Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Geturðu verið sannur vinur?

Geturðu verið sannur vinur?

LÍÐUR þér stundum eins og þú hafir engan til að leita til þegar upp koma vandamál? Við lifum á ‚hættulegum og erfiðum tímum‘ sem geta dregið úr okkur kjark og gert okkur einmana. (2. Tím. 3:1) En enginn þarf að ganga einn í gegnum erfiðleika lífsins. Biblían undirstrikar gildi þess að eiga sanna vini „á raunastund“. – Orðskv. 17:17.

HVERNIG VEITA SANNIR VINIR LIÐ?

Páll postuli gat gert þjónustunni skil þótt hann væri í stofufangelsi þökk sé hjálp traustra vina.

Páll postuli naut góðs af vináttu ferðafélaga sinna. (Kól. 4:7–11) Þegar hann var í fangelsi í Róm hjálpuðu vinir hans honum að sinna því sem hann gat ekki sjálfur gert. Epafrodítus færði Páli til dæmis þarfa sendingu frá bræðrum og systrum í Filippí. (Fil. 4:18) Týkíkus kom bréfum Páls til skila til safnaðanna. Páll sinnti þjónustunni með aðstoð vina sinna þótt hann væri í stofufangelsi og seinna í fangelsi. Hvernig getur þú verið sannur vinur?

Til eru bræður og systur sem sýna hvað vinir geta gert hver fyrir annan. Elisabet er brautryðjandi á Spáni. Þegar mamma hennar greindist með krabbamein á lokastigi reyndist systir í söfnuðinum henni vel. Hún sendi henni mörg uppörvandi skilaboð sem byggðust á biblíuversum. „Þessi skilaboð,“ segir Elisabet, „gáfu mér kjark til að takast á við hvern dag vitandi að einhver hugsaði til mín.“ – Orðskv. 18:24.

Við getum styrkt vináttuna við trúsystkini þegar við hjálpum þeim til að fara í boðunina eða komast á samkomur. Gætir þú til dæmis boðið eldri bróður eða systur far á samkomu eða út í boðunina? Það er að öllum líkindum uppörvandi fyrir báða aðila. (Rómv. 1:12) En sumir þjónar Guðs eiga ekki heimangengt. Hvernig getum við reynst þeim sannir vinir?

HJÁLPAÐU ÞEIM SEM EIGA EKKI HEIMANGENGT

Sum trúsystkini eiga við heilsubrest að stríða eða búa við aðrar aðstæður sem gera þeim erfitt fyrir að sækja samkomur í ríkissalnum. Tökum David sem dæmi. Hann greindist með eitlakrabbamein. Lyfjameðferðin tók yfir sex mánuði. Allan þann tíma sóttu David og Lidia kona hans samkomurnar með fjarfundabúnaði.

Hvernig studdu vinirnir í söfnuðinum David og Lidiu? Eftir hverja samkomu tóku sumir sem voru í ríkissalnum sér tíma til að tala við þau. Og þegar þau svöruðu á samkomu fengu þau eftir á uppörvandi textaskilaboð frá trúsystkinum. Þetta gerði það að verkum að þeim fannst þau ekki eins einangruð og ella.

Fáðu samstarf með þeim sem eiga ekki heimangengt.

Getum við boðið bróður eða systur sem eru bundin heima í boðunina með okkur? Með smá skipulagningu getum við sýnt að við höfum ekki gleymt þeim. (Orðskv. 3:27) Kannski gætirðu farið í símastarf með þeim eða skrifað bréf. Þeir sem eru bundnir heima geta kannski verið með í samansöfnun með fjarfundabúnaði. David og Lidia kunna vel að meta þessa ráðstöfun. Hann segir: „Bara það að eiga stuttar samræður við trúsystkini og vera með í bæn var mjög hvetjandi.“ Ef þú ert með biblíunemanda gætirðu kannski af og til spurt boðbera sem á ekki heimangengt hvort þið getið haft biblíunámskeiðið heima hjá honum.

Þegar við störfum með trúsystkinum sem eru bundin heima kynnumst við fallegum eiginleikum þeirra og vináttan styrkist. Þú tekur kannski eftir hvernig þau nota orð Guðs til að ná til hjarta einhvers í boðuninni og það eykur virðingu þína fyrir þeim. Þegar þú styður trúsystkini á þennan hátt stækkarðu vinahóp þinn. – 2. Kor. 6:13.

Páli fannst hughreystandi að hafa Títus vin sinn hjá sér. (2. Kor. 7:5–7) Það er gott að uppörva trúsystkini með orðum okkar en þessi frásaga minnir á að við getum uppörvað aðra með því að verja tíma með þeim og styðja þá. – 1. Jóh. 3:18.

HJÁLPAÐU VINUM SEM ERU OFSÓTTIR

Bræður okkar og systur í Rússlandi eru sannarlega góð fyrirmynd þegar kemur að því að veita hvert öðru stuðning. Sergey og Tatyana kona hans voru tekin til yfirheyrslu eftir að lögreglan gerði húsleit á heimili þeirra. Tatyana var látin laus á undan Sergey. Hann segir: „Stuttu eftir að [Tatyana] sneri heim sýndi systir mikið hugrekki og heimsótti hana. Fleiri vinir fylgdu í kjölfarið og hjálpuðu okkur að koma íbúðinni í samt lag aftur.“

Sergey bætir við: „Orðskviðirnir 17:17 hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar stendur: ‚Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.‘ Núna þegar ég finn hversu háður ég er hjálp trúsystkina fá þessi orð nýja merkingu. Jehóva hefur gefið mér vini sem standa óhræddir með mér.“ a

Eftir því sem erfiðleikarnir aukast þurfum við enn meira á vinum að halda til að halla okkur að. Við þurfum jafnvel enn meira á þeim að halda í þrengingunni miklu. Gerum því okkar ítrasta til að vera sannir vinir núna! – 1. Pét. 4:7, 8.