16:10) Hugleiddu fullkomið fordæmi Jesú. Hann var aldrei kærulaus eða óábyrgur. Hann gerði allt sem Jehóva bað hann um, jafnvel þegar það var erfitt. Hann elskaði fólk, sérstaklega lærisveina sína, og gaf líf sitt fúslega í þeirra þágu. (Jóh. 13:1) Leggðu hart að þér að sinna hverju því verkefni sem þú færð, rétt eins og Jesús gerði. Ef þú ert ekki viss um hvernig þú átt að vinna það skaltu sýna auðmýkt og biðja þroskaða bræður um hjálp. Reyndu aldrei að gera eins lítið og þú kemst upp með. (Rómv. 12:11) Ef þú gerir allt „fyrir Jehóva en ekki menn“ reynirðu að gera verkefnum þínum góð skil og klárar þau. (Kól. 3:23) Þú ert að sjálfsögðu ekki fullkominn þannig að þú skalt vera hógvær og viðurkenna mistökin sem þú gerir. – Orðskv. 11:2.
LÆRÐU TIL VERKA
9. Hvers vegna þarf ungur bróðir að læra til verka?
9 Þú þarft að afla þér hagnýtrar færni til að verða þroskaður kristinn karlmaður. Hún gerir þér kleift að axla ábyrgð í söfnuðinum, finna og halda vinnu til að sjá fyrir þér og fjölskyldu og að hafa gott samband við aðra. Skoðum dæmi um slíka færni.
10, 11. Hvernig nýtist það bæði ungum bróður og söfnuðinum ef hann er vel læs og skrifandi? (Sálmur 1:1–3) (Sjá einnig mynd.)
10 Að læra að lesa og skrifa. Biblían segir að hamingjusamur og farsæll maður lesi og hugleiði orð Guðs daglega. (Lestu Sálm 1:1–3.) Þegar hann gerir það kynnist hann því hvernig Jehóva hugsar og það hjálpar honum að hugsa skýrt og heimfæra meginreglur Biblíunnar. (Orðskv. 1:3, 4) Við þurfum á slíkum karlmönnum að halda í söfnuðinum. Hvers vegna?
11 Bræður okkar og systur þurfa á hjálp þeirra að halda sem geta gefið leiðbeiningar og ráð byggð á Biblíunni. (Tít. 1:9) Ef þú ert vel læs og skrifandi geturðu tekið að þér að flytja ræður og svarað spurningum sem styrkja trú annarra. Þú getur líka skrifað gagnlega minnispunkta þegar þú rannsakar Biblíuna og þegar þú hlustar á ræður á samkomum og mótum. Þannig geturðu byggt upp trú þína og veitt öðrum hvatningu.
12. Hvað þarf ungur maður að gera til að verða fær í mannlegum samskiptum?
12 Að læra að eiga góð samskipti við fólk. Kristinn karlmaður þarf að læra að eiga góð samskipti við aðra. Sá sem er fær á þessu sviði hlustar og sýnir skoðunum og tilfinningum annarra skilning. (Orðskv. 20:5) Hann er vakandi fyrir raddblæ, svipbrigðum og líkamstjáningu. Það er ekki hægt að læra þetta nema með því að vera í samskiptum við fólk. Það getur veikt hæfileika þinn til að eiga samskipti við fólk augliti til auglitis ef þú hefur aðallega samskipti við aðra með hjálp tækninnar eins og með tölvupósti og textaskilaboðum. Reyndu því að nýta tækifærin sem gefast til að vera í beinum samskiptum við aðra. – 2. Jóh. 12.
13. Hvað fleira þarf ungur karlmaður að læra? (1. Tímóteusarbréf 5:8) (Sjá einnig mynd.)
13 Að læra að sjá fyrir sér. Þroskaður kristinn karlmaður þarf að geta séð fyrir sér og fjölskyldu sinni. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:8.) Í sumum löndum fá ungir bræður hjálp frá föður sínum eða öðrum ættingja við að afla sér færni til að sjá fyrir sér. Í öðrum löndum fara ungir menn í iðnnám eða afla sér starfsmenntunnar í framhaldsskóla. Hvort heldur er þá er gott að læra eitthvað sem hjálpar manni að fá vinnu. (Post. 18:2, 3; 20:34; Ef. 4:28) Leggðu hart að þér og kláraðu það sem þú byrjar á. Þannig eykurðu líkurnar á því að fá vinnu og halda henni. Eiginleikarnir og færnin sem við höfum fjallað um eru líka mikilvægir þættir fyrir kristinn karlmann til að sinna ábyrgð í framtíðinni. Skoðum fáein dæmi um slíka ábyrgð.
BÚIÐ YKKUR UNDIR VERKEFNI Í FRAMTÍÐINNI
14. Hvernig getur ungur bróðir búið sig undir að þjóna Jehóva í fullu starfi?
14 Þjónusta í fullu starfi. Margir þroskaðir kristnir karlmenn byrjuðu að þjóna Jehóva í fullu starfi á unga aldri. Brautryðjandastarfið hjálpar ungum mönnum að læra að vinna með mismunandi fólki. Það hjálpar þeim líka að læra að fara vel með peninga. (Fil. 4:11–13) Að byrja sem aðstoðarbrautryðjandi er góð leið til að ná því markmiði að þjóna í fullu starfi. Margir eru aðstoðarbrautryðjendur um tíma og það auðveldar þeim að gerast brautryðjendur. Brautryðjandastarfið getur opnað dyr að annars konar þjónustu í fullu starfi, eins og að aðstoða við byggingarvinnu eða þjóna á Betel.
15, 16. Hvað getur hjálpað ungum bróður til að verða safnaðarþjónn eða öldungur?
15 Safnaðarþjónn eða öldungur. Kristnir karlmenn ættu að hafa það markmið að verða hæfir til að þjóna bræðrum og systrum sem safnaðaröldungar. Biblían segir að karlmenn sem sækjast eftir þessu hlutverki ‚þrái göfugt starf‘. (1. Tím. 3:1) Áður en bróðir er útnefndur sem öldungur þarf hann að vera hæfur til að þjóna sem safnaðarþjónn. Safnaðarþjónar aðstoða öldungana við að annast bræður og systur í söfnuðinum. Öldungar og safnaðarþjónar þjóna auðmjúkir bræðrum sínum og systrum og taka góðan þátt í boðuninni. Ungir bræður sem eru að nálgast tvítugt geta jafnvel orðið hæfir til að þjóna sem safnaðarþjónar. Og rúmlega tvítugur safnaðarþjónn getur verið hæfur til að vera útnefndur sem öldungur.
16 Hvernig geturðu orðið hæfur til að vinna þessi verkefni? Hæfniskröfurnar sem eru nauðsynlegar eru allar byggðar á Biblíunni og endurspegla kærleika til Jehóva, fjölskyldunnar og safnaðarins. (1. Tím. 3:1–13; Tít. 1:6–9; 1. Pét. 5:2, 3) Reyndu að skilja hvað hver eiginleiki felur í sér. Biddu Jehóva að hjálpa þér að uppfylla þessar hæfniskröfur. c
17. Hvernig getur ungur bróðir búið sig undir að verða eiginmaður og höfuð fjölskyldu? (Sjá einnig mynd.)
17 Eiginmaður og höfuð fjölskyldunnar. Jesús benti á að sumir þroskaðir kristnir karlmenn væru áfram einhleypir. (Matt. 19:12) Ef þú kýst hins vegar að kvænast færðu nýtt hlutverk sem eiginmaður og höfuð fjölskyldunnar. (1. Kor. 11:3) Jehóva væntir þess að eiginmaður elski eiginkonu sína, annist hana líkamlega og tilfinningalega og hjálpi henni að eiga náið samband við föður sinn á himni. (Ef. 5:28, 29) Eiginleikar og færni sem hafa verið til umræðu í þessari námsgrein, eins og að þroska með sér skarpskyggni, bera virðingu fyrir konum og vera áreiðanlegur munu hjálpa þér að vera góður eiginmaður. Að tileinka þér þetta býr þig vel undir að sinna verkefnum þínum sem eiginmaður og höfuð fjölskyldunnar.
18. Hvernig getur ungur bróðir búið sig undir að verða faðir?
18 Faðir. Eftir að þú hefur gengið í hjónaband eignastu kannski börn. Hvað getum við lært af Jehóva um að vera góður faðir? Við getum lært margt. (Ef. 6:4) Jehóva sagði Jesú syni sínum að hann elskaði hann og hefði velþóknun á honum. (Matt. 3:17) Ef þú eignast börn skaltu fullvissa þau reglulega um að þú elskir þau. Vertu duglegur að hrósa þeim fyrir það góða sem þau gera. Feður sem líkja eftir Jehóva hjálpa börnunum sínum að verða þroskaðir kristnir karlar og konur. Þú getur búið þig undir þetta hlutverk með því að annast af kærleika aðra í fjölskyldu þinni og söfnuðinum og með því að temja þér að segja þeim að þú kunnir að meta þá og elskir þá. (Jóh. 15:9) Þetta auðveldar þér að verða góður eiginmaður og faðir í framtíðinni. Þangað til verðurðu dýrmætur Jehóva og fjölskyldu þinni og söfnuðinum til hjálpar.
HVAÐ ÆTLIÐ ÞIÐ AÐ GERA NÚNA?
19, 20. Hvað hjálpar ungum bræðrum að verða þroskaðir kristnir karlmenn? (Sjá forsíðumynd.)
19 Ungu bræður, þið verðið ekki sjálfkrafa þroskaðir kristnir karlmenn. Þið þurfið að velja góðar fyrirmyndir til að líkja eftir, þroska með ykkur skarpskyggni, vera áreiðanlegir, tileinka ykkur hagnýta færni og búa ykkur undir verkefni í framtíðinni.
20 Ykkur gæti stundum fundist yfirþyrmandi að hugsa um allt sem þið þurfið að vinna að. En það er á ykkar færi. Gleymið ekki að Jehóva er fús til að hjálpa ykkur. (Jes. 41:10, 13) Bræður ykkar og systur í söfnuðinum hjálpa ykkur að sjálfsögðu líka. Þegar þið verðið þess konar karlmenn sem Jehóva vill að þið séuð verður líf ykkar innihaldsríkt og ánægjulegt. Við elskum ykkur, ungu bræður! Megi Jehóva blessa ríkulega viðleitni ykkar til að verða þroskaðir kristnir karlmenn. – Orðskv. 22:4.
SÖNGUR 65 Sækjum fram
a Það er þörf á þroskuðum karlmönnum í kristna söfnuðinum. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig þið ungu bræður getið orðið þess konar karlmenn.
b Sjá orðaskýringu í námsgreininni á undan.