NÁMSGREIN 2
SÖNGUR 19 Kvöldmáltíð Drottins
Hefur þú búið þig undir mikilvægasta dag ársins?
„Gerið þetta til minningar um mig.“ – LÚK. 22:19.
Í HNOTSKURN
Skoðum hvers vegna minningarhátíðin er mjög sérstakur viðburður, hvernig við getum búið okkur undir hana og hvernig við getum hjálpað öðrum að vera viðstaddir.
1. Af hverju er minningarhátíðin mikilvægasti viðburður ársins? (Lúkas 22:19, 20)
MINNINGARHÁTÍÐIN um dauða Krists er mikilvægasti viðburður ársins í augum þjóna Jehóva. Hún er eini viðburðurinn sem Jesús tók sérstaklega fram að fylgjendur sínir ættu að halda hátíðlegan. (Lestu Lúkas 22:19, 20.) Það eru margar ástæður fyrir því að við hlökkum til minningarhátíðarinnar. Lítum á nokkrar þeirra.
2. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að við hlökkum til minningarhátíðarinnar.
2 Minningarhátíðin hjálpar okkur að hugleiða hve verðmætt lausnargjaldið er. Hún minnir okkur á hvernig við getum sýnt að við séum þakklát fyrir fórn Jesú. (2. Kor. 5:14, 15) Hún gefur okkur sem erum í söfnuðinum líka tækifæri til að ‚uppörva hvert annað‘. (Rómv. 1:12) Á hverju ári sækja margir óvirkir þjónar Jehóva minningarhátíðina. Sumir þeirra snúa jafnvel aftur til Jehóva vegna þess að þeir fá svo hlýjar móttökur. Og margir áhugasamir hrífast svo af því sem þeir sjá og heyra að þeir byrja að feta sig eftir veginum til lífsins. Það er engin furða að minningarhátíðin skuli vera okkur svona mikils virði.
3. Hvernig sameinar minningarhátíðin bræðralag okkar um allan heim? (Sjá einnig mynd.)
3 Við hugsum líka til þess hvernig minningarhátíðin sameinar bræðralag okkar um allan heim. Vottar Jehóva safnast saman í hverju landi fyrir sig þegar sólin sest. Við hlustum öll á ræðu sem fjallar um mikilvægi lausnarfórnarinnar. Við syngjum tvo lofsöngva, látum brauðið og vínið ganga um salinn og segjum einlæglega „amen“ við fjórum bænum. Á einum sólarhring hafa allir söfnuðir okkar haldið hátíðina á þennan hátt. Hugsaðu þér hvað það hlýtur að gleðja Jehóva og Jesú að sjá okkur heiðra sig í sameiningu.
4. Hvað er rætt í þessari grein?
4 Í þessari grein ræðum við eftirfarandi spurningar: Hvernig getum við búið hjörtu okkar undir minningarhátíðina? Hvernig getum við hjálpað öðrum að njóta góðs af henni? Og hvernig getum við aðstoðað óvirka? Svörin við þessum spurningum hjálpa okkur að búa okkur undir þennan heilaga viðburð.
HVERNIG GETUM VIÐ BÚIÐ HJÖRTU OKKAR UNDIR MINNINGARHÁTÍÐINA?
5. (a) Hvers vegna ættum við að hugleiða gildi lausnarfórnarinnar? (Sálmur 49:7, 8) (b) Hvað lærðir þú af myndbandinu Hvers vegna dó Jesús?
5 Einhver mikilvægasta leiðin til að búa hjarta sitt undir minningarhátíðina er að hugleiða gildi lausnarfórnar Jesú Krists. Við gætum aldrei losnað úr fjötrum syndar og dauða af eigin rammleik. (Lestu Sálm 49:7, 8; sjá einnig myndbandið Hvers vegna dó Jesús?) a Jehóva sá til þess að Jesús gæfi líf sitt í okkar þágu en það var mikil fórn bæði fyrir hann og ástkæran son hans. (Rómv. 6:23) Því meir sem við hugleiðum hve miklu Jehóva og Jesús fórnuðu fyrir okkur því þakklátari verðum við fyrir lausnargjaldið. Við ræðum nú sumt af því sem Jehóva og Jesús þurftu að leggja í sölurnar. En byrjum á því að skoða hvað fólst í lausnargjaldinu.
6. Hvað fólst í lausnargjaldinu?
6 Lausnargjald er gjald sem greitt er til að leysa eitthvað úr haldi eða gíslingu. Adam, fyrsti maðurinn, var skapaður fullkominn. Þegar hann syndgaði fyrirgerði hann möguleikanum á eilífu lífi, bæði fyrir sjálfan sig og alla afkomendur sína. Jesús fórnaði fullkomnu lífi sínu til að kaupa til baka það sem Adam glataði. Jesús „syndgaði aldrei og svik var ekki að finna í munni hans“ meðan hann lifði á jörð. (1. Pét. 2:22) Þegar hann dó samsvaraði líf hans því fullkomlega lífinu sem Adam glataði. – 1. Kor. 15:45; 1. Tím. 2:6.
7. Nefndu dæmi um prófraunir sem Jesús þurfti að standast meðan hann var á jörð.
7 Jesús hlýddi föður sínum á himnum fullkomlega þrátt fyrir margar prófraunir sem hann varð fyrir á jörð. Sem barn þurfti hann að lúta valdi ófullkominna foreldra sinna þótt hann hafi fæðst fullkominn. (Lúk. 2:51) Sem unglingur þurfti hann vafalaust að standast þrýsting til að vera þeim óhlýðinn eða vera ótrúr Jehóva. Og sem fullorðinn maður varð Jesús að standast freistingar Satans Djöfulsins sem hvatti hann berum orðum til að snúa baki við Jehóva. (Matt. 4:1–11) Satan var staðráðinn í að fá Jesú til að syndga svo að hann gæti ekki greitt lausnargjaldið.
8. Hvaða aðrar prófraunir gekk Jesús í gegnum?
8 Jesús gekk í gegnum ýmsar aðrar prófraunir meðan hann þjónaði á jörð. Hann var ofsóttur og lífi hans var ógnað. (Lúk. 4:28, 29; 13:31) Hann þurfti að umbera ófullkomleika fylgjenda sinna. (Mark. 9:33, 34) Hann var pyntaður og hæðst var að honum þegar hann átti dauðadóm yfir höfði sér. Síðan var hann líflátinn með afar kvalafullum og auðmýkjandi hætti. (Hebr. 12:1–3) Síðustu raunirnar þurfti hann að þola einn, án verndar Jehóva. b – Matt. 27:46.
9. Hvað finnst þér um fórn Jesú? (1. Pétursbréf 1:8)
9 Ljóst er að Jesús þurfti að þjást mikið til að færa lausnarfórnina. Þykir okkur ekki vænt um Jesú þegar við hugleiðum hve miklu hann fórnaði í okkar þágu? – Lestu 1. Pétursbréf 1:8.
10. Hvað kostaði það Jehóva að færa lausnarfórnina?
10 Hvað um Jehóva? Hverju fórnaði hann til að Jesús gæti greitt lausnargjaldið? Enginn faðir á eins náið samband við son sinn eins og Jehóva á við Jesú. (Orðskv. 8:30) Hugsaðu þér hvaða áhrif það hafði á Jehóva að sjá Jesú ganga í gegnum allar þessar raunir meðan hann var á jörð. Það tók Jehóva sárt að sjá hvernig syni hans var misþyrmt, honum var hafnað og hann þurfti að þjást.
11. Lýstu með dæmi hvernig Jehóva hlýtur að hafa liðið þegar Jesús var tekinn af lífi.
11 Foreldri sem hefur misst barn þekkir vel hve djúpstæð sorg fylgir því. Við trúum auðvitað á upprisuna en það breytir ekki því að það er ákaflega sárt að missa ástvin. Í ljósi þess fáum við skilning á hvernig Jehóva hlýtur að hafa verið innanbrjósts þegar hann horfði upp á elskaðan son sinn þjást og deyja þennan vordag árið 33. c – Matt. 3:17.
12. Hvað getum við gert fram að minningarhátíðinni?
12 Hvernig væri að nota tímann fram að minningarhátíðinni til að gera lausnarfórnina að námsverkefni, annaðhvort í sjálfsnámi þínu eða tilbeiðslustund fjölskyldunnar? Notaðu Efnislykilinn að ritum Votta Jehóva eða önnur hjálpargögn til að kafa ofan í þetta efni. d Lestu biblíulesefnið fyrir minningarhátíðina sem gefið er upp í vinnubókinni Líf okkar og boðun. Gleymdu ekki heldur að horfa á morgundagskrána á minningarhátíðardeginum. Með því að búa hjartað undir minningarhátíðina erum við í góðri aðstöðu til að hjálpa öðrum að njóta góðs af henni líka. – Esra. 7:10.
HJÁLPAÐU ÖÐRUM AÐ NJÓTA GÓÐS AF HÁTÍÐINNI
13. Hvað getum við gert til að aðrir hafi gagn af minningarhátíðinni?
13 Hvað getum við gert til að hjálpa öðrum að hafa gagn af minningarhátíðinni? Það fyrsta er auðvitað að bjóða þeim. Auk þess að bjóða fólki sem við hittum í boðuninni getum við hugsað til ættingja, vinnufélaga, skólafélaga og fleiri sem við myndum vilja bjóða. Ef við höfum ekki nóg af prentuðum boðsmiðum getum við sent fólki hlekk á rafræna útgáfu. Hver veit hversu margir þiggja boðið? – Préd. 11:6.
14. Lýstu með dæmi hve áhrifaríkt persónulegt boð getur verið.
14 Vanmetum ekki hve áhrifaríkt það getur verið að bjóða fólki persónulega. Systir á trúarlega skiptu heimili var steinhissa þegar maðurinn hennar sagði henni stoltur í bragði einn daginn að hann ætlaði að mæta á minningarhátíðina með henni. Af hverju var hún svona hissa? Af því að hún hafði hvatt hann margoft á liðnum árum til að koma með sér en hann mætti aldrei. Hvað hafði breyst? „Ég fékk boðsmiða,“ sagði hann og bætti við að öldungur sem hann þekkti hefði boðið honum. Eiginmaðurinn mætti á hátíðina það ár og árum saman eftir það.
15. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við bjóðum fólki á minningarhátíðina?
15 Höfum í huga að þeir sem við bjóðum geta verið með spurningar – sérstaklega ef þeir hafa aldrei komið á samkomu hjá okkur. Það er gott að gera ráð fyrir spurningum og vera undirbúinn að svara þeim. (Kól. 4:6) Sumir spyrja kannski: Hvernig fer hátíðin fram? Hve lengi stendur hún? Hvernig á ég að vera til fara? Þarf ég að borga mig inn? Fer einhver fjársöfnun fram? Þegar við bjóðum einhverjum á minningarhátíðina getum við einfaldlega spurt: Ertu með einhverjar spurningar? og síðan svarað þeim. Við getum líka sýnt myndböndin Minnist dauða Jesú og Hvernig fara samkomur okkar fram? til að gefa viðmælandanum hugmynd um það hvernig samkomurnar eru. Og í 28. kafla bókarinnar Von um bjarta framtíð er að finna ýmislegt sem hægt er að nefna.
16. Hverju velta þeir sem sækja minningarhátíðina kannski fyrir sér?
16 Eftir að áhugasamir hafa sótt minningarhátíðina er þeim kannski spurn hvers vegna svona fáir (ef nokkrir) neyttu brauðsins og vínsins. Þeir gætu líka velt fyrir sér hve oft við höldum minningarhátíðina og hvort allar samkomur Votta Jehóva séu með svipuðu sniði. Þótt mörgum spurningum sé svarað í ræðunni þurfa gestirnir kannski að fá nánari skýringar. Greinin „Hvers vegna halda Vottar Jehóva kvöldmáltíð Drottins á annan hátt en önnur trúarbrögð?“ sem er að finna á jw.org getur auðveldað okkur að svara ýmsum spurningum. Við viljum gera allt sem við getum til að hjálpa fólki með rétt hugarfar að njóta góðs af minningarhátíðinni, jafnt fyrir, meðan á henni stendur og eftir hana. – Post. 13:48.
AÐSTOÐUM ÓVIRKA
17. Hvernig geta öldungar aðstoðað óvirka? (Esekíel 34:12, 16)
17 Hvernig geta öldungar aðstoðað óvirka kringum minningarhátíðina? Sýnið þeim að ykkur sé annt um þá. (Lestu Esekíel 34:12, 16.) Hafið samband við eins marga þeirra og þið getið fyrir minningarhátíðina. Fullvissið þá um að ykkur þyki vænt um þá og þið viljið hjálpa þeim á hvaða hátt sem er. Hvetjið þá til að sækja minningarhátíðina. Takið hlýlega á móti þeim ef þeir koma. Haldið sambandi við þessi kæru trúsystkini eftir minningarhátíðina og veitið þeim alla þá aðstoð sem þau þurfa til að snúa aftur til Jehóva. – 1. Pét. 2:25.
18. Hvernig getum við öll aðstoðað þá sem eru óvirkir? (Rómverjabréfið 12:10)
18 Allir í söfnuðinum geta stutt óvirka sem sækja minningarhátíðina. Hvernig? Með því að sýna þeim kærleika, vinsemd og virðingu. (Lestu Rómverjabréfið 12:10.) Munum að þessi ástkæru trúsystkini hafa kannski hikað við að láta sjá sig á samkomu. Þau hafa ef til vill óttast að fá ekki góðar móttökur. e Forðumst því að stilla þeim upp við vegg með því að spyrja þau óþægilegra spurninga eða segja eitthvað sem gæti sært þau. (1. Þess. 5:11) Þau eru bræður okkar og systur. Það gleður okkur að tilbiðja Guð með þeim á nýjan leik. – Sálm. 119:176; Post. 20:35.
19. Hvernig er það okkur og öðrum til góðs að minnast dauða Jesú?
19 Það er ekki að furða að Jesús skuli hafa beðið okkur að halda minningarhátíð um dauða sinn á hverju ári? Við gerum sjálfum okkur og öðrum gott á marga vegu með því að gera það. (Jes. 48:17, 18) Kærleikur okkar til Jehóva og Jesú vex. Við sýnum hversu þakklát við erum fyrir það sem þeir gerðu fyrir okkur. Við styrkjum sambandið við trúsystkini okkar. Og við getum kannski hjálpað öðrum að koma auga á hvernig þeir geti líka hlotið þá blessun sem lausnargjaldið getur veitt þeim. Við skulum því gera okkar ýtrasta til að vera undirbúin fyrir minningarhátíð þessa árs – mikilvægasta viðburð ársins.
HVERNIG GETUM VIÐ …
-
búið hjörtu okkar undir minningarhátíðina?
-
hjálpað öðrum að njóta góðs af henni?
-
aðstoðað óvirka?
SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið
a Notaðu leitargluggann á jw.org til að finna greinar og myndbönd sem vísað er á í þessari grein.
b Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum apríl 2021.
c Sjá bókina Nálægðu þig Jehóva, 23. kafla, gr. 8, 9.
d Sjá rammann „ Hugmyndir að námsverkefnum“.
e Sjá myndirnar og rammann „ Hvernig brást söfnuðurinn við?“ Óvirkur bróðir hikar við að ganga inn í ríkissalinn en sigrast á óttanum. Hann fær hlýjar móttökur og nýtur þess að hitta trúsystkini.
f MYNDIR: Meðan þjónar Jehóva halda minningarhátíðina í einum heimshluta eru trúsystkini þeirra annars staðar að búa sig undir þennan sérstaka viðburð.