Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 3

Jehóva hjálpar þér og veitir þér velgengni

Jehóva hjálpar þér og veitir þér velgengni

,Jehóva var með Jósef og lét allt sem hann tók sér fyrir hendur ganga vel.‘ – 1. MÓS. 39:2, 3.

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir

YFIRLIT a

1, 2. (a) Hvers vegna kemur það okkur ekki á óvart að við verðum fyrir prófraunum? (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

 SEM þjónar Jehóva erum við ekki hissa að við skulum verða fyrir erfiðleikum. Við vitum að Biblían segir: „Við þurfum að ganga í gegnum margar þrengingar til að komast inn í ríki Guðs.“ (Post. 14:22) Við vitum líka að sum vandamál okkar verða ekki leyst endanlega fyrr en í nýjum heimi Guðs þegar „dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til.“ – Opinb. 21:4.

2 Jehóva verndar okkur ekki fyrir prófraunum. En hann hjálpar okkur að halda út. Tökum eftir því sem Páll postuli sagði við kristna menn í Róm. Hann taldi fyrst upp prófraunir sem hann og trúbræður hans stóðu andspænis. Síðan skrifaði hann: „En í öllu þessu vinnum við fullan sigur með hjálp hans sem elskaði okkur.“ (Rómv. 8:35–37) Það þýðir að Jehóva getur veitt okkur velgengni jafnvel á meðan við glímum við prófraunir. Skoðum hvernig Jehóva hjálpaði Jósef í raunum hans og hvernig hann getur hjálpað okkur.

ÞEGAR SKYNDILEGAR BREYTINGAR VERÐA

3. Hvernig breyttist líf Jósefs skyndilega?

3 Ættfaðirinn Jakob lét skýrt í ljós að hann elskaði Jósef son sinn heitt. (1. Mós. 37:3, 4) Fyrir vikið urðu eldri synir Jakobs öfundsjúkir og þegar tækifæri gafst seldu þeir Jósef midíönskum kaupmönnum. Kaupmennirnir fóru með hann hundruð kílómetra – alla leið til Egyptalands. Þar var hann seldur aftur, í þetta sinn Pótífar lífvarðarforingja faraós. Líf Jósefs breyttist skyndilega úr því að vera elskaður sonur í að vera lágt settur þræll í Egyptalandi. – 1. Mós. 39:1.

4. Hvernig gætum við upplifað svipaða erfiðleika og Jósef?

4 Biblían sýnir að við getum öll orðið fyrir slæmri reynslu. (Préd. 9:11) Við glímum stundum við erfiðleika sem eru ,algengir meðal manna‘, það er að segja raunir sem allir ganga í gegnum. (1. Kor. 10:13) Við getum líka þjáðst vegna þess að við erum lærisveinar Jesú. Fólk hæðist kannski að okkur, stendur gegn okkur eða ofsækir okkur jafnvel vegna trúarinnar. (2. Tím. 3:12) En Jehóva getur veitt þér velgengni, sama hvaða prófraunir þú þarft að þola. Hvernig gerði hann það fyrir Jósef?

Jehóva veitti Jósef velgengni, jafnvel þegar hann var seldur Pótífar í Egyptalandi sem þræll. (Sjá 5. grein.)

5. Hvað ályktaði Pótífar um velgengni Jósefs? (1. Mósebók 39:2–6)

5 Lestu 1. Mósebók 39:2–6. Pótífar tók eftir að Jósef var hæfileikaríkur og duglegur ungur maður. Hann vissi líka af hverju. Pótífar sá að „Jehóva lét allt sem [Jósef] tók sér fyrir hendur ganga vel.“ b Með tímanum gerði Egyptinn hann að aðstoðarmanni sínum. Hann setti Jósef líka yfir allt hús sitt. Hver var árangurinn? Pótífar naut velgengni.

6. Hvernig má vera að Jósef hafi liðið?

6 Reynum að sjá aðstæðurnar með augum Jósefs. Hver var heitasta ósk hans? Að Pótífar tæki eftir honum og launaði honum? Það er líklegra að hann hafi viljað fá frelsi sitt aftur og fara heim til föður síns. Þótt hann hafi notið einhverra forréttinda í húsi Pótífars var hann eftir sem áður þræll í eigu herra sem þjónaði ekki Jehóva. Jehóva sá ekki til þess að Jósef fengi frelsi. Og aðstæður hans áttu eftir að versna til muna.

EF AÐSTÆÐUR FARA VERSNANDI

7. Hvernig urðu aðstæður Jósefs enn verri en áður? (1. Mósebók 39:14, 15)

7 Eins og sagt er frá í 39. kafla 1. Mósebókar laðaðist kona Pótífars að Jósef og reyndi ítrekað að tæla hann. Jósef neitaði hvað eftir annað að láta undan. Að lokum varð hún svo reið út í hann að hún sakaði hann um að hafa reynt að nauðga sér. (Lestu 1. Mósebók 39:14, 15.) Þegar Pótífar frétti af þessu kastaði hann Jósef í fangelsi og þar þurfti hann að dúsa í nokkur ár. (1. Mós. 39:19, 20) Hvernig voru aðstæður í fangelsinu? Hebreska orðið sem er þýtt „fangelsi“ getur líka merkt „gryfja“ eða „pyttur“ en það bendir til þess að fangelsið hafi verið dimmt og aðstæður vonlausar. (1. Mós. 40:15, neðanmáls) Biblían gefur líka til kynna að Jósef hafi um tíma verið fjötraður á fótum og með járn um hálsinn. (Sálm. 105:17, 18) Aðstæður Jósefs urðu enn verri en áður. Hann hafði verið þræll en talinn áreiðanlegur. Nú var hann lágt settur fangi.

8. Hvað getum við verið viss um, jafnvel þótt erfið raun verði enn verri?

8 Hefur þú glímt við erfiðar aðstæður sem versnuðu þrátt fyrir innilegar bænir þínar? Það getur gerst. Jehóva verndar okkur ekki fyrir prófraunum í heimi sem Satan stjórnar. (1. Jóh. 5:19) En eitt máttu vera viss um: Jehóva veit nákvæmlega hvað þú ert að ganga í gegnum og hann ber umhyggju fyrir þér. (Matt. 10:29–31; 1. Pét. 5:6, 7) Auk þess lofar hann: „Ég mun aldrei snúa baki við þér og aldrei yfirgefa þig.“ (Hebr. 13:5) Jehóva getur hjálpað þér að halda út þegar aðstæður virðast vonlausar. Skoðum hvernig reynsla Jósefs sýnir það.

Jehóva var með Jósef, jafnvel þegar hann var í fangelsi og það varð til þess að hann var settur yfir hina fangana. (Sjá 9. grein.)

9. Hvað sýnir að Jehóva var með Jósef þegar hann var í fangelsi? (1. Mósebók 39:21–23)

9 Lestu 1. Mósebók 39:21–23. Jehóva veitti Jósef velgengni jafnvel á þessu ömurlega tímabili í fangelsinu. Hvernig? Jósef öðlaðist traust og virðingu fangelsisstjórans, rétt eins og hann hafði áunnið sér traust Pótífars. Ekki leið á löngu áður en fangelsisstjórinn setti hann yfir hina fangana. Biblían segir reyndar: „Fangelsisstjórinn þurfti ekki að skipta sér af neinu sem Jósef sá um.“ Nú hafði Jósef eitthvað til að hugsa um og verk að vinna. Þetta var óvænt! Hvernig má það vera að fanga sem var sakaður um að hafa reynt að nauðga konu hirðmanns hafi verið treyst fyrir slíkri stöðu? Það er aðeins ein skýring á því. Í 1. Mósebók 39:23 segir: „Jehóva var með Jósef. Jehóva lét allt sem hann tók sér fyrir hendur ganga vel.“

10. Hvers vegna gæti Jósef hafa fundist sér ekki ganga vel í öllu? Skýrðu svarið.

10 Reynum aftur að líta á aðstæðurnar frá sjónarhóli Jósefs. Heldurðu að honum hafi fundist sér ganga vel í öllu eftir að hann var ranglega ákærður og settur í fangelsi? Hver var heitasta ósk hans? Var hún að öðlast velþóknun fangelsisstjórans? Það er líklegra að hann hafi viljað vera hreinsaður af ákærunni og látinn laus. Hann bað jafnvel annan fanga sem átti að leysa úr fangelsi að tala máli sínu við faraó til að geta komist út úr þessu ömurlega fangelsi. (1. Mós. 40:14) En maðurinn talaði ekki strax við faraó. Fyrir vikið var Jósef áfram í fangelsi í tvö ár í viðbót. (1. Mós. 40:23; 41:1, 14) En Jehóva hélt áfram að veita honum velgengni. Hvernig?

11. Hvaða hæfileika gaf Jehóva Jósef og hvernig nýttist hann til að fyrirætlun Jehóva næði fram að ganga?

11 Meðan Jósef var í fangelsi sá Jehóva til þess að konung Egyptalands dreymdi tvo óþægilega drauma. Faraó var mikið í mun að vita merkingu þeirra. Þegar konungurinn frétti að Jósef gæti ráðið drauma sendi hann eftir honum. Jósef réð draumana með hjálp Jehóva og faraó hreifst af gagnlegu ráðunum sem hann gaf honum. Faraó áttaði sig á að Jehóva var með þessum unga manni og skipaði hann matvælaráðherra yfir öllu Egyptalandi. (1. Mós. 41:38, 41–44) Seinna hafði mikil hungursneyð áhrif á bæði Egyptaland og Kanaansland, þar sem fjölskylda Jósefs átti heima. Nú var Jósef í aðstöðu til að bjarga fjölskyldu sinni og varðveita um leið ættina sem Messías myndi fæðast í.

12. Hvernig veitti Jehóva Jósef velgengni?

12 Hugleiðum óvenjulega þætti í lífi Jósefs. Hver fékk Pótífar til að beina athygli sinni að Jósef, sem var aðeins þræll? Hver sá til þess að Jósef, lágt settur fangi, öðlaðist velvild fangelsisstjórans? Hver lét faraó dreyma óþægilega drauma og gaf Jósef hæfileika til að ráða þá? Hver fékk faraó til að skipa Jósef matvælaráðherra í Egyptalandi? (1. Mós. 45:5) Það var augljóslega Jehóva sem veitti Jósef velgengni í öllu. Jehóva sneri við grimmilegu ráðabruggi bræðra Jósefs svo að vilji hans næði fram að ganga.

HVERNIG VEITIR JEHÓVA ÞÉR VELGENGNI?

13. Grípur Jehóva inn í allar aðstæður sem við lendum í? Skýrðu svarið.

13 Hvað getum við lært af frásögunni af Jósef? Grípur Jehóva inn í allar aðstæður sem við lendum í? Stýrir hann öllu í lífi okkar þannig að allt það slæma sem hendir okkur eigi sér góðar og gildar ástæður? Nei, Biblían kennir það ekki. (Préd. 8:9; 9:11) En við vitum að þegar við lendum í raunum veit Jehóva af því og hlustar á bænir okkar um hjálp. (Sálm. 34:15; 55:22; Jes. 59:1) Og hann lætur ekki þar við sitja, heldur hjálpar okkur að halda út í erfiðleikum með góðum árangri. Hvernig?

14. Hvernig hjálpar Jehóva okkur á erfiðum tímum?

14 Jehóva hjálpar okkur meðal annars með því að veita okkur huggun og uppörvun, oft þegar við þurfum mest á því að halda. (2. Kor. 1:3, 4) Það er reynsla Eziz, bróður í Túrkmenistan sem var dæmdur í tveggja ára fangelsi vegna trúar sinnar. „Morguninn sem átti að rétta yfir mér,“ segir hann, „sýndi bróðir mér Jesaja 30:15 þar sem segir: ,Styrkur ykkar er fólginn í að halda rónni og treysta mér.‘ Þetta vers hjálpaði mér alltaf að vera rólegur og reiða mig á Jehóva í öllu. Að hugleiða þetta vers hjálpaði mér allan tímann sem ég sat í fangelsi.“ Manst þú eftir tímabili í þínu lífi þar sem Jehóva studdi þig með því að hugga þig og hughreysta þegar þú þurftir hvað mest á því að halda?

15, 16. Hvað lærir þú af reynslu Tori?

15 Oft sjáum við ekki fyrr en við lítum til baka á prófraun hvernig Jehóva hjálpaði okkur í gegnum hana. Það er reynsla systur að nafni Tori. Mason sonur hennar barðist við krabbamein í sex ár þar til hann lést. Tori var skiljanlega niðurbrotin. Hún segir: „Ég held að sem móðir gæti ég ekki upplifað meiri sársauka.“ Hún bætir við: „Ég er viss um að aðrir foreldrar séu sammála að það sé verra að horfa upp á barnið sitt þjást en að þjást sjálfur.“

16 Það reyndi mikið á Tori að horfa upp á son sinn þjást, en seinna hugsaði hún um hvernig Jehóva hjálpaði henni að halda út. „Þegar ég lít til baka,“ segir hún, „get ég séð hvernig Jehóva sýndi okkur kærleika í veikindum sonar míns. Bræður og systur ferðuðust tveggja klukkustunda leið til að koma á spítalann, jafnvel þegar Mason var of veikur til að taka á móti gestum. Það var alltaf einhver á biðstofunni, reiðubúinn að veita stuðning. Það var líka séð fyrir efnislegum þörfum okkar. Okkur skorti aldrei neitt, jafnvel á erfiðustu stundunum.“ Jehóva gaf Tori það sem hún þurfti til að halda út og hann gerði það sama fyrir Mason. – Sjá rammann „ Jehóva gaf okkur nákvæmlega það sem við þurftum“.

HUGLEIDDU ALLT SEM JEHÓVA HEFUR GERT FYRIR ÞIG

17, 18. Hvað getur hjálpað okkur að koma auga á og meta að verðleikum stuðning Jehóva á erfiðum tímum? (Sálmur 40:5)

17 Lestu Sálm 40:5. Markmið fjallgöngumanns er að komast á tindinn. En það eru margir staðir á leiðinni þar sem hann getur stoppað og notið útsýnisins. Þú getur á svipaðan hátt tekið þér reglulega tíma til að staldra við og hugleiða hvernig Jehóva veitir þér velgengni, jafnvel á meðan þú ert að kljást við erfiðleika. Spyrðu sjálfan þig í lok hvers dags: Hvernig blessaði Jehóva mig í dag? Hvernig hjálpar Jehóva mér í prófrauninni sem stendur yfir núna? Reyndu að koma auga á að minnsta kosti eitt sem Jehóva hefur gert til að veita þér velgengni.

18 Þú biður kannski Jehóva að binda enda á prófraunir þínar. Það er bæði skiljanlegt og við hæfi. (Fil. 4:6) En við ættum líka að veita athygli þeirri blessun sem við njótum hér og nú. Jehóva lofar að styrkja okkur og hjálpa okkur að halda út. Vertu þess vegna alltaf þakklátur fyrir að Jehóva skuli styðja þig. Þá sérðu hvernig Jehóva hjálpar þér og veitir þér velgengni á erfiðum tímum, rétt eins og hann hjálpaði Jósef og veitti honum velgengni. – 1. Mós. 41:51, 52.

SÖNGUR 32 Fylgdu Jehóva

a Þegar við göngum í gegnum erfiðleika finnst okkur kannski ekki að okkur ,gangi vel‘. Við gætum hugsað sem svo að það eigi ekki við fyrr en prófrauninni lýkur. En það sem henti Jósef kennir okkur mikilvægan lærdóm: Jehóva getur veitt okkur velgengni jafnvel á meðan við glímum við raunir. Í þessari grein skoðum við hvers vegna við getum sagt það.

b Biblían nefnir þessar breytingar á þrældómi Jósefs í fáeinum versum en vera má að þær hafi tekið nokkur ár.