NÁMSGREIN 3
SÖNGUR 124 Sýnum tryggð
Jehóva hjálpar þér á erfiðum tímum
„[Jehóva] veitir þér stöðugleika.“ – JES. 33:6.
Í HNOTSKURN
Það sem við getum gert til að hafa gagn af hjálp Jehóva á erfiðum tímum.
1, 2. Hvaða erfiðleikum geta trúfastir þjónar Jehóva átt von á?
ÁFALL getur breytt lífi þínu á svipstundu. Trúfastur bróðir að nafni Luis a greindist til dæmis með sjaldgæft krabbamein. Læknirinn sagði honum að hann ætti aðeins fáeina mánuði ólifaða. Monika og eiginmaður hennar voru mjög upptekin í þjónustu Jehóva. En dag einn komst hún að því að maðurinn hennar sem var öldungur hafði lifað tvöföldu lífi um árabil. Olivia er einhleyp systir sem neyddist til að flýja heimili sitt vegna þess að fellibylur nálgaðist. Þegar hún sneri aftur heim uppgötvaði hún að hann hafði rústað húsi hennar. Á svipstundu breyttist líf þessara einstaklinga algerlega. Hefur þú orðið fyrir áfalli sem sneri lífi þínu skyndilega á hvolf?
2 Við göngum í gegnum erfiðleika og veikindi eins og annað fólk þótt við séum trúfastir þjónar Jehóva. Við gætum auk þess þurft að þola andstöðu eða ofsóknir af hálfu þeirra sem hata fólk Guðs. Enda þótt Jehóva komi ekki í veg fyrir slíka erfiðleika lofar hann að hjálpa okkur. (Jes. 41:10) Með hans hjálp getum við haldið gleði okkar, tekið góðar ákvarðanir og verið honum trúföst jafnvel við erfiðustu aðstæður. Í þessari námsgrein skoðum við fjórar leiðir sem Jehóva notar til að hjálpa okkur á dimmum stundum lífsins. Við tökum líka til athugunar hvað við þurfum að gera til að hafa gagn af þeirri hjálp sem hann veitir.
JEHÓVA ER VÖRÐUR ÞINN
3. Hvað gæti okkur þótt erfitt að gera þegar við verðum fyrir áfalli?
3 Það er erfitt að hugsa skýrt og taka ákvarðanir þegar maður verður fyrir alvarlegu áfalli. Hvers vegna? Við finnum kannski til djúprar sorgar og kvíða. Okkur gæti liðið eins og við reikuðum áttavillt um í þoku. Tökum eftir hvernig systrunum, sem áður segir frá, leið í prófraunum sínum. Olivia segir: „Eftir að fellibylurinn hafði lagt heimili mitt í rúst var ég ráðvillt og sá ekki út úr erfiðleikunum.“ Monika segir um svik eiginmanns síns: „Ég var meira en vonsvikin. Hjarta mitt var brostið. Daglegar athafnir virtust yfirþyrmandi. Hið ómögulega hafði hent mig.“ Hvernig lofar Jehóva að hjálpa okkur þegar við sjáum ekki út úr erfiðleikunum?
4. Hverju lofar Jehóva okkur samkvæmt Filippíbréfinu 4:6, 7?
4 Það sem Jehóva gerir. Hann lofar að gefa okkur það sem Biblían nefnir ‚frið Guðs‘. (Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.) Þessi friður vísar til þeirrar stillingar og rósemi sem maður getur aðeins öðlast vegna vináttu við hann. Friðurinn er „æðri öllum skilningi“ sem þýðir að hann er dásamlegri en við getum ímyndað okkur. Hefur þú einhvern tíma fundið fyrir ótrúlegri ró eftir að hafa beðið heitt til Jehóva? Þá hefurðu fundið fyrir ‚friði Guðs‘.
5. Hvernig verndar friður Guðs huga okkar og hjarta?
5 Í þessum versum kemur líka fram að friður Guðs ‚muni vernda‘ eða standa vörð um „hjörtu ykkar og huga“. Frummálsorðið sem hér er þýtt „vernda“ var hernaðarlegt hugtak. Það var notað um hermenn sem gættu borgar og komu í veg fyrir að ráðist yrði á hana. Íbúar borgar sem var vel varin gátu sofið rótt, vitandi að hermenn gættu þeirra. Þegar friður Guðs verndar hjarta okkar og huga höfum við hugarró, vitandi að við erum örugg. (Sálm. 4:8) Eins og Hanna getum við fundið vissa ró þótt staða okkar breytist ekki strax. (1. Sam. 1:16–18) Og þegar við höfum hugarró er oft auðveldara að hugsa skýrt og taka skynsamlegar ákvarðanir.
6. Hvað getum við gert til að hafa gagn af friði Guðs? (Sjá einnig mynd.)
6 Það sem við þurfum að gera. Þegar eitthvað þjakar okkur getum við beðið Jehóva að vernda okkur, rétt eins og íbúar borgar kölluðu eftir vernd. Hvernig? Haltu áfram að biðja þangað til þú finnur frið Guðs. (Lúk. 11:9; 1. Þess. 5:17) Luis sem áður er minnst á útskýrir hvernig hann og Ana kona hans náðu að höndla aðstæðurnar þegar þau fengu að vita að hann ætti aðeins stutt eftir ólifað. Hann sagði: „Þegar svona gerist er gríðarlega erfitt að taka ákvarðanir um meðferð og önnur mál. Það er bara vegna bænarinnar sem við höfum getað fundið frið.“ Þau hjónin sögðu að þau hefðu beðið oft og innilega til Jehóva um hugarfrið, ró í hjarta og visku til að taka góðar ákvarðanir. Og hann hjálpaði þeim. Ef þú ert að takast á við yfirþyrmandi erfiðleika skaltu halda áfram að biðja og þá færðu að finna hvernig friður Guðs verndar hjarta þitt og huga. – Rómv. 12:12.
JEHÓVA GERIR ÞIG STÖÐUGAN
7. Hvernig gæti okkur liðið þegar við göngum í gegnum erfiða prófraun?
7 Þegar við göngum í gegnum erfiða prófraun eru tilfinningar okkar, hugsanir og viðbrögð kannski ekki í sama jafnvægi og venjulega. Okkur gæti liðið eins og við værum á báti í stórsjó og hentumst fram og til baka. Ana, sem áður er sagt frá, hefur upplifað margs konar tilfinningar eftir að Luis dó. Hún segir: „Stundum helltist yfir mig tómleiki og ég byrjaði að vorkenna sjálfri mér. Ég varð líka reið yfir því að hann skyldi vera farinn.“ Auk þess var Ana einmana og fannst erfitt að taka ákvarðanir í málum sem Luis hafði séð svo vel um. Stundum leið henni eins og hún væri í stórsjó. Hvernig hjálpar Jehóva okkur þegar slíkar tilfinningar hellast yfir okkur?
8. Um hvað fullvissar Jehóva okkur í Jesaja 33:6?
8 Það sem Jehóva gerir. Hann fullvissar okkur um að hann geri okkur stöðug. (Lestu Jesaja 33:6.) Þegar skip lendir í stormi getur veltingurinn orðið mjög hættulegur. Mörg skip hafa búnað, svokallaða veltiugga, til að vinna á móti slíkum hreyfingum og gera skipið stöðugt. Þeir geta dregið umtalsvert úr hreyfingum skipsins og gert það öruggara og þægilegra fyrir farþega. En þessi búnaður skilar mestum árangri þegar skipið er á ferð. Á líkan hátt mun Jehóva gera okkur stöðug þegar við höldum áfram að þjóna honum af trúfesti á erfiðum tímum.
9. Hvernig geta leitarverkfærin okkar hjálpað okkur að halda jafnvægi? (Sjá einnig mynd.)
9 Það sem við þurfum að gera. Gerðu þitt besta til að halda andlegri dagskrá þinni gangandi ef þú ert að takast á við yfirþyrmandi aðstæður. Þú getur kannski ekki gert eins mikið og áður en ekki gleyma að Jehóva er sanngjarn. (Samanber Lúkas 21:1–4.) Taktu þér líka tíma fyrir sjálfsnám og hugleiðingu. Hvers vegna? Jehóva sér okkur fyrir einstöku biblíutengdu efni fyrir milligöngu trúa og skynsama þjónsins sem getur hjálpað okkur að halda jafnvægi. Til að finna það sem þú þarft geturðu notað leitarverkfæri á þínu tungumáli, eins og JW Library®-appið og Efnislykil að ritum Votta Jehóva. Monika, sem rætt var um áður, segist hafa notað leitarverkfærin til að finna ráð þegar erfiðar tilfinningar sóttu á hana. Hún leitaði til dæmis undir orðinu „reiði“ á VEFBÓKASAFNI Varðturnsins. Við önnur tækifæri skoðaði hún efni undir orðunum „svik“ eða „tryggð“. Síðan las hún efnið þangað til henni leið betur. Hún segir: „Það sem byrjaði með örvæntingarfullum smellum á lyklaborðinu endaði með hlýlegu faðmlagi frá Jehóva. Lesturinn hjálpaði mér að sjá að Jehóva skildi allar tilfinningar mínar og studdi mig.“ Hjálp Jehóva getur líka gert þér kleift að ná tilfinningalegu jafnvægi og komast á lygnan sjó. – Sálm. 119:143, 144.
JEHÓVA STYÐUR ÞIG
10. Hvernig gæti okkur liðið eftir áfall?
10 Eftir áfall geta komið dagar þegar við erum líkamlega og tilfinningalega máttvana. Okkur gæti liðið eins og meiddum íþróttamanni sem var vanur að hlaupa hratt en haltrar nú um. Við eigum kannski í basli með verkefni sem við áttum auðvelt með eða þá að okkur langar ekki lengur að gera það sem við höfðum áður ánægju af. Okkur gæti, eins og Elía, þótt erfitt að fara á fætur. Við viljum bara sofa. (1. Kon. 19:5–7) Hvað lofar Jehóva að gera þegar við erum máttvana?
11. Á hvaða annan hátt hjálpar Jehóva okkur? (Sálmur 94:18)
11 Það sem Jehóva gerir. Hann lofar að styðja okkur. (Lestu Sálm 94:18.) Rétt eins og íþróttamaður sem á við meiðsli að stríða á erfitt með að hreyfa sig án stuðnings gætum við þurft hjálp til að vera virk í þjónustu Jehóva. Á slíkum stundum lofar Jehóva okkur: „Ég, Jehóva Guð þinn, gríp í hægri hönd þína, ég segi við þig: ‚Vertu ekki hræddur, ég hjálpa þér.‘“ (Jes. 41:13) Davíð konungur fékk slíka hjálp. Þegar hann gekk í gegnum prófraunir og óvinir stóðu gegn honum sagði hann við Jehóva: „Hægri hönd þín styður mig.“ (Sálm. 18:35) En hvernig sér Jehóva fyrir stuðningi?
12. Hvað gerir Jehóva til að hjálpa okkur þegar við erum máttlítil?
12 Jehóva styður okkur oft með því að knýja aðra til að hjálpa okkur. Eitt sinn þegar Davíð var niðurdreginn kom vinur hans, Jónatan, til hans og veitti honum tilfinningalegan stuðning og uppörvun. (1. Sam. 23:16, 17) Og Jehóva valdi Elísa til að styðja Elía. (1. Kon. 19:16, 21; 2. Kon. 2:2) Jehóva getur notað fjölskylduna, vini eða öldungana til að styðja okkur. En þegar við glímum við sársaukafullar tilfinningar höfum við kannski tilhneigingu til að draga okkur inn í skel. Við viljum bara fá að vera í friði. Þetta eru eðlileg viðbrögð. Hvað getum við gert til að fá stuðning Jehóva?
13. Hvað þurfum við að gera til að hafa gagn af stuðningi Jehóva? (Sjá einnig mynd.)
13 Það sem við þurfum að gera. Berstu gegn lönguninni að einangra þig. Þegar við einangrum okkur verður sjónarhorn okkar gjarnan þrengra og við förum að einblína um of á okkur sjálf og vandamál okkar. Það getur síðan haft áhrif á ákvarðanir okkar. (Orðskv. 18:1) Öll þurfum að sjálfsögðu stundum að vera í einrúmi, sérstaklega þegar við verðum fyrir áföllum í lífinu. En ef við einangrum okkur í lengri tíma gætum við farið á mis við hjálpina sem Jehóva býður okkur. Þiggðu því hjálp fjölskyldunnar, vina og öldunganna þótt það kosti átak. Vertu vakandi fyrir því að Jehóva sé að nota þau til að styðja þig. – Orðskv. 17:17; Jes. 32:1, 2.
JEHÓVA HUGGAR ÞIG
14. Hvað gæti gert okkur óttaslegin?
14 Við gætum gengið í gegnum tímabil sem gerir okkur hrædd. Trúfastir þjónar Guðs segja frá því í Biblíunni að skelfing hafi gripið þá þegar óvinir þeirra stóðu gegn þeim eða þeir voru undir miklu álagi. (Sálm. 18:4; 55:1, 5) Við gætum orðið fyrir andstöðu í skólanum, vinnunni, frá fjölskyldunni eða yfirvöldum. Heilsuvandamál gætu jafnvel ógnað lífi okkar. Við slíkar aðstæður gæti okkur liðið eins og ósjálfbjarga barni. Hvernig hjálpar Jehóva okkur á slíkum stundum?
15. Hvað mun Jehóva gera fyrir okkur samkvæmt Sálmi 94:19?
15 Það sem Jehóva gerir. Hann hughreystir okkur og róar. (Lestu Sálm 94:19.) Þessi sálmur fær okkur kannski til að hugsa um litla stelpu sem er hrædd og getur ekki sofið fyrir þrumuveðri. Við sjáum pabba hennar fyrir okkur þar sem hann kemur inn og tekur hana í fangið þangað til hún sofnar. Þótt þrumuveðrið geisi enn róast hún og finnur til öryggis hjá pabba sínum. Þegar við glímum við prófraunir höfum við ef til vill þörf fyrir að faðir okkar á himnum taki okkur í faðm sinn þangað til vanlíðanin líður hjá. Hvernig getum við fengið slíka hughreystingu frá Jehóva?
16. Hvað getum við gert til að fá hughreystingu frá Jehóva? (Sjá einnig mynd.)
16 Það sem við þurfum að gera. Eigðu reglulega stundir með Jehóva. Biddu til hans og lestu í orði hans. (Sálm. 77:1, 12–14) Þegar þú síðan finnur fyrir álagi verður fyrsta hugsunin líklega sú að leita til föður þíns á himnum. Segðu Jehóva frá því sem þú óttast og veldur þér áhyggjum. Hlustaðu síðan á hann með því að lesa í orði hans og finndu hvernig hann hughreystir þig. (Sálm. 119:28) Þú uppgötvar kannski að ákveðnir kaflar í Biblíunni reynast sérstaklega vel þegar þú finnur til ótta. Þú gætir fengið hughreystingu í Jobsbók, Sálmunum og Orðskviðunum, sem og orðum Jesú í Matteusi 6. kafla. Þegar þú biður til Jehóva og lest í orði hans finnurðu hvernig hann huggar þig.
17. Hverju getum við treyst?
17 Við getum treyst því að Jehóva standi við bakið á okkur þegar við verðum fyrir erfiðleikum. Við verðum aldrei ein. (Sálm. 23:4; 94:14) Jehóva lofar að vernda okkur, gera okkur stöðug, styðja okkur og hugga. Í Jesaja 26:3 segir um Jehóva: „Þú verndar þá sem reiða sig á þig, þú veitir þeim stöðugan frið því að á þig leggja þeir traust sitt.“ Treystu því á Jehóva og gerðu allt sem þú getur til að nýta þér þá hjálp sem hann veitir. Þegar þú gerir það endurheimtirðu styrk þinn, jafnvel á erfiðum stundum.
HVERJU SVARAR ÞÚ?
-
Hvenær gætum við sérstaklega þurft á hjálp Jehóva að halda?
-
Á hvaða fjóra vegu hjálpar Jehóva okkur í erfiðleikum?
-
Hvað getum við gert til að hafa gagn af hjálp Jehóva?
SÖNGUR 12 Jehóva, hinn mikli Guð
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.