Einföld en áhrifarík spurning
Mary og John a maðurinn hennar búa í landi þar sem margir frá Filippseyjum setjast að og vinna og þau boða þeim fúslega fagnaðarboðskapinn. Þegar COVID-19 faraldurinn geisaði stofnaði Mary mörg biblíunámskeið, ekki aðeins þar sem hún býr heldur víða um heim. Hvernig fór hún að því?
Mary spurði biblíunemendur sína: „Veistu um fleiri sem hefðu áhuga á biblíunámskeiði?“ Ef þeir svöruðu játandi spurði hún hvort þeir gætu kynnt hana fyrir þeim? Þessi einfalda spurning er oft mjög áhrifarík. Hvers vegna ætli svo sé? Fólk sem ber virðingu fyrir orði Guðs vill oftar en ekki deila því sem það lærir með fjölskyldu og vinum sem því þykir vænt um. Hvernig brugðust biblíunemendur hennar við þessari spurningu?
Jasmin biblíunemandi Mary kynnti hana fyrir fjórum nýjum biblíunemendum. Kristine var ein þeirra en hún hafði svo mikla ánægju af námsstundunum að hún bað Mary um að hittast tvisvar í viku. Þegar Mary spurði hvort hún vissi um fleiri sem langaði til að kynna sér Biblíuna sagði hún: „Já, ég skal kynna þig fyrir vinkonum mínum.“ Á innan við viku hafði Mary kynnst fjórum vinkonum hennar sem þáðu biblíunámskeið. Seinna kynnti Kristine hana fyrir fleiri vinkonum og sumar þeirra kynntu vinkonur sínar fyrir henni.
Kristine vildi líka að fjölskylda sín á Filippseyjum kynntist Biblíunni og talaði við Andreu dóttur sína. Í fyrstu hélt Andrea að vottarnir væru skrýtinn sértrúarsöfnuður sem tryði ekki á Jesú og notaði eingöngu Gamla testamentið. En eftir aðeins eina námsstund var búið að leiðrétta þennan misskilning. Í hvert sinn sem hún lærði eitthvað nýtt sagði hún: „Fyrst þetta stendur í Biblíunni hlýtur það að vera satt!“
Að nokkrum tíma liðnum kynnti Andrea Mary fyrir tveim vinkonum sínum og samstarfskonu og þær þáðu biblíunámskeið. Angela, blind föðursystir Andreu, hlustaði alltaf á þegar þær ræddu um Biblíuna en Mary vissi ekki af því. Dag einn bað Angela frænku sína um að spyrja Mary hvort hún gæti líka fengið hjálp við að rannsaka Biblíuna. Angela kunni sannarlega vel að meta það sem hún lærði. Á innan við mánuði lagði hún marga ritningarstaði á minnið og bað Mary að hitta sig fjórum sinnum í viku. Andrea hjálpaði henni að sækja samkomur reglulega með fjarfundabúnaði.
Þegar Mary komst að því að Joshua eiginmaður Kristine var nærstaddur þegar þær ræddu um Biblíuna spurði hún hann hvort hann vildi vera með. Hann svaraði: „Ég ætla að hlusta en ekki beina neinum spurningum til mín. Ef þú gerir það er ég farinn.“ Eftir fimm mínútna námsstund var hann farinn að spyrja fleiri spurninga en Kristine og vildi líka biblíukennslu.
Einföld spurning Mary varð til þess að margir byrjuðu að kynna sér Biblíuna. Hún bað aðra votta um aðstoð til að sinna sumum þessara biblíunámskeiða. Alls stofnaði Mary 28 námskeið í fjórum löndum.
Jasmin, fyrsti nemandinn sem minnst er á, lét skírast í apríl 2021. Kristine skírðist í maí 2022 og flutti aftur til Filippseyja til að vera með fjölskyldunni. Tveir nemendur sem Kristine kynnti fyrir Mary létu líka skírast. Angela lét skírast fáeinum mánuðum síðar og er núna brautryðjandi. Joshua maður Kristine og Andrea dóttir þeirra taka góðum framförum.
Á fyrstu öldinni barst fagnaðarboðskapurinn hratt milli ættingja og vina. (Jóh. 1:41, 42a; Post. 10:24, 27, 48; 16:25–33) Hvers vegna ekki að spyrja biblíunemendur þína eða aðra sem sýna áhuga: „Veistu um fleiri sem hefðu áhuga á biblíunámskeiði?“ Hver veit hversu mörg námskeið þú getur stofnað með hjálp þessarar einföldu en áhrifaríku spurningar?
a Nöfnum hefur verið breytt.