Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 5

SÖNGUR 27 Börn Guðs verða opinber

‚Ég mun aldrei yfirgefa þig‘

‚Ég mun aldrei yfirgefa þig‘

„[Guð] hefur sagt: ‚Ég mun aldrei snúa baki við þér og aldrei yfirgefa þig.‘“HEBR. 13:5b.

Í HNOTSKURN

Þjónar Guðs á jörð fá fullvissu um að þeir verði ekki yfirgefnir þegar þeir sem eru eftir af andasmurðum þjónum hans hafa verið teknir til himna.

1. Hvenær verða allir andasmurðir komnir til himna?

 ÞAÐ er langt síðan þjónar Jehóva fóru að velta því fyrir sér hvenær síðasti andasmurði þjónn Jehóva færi til himna. Áður fyrr álitum við að nokkrir andasmurðir einstaklingar yrðu ef til vill um tíma í paradís á jörð eftir Harmagedónstríðið. En í Varðturninum 15. júlí 2013 segir að allir andasmurðir þjónar Jehóva sem eru á jörðinni verði reistir upp til himna áður en Harmagedónstríðið brýst út. – Matt. 24:31.

2. Hvaða spurning gæti vaknað og hvað skoðum við í þessari námsgrein?

2 En við gætum spurt: Hvað verður um „aðra sauði“ Krists sem þjóna Jehóva af trúfesti á jörðinni í þrengingunni miklu? (Jóh. 10:16; Matt. 24:21) Sumir gætu haft áhyggjur af því að þeim muni finnast þeir yfirgefnir eða týndir þegar kær andasmurð trúsystkini þeirra verða tekin til himna. Skoðum tvær frásögur í Biblíunni sem gætu haft þessi áhrif. Síðan ræðum við um tvær ástæður fyrir því að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur.

HVAÐ MUN EKKI GERAST?

3, 4. Hverju gætu sumir velt fyrir sér og hvers vegna?

3 Sumir gætu velt því fyrir sér hvort aðrir sauðir muni villast frá sannleikanum þegar þeir hafa ekki lengur andasmurða þjóna Jehóva úr stjórnandi ráði til að leiðbeina sér. Vissar frásögur í Biblíunni gætu ýtt undir þennan ótta. Skoðum tvær þeirra. Í fyrri frásögunni kemur Jójada æðstiprestur við sögu. Hann var trúfastur þjónn Guðs. Hann og Jósabat eiginkona hans tóku ungan dreng, Jóas, undir verndarvæng sinn og hjálpuðu honum að verða góður og trúfastur konungur. Jóasi gekk vel eins lengi og hinn aldraði Jójada lifði. En eftir dauða hans fór Jóas af réttri braut. Hann hlustaði á illa höfðingja og yfirgaf Jehóva. – 2. Kron. 24:2, 15–19.

4 Síðara dæmið fjallar um kristna menn á annarri öld. Jóhannes postuli, sem lifði lengst postulanna, hafði góð áhrif á marga kristna menn og hjálpaði þeim að halda áfram að þjóna Jehóva af trúfesti. (3. Jóh. 4) Hann hafði ásamt öðrum trúföstum postulum um tíma barist af krafti gegn fráhvarfi sem var að breiðast út. (1. Jóh. 2:18; 2. Þess. 2:7) En eftir dauða Jóhannesar breiddist það út eins og eldur í sinu og innan fárra áratuga var kristni söfnuðurinn orðinn gerspilltur.

5. Hvað ættum við ekki að álykta af þessum tveim frásögum?

5 Gefa þessar frásögur Biblíunnar til kynna að eitthvað álíka hendi aðra sauði Krists þegar hinir andasmurðu verða teknir til himna? Munu trúfastir þjónar Guðs villast frá veginum eins og Jóas gerði eða verða fráhvarfi að bráð eins og margir kristnir einstaklingar á annarri öld? Alls ekki! Við getum verið alveg viss um að Jehóva muni halda áfram að annast aðra sauði og þeir að þjóna honum þegar hinir andasmurðu hverfa af jörðinni. Hvers vegna erum við svona vissir um það?

SÖNN TILBEIÐSLA MUN EKKI SPILLAST

6. Hvaða þrjú tímabil skoðum við stuttlega?

6 Hvers vegna getum við verið viss um að sönn tilbeiðsla muni ekki spillast, jafnvel þegar ástandið versnar í framtíðinni? Vegna þess sem við höfum lært í Biblíunni um þann tíma sem við lifum. Tíminn sem við lifum er mjög frábrugðinn tímanum sem Ísraelsmenn til forna lifðu og tíma kristinna manna á annarri öld. Skoðum aðeins nánar þessi þrjú tímabil: (1) Tímabilið sem Ísraelsmenn til forna lifðu, (2) tímabilið eftir að postularnir dóu og (3) á okkar tímum „þegar allt verður endurreist“. – Post. 3:21.

7. Hvers vegna misstu trúfastir þjónar Guðs ekki vonina þegar konungar og margir aðrir kusu að stunda illskuverk?

7 Tímabilið sem Ísraelsmenn til forna lifðu. Stuttu áður en Móse dó sagði hann við Ísraelsmenn: „Ég veit vel að eftir dauða minn munuð þið gera það sem er illt og víkja út af veginum sem ég hef sagt ykkur að fylgja.“ (5. Mós. 31:29) Móse sagði Ísraelsmönnum líka að ef þeir gerðu uppreisn yrðu þeir sendir í útlegð. (5. Mós. 28:35, 36) Rættist þetta? Já. Í aldanna rás kusu margir konungar að gera það sem er illt í augum Jehóva og fólkið elti þá í falskri tilbeiðslu. Þetta varð til þess að Jehóva hafnaði ranglátri þjóð sinni og batt enda á konungsættina á jörðinni. (Esek. 21:25–27) En trúfastir Gyðingar tóku í sig kjark þegar þeir sáu orð Guðs rætast. – Jes. 55:10, 11.

8. Ætti það að koma okkur á óvart að kristni söfnuðurinn á annarri öld skyldi spillast? Skýrðu svarið.

8 Tímabilið eftir að postularnir dóu. Ætti það að koma okkur á óvart að kristni söfnuðurinn á annarri öld skyldi spillast? Nei, alls ekki. Jesús sagði fyrir að mikið fráhvarf myndi eiga sér stað. (Matt. 7:21–23; 13:24–30, 36–43) Postularnir Páll, Pétur og Jóhannes höfðu allir staðfest að spádómur Jesú byrjaði að uppfyllast á fyrstu öld. (2. Þess. 2:3, 7; 2. Pét. 2:1; 1. Jóh. 2:18) Á annarri öld spilltist kristni söfnuðurinn. Fráhvarfskristni varð áberandi hluti Babýlonar hinnar miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Enn og aftur rættist það sem Biblían sagði fyrir.

9. Hvernig er tímabilið sem við lifum ólíkt tímabilinu sem Ísraelsmenn til forna lifðu og tíma kristna safnaðarins á annarri öld?

9 Tímabilið „þegar allt verður endurreist“. Okkar tími er ólíkur þeim tíma sem Ísraelsmenn til forna lifðu og þeim tíma sem fráhvarfið mikla á annarri öld átti sér stað. Hvað er tíminn sem við lifum kallaður? Við köllum hann venjulega ‚síðustu daga‘ þessarar illu heimskipanar. (2. Tím. 3:1) En Biblían sýnir að þýðingameira og lengra tímabil hófst á sama tíma. Það mun halda áfram þar til Messíasarríkið hefur endurreist mannkynið til fullkomleika og breytt jörðinni í paradís. Þessu tímabili er lýst sem þeim tíma „þegar allt verður endurreist“. (Post. 3:21) Það hófst árið 1914. Hvað var endurreist þá? Jesús var krýndur konungur á himni. Þannig var aftur kominn fulltrúi Jehóva sem stjórnandi og erfingi hins trúfasta Davíðs konungs. En þessi konungdómur er ekki það eina sem Jehóva hefur endurreist. Stuttu síðar var loksins hafist handa við að endurreisa sanna tilbeiðslu. (Jes. 2:2–4; Esek. 11:17–20) Mun hún spillast aftur?

10. (a) Hvað segir Biblían fyrir um sanna tilbeiðslu á okkar tíma? (Jesaja 54:17) (b) Hvers vegna eru slíkir spádómar trústyrkjandi?

10 Lestu Jesaja 54:17. Veltu fyrir þér spádóminum: „Ekkert vopn sem smíðað verður gegn þér reynist sigursælt.“ Þessi innblásnu orð eru að uppfyllast nú á dögum. Eftirfarandi orð sem veita uppörvun eiga einnig við okkar tíma: „Jehóva mun kenna öllum sonum þínum og þeir munu njóta mikils friðar. Réttlætið verður traustur grundvöllur þinn … þú óttast ekkert og þarft ekki að skelfast neitt því að ekkert sem skelfir kemur nálægt þér.“ (Jes. 54:13, 14) Ekki einu sinni Satan, „guð þessa heims“, hefur neitt í að stöðva það verk sem fólk Jehóva er að gera til að fræða aðra um Jehóva. (2. Kor. 4:4) Sönn tilbeiðsla hefur verið endurreist og henni verður aldrei spillt aftur. Hún er komin til að vera, um alla eilífð. Ekkert vopn sem smíðað verður gegn okkur reynist sigursælt.

HVAÐ MUN GERAST?

11. Hvað sannfærir okkur um að múgurinn mikli verði ekki yfirgefinn þegar hinir andasmurðu fara til himna?

11 Hvað mun gerast þegar hinir andasmurðu verða teknir til himna? Munum að Jesús er hirðir okkar. Hann er höfuð kristna safnaðarins. Hann sagði skýrt: „Einn er leiðtogi ykkar, Kristur.“ (Matt. 23:10) Ríkjandi konungur okkar mun alltaf annast trúa fylgjendur sína. Þar sem þeir eru í umsjá Krists hafa þeir ekkert að óttast. Við vitum að sjálfsögðu ekki í smáatriðum hvernig Kristur leiðir fólk sitt á þeim tíma. En skoðum frásögur í Biblíunni sem geta veitt okkur hugarró.

12. Hvernig annaðist Jehóva fólk sitt (a) eftir dauða Móse? (b) eftir að Elía fékk nýtt verkefni? (Sjá einnig mynd.)

12 Áður en Ísraelsþjóðin kom inn í fyrirheitna landið dó Móse. Hvaða áhrif hafði það á þjóna Guðs? Voru þeir í reiðileysi þegar þessi trúfasti maður var ekki lengur meðal þeirra? Nei. Jehóva sá fyrir þeim svo framarlega sem þeir voru trúfastir. Áður en Móse dó sagði Jehóva honum að útnefna Jósúa til að leiða þjóð sína. Móse hafði þjálfað Jósúa í mörg ár. (2. Mós. 33:11; 5. Mós. 34:9) Þar að auki voru margir hæfir menn sem tóku forystuna – höfðingjar yfir þúsund, hundrað, fimmtíu og jafnvel tíu. (5. Mós. 1:15) Það var vel séð um þjóð Guðs. Svipaða sögu var að segja á þeim tíma þegar Elía tók forystu í tilbeiðslunni á Jehóva. Hann hafði leitt Ísraelsþjóðina í sannri tilbeiðslu í mörg ár. En sá tími kom að Jehóva gaf honum annað verkefni suður í Júda. (2. Kon. 2:1; 2. Kron. 21:12) Var trúfast fólk í tíuættkvíslaríkinu Ísrael yfirgefið? Nei. Elía hafði þjálfað Elísa um árabil. Svo höfðu líka ‚synir spámannanna‘ fengið þjálfun af einhverju tagi. (2. Kon. 2:7) Það voru því margir trúfastir menn til staðar til að leiðbeina þjóð Guðs. Jehóva hélt áfram að framkvæma vilja sinn og annaðist trúfasta tilbiðjendur sína.

Móse (á myndinni til vinstri) og Elía (á myndinni til hægri) þjálfuðu hvor um sig hæfa menn til að taka við forystunni. (Sjá 12. grein.)


13. Hverju lofar Jehóva okkur í Hebreabréfinu 13:5b? (Sjá einnig mynd.)

13 Hvað heldurðu í ljósi þessara frásagna að gerist þegar síðasti andasmurði einstaklingurinn verður tekinn til himna? Við þurfum ekki að velkjast í vafa um það. Í Biblíunni er að finna hughreystandi sannleika: Jehóva mun aldrei yfirgefa fólk sitt á jörðinni. (Lestu Hebreabréfið 13:5b.) Hinn litli hópur andasmurðra kristinna manna sem tekur forystuna nú á dögum skilur mikilvægi þess að þjálfa aðra, rétt eins og Móse og Elía gerðu. Í mörg ár hafa bræðurnir í hinu stjórnandi ráði þjálfað menn af öðrum sauðum til að taka forystuna. Þeir hafa til dæmis sett á laggirnar skóla til að þjálfa öldunga, farandhirða, bræður í deildarnefndum, umsjónarmenn á Betel og aðra. Stjórnandi ráð hefur líka þjálfað aðstoðarmenn ýmissa nefnda stjórnandi ráðs. Þessir aðstoðarmenn axla nú þegar umtalsverða ábyrgð. Þeir eru vel undir það búnir að halda áfram að annast sauði Krists.

Hið stjórnandi ráð hefur unnið kappsamlega að því að þjálfa aðstoðarmenn og setja á laggirnar skóla til að þjálfa öldunga, farandhirða, bræður í deildarnefndum, umsjónarmenn á Betel og trúboða um allan heim. (Sjá 13. grein.)


14. Hvert er aðalatriðið í þessari umræðu?

14 Aðalatriði umræðu okkar er: Sönn tilbeiðsla heldur óslitið áfram á jörðinni þegar síðasti andasmurði einstaklingurinn er farinn til himna undir lok þrengingarinnar miklu. Þjónar Guðs munu aldrei missa dampinn í tilbeiðslunni, þökk sér forystu Jesú Krists. Við vitum að á þeim tíma ræðst bandalag þjóða, sem Biblían kallar Góg í Magóg, á þjóna Guðs. (Esek. 38:18–20) En sú stutta árás mistekst, hún stöðvar ekki þjóna Guðs í að tilbiðja Jehóva. Hann mun vissulega bjarga þeim. Jóhannes postuli sá í sýn „mikinn múg“ koma út úr „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:9, 14) Við vitum að Jehóva mun bjarga þjónum sínum.

15, 16. Hvað munu hinir andasmurðu gera í Harmagedónstríðinu samkvæmt Opinberunarbókinni 17:14 og hvers vegna er það uppörvandi?

15 Sumir gætu hugsað: Hvað með hina andasmurðu? Hvert verður hlutverk þeirra eftir að þeir eru farnir til himna? Við fáum svar við þeirri spurningu í Biblíunni. Hún greinir frá því að ríkisstjórnir þessa heims muni „berjast við lambið“. Þær munu að sjálfsögðu bíða ósigur. Við lesum: „Lambið mun sigra þá.“ Og hverjir munu aðstoða lambið? Því er svarað í versinu: „Hinir kölluðu, útvöldu og trúu.“ (Lestu Opinberunarbókina 17:14.) Hverjir eru þetta? Upprisnir andasmurðir einstaklingar. Þegar síðasti andasmurði einstaklingurinn á jörðu verður tekinn til himna undir lok þrengingarinnar miklu verður fyrsta verkefni þeirra að taka þátt í stríði. Það er ótrúlegt verkefni! Sumir hinna andasmurðu börðust við aðra áður en þeir urðu vottar Jehóva. Sumir voru jafnvel hermenn. En síðar gerðust þeir sannkristnir og kynntust vegi friðarins. (Gal. 5:22; 2. Þess. 3:16) Þeir hættu öllum afskiptum af hernaði. En eftir að hafa verið reistir upp til himna munu þeir ásamt Kristi og heilögum englum berjast í lokastríðinu við óvini Guðs.

16 Hugsaðu þér: Á jörðinni eru sumir hinna andasmurðu orðnir aldraðir og kannski veikburða. En þegar þeir hafa verið reistir upp til lífs á himnum verða þeir máttugar og ódauðlegar andaverur sem fylgja stríðskonungi sínum, Jesú Kristi. Eftir Harmagedónstríðið taka þeir þátt í að leiða mannkynið til fullkomleika. Þeir munu vafalaust gera kærum bræðrum sínum og systrum á jörð langtum meira gott á himnum en þeir gætu nokkurn tíma gert sem ófullkomnar manneskjur.

17. Hvernig vitum við að allir þjónar Guðs verða öruggir í Harmagedónstríðinu?

17 Ertu af hinum öðrum sauðum? Hvað þarft þú þá að gera þegar úrslitastríðið við Harmagedón brýst út? Þú þarft einfaldlega að treysta á Jehóva og fylgja leiðbeiningum hans. Hvað gæti það falið í sér? Það er hughreystandi sem segir í Biblíunni: „Farðu, þjóð mín, inn í innstu herbergi þín og lokaðu á eftir þér. Feldu þig stutta stund þar til reiðin er liðin hjá.“ (Jes. 26:20) Allir trúfastir þjónar Guðs, á himni og jörð, verða öruggir á þessum tíma. Líkt og Páll postuli erum við sannfærð um að hvorki „stjórnvöld, það sem nú er né það sem er ókomið … geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs“. (Rómv. 8:38, 39) Gleymdu ekki að Jehóva elskar þig og mun aldrei yfirgefa þig.

ÞEGAR SÍÐASTI ANDASMURÐI EINSTAKLINGURINN VERÐUR TEKINN TIL HIMNA:

  • Hvað mun ekki gerast?

  • Hvernig getum við verið viss um að sönn tilbeiðsla muni ekki spillast?

  • Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva muni annast fólk sitt?

SÖNGUR 8 Jehóva er hæli okkar