Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 4

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir

Jehóva ber innilega umhyggju fyrir þér

Jehóva ber innilega umhyggju fyrir þér

„Jehóva er mjög umhyggjusamur.“JAK. 5:11.

Í HNOTSKURN

Jehóva dregur okkur til sín með kærleika sínum þannig að okkur finnst við vera örugg, að það sé vel séð um okkur og við endurnærð.

1. Hvað kemur upp í hugann þegar þú hugsar um Jehóva?

 HEFURÐU einhvern tíma reynt að ímynda þér hvers konar persóna Jehóva er? Hvernig sérðu hann fyrir þér þegar þú leitar til hans í bæn? Biblían lýsir honum með ýmsum hætti þótt hann sé ósýnilegur. Jehóva er kallaður „sól og skjöldur“ og „eyðandi eldur“. (Sálm. 84:11; Hebr. 12:29) Einn biblíuritari lýsti honum í sýn eins og safírsteini, geislandi málmi og björtum regnboga. (Esek. 1:26–28) Sumar þessara lýsinga fylla okkur kannski lotningu eða hræða okkur jafnvel.

2. Hvað gæti hindrað suma í að nálægja sig Jehóva?

2 Okkur gæti fundist erfitt að trúa að Jehóva elski okkur þar sem við getum ekki séð hann. Sumum gæti fundist óhugsandi að Jehóva elskaði þá vegna fortíðar þeirra. Þeir hafa kannski aldrei átt föður sem elskar þá. Jehóva skilur slíkar tilfinningar og áhrif þeirra á okkur. Hann hjálpar okkur með því að birta persónuleika sinn í orði sínu.

3. Hvers vegna ættum við að skoða kærleika Jehóva nánar?

3 Það orð sem lýsir Jehóva best er kærleikur. (1. Jóh. 4:8) Kærleikur auðkennir hann. Hann hefur áhrif á allt sem hann gerir. Kærleikur Guðs er svo hlýr og sterkur að hann nær jafnvel til þeirra sem elska hann ekki. (Matt. 5:44, 45) Í þessari námsgrein skoðum við kærleika Jehóva nánar. Því meira sem við lærum um Guð því heitar elskum við hann.

JEHÓVA ELSKAR OKKUR MJÖG MIKIÐ

4. Hvaða áhrif hefur umhyggja Jehóva á þig? (Sjá einnig mynd.)

4 „Jehóva er mjög umhyggjusamur.“ (Jak. 5:11) Í Biblíunni líkir hann sjálfum sér við ástríka móður. (Jes. 66:12, 13) Sjáðu fyrir þér móður sem annast litla barnið sitt af ástúð. Hún hossar því blíðlega á hnjánum og talar við það með mildri og sefandi röddu. Þegar það grætur eða finnur til sársauka sér hún um að það fái það sem það þarf. Þegar okkur líður illa getum við treyst á kærleika Jehóva. Sálmaskáldið skrifaði: „Þegar áhyggjur voru að buga mig hughreystir þú mig og róaðir.“ – Sálm. 94:19.

„Eins og móðir huggar son sinn þannig hugga ég ykkur.“ (Sjá 4. grein.)


5. Hvaða þýðingu hefur tryggur kærleikur Jehóva fyrir þig?

5 Jehóva er tryggur. (Sálm. 103:8) Hann gefst ekki upp á okkur þegar við gerum eitthvað rangt. Ísraelsþjóðin olli Jehóva vonbrigðum æ ofan í æ en samt tjáði hann óbilandi kærleika sinn til þeirra sem iðruðust og sagði: „Þú ert dýrmætur í augum mínum, ég heiðra þig og ég elska þig.“ (Jes. 43:4, 5) Kærleikur Guðs hefur ekki breyst. Við getum alltaf treyst á hann. Jehóva yfirgefur okkur ekki, jafnvel þótt við höfum gert alvarleg mistök. Þegar við iðrumst og snúum aftur til Jehóva komumst við að raun um að kærleikur hans til okkar hefur ekki haggast. Hann lofar að ‚fyrirgefa fúslega‘. (Jes. 55:7) Biblían lýsir því þannig að þá komi ‚tímar þar sem Jehóva veitir nýjan kraft‘. – Post. 3:19.

6. Hvað lærum við um Jehóva af Sakaría 2:8?

6 Lestu Sakaría 2:8. Jehóva er næmur á tilfinningar okkar og vill vernda okkar vegna þess að hann elskar okkur. Það hryggir hann að sjá hryggð okkar. Þess vegna getum við beðið: „Varðveittu mig eins og augastein þinn.“ (Sálm. 17:8) Augað er viðkvæmt og dýrmætt. Þegar Jehóva líkir okkur við augastein sinn er því eins og hann segi: Hver sem skaðar ykkur, fólk mitt, skaðar það sem er mér dýrmætt.

7. Hvers vegna þurfum við að styrkja traust okkar á kærleika Jehóva?

7 Jehóva vill að þú sért fullviss um að hann elski þig persónulega. En hann veit að vegna fortíðar okkar getum við efast um að hann elski okkur. Og aðstæður okkar núna fá okkur kannski til að efast um að Jehóva elski okkur. Hvað getur styrkt þetta traust? Skoðum hvernig Jehóva lætur í ljós kærleika sinn til Jesú, hinna andasmurðu og okkar allra.

HVERNIG LÆTUR JEHÓVA KÆRLEIKA SINN Í LJÓS?

8. Hvers vegna var Jesús sannfærður um að faðir hans elskaði hann?

8 Um ótilgreindar aldir höfðu Jehóva og ástkær sonur hans tengst nánum og sterkum kærleiksböndum. Vinátta þeirra er sú elsta í alheiminum. Jehóva lætur kærleika sinn til Jesú skýrt í ljós eins og við getum lesið í Matteusi 17:5. Jehóva hefði einfaldlega getað sagt: „Ég hef velþóknun á honum.“ En hann vildi að við vissum hversu heitt hann elskaði Jesú og sagði því að hann væri sonur sinn sem hann elskaði. Jehóva var stoltur af Jesú og því sem hann myndi fljótlega gera. (Ef. 1:7) Og Jesús efaðist ekki um tilfinningar föðurins til sín. Kærleikur Jehóva var Jesú svo raunverulegur að hann fann hann djúpt í hjarta sér. Hann sagði oftar en einu sinni með sannfæringu að faðirinn elskaði hann. – Jóh. 3:35; 10:17; 17:24.

9. Hvernig er kærleika Jehóva til hinna andasmurðu lýst? Skýrðu svarið. (Rómverjabréfið 5:5)

9 Jehóva tjáir einnig kærleika sinn til hinna andasmurðu. (Lestu Rómverjabréfið 5:5.) Taktu eftir að notað er orðið „úthellt“. Biblíuskýringarrit lýsir þessum kærleika eins og „vatnsstraumi“. Þetta er kröftug lýsing á hversu mikinn kærleika Jehóva ber til hinna andasmurðu. Þeir vita að ‚Guð elskar þá‘. (Júd. 1) Jóhannes tjáir tilfinningar þeirra þegar hann skrifar: „Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur sýnt okkur – við erum kölluð börn Guðs!“ (1. Jóh. 3:1) Takmarkast kærleikur Jehóva við hina andasmurðu? Nei, Jehóva hefur sannað kærleika sinn til okkar allra.

10. Hver er sterkasta sönnunin fyrir kærleika Jehóva til þín?

10 Hver er sterkasta sönnunin fyrir kærleika Jehóva? Lausnargjaldið. Með því hefur Jehóva sýnt meiri kærleika en nokkur annar hefur gert. (Jóh. 3:16; Rómv. 5:8) Jehóva gaf dýrmætan son sinn, leyfði að hann myndi deyja fyrir allt mannkynið til þess að hægt væri að fyrirgefa syndir okkar og við gætum orðið vinir hans. (1. Jóh. 4:10) Því meira sem við hugleiðum gjaldið sem Jehóva og Jesús greiddu þeim mun betur skiljum við hversu heitt þeir elska hvert og eitt okkar. (Gal. 2:20) Lausnargjaldið var ekki greitt til að fullnægja köldum lagabókstaf. Það er gjöf sem er sprottin af kærleika. Jehóva hefur sýnt fram á kærleika sinn til okkar með því að fórna þeim sem var honum kærastur – Jesú. Jehóva leyfði að sonur sinn þjáðist og dæi í okkar þágu.

11. Hvað lærum við af Jeremía 31:3?

11 Eins og við höfum séð heldur Jehóva ekki tilfinningum sínum út af fyrir sig heldur tjáir okkur kærleika sinn með hlýju. (Lestu Jeremía 31:3.) Jehóva hefur dregið okkur til sín vegna þess að hann elskar okkur. (Samanber 5. Mósebók 7:7, 8.) Enginn skapaður hlutur getur gert okkur viðskila við kærleika hans. (Rómv. 8:38, 39) Hvaða áhrif hefur þessi kærleikur á þig? Lestu Sálm 23 og sjáðu hvaða áhrif kærleikur Jehóva og innileg umhyggja hafði á Davíð og hvaða áhrif hann getur haft á okkur öll.

HVAÐA ÁHRIF HEFUR KÆRLEIKUR JEHÓVA Á ÞIG?

12. Hver eru meginatriðin í Sálmi 23?

12 Lestu Sálm 23:1–6. Sálmur 23 er söngljóð sem lýsir trausti til kærleika og innilegrar umhyggju Jehóva. Davíð, sem orti sálminn, lýsir þeim sterku böndum sem eru milli hans og hirðis hans, Jehóva. Davíð fann til öryggis þegar hann lét Jehóva leiðbeina sér og viðurkenndi að hann væri algerlega háður honum. Davíð vissi að kærleikur Jehóva fylgdi honum alla ævidaga hans. Hvernig gat hann verið svona öruggur um það?

13. Hvers vegna var Davíð svona viss um að Jehóva þætti vænt um hann?

13 „Mig skortir ekki neitt.“ Davíð fannst vel hugsað um sig vegna þess að Jehóva hafði alltaf séð honum fyrir öllu sem hann þurfti. Hann naut líka vináttu Jehóva og velvildar. Þess vegna var hann sannfærður um að hvað sem framtíðin bæri í skauti sér myndi Jehóva halda áfram að sjá fyrir þörfum hans. Traust Davíðs til innilegrar umhyggju Jehóva var öllum áhyggjum yfirsterkara og veitti honum hamingju og lífsfyllingu. – Sálm. 16:11.

14. Hvernig annast Jehóva okkur af kærleika?

14 Jehóva annast okkur af kærleika, sérstaklega þegar við lendum í erfiðum raunum. Claire a hefur starfað á Betel í meira en 20 ár. Henni fannst hún hjálparvana þegar fjölskylda hennar varð fyrir einu áfallinu á fætur öðru. Faðir hennar fékk alvarlegt heilablóðfall, yngri systur hennar var vikið úr söfnuðinum og fjölskyldan missti fyrirtækið sitt og heimili. Hvernig sýndi Jehóva þeim innilega umhyggju? Claire segir: „Jehóva sá til þess að fjölskyldan hefði alltaf það sem hún þarfnaðist hvern dag. Hvað eftir annað sá Jehóva okkur jafnvel fyrir meiru en við höfðum þörf fyrir! Ég hugsa oft til þeirra augnablika sem ég fann fyrir innilegri umhyggju Jehóva og þau eru mér dýrmæt. Þessar minningar hafa hjálpað mér að gefast ekki upp þegar á móti blæs.“

15. Hvers vegna fannst Davíð hann endurnærður? (Sjá einnig mynd.)

15 „Hann hressir mig við.“ Stundum fannst Davíð hann vera aðþrengdur vegna allra þeirra vandamála og prófrauna sem hann stóð frammi fyrir. (Sálm. 18:4–6) En innileg umhyggja Jehóva hressti hann við. Jehóva leiddi vin sinn þegar hann var úrvinda í „grösugan haga“ og að „lækjum þar sem ljúft er að hvílast“. Fyrir vikið endurheimti Davíð styrk sinn og gat haldið áfram. – Sálm. 18:28–32.

Innileg umhyggja Jehóva hressti Davíð, jafnvel þegar hann var á flótta. (Sjá 15. grein.)


16. Hvernig hefur kærleikur Jehóva hresst þig við?

16 Þegar við verðum fyrir raunum og andstöðu lífsins nú á dögum er það einnig „tryggum kærleika Jehóva að þakka að ekki er úti um okkur“. (Harmlj. 3:22; Kól. 1:11) Hugleiddu reynslu Rachel. Hún var niðurbrotin þegar maðurinn hennar yfirgaf bæði hana og Jehóva meðan á COVID-19 faraldrinum stóð. Hvað gerði Jehóva fyrir hana? Hún segir: „Jehóva sá til þess að ég var fullviss um að ég væri elskuð. Ég var umkringd vinum sem vörðu tíma með mér, færðu mér mat, sendu mér hlýleg skilaboð og biblíuvers, brostu til mín og minntu mig stöðuglega á að Jehóva væri annt um mig. Ég er Jehóva óendanlega þakklát fyrir að gefa mér stóra kærleiksríka fjölskyldu.“

17. Hvers vegna óttaðist Davíð ekkert illt?

17 ‚Ég óttast ekkert illt því að þú ert með mér.‘ Líf Davíðs var oft í hættu og hann átti marga volduga óvini. En kærleikur Jehóva veitti honum öryggiskennd og vernd. Davíð fann að Jehóva var með honum við allar aðstæður og það hughreysti hann. Hann gat því sungið: „[Jehóva] bjargaði mér frá öllu sem ég óttaðist.“ (Sálm. 34:4) Ótti Davíðs var á rökum reistur en kærleikur Jehóva var óttanum yfirsterkari.

18. Hvernig getur fullvissan um kærleika Jehóva styrkt þig þegar ótti grípur þig?

18 Hvernig getur fullvissan um kærleika Jehóva styrkt okkur þegar við lendum í aðstæðum sem vekja með okkur ótta? Susi, sem er brautryðjandi, lýsir tilfinningum sínum og manns síns þegar sonur þeirra fyrirfór sér: „Skyndilegur harmleikur er mikið áfall og getur skilið mann eftir berskjaldaðan og hjálparvana. En innileg umhyggja Jehóva hefur veitt okkur öryggiskennd og vernd.“ Rachel, sem áður var vitnað í, segir: „Kvöld eitt þegar hjarta mitt var sárkvalið og áhyggjurnar og óttinn að buga mig kveinaði ég hreinlega til Jehóva. Á sömu stundu fann ég að hann sefaði hjarta mitt og róaði mig eins og móðir sem er að svæfa barnið sitt og ég sofnaði. Ég gleymi aldrei þessu augnabliki.“ Öldungur að nafni Tasos sat fjögur ár í fangelsi vegna þess að hann neitaði að gegna herþjónustu. Hvernig upplifði hann ást og umhyggju Jehóva? Hann segir: „Jehóva sá fyrir öllum þörfum mínum og meira til. Þetta styrkti sannfæringu mína um að ég gæti treyst honum fullkomlega. Auk þess gaf Jehóva mér gleði með anda sínum þó svo að ég væri í niðurdrepandi umhverfi. Þetta fullvissaði mig um að því nánar sem ég ynni með honum því meir myndi ég njóta gæsku hans. Þess vegna byrjaði ég að þjóna honum sem brautryðjandi meðan ég var í fangelsi.“

NÁLÆGÐU ÞIG UMHYGGJUSÖMUM GUÐI ÞÍNUM

19. (a) Hvernig getur fullvissan um að Guð elski okkur haft áhrif á það sem við segjum í bænum okkar? (b) Hvaða lýsing á kærleika Jehóva snertir þig mest? (Sjá rammann „ Orð sem hjálpa okkur að finna fyrir hlýjum kærleika Jehóva.“)

19 Allar frásögurnar sem við höfum rætt sanna að Jehóva, „Guð kærleikans“, er með okkur. (2. Kor. 13:11) Hann sýnir okkur persónulegan áhuga. Við erum sannfærð um að við séum ‚umvafin tryggum kærleika hans‘. (Sálm. 32:10) Því meir sem við íhugum hvernig hann hefur sýnt okkur kærleika sinn því raunverulegri verður hann okkur og við verðum nánari honum. Við getum hiklaust nálgast hann og sagt honum hve mjög við þörfnumst kærleika hans. Við getum tjáð honum allar áhyggjur okkar í þeirri vissu að hann skilji okkur og langi virkilega til að hjálpa okkur. – Sálm. 145:18, 19.

20. Hvernig dregur kærleikur Jehóva okkur til hans?

20 Kærleikur Jehóva dregur okkur til hans, rétt eins og við sækjum í ylinn af eldi á köldum degi. Þó að kærleikur hans sé kröftugur vitnar hann jafnframt um umhyggju hans og hlýju. Taktu því hlýjum kærleika Jehóva opnum örmum. Bregðumst öll við kærleika hans með því að taka undir með sálmaskáldinu: „Ég elska Jehóva!“ – Sálm. 116:1.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvernig myndir þú lýsa kærleika Jehóva?

  • Hvers vegna getur þú verið viss um að Jehóva elskar þig innilega?

  • Hvernig líður þér að finna fyrir kærleika Jehóva?

SÖNGUR 108 Elska Guðs er trúföst

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.