Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 7

SÖNGUR 15 Fögnum frumburði Jehóva

Hvaða þýðingu hefur fyrirgefning Jehóva fyrir þig?

Hvaða þýðingu hefur fyrirgefning Jehóva fyrir þig?

„Hjá þér er sönn fyrirgefning.“SÁLM. 130:4.

Í HNOTSKURN

Við skoðum lifandi myndmál Biblíunnar sem lýsir fyrirgefningu Jehóva. Það getur aukið þakklæti okkar á sannri fyrirgefningu hans.

1. Hvers vegna er fyrirgefning oft flókin í mannlegum samskiptum?

 „ÉG FYRIRGEF ÞÉR.“ Það getur verið mikill léttir að heyra þessi orð, sérstaklega ef þú hefur sært einhvern. En hvað á hann við þegar hann segir þetta? Er allt orðið gott á milli ykkar? Eða vill hann bara ekki tala meira um vandamálið? Fyrirgefning getur verið flókin í mannlegum samskiptum.

2. Hvernig er fyrirgefningu Jehóva lýst í Ritningunni? (Sjá einnig neðanmáls.)

2 Fyrirgefning Jehóva er mjög ólík því hvernig við fyrirgefum hvert öðru. Fyrirgefning Jehóva er alveg einstök. Sálmaskáldið sagði um Jehóva: „Hjá þér er sönn fyrirgefning, þess vegna bera menn lotningu fyrir þér.“ a (Sálm. 130:4) Hjá Jehóva lærum við hvað „sönn fyrirgefning“ felur í sér. Biblíuritarar notuðu stundum hebreskt orð um fyrirgefningu Jehóva sem þeir notuðu aldrei til að lýsa því hvernig menn fyrirgefa hver öðrum.

3. Hvernig fyrirgefur Jehóva ólíkt okkur? (Jesaja 55:6, 7)

3 Þegar Jehóva fyrirgefur einhverjum er syndin þurrkuð út og vináttusambandið kemst aftur á. Við erum Jehóva innilega þakklát að hann fyrirgefur algerlega og í ríkum mæli. – Lestu Jesaja 55:6, 7.

4. Hvernig opnar Jehóva augu okkar fyrir því hvað sönn fyrirgefning er?

4 Hvernig getum við sem erum ófullkomin skilið hvað sönn fyrirgefning er? Jehóva notar lifandi myndmál til að lýsa fyrirgefningu sinni. Í þessari námsgrein skoðum við nokkur dæmi um það. Þau kenna okkur að Jehóva tekur burt syndina þegar við iðrumst og að við fáum þannig aftur að vera nánir vinir hans. Þegar við skoðum betur myndmálið sem Jehóva notar verðum við þakklátari ástríkum og hlýjum föður okkar.

JEHÓVA TEKUR BURT SYNDIR OKKAR

5. Hvað getum við séð fyrir okkur þegar Jehóva fyrirgefur syndir okkar?

5 Í Biblíunni er syndum oft líkt við þungar byrðar. Davíð konungur lýsti því einmitt þannig: „Sekt mín hefur vaxið mér yfir höfuð, hún er eins og þung byrði sem ég get ekki borið.“ (Sálm. 38:4) En Jehóva fyrirgefur iðrunarfullum syndurum. (Sálm. 25:18; 32:5) Grunnmerking hebreska orðsins sem er þýtt „fyrirgefa“ er að ‚lyfta upp‘ eða ‚bera‘. Jehóva er eins og sterkur maður sem lyftir byrðum synda okkar af baki okkar og ber þær burt.

„Þú fyrirgafst.“ (Sálm. 32:5)


6. Hversu langt ber Jehóva syndir okkar burt?

6 Annað myndmál sýnir hversu langt Jehóva ber syndir okkar. Sálmur 103:12 segir: „Eins langt og sólarupprásin er frá sólsetrinu, eins langt hefur hann fjarlægt afbrot okkar frá okkur.“ Austrið er eins langt frá vestrinu og hægt er að ímynda sér og þau mætast aldrei. Þetta merkir að Jehóva fjarlægir syndir okkar eins langt frá okkur og hugsast getur. Er þetta ekki hughreystandi?

„Eins langt og sólarupprásin er frá sólsetrinu.“ (Sálm. 103:12)


7. Hvernig lýsir Biblían því hvað Jehóva gerir við syndir okkar? (Míka 7:18, 19)

7 Þó að Jehóva beri syndir okkar langt burt frá okkur gætum við samt velt fyrir okkur hvort hann geymi þær. Það gerir hann ekki. Hiskía konungur skrifaði um Jehóva: „Þú hefur kastað öllum syndum mínum aftur fyrir þig,“ eða eins og segir neðanmáls, „fjarlægt allar syndir mínar frá augliti þínu“. (Jes. 38:9, 17, neðanmáls) Þetta myndmál sýnir að Jehóva tekur syndir þeirra sem iðrast og kastar þeim úr augsýn. Einnig mætti orða þetta með eftirfarandi hætti: „Þú hefur gert það að verkum að það er eins og ég hafi ekki drýgt þessar syndir.“ Biblían notar aðra líkingu í Míka 7:18, 19 til að undirstrika þetta. (Lestu.) Þar talar Jehóva um að hann kasti syndum okkar í djúp hafsins. Til forna var ómögulegt að endurheimta hlut sem hafði verið kastað í djúp hafsins.

„Þú hefur kastað öllum syndum mínum aftur fyrir þig.“ (Jes. 38:17)

„Þú kastar öllum syndum okkar í djúp hafsins.“ (Míka 7:19)


8. Hvað höfum við lært fram að þessu?

8 Þessar líkingar sýna okkur að þegar Jehóva fyrirgefur léttir hann af okkur byrðinni sem syndirnar eru. Það er rétt sem Davíð sagði: „Þeir eru hamingjusamir sem hafa fengið afbrot sín fyrirgefin og syndir sínar huldar. Sá er hamingjusamur sem Jehóva lætur ekki standa reikningsskap synda sinna.“ (Rómv. 4:6–8) Þetta er sönn fyrirgefning!

JEHÓVA ÞURRKAR ÚT SYNDIR

9. Hvernig lýsir Jehóva algerri fyrirgefningu sinni?

9 Fyrir tilstilli lausnarfórnarinnar þurrkar Jehóva út syndir þeirra sem iðrast. Hann notar aðrar líkingar til að útskýra þetta. Í orði hans kemur fram að hann þvoi og hreinsi burt syndir. Þannig verður syndarinn hreinn af allri sekt. (Sálm. 51:7; Jes. 4:4; Jer. 33:8) Jehóva lýsir því sjálfur hvað þetta þýðir fyrir okkur: „Þó að syndir ykkar séu skarlatsrauðar skulu þær verða hvítar sem snjór. Þótt þær séu skærrauðar verða þær hvítar eins og ull.“ (Jes. 1:18) Það er mjög erfitt að fjarlægja skarlatsrauðan eða skærrauðan blett úr flík. En Jehóva notar þetta myndmál til að fullvissa okkur um að hann geti þvegið syndir okkar svo vandlega að þær sjáist ekki lengur.

„Þó að syndir ykkar séu skarlatsrauðar skulu þær verða hvítar sem snjór.“ (Jes. 1:18)


10. Hvaða aðra líkingu notar Jehóva til að undirstrika hversu langt fyrirgefning hans nær?

10 Eins og kom fram í námsgreininni á undan er syndum líka líkt við skuldir. (Matt. 6:12; Lúk. 11:4) Í hvert sinn sem við syndgum gegn Jehóva er eins og skuldin hækki. Skuld okkar við hann er gríðarlega há. En þegar Jehóva fyrirgefur okkur er eins og hann afskrifi þessa skuld sem íþyngir okkur. Hann ætlast ekki til þess að við greiðum fyrir syndir sem hann er búinn að fyrirgefa. Þessi líking lýsir vel þeim létti sem við finnum þegar hann fyrirgefur okkur.

„Fyrirgefðu skuldir okkar.“ (Matt. 6:12)


11. Hvað á Biblían við þegar hún segir að syndir okkar verði afmáðar? (Postulasagan 3:19)

11 Jehóva afskrifar ekki aðeins skuldir okkar, eða syndir, heldur afmáir hann þær með öllu. (Lestu Postulasöguna 3:19.) Ímyndaðu þér að einhver afskrifi skuld og striki yfir hana. En skuldarupphæðin sést samt áfram. Að afmá eitthvað er annað og meira en það. Til að skilja myndmálið er gott að vita að til forna var blek blanda af kolefni, gúmmíi og vatni. Hægt var að þurrka út með rökum svampi það sem var skrifað. Þegar skuld var afmáð hvarf hún með öllu og ekki var hægt að greina það sem hafði verið skrifað. Það var eins og skuldin hefði aldrei verið til. Við getum ekki annað en verið þakklát að vita að þegar Jehóva fyrirgefur okkur afmáir hann syndir okkar með öllu. – Sálm. 51:9.

„Til að syndir ykkar verði afmáðar.“ (Post. 3:19)


12. Hvaða þýðingu hefur líkingin um skýjaþykkni fyrir okkur?

12 Jehóva notar aðra líkingu til að lýsa því hvernig hann afmáir syndir. Hann segir: „Ég þurrka út afbrot þín eins og þau hverfi bak við ský og syndir þínar bak við skýjaþykkni.“ (Jes. 44:22) Þegar Jehóva fyrirgefur er eins og hann noti skýjaþykkni til að fela syndir okkar svo að þær hverfi algerlega úr augsýn.

„Ég þurrka út afbrot þín eins og þau hverfi bak við ský.“ (Jes. 44:22)


13. Hvað þýðir það fyrir okkur þegar Jehóva fyrirgefur okkur syndirnar?

13 Hvað lærum við af þessum líkingum? Þegar Jehóva fyrirgefur okkur ætti okkur ekki finnast við vera flekkuð af synd það sem eftir er ævinnar. Blóð Jesú Krists hreinsar okkur af allri synd. Þegar Jehóva fyrirgefur syndir okkar eru engin ummerki um þær lengur. Þetta er það sem sönn fyrirgefning Jehóva þýðir fyrir okkur ef við iðrumst synda okkar.

JEHÓVA TEKUR OKKUR AFTUR Í SÁTT

Fyrirgefning föður okkar á himnum gerir það að verkum að við getum átt gott samband við hann. (Sjá 14. grein.)


14. Hvers vegna getum við treyst því að Jehóva fyrirgefi okkur algerlega? (Sjá einnig myndir.)

14 Þegar Jehóva fyrirgefur okkur þurfum við ekki að efast um að við höfum endurheimt vináttu hans. Við þurfum ekki lengur að burðast með sektarkennd. Við þurfum ekki að óttast að Jehóva sé gramur undir niðri og refsi okkur síðar. Það mun aldrei gerast! Hvers vegna getum við treyst Jehóva þegar hann segir að hann fyrirgefi okkur? Jehóva sagði við Jeremía spámann: „Ég mun fyrirgefa afbrot þeirra og ekki framar minnast synda þeirra.“ (Jer. 31:34) Páll vitnaði í þessi orð þegar hann sagði: „Ég mun … ekki minnast synda þeirra framar.“ (Hebr. 8:12) Skoðum betur hvað það þýðir.

„Ég mun … ekki framar minnast synda þeirra.“ (Jer. 31:34)


15. Í hvaða skilningi minnist Jehóva ekki lengur synda okkar?

15 Í Biblíunni á orðið að „minnast“ ekki alltaf við um það að rifja upp eða hugsa um eitthvað sem hefur gerst. Það felur oft í sér verknað. Afbrotamaðurinn sem var staurfestur við hliðina á Jesú bað hann: „Jesús, mundu eftir mér þegar þú kemur í ríki þitt.“ (Lúk. 23:42, 43) Hann var ekki bara að biðja hann um að hugsa til sín. Svar Jesú gaf til kynna að hann myndi reisa hann upp. Þegar Jehóva talar um að minnast ekki lengur synda okkar á hann við að hann ætli ekki að nota þær gegn okkur. Hann refsar okkur ekki síðar meir fyrir syndir sem hann hefur fyrirgefið.

16. Hvernig lýsir Biblían frelsinu sem sönn fyrirgefning veitir?

16 Biblían notar annað myndmál svo að við getum skilið hvað sönn fyrirgefning hefur í för með sér mikinn létti. Okkur er líkt við ‚þræla syndarinnar‘ vegna syndugra tilhneiginga okkar og ófullkomleika. En þökk sé fyrirgefningu Jehóva erum við eins og þrælar sem hafa verið ‚leystir undan syndinni‘. (Rómv. 6:17, 18; Opinb. 1:5) Þegar Jehóva fyrirgefur okkur getum við verið hamingjusöm eins og þræll sem hefur verið veitt frelsi.

„Þið voruð leyst undan syndinni.“ (Rómv. 6:18)


17. Hvers konar lækning felst í fyrirgefningu Jehóva? (Jesaja 53:5)

17 Lestu Jesaja 53:5. Syndugt fólk er eins og sjúklingar með banvænan sjúkdóm. Vegna lausnarfórnar Jesú sem Jehóva sá fyrir höfum við læknast í ákveðnum skilningi. (1. Pét. 2:24) Með lausnargjaldinu komst aftur á gott samband við Jehóva en það hafði laskast vegna syndarinnar. Sá sem hefur læknast af alvarlegum veikindum gleðst innilega og hið sama má segja um okkur þegar við hljótum andlega lækningu, það er að segja velþóknun Jehóva vegna fyrirgefningar hans.

„Sár hans urðu okkur til lækningar.“ (Jes. 53:5)


HVAÐA ÁHRIF HEFUR FYRIRGEFNING JEHÓVA Á LÍF OKKAR?

18. Hvað höfum við lært með því að rannsaka mismunandi myndmál Biblíunnar varðandi fyrirgefningu? (Sjá einnig rammann „Hvernig fyrirgefur Jehóva okkur?“)

18 Hvað höfum við lært með því að rannsaka mismunandi myndmál Biblíunnar varðandi fyrirgefningu? Fyrirgefning Jehóva er alger og varanleg. Hún opnar okkur leið til að eiga gott samband við föður okkar á himnum. En við megum ekki gleyma að sönn fyrirgefning er gjöf. Hún er sprottin af kærleika Jehóva og einstakri góðvild hans gagnvart syndugu mannkyni. Við eigum engan rétt á fyrirgefningu hans. – Rómv. 3:24.

19. (a) Fyrir hvað ættum við að vera þakklát? (Rómverjabréfið 4:8) (b) Hvað skoðum við í næstu námsgrein?

19 Lestu Rómverjabréfið 4:8. Við getum ekki annað en verið þakklát fyrir það að Jehóva er Guð ‚sannrar fyrirgefningar‘. (Sálm. 130:4) En ef við viljum að Jehóva fyrirgefi okkur verðum við að gera okkar hlut. Jesús sagði: „Ef þið fyrirgefið ekki öðrum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar ekki heldur fyrirgefa ykkur það ranga sem þið gerið.“ (Matt. 6:14, 15) Við verðum því að líkja eftir Jehóva og fyrirgefa öðrum. Næsta námsgrein sýnir hvernig við getum gert það.

SÖNGUR 46 Við þökkum þér, Jehóva

a Í hebreska frumtextanum er hér notaður ákveðinn greinir sem gefur til kynna að átt sé við hina einu sönnu fyrirgefningu og hún er þannig aðgreind frá annars konar fyrirgefningu. Margar biblíuþýðingar gera ekki þennan mikilvæga greinarmun í Sálmi 130:4 eins og Nýheimsþýðing Biblíunnar gerir.