Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

„Ég var aldrei einn“

„Ég var aldrei einn“

ÞAÐ er margt í lífinu sem getur orsakað að við verðum einmana, eins og til dæmis ástvinamissir, einangrun eða framandi umhverfi. Ég hef upplifað þetta allt. En þegar ég lít um öxl sé ég að ég var aldrei algerlega einn. Ég skal segja ykkur hvernig ég áttaði mig á því.

FORDÆMI FORELDRA MINNA

Foreldrar mínir voru heittrúaðir kaþólikkar. En þegar þau komust að því að nafn Guðs í Biblíunni er Jehóva urðu þau bæði kappsamir vottar Jehóva. Faðir minn hætti að skera út líkneski af Jesú. Þess í stað nýtti hann hæfni sína til að breyta jarðhæðinni í húsinu okkar í fyrsta ríkissalinn í San Juan del Monte, en það er úthverfi Maníla, höfuðborgar Filippseyja.

Með foreldrum mínum og ættingjum.

Ég fæddist árið 1952 og foreldrar mínir fræddu mig um Jehóva eins og þau höfðu frætt sjö eldri systkini mín. Þegar ég óx úr grasi hvatti pabbi mig til að lesa kafla í Biblíunni á hverjum degi og hann las með mér mörg af ritum okkar. Öðru hvoru buðu foreldrar mínir farandhirðum og fulltrúum frá deildarskrifstofunni að gista hjá okkur. Frásögur þessara bræðra höfðu mjög jákvæð áhrif á okkur og hvöttu okkur til að setja boðunina í fyrsta sæti í lífinu.

Trúfesti foreldra minna hafði mikil áhrif á mig. Þegar mamma veiktist og dó árið 1971 byrjuðum við pabbi að starfa saman sem brautryðjendur. Aðeins tveim árum seinna, þegar ég var tvítugur, dó pabbi. Ég fann til tómleika og mér fannst ég yfirgefinn. En „traust og örugg“ von Biblíunnar gerði mér kleift að missa ekki jafnvægið og halda mig nálægt Jehóva. (Hebr. 6:19) Stuttu eftir að pabbi féll frá fékk ég verkefni sem sérbrautryðjandi á Coron, afskekktri eyju í Palawan-héraði.

EINN MEÐ ERFIÐ VERKEFNI

Ég var 21 árs þegar ég kom til Coron. Ég hafði alltaf búið í borg og var undrandi þegar ég kynntist lífinu á eyju þar sem rafmagn og rennandi vatn var af skornum skammti og bílar og mótorhjól fátíð fyrirbæri. Þótt þarna væru nokkrir vottar hafði ég samt engan brautryðjandafélaga og þurfti stundum að vera einn í boðuninni. Fyrsta mánuðinn saknaði ég fjölskyldunnar og vina minna hræðilega mikið. Um nætur horfði ég á stjörnurnar á himni og grét. Mig langaði að gefast upp og fara heim.

Á slíkum stundum úthellti ég hjarta mínu í bæn til Jehóva. Ég rifjaði upp uppörvandi biblíuvers eða setningu í ritum okkar. Sálmur 19:14 kom oft upp í hugann. Ég áttaði mig á því að Jehóva yrði „klettur minn og lausnari“ ef ég hugleiddi það sem dregur mig nær honum, eins og verk hans og eiginleika. Ein grein í Varðturninum var mjög gagnleg og ég las hana aftur og aftur. a Á vissan hátt var ég einn með Jehóva og þetta reyndust gæðastundir þar sem ég bað, las og hugleiddi.

Stuttu eftir að ég kom til Coron var ég útnefndur öldungur. Ég var eini öldungurinn og sá um vikulegan Guðveldisskóla, þjónustusamkomuna, safnaðarbóknámið og Varðturnsnámið. Ég flutti líka opinberan fyrirlestur í hverri viku. Eitt er víst, ég hafði ekki lengur tíma til að vera einmana.

Boðunin í Coron gekk vel og sumir biblíunemenda minna skírðust með tímanum. En þetta var ekki alltaf auðvelt. Ég þurfti stundum að ganga í sex klukkustundir til að komast á starfssvæðið og ég vissi ekki einu sinn hvar ég fengi gistingu. Starfssvæði safnaðarins náði líka yfir margar minni eyjar. Ég ferðaðist þangað á mótorbát yfir úfinn sjó þótt ég væri ósyndur. Jehóva verndaði mig og studdi í gegnum alla þessa erfiðleika. Síðar áttaði ég mig á því að hann hefði verið að búa mig undir meiri erfiðleika í næsta verkefni.

PAPÚA NÝJA-GÍNEA

Árið 1978 var ég sendur til Papúa Nýju-Gíneu norður af Ástralíu. Papúa Nýja-Gínea er næstum á stærð við Spán og þar er mikið fjalllendi. Ég var undrandi þegar ég komst að því að þar bjuggu um þrjár milljónir manna sem töluðu meira en 800 tungumál. Sem betur fer gátu flestir talað Melanesíu pidgin, kallað tok pisin.

Ég var tímabundið sendur í enskumælandi söfnuð í höfuðborginni, Port Moresby, en flutti síðan í söfnuð þar sem var töluð tok pisin og fór að læra tungumálið. Það sem ég lærði í kennslustundum notaði ég í boðuninni. Þannig var ég fljótari að læra tungumálið. Fyrr en varði gat ég flutt ræðu á tok pisin. Ég var undrandi þegar ég fékk það verkefni að vera farandhirðir á mjög stóru svæði þar sem töluð var tok pisin þótt ekki væri liðið ár frá því ég kom til Papúa Nýju-Gíneu.

Söfnuðurnir voru mjög dreifðir og ég þurfti að skipuleggja mörg svæðismót og ferðast mikið. Í fyrstu fannst mér ég einangraður í framandi umhverfi. Ég þurfti að venjast nýju landi, nýju tungumáli og nýjum siðum. Fjöll og óslétt landsvæði komu í veg fyrir að ég kæmist landleiðina milli safnaða. Ég þurfti því að fara með flugvél í næstum hverri viku. Stundum var ég eini farþeginn í lítilli gamalli flugvél. Mér fannst þessar ferðir jafn ógnvekjandi og bátsferðirnar.

Fáir voru með síma þannig að ég var í sambandi við söfnuðina með bréfaskriftum. Oft kom ég á staðinn áður en bréfin bárust og þurfti þá að spyrja íbúana hvar vottarnir væru. En trúsystkinin voru alltaf þakklát og vinsamleg þegar ég hitti þau svo það var sannarlega erfiðisins virði. Ég fann stuðning Jehóva á marga vegu og varð miklu nánari honum fyrir vikið.

Á fyrstu samkomunni sem ég sótti á Bougainville-eyju komu hjón til mín brosandi út að eyrum og sögðu: „Manstu eftir okkur?“ Ég mundi eftir að ég talaði við þau um trúna þegar ég kom fyrst til Port Moresby. Ég hafði stofnað biblíunámskeið með þeim og beðið síðan bróður á staðnum að halda því áfram. Núna voru þau skírð! Þetta var eitt af mörgum ánægjulegum atvikum sem ég upplifði á þrem árum í Papúa Nýju-Gíneu.

ÖNNUM KAFIN LÍTIL FJÖLSKYLDA

Með Adel.

Áður en ég fór frá Coron árið 1978 kynntist ég heillandi og fórnfúsri systur sem hét Adel. Hún var brautryðjandi og átti tvö börn, Samuel og Shirley. Auk þess sá hún um aldraða móður sína. Í maí 1981 sneri ég aftur til Filippseyja til að kvænast Adel. Eftir brúðkaupið störfuðum við saman sem brautryðjendur og hugsuðum um fjölskylduna.

Í þjónustu Jehóva í Palawan með Adel og börnunum okkar, Samuel og Shirley.

Þótt ég væri nú með fjölskyldu var ég aftur útnefndur sérbrautryðjandi árið 1983 og sendur til eyjunnar Linapacan í Palawan-héraði. Við fjölskyldan fluttum til þessa eingraða staðar þar sem voru engir vottar. Móðir Adelar féll frá um ári síðar. Boðunin hjálpaði okkur að takast á við missinn. Við hófum svo mörg biblíunámskeið með fólki sem tók framförum að fyrr en varði var þörf fyrir lítinn ríkissal. Við tókum okkur til og byggðum hann. Þrem árum eftir að við komum til Linapacan sóttu 110 manns minningarhátíðina sem gladdi okkur óendanlega. Margir þeirra tóku framförum og létu síðar skírast.

Árið 1986 var ég sendur til eyjunnar Culion þar sem var nýlenda fyrir holdsveikt fólk. Nokkrum árum seinna var Adel líka útnefnd sérbrautryðjandi. Í fyrstu vorum við óörugg að tala við fólk sem var afmyndað af holdsveiki. En trúsystkini á staðnum fullvissuðu okkur um að fólkið hefði fengið læknismeðferð og það væri lítil hætta á að smitast. Sumir veikir einstaklingar sóttu samkomur á heimili systur. Við vöndumst fljótlega aðstæðunum og það var ánægjulegt að tala um von Biblíunnar við fólk sem fannst bæði Guð og mannkynið hafa hafnað sér. Það var frábært að sjá svona alvarlega veikt fólk gleðjast yfir voninni um fullkomna heilsu í framtíðinni. – Lúk. 5:12, 13.

Hvernig leið börnunum okkar í Culion? Við Adel buðum með okkur tveim ungum systrum frá Coron til að börnin hefðu góðan félagsskap. Samuel, Shirley og þessar tvær ungu systur hjálpuðu öðrum krökkum að kynnast Biblíunni á meðan við Adel lásum með foreldrum þessara barna. Á tímabili stýrðum við biblíunámskeiði með 11 fjölskyldum. Margir þessara biblíunemenda tóku framförum og við gátum stofnað nýjan söfnuð.

Í fyrstu var ég eini öldungurinn á svæðinu. Ég fékk beiðni frá deildarskrifstofunni um að sjá um vikulegar samkomur fyrir þá átta boðbera sem voru í Culion og gera slíkt hið sama fyrir boðberana níu í þorpinu Marily sem var í þriggja tíma fjarlægð ef ferðast var með bát. Eftir samkomur þar gengum við fjölskyldan yfir fjalllendi í margar klukkustundir til að stýra biblíunámskeiðum í þorpinu Halsey.

Með tímanum tóku svo margir við sannleikanum í Marily og Halsey að við byggðum ríkissali á báðum stöðunum. Líkt og í Linapacan lögðu trúsystkini og áhugasamir til mest af efninu og vinnunni við byggingarnar. Ríkissalurinn í Marily tók 200 manns og var stækkanlegur sem gerði okkur kleift að halda mót þar.

SORG, EINMANALEIKI OG ENDURHEIMT GLEÐI

Árið 1993 þegar börnin voru uppkomin byrjuðum við Adel í farandstarfi á Filippseyjum. Árið 2000 sótti ég Þjónustuþjálfunarskólann til að fá þjálfun sem kennari í þeim skóla. Verkefnið óx mér í augum en Adel hvatti mig áfram. Hún minnti mig á að Jehóva gæfi mér þann styrk sem ég þyrfti til að sinna þessu verkefni. (Fil. 4:13) Hún talaði af reynslu því að hún hafði sinnt sínum verkefnum þótt hún ætti við heilsuleysi að glíma.

Árið 2006 var ég að kenna en Adel greindist þá með parkisonsveiki. Það var áfall fyrir okkur. Þegar ég kom með þá hugmynd að draga saman seglin svo ég gæti annast hana sagði hún: „Ef þú finnur lækni sem getur hjálpað mér í veikindunum er ég viss um að Jehóva hjálpar okkur að halda áfram.“ Næstu sex árin hélt Adel áfram í þjónustu Jehóva án þess að kvarta. Þegar hún gat ekki lengur gengið boðaði hún trúna í hjólastól. Þegar hún gat varla talað svaraði hún með einu eða tveim orðum á samkomum. Allt þar til Adel lést árið 2013 fékk hún reglulega skilaboð frá trúsystkinum sem tjáðu þakklæti sitt fyrir ótrúlegt þolgæði hennar. Ég hafði fengið meira en 30 ár með Adel, trúföstum og kærleiksríkum lífsförunaut, en nú þegar hún var fallin frá helltist yfir mig sorg og einmanaleiki enn á ný.

Adel vildi að ég héldi áfram í verkefni mínu þannig að ég gerði það. Að halda mér uppteknum hjálpaði mér að glíma við einmanaleikann. Frá árinu 2014 til 2017 var ég sendur til safnaða þar sem er töluð tagalog í löndum þar sem voru hömlur á starfi okkar. Eftir það heimsótti ég tagalogmælandi söfnuði á Taívan, í Bandaríkjunum og Kanada. Árið 2019 kenndi ég enskumælandi bekkjum í Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis á Indlandi og Taílandi. Öll þessi verkefni hafa veitt mér mikla gleði. Ég er ánægðastur þegar ég er upptekinn í þjónustu Jehóva.

HJÁLPIN ER ALDREI LANGT UNDAN

Í öllum verkefnum hef ég tengst bræðrum og systrum kærleiksböndum. Það er því aldrei auðvelt að kveðja þau. En þá hef ég lært að treysta algerlega á Jehóva. Ég hef fundið stuðning hans og það hjálpar mér að taka breytingum með opnum huga. Nú er ég sérbrautryðjandi á Filippseyjum. Mér líður vel í nýja söfnuðinum sem er nú kærleiksríka fjölskyldan mín. Ég er líka stoltur að sjá Samuel og Shirley líkja eftir trú móður sinnar. – 3. Jóh. 4.

Söfnuðurinn er mér eins og kærleiksrík fjölskylda.

Ég hef gengið í gegnum margs konar erfiðleika í lífinu, eins og þá að horfa upp á elsku konuna mína þjást og deyja vegna sjúkdóms sem gerði hana örkumla. Ég hef líka þurft að aðlagast margs konar nýjum aðstæðum. En ég hef séð að Jehóva er „ekki langt frá neinum okkar“. (Post. 17:27) Hönd hans er „ekki of stutt“ til að styrkja þjóna hans, jafnvel á einangruðum svæðum. (Jes. 59:1) Jehóva, klettur minn, hefur verið með mér alla ævi og ég er honum innilega þakklátur. Ég var aldrei einn.

a Sjá Varðturninn á ensku 1. september 1972, bls. 521–527.