Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viðhorf Guðs til áfengis haft að leiðarljósi

Viðhorf Guðs til áfengis haft að leiðarljósi

VAFALAUST kanntu vel að meta allar þær góðu gjafir sem Jehóva hefur gefið þér, þar á meðal frjálsan vilja. Frjáls vilji gerir þér kleift að ákveða hvernig þú notar allar þessar gjafir. Biblían talar einnig um að vín sé gjöf frá Guði. Þar segir: „Brauð veitir gleði og vín gerir lífið ánægjulegt.“ (Préd. 10:19; Sálm. 104:15) En margir eiga við áfengisvanda að stríða, eins og þú hefur sennilega tekið eftir, og auk þess eru ólíkar skoðanir og gildi hvað varðar neyslu áfengis. Hvað getur hjálpað þjónum Guðs að taka góðar ákvarðanir í þessum efnum?

Allir kristnir menn, óháð því hvar þeir búa eða alast upp, ættu að hafa viðhorf Guðs að leiðarljósi til að geta tekið ákvarðanir sér til gagns og blessunar.

Þú hefur örugglega tekið eftir því að margt veraldlegt fólk drekkur oft og mikið. Sumir drekka til að slaka á, aðrir til að drekkja áhyggjum sínum og víða er það álitið merki um að vera veraldarvanur eða karlmannlegur að drekka mikið magn áfengis.

En þjónar Guðs njóta viturlegrar leiðsagnar hans. Hann hefur til dæmis varað við sorglegum afleiðingum ofdrykkju. Þú kannast kannski við lýsinguna í Orðskviðunum 23:29–35 af drukkinni manneskju og vandamálunum sem fylgja drykkjuskap. a Safnaðaröldungur í Evrópulandi að nafni Daniel rifjar upp hvernig líf hans var áður en hann varð vottur Jehóva. Hann segir: „Ég drakk óhóflega og tók þar af leiðandi slæmar ákvarðanir og varð oft fyrir biturri reynslu. Ég hef enn ekki beðið þess bætur.“

Hvernig geta kristnir menn notað frjálsan vilja sinn og jafnframt sneitt hjá vandamálum sem fylgja óhóflegri áfengisneyslu? Lykillinn er að láta viðhorf Guðs stýra ákvörðunum okkar og gerðum.

Skoðum nú hvað Biblían segir um áfengi og hvers vegna sumir drekka.

GILDISMAT BIBLÍUNNAR

Orð Guðs fordæmir ekki hóflega notkun áfengis. Biblían segir reyndar að vín geti verið gleðigjafi. Við lesum: „Borðaðu mat þinn með ánægju og drekktu vín með glöðu hjarta.“ (Préd. 9:7) Jesús drakk vín við mismunandi tækifæri og aðrir trúfastir þjónar Jehóva gerðu það líka. – Matt. 26:27–29; Lúk. 7:34; 1. Tím. 5:23.

Orð Guðs gerir hins vegar greinarmun á því að drekka lítið eitt af víni og verða drukkinn. Hún segir blátt áfram: „Drekkið ykkur ekki drukkin af víni.“ (Ef. 5:18) Biblían segir enn fremur að ‚drykkjumenn … erfi ekki ríki Guðs‘. (1. Kor. 6:10) Já, Jehóva fordæmir harðlega ofdrykkju og drykkjuskap. Í stað þess að láta viðhorf okkar mótast af því sem telst gott og gilt í okkar menningu ættum við að spyrja okkur hvað Guði finnst um málin.

Sumir segjast geta drukkið mikið magn áfengis án þess að verða drukknir. Þetta viðhorf er mjög hættulegt. Ritningin segir afdráttarlaust að sá sem er drykkfelldur, hvort sem það er karl eða kona, geti leiðst afvega og unnið sjálfum sér siðferðilegt og andlegt tjón. (Tít. 2:3; Orðskv. 20:1) Jesús varaði jafnvel við því að drykkjuskapur gæti gert það að verkum að maður komist ekki inn í nýjan heim Guðs. (Lúk. 21:34–36) Hvað getur þá hjálpað þjónum Guðs að sneiða hjá vandamálunum sem fylgja áfengisneyslu?

SKOÐAÐU VENJUR ÞÍNAR OG ÁSTÆÐUR

Það er varasamt að láta menningarheim okkar stýra viðhorfi okkar til áfengis. Þjónar Guðs gera vel í því að vilja þóknast Jehóva varðandi mat og drykk. Biblían minnir okkur á: „Hvort sem þið því borðið eða drekkið eða gerið eitthvað annað þá gerið allt Guði til dýrðar.“ (1. Kor. 10:31) Í framhaldinu eru nokkrar spurningar og meginreglur sem vert er að íhuga.

Drekk ég áfengi til að falla inn í hópinn? Í 2. Mósebók 23:2 stendur: „Þú skalt ekki fylgja fjöldanum.“ Jehóva er hér að vara Ísraelsmenn við því að fylgja fólki sem hann hefur ekki þóknun á. Þessi viðvörun er enn þá í fullu gildi fyrir þjóna Guðs. Ef við leyfum félögum okkar að móta hugsunarhátt okkar og ákvarðanir í sambandi við áfengi gæti það leitt til þess að við fjarlægjumst Jehóva og mælikvarða hans. – Rómv. 12:2.

Drekk ég áfengi til að sýna styrk minn? Sums staðar þykir ekkert tiltökumál að drekka mikið af áfengi og oft. (1. Pét. 4:3) Sjáðu hvaða ljósi 1. Korintubréf 16:13 (neðanmáls) varpar á þetta: „Haldið vöku ykkar, standið stöðug í trúnni, sýnið karlmennsku og eflist.“ Getur áfengi virkilega stuðlað að því að maður eflist? Raunin er önnur. Áfengi deyfir skynfærin og skerðir eðlilega hugsun og gerðir. Að drekka mikið magn áfengis sýnir þess vegna veikleika frekar en styrkleika. Í Jesaja 28:7 er sagt að sá sem fer afvega vegna víndrykkju sé reikull í spori og riði til falls.

Sannur styrkur kemur frá Jehóva og felur í sér að halda vöku sinni og standa stöðugur í trúnni. (Sálm. 18:32) Þjónar Guðs geta fylgt þessu með því að vera á varðbergi og vera fastir fyrir til að forðast andlegt tjón. Jesús sýndi slíkan styrkleika þegar hann var hér á jörðinni og margir litu upp til hans vegna hugrekkis hans og staðfestu.

Nota ég áfengi sem flóttaleið? Sálmaskáld skrifaði undir innblæstri: „Þegar áhyggjur voru að buga mig hughreystir þú [Jehóva] mig og róaðir.“ (Sálm. 94:19) Þegar áhyggjur íþyngja þér skaltu leita huggunar hjá Jehóva en ekki í áfengi. Áhrifarík leið til að gera það er að biðja enn oftar til Jehóva. Margir hafa líka komist að því að góður vinur í söfnuðinum geti létt undir bagga með því að gefa góð ráð. Reyndar getur áfengi dregið úr siðferðisþreki manns og veikt ásetning hans til að gera rétt. (Hós. 4:11) Daniel, sem áður var minnst á, viðurkennir: „Ég var að berjast við kvíða og sektarkennd. Ég drakk til að reyna að höndla ástandið en vandamálin hrönnuðust upp og ég missti vini og sjálfsvirðinguna.“ Hvað kom Daniel að lokum til hjálpar? Hann segir: „Ég komst að því að ég þyrfti að halla mér að Jehóva, ekki áfenginu. Mér tókst loks að ná tökum á vandamálum mínum og sigrast á þeim.“ Sannleikurinn er sá að Jehóva er alltaf til staðar til að lina sársaukann, jafnvel þegar ástandið virðist vonlaust. – Fil. 4:6, 7; 1. Pét. 5:7.

Ef þú drekkur stundum áfengi væri ekki úr vegi að kanna venjur þínar með hjálp þessara spurninga: „Hefur einhver í fjölskyldunni eða góður vinur tjáð áhyggjur sínar yfir drykkjuvenjum mínum?“ Þá gæti það verið vísbending um að þú sért farinn að koma þér upp venjum sem þú ert þér ekki meðvitaður um. „Drekk ég meira en áður?“ Sá sem gerir það er kannski enn ekki orðinn háður áfengi en gæti samt stefnt í þá átt. „Finnst mér erfitt að vera án áfengis í nokkra daga eða lengur?“ Ef sú er raunin gæti drykkjan verið orðin að rótgrónum vana eða fíkn. Það gæti þýtt að þú þurfir að leita þér faglegrar aðstoðar til að sigrast á vandamáli þínu.

Sumir þjónar Guðs hafa ákveðið að halda sig frá áfengi í ljósi þeirra vandamála sem tengjast áfengisneyslu. Aðrir sleppa því að drekka af því að þeim finnst áfengi einfaldlega ekki gott. Ef einhver vina þinna hefur tekið slíka ákvörðun skaltu sýna honum tillitssemi og virða ákvörðun hans gagnrýnislaust.

Þú gætir líka hafa áttað þig á að það sé viturlegt að setja sér ákveðnar skorður hvað varðar magn áfengis sem þú drekkur eða hversu oft þú drekkur, kannski einu sinni í viku eða hóflega með mat. Aðrir takmarka áfengisneyslu sína við ákveðnar tegundir áfengis, eins og léttvín eða bjór í hófi, en sleppa brenndu víni jafnvel í blönduðum drykkjum. Þegar slík skýr mörk eru sett veitist manni auðveldara að halda sig við þau. Og enginn á að þurfa að skammast sín fyrir að halda sig staðfastlega við slíkt val.

Tillitssemi við aðra er annar vinkill sem gott er að hafa í huga. Rómverjabréfið 14:21 segir: „Best er að borða ekki kjöt né drekka vín né gera neitt sem getur orðið bróður þínum að falli.“ Hvernig geturðu farið eftir þessum ráðum? Sýndu náungakærleik. Ef þú heldur að það myndi stuða einhvern ef þú færð þér drykk væri þá ekki kærleiksríkt að sleppa því frekar en að standa á rétti sínum? Þannig sýnirðu virðingu fyrir tilfinningum annarra og hugsar frekar um þeirra hag en ekki þinn eigin. – 1. Kor. 10:24.

Auk þess má vel vera að yfirvöld hafi sett ákveðin lög sem ættu að vera leiðbeinandi fyrir kristna menn. Þau gætu varðað lágmarksaldur varðandi áfengisnotkun og bann við neyslu áfengis í tengslum við akstur eða meðhöndlun vinnuvéla. – Rómv. 13:1–5.

Jehóva hefur sýnt okkur þá virðingu að gefa okkur frelsi til að njóta hinna mörgu gjafa hans, þar með talið frelsi til að ákveða hvað við borðum og drekkum. Látum val okkar sýna að við kunnum að meta þetta frelsi með því að gleðja föður okkar á himnum.

a Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna skýrir frá því að afleiðingar óhóflegrar áfengisneyslu geti meðal annars verið morð, sjálfsvíg, kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi, áhættusamt kynlíf og fósturlát.