Tveir nýir bræður í stjórnandi ráði
MIÐVIKUDAGINN 18. janúar 2023 birtist sérstök tilkynning á jw.org um að Gage Fleegle og Jeffrey Winder hefðu verið útnefndir til að taka sæti í stjórnandi ráði Votta Jehóva. Báðir þessir bræður hafa lengi þjónað Jehóva af trúfesti.
Bróðir Fleegle ólst upp í trúnni í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Þegar hann var unglingur flutti fjölskylda hans í dreifbýlið þar sem þörfin var meiri. Stuttu síðar lét hann skírast 20. nóvember 1988.
Foreldrar bróður Fleegles hvöttu hann alltaf til að þjóna Jehóva í fullu starfi. Þau buðu oft farandhirðum og Betelítum á heimili sitt og hann tók eftir því hvað þessi trúsystkini voru ánægð. Stuttu eftir skírn sína byrjaði hann að starfa sem brautryðjandi, þann 1. september 1989. Tveim árum síðar náði hann markmiðinu sem hann hafði sett þegar hann var 12 ára – að starfa á Betel. Hann hóf störf á Betel í Brooklyn í október 1991.
Bróðir Fleegle vann í bókbandinu í átta ár en var þaðan sendur í þjónustudeildina. Á þeim tíma starfaði hann með rússneskumælandi söfnuði í fáein ár. Árið 2006 kvæntist hann Nadiu sem hóf þjónustu á Betel með honum. Þau hafa starfað saman á portúgölsku málsvæði og í meira en tíu ár á spænskumælandi málsvæði. Eftir að hafa starfað í mörg ár í þjónustudeildinni fékk bróðir Fleegle verkefni í fræðslunefndinni og síðar á skrifstofu þjónustunefndar. Í mars 2022 var hann gerður að aðstoðarmanni þjónustunefndar stjórnandi ráðs.
Bróðir Winder ólst upp hjá foreldrum sínum í Murrieta í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann var alinn upp í sannleikanum og lét skírast 29. mars 1986. Strax í næsta mánuði ákvað hann að starfa sem aðstoðarbrautryðjandi og hafði svo mikla ánægju af því að hann vildi ekki hætta. Eftir nokkra mánuði sem aðstoðarbrautryðjandi gerðist hann brautryðjandi 1. október 1986.
Sem unglingur heimsótti bróðir Winder tvo eldri bræður sína sem störfuðu á þeim tíma á Betel. Sú heimsókn kveikti hjá honum löngun til að starfa á Betel og þegar hann varð eldri fyllti hann út umsókn. Og í maí 1990 var honum boðið að þjóna á Betel í Wallkill.
Bróðir Winder starfaði í mismunandi deildum á Betel, eins og ræstideildinni, deildinni sem hefur umsjón með búgarðinum og á Betelskrifstofunni. Hann kvæntist Angelu árið 1997 og þau hafa starfað saman á Betel síðan þá. Árið 2014 voru þau flutt til Warwick þar sem bróðir Winder aðstoðaði við byggingaframkvæmdir á aðalstöðvunum. Þau fluttu síðan árið 2016 á Fræðslumiðstöð Varðturnsins í Patterson þar sem bróðir Winder vann í hljóð- og myndbandadeildinni. Fjórum árum síðar fluttu þau aftur til Warwick og bróðir Winder fékk verkefni á skrifstofu starfsmannanefndarinnar. Í mars 2022 var hann útnefndur sem aðstoðarmaður starfsmannanefndar stjórnandi ráðs.
Við biðjum Jehóva að blessa þessa menn sem við höfum fengið „að gjöf“, að þeir megi halda áfram að vinna af kappi í þágu hagsmuna Guðsríkis. – Ef. 4:8.