Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 4

SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið

Hvað lærum við af lausnargjaldinu?

Hvað lærum við af lausnargjaldinu?

„Kærleikur Guðs til okkar birtist í því.“1. JÓH. 4:9.

Í HNOTSKURN

Lausnargjaldið leiðir í ljós fallega eiginleika Jehóva Guðs og Jesú Krists.

1. Hvers vegna er gott að sækja minningarhátíðina um dauða Jesú á hverju ári?

 JEHÓVA gaf okkur ómetanlega gjöf – lausnargjaldið. (2. Kor. 9:15) Við getum verið nánir vinir Jehóva vegna þess að Jesús fórnaði lífi sínu fyrir mannkynið. Fórn Jesú opnaði líka leiðina til eilífs lífs. Jehóva elskar okkur greinilega mjög mikið og það fyllir okkur þakklæti. (Rómv. 5:8) Til að við gleymum ekki hvað Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur stofnsetti Jesús hina árlegu minningarhátíð um dauða sinn. – Lúk. 22:19, 20.

2. Hvað er rætt í þessari námsgrein?

2 Minningarhátíðin 2025 verður haldin laugardaginn 12. apríl. Við ætlum okkur auðvitað öll að mæta. Það gerir okkur gott að taka frá tíma vikurnar fyrir og eftir minningarhátíðina til að hugleiða a hvað Jehóva og sonur hans hafa gert fyrir okkur. Í þessari námsgrein ræðum við hvað lausnargjaldið kennir okkur um Jehóva og son hans. Í næstu námsgrein lærum við hvernig lausnargjaldið kemur okkur að gagni og hvernig við getum sýnt að við erum þakklát fyrir það.

HVAÐ LÆRUM VIÐ UM JEHÓVA AF LAUSNARGJALDINU?

3. Hvernig gat dauði eins manns frelsað milljónir manna frá synd og dauða? (Sjá einnig mynd.)

3 Lausnargjaldið kennir okkur að Jehóva er Guð sem hefur mætur á réttlæti. (5. Mós. 32:4) Hvernig þá? Hugleiddu þetta: Þegar Adam óhlýðnaðist fengum við synd í arf og hún leiðir til dauða. (Rómv. 5:12) Til að frelsa okkur undan synd og dauða sendi Jehóva son sinn til jarðar til að sjá okkur fyrir lausnargjaldinu. En hvernig gat fórn eins fullkomins manns leyst milljónir manna undan synd og dauða? Páll postuli segir: „Margir urðu syndarar vegna óhlýðni hins eina manns [Adams]. Eins verða margir réttlættir vegna hlýðni hins eina [Jesú].“ (Rómv. 5:19; 1. Tím. 2:6) Með öðrum orðum syndga allir menn og þurfa að deyja vegna óhlýðni eins fullkomins manns. Til að frelsa okkur þurfti þess vegna einn hlýðinn fullkominn mann.

Allir menn syndga og deyja vegna eins manns. Einn maður frelsaði okkur. (Sjá 3. grein.)


4. Hvers vegna leyfði Jehóva ekki hlýðnum afkomendum Adams að lifa að eilífu?

4 Var nauðsynlegt að senda Jesú til að deyja fyrir okkur? Gat Jehóva ekki leyft hlýðnum afkomendum Adams að lifa að eilífu? Frá okkar sjónarhóli gæti það virst kærleiksrík og skynsamleg leið. En í augum Jehóva var það ekki rétt leið því að þá hefði óhlýðni Adams virst léttvæg.

5. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva geri alltaf hið rétta?

5 Hvað ef Jehóva hefði hunsað réttlátan mælikvarða sinn og leyft ófullkomnum afkomendum Adams að lifa að eilífu í stað þess að sjá fyrir lausnargjaldinu? Þá gæti fólk velt fyrir sér hvort hann viki ekki frá mælikvarða sínum í öðrum málum líka. Það gæti farið að efast um að hann héldi öll loforð sín. Við þurfum ekki að óttast að það gerist. Jehóva fylgdi réttlátum mælikvarða sínum og fórnaði syni sínum þótt það væri mjög dýrkeypt. Það fullvissar okkur um að hann geri alltaf hið rétta.

6. Hvernig ber lausnargjaldið vitni um kærleika Jehóva? (1. Jóhannesarbréf 4:9, 10)

6 Lausnargjaldið kennir okkur ekki aðeins að Jehóva sé réttlátur heldur líka hversu heitt hann elskar okkur. (Jóh. 3:16; lestu 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.) Að hann sendi son sinn til að fórna lífi sínu fyrir okkur sýnir að hann vill að við fáum eilíft líf en hann vill líka að við tilheyrum fjölskyldu sinni. Hugleiddu þetta: Synd Adams leiddi til þess að Jehóva rak hann úr fjölskyldu sinni. Þess vegna tilheyrir enginn fjölskyldu Jehóva þegar hann fæðist. En Jehóva fyrirgefur syndir okkar á grundvelli lausnargjaldsins og dag einn mun allt trúað og hlýðið mannkyn vera í fjölskyldu hans. Við getum nú þegar átt náið og gott samband við Jehóva og trúsystkini okkar. Jehóva elskar okkur greinilega afar mikið. – Rómv. 5:10, 11.

7. Hvað segja þjáningar Jesú okkur um kærleika Jehóva?

7 Við skiljum betur hversu djúpan kærleika Jehóva ber til okkar ef við hugleiðum hvernig honum hefur liðið að horfa upp á son sinn þjást. Satan segir að enginn þjóni Guði áfram þegar á reyni. Til að hrekja þessa lygi leyfði Jehóva að Jesús dæi kvalafullum dauða. (Job. 2:1–5; 1. Pét. 2:21) Jehóva horfði á hvernig Jesús var hafður að háði, hýddur hrottalega og negldur á staur. Og hann horfði upp á son sinn deyja með kvalafullum hætti. (Matt. 27:28–31, 39) Jehóva hefði getað gripið inn í hvenær sem var og stöðvað framvinduna. Til dæmis hefði hann getað gert það þegar fólk sagði: „Nú ætti Guð að bjarga honum ef honum er annt um hann.“ (Matt. 27:42, 43) En þá hefði ekkert lausnargjald verið greitt og við værum án vonar. Jehóva leyfði því að sonur sinn dæi kvalafullum dauðdaga.

8. Hvernig vitum við að það olli Jehóva mikilli kvöl að sjá son sinn þjást? (Sjá einnig mynd.)

8 Við ættum ekki að hugsa sem svo að þar sem Jehóva er almáttugur sé hann tilfinningalaus. Við erum sköpuð í hans mynd og erum tilfinningaverur. Það er því rökrétt að álykta að Jehóva hafi tilfinningar. Í Biblíunni er sagt frá því að fólk hafi ‚sært‘ hann og ‚hryggt‘. (Sálm. 78:40, 41) Hugleiddu líka frásöguna af Abraham og Ísak. Þú manst kannski að Abraham var fyrirskipað að fórna einkasyni sínum. (1. Mós. 22:9–12; Hebr. 11:17–19) Það hlýtur að hafa níst hjarta Abrahams að hugsa til þess að drepa sinn eigin son. Jehóva hlýtur að hafa verið enn hryggari þegar hann sá vonda menn pynta son sinn til dauða. – Sjá myndbandið Líkjum eftir trú þeirra – Abraham 2. hluti á jw.org.

Það olli Jehóva mikilli kvöl að sjá son sinn þjást. (Sjá 8. grein.)


9. Hvað lærirðu af Rómverjabréfinu 8:32, 38, 39 um kærleika Jehóva til þín og trúsystkina þinna?

9 Lausnargjaldið kennir okkur að Jehóva elski okkur meira en nokkur annar, jafnvel meira en nánasti ættingi okkar eða besti vinur. (Lestu Rómverjabréfið 8:32, 38, 39.) Það leikur enginn vafi á að Jehóva elskar okkur meira en við elskum okkur sjálf. Viltu lifa að eilífu? Jehóva vill enn frekar að þú gerir það. Viltu að Jehóva fyrirgefi þér syndir þínar? Jehóva vill það enn frekar. Það eina sem hann biður okkur um er að vera þakklát fyrir lausnargjaldið, sýna trú og vera hlýðin. Lausnargjaldið er skýrt merki um kærleika Guðs. Í nýja heiminum lærum við enn meira um þennan kærleika. – Préd. 3:11.

HVAÐ LÆRUM VIÐ UM JESÚ AF LAUSNARGJALDINU?

10. (a) Hvað hryggði Jesú mest við það að vera tekinn af lífi? (b) Hvernig átti Jesús þátt í að hreinsa nafn Jehóva af öllum ásökunum? (Sjá einnig rammann „ Ráðvendni Jesú hreinsaði nafn Jehóva af öllum ásökunum“.)

10 Jesú er innilega annt um orðstír föður síns. (Jóh. 14:31) Jesús var hryggur yfir því að vera dæmdur fyrir guðlast og uppreisnaráróður þar sem það gat svert nafn föður hans. Þess vegna bað hann: „Faðir minn, ef hægt er, viltu láta þennan bikar fara fram hjá mér?“ (Matt. 26:39) En hann var ráðvandur allt til dauða og hreinsaði þannig nafn föður síns af öllum ásökunum.

11. Hvernig sýndi Jesús að hann elskaði fólk innilega? (Jóhannes 13:1)

11 Lausnargjaldið kennir okkur líka að Jesús elskar fólk innilega, sérstaklega fylgjendur sína. (Orðskv. 8:31; lestu Jóhannes 13:1.) Hann vissi mætavel að sumt sem tengdist þjónustu hans á jörð myndi reynast þrautin þyngri, sérstaklega að deyja kvalafullum dauða. En hann var síður en svo áhugalaus um verkefni sitt á jörð. Hann elskaði fólk innilega og sýndi það með því að boða því trúna, kenna því og hjálpa. Daginn sem hann dó tók hann sér meira að segja tíma til að þvo fætur postulanna, kenna þeim, hvetja þá og hugga. Seinna, þegar hann var sárkvalinn á staurnum, gaf hann afbrotamanninum við hliðina á sér von um líf í paradís og bað Jóhannes að annast móður sína. (Lúk. 23:39; Jóh. 19:23) Jesús sýndi þannig að hann elskaði fólk innilega, ekki aðeins með því að deyja fyrir það heldur líka með því hvernig hann kom fram við það.

12. Hvað gerir Jesús fyrir okkur núna?

12 Jesús dó „í eitt skipti fyrir öll“ en hann færir samt enn fórnir í okkar þágu. (Rómv. 6:10) Hvað er hann að gera núna sem er mögulegt vegna lausnargjaldsins? Hann er iðinn við að sinna mörgum verkefnum í okkar þágu sem konungur, æðstiprestur og höfuð safnaðarins. (1. Kor. 15:25; Ef. 5:23; Hebr. 2:17) Hann sér um að safna saman hinum andasmurðu og múginum mikla og því verki lýkur áður en þrengingin mikla er afstaðin. b (Matt. 25:32; Mark 13:27) Hann sér líka til þess að trúi þjónninn gefi okkur nauðsynlega andlega fæðu nú á síðustu dögum. (Matt. 24:45) Og í þúsundáraríkinu heldur hann áfram að þjóna hagsmunum okkar. Jehóva gaf son sinn í orðsins fyllstu merkingu!

HÆTTU ALDREI AÐ LÆRA

13. Hvernig geturðu haldið áfram að læra um kærleika Guðs og Krists til okkar?

13 Þú getur haldið áfram að læra um kærleikann sem Jehóva Guð og Jesús Kristur bera til okkar ef þú hugleiðir hvað þeir hafa gert fyrir okkur. Þú gætir til dæmis lesið eitt eða fleiri af guðspjöllunum vikurnar í kringum minningarhátíðina í ár. Reyndu ekki að lesa of marga kafla í einu. Hægðu frekar á þér og leitaðu að fleiri ástæðum til að elska Jehóva og Jesú. Og talaðu endilega við aðra um það sem þú lærir.

14. Hvernig getur rannsóknarvinna hjálpað okkur að læra sífellt meira um lausnargjaldið og aðrar kenningar Biblíunnar? (Sálmur 119:97 og neðanmáls) (Sjá einnig mynd.)

14 Ef þú hefur verið mörg ár í sannleikanum gætirðu velt því fyrir þér hvort hægt sé að læra meira um réttlæti Guðs, kærleika hans og lausnargjaldið. Sannleikurinn er sá að það er enginn endir á því hvað hægt er að læra um þetta efni. Hvað geturðu gert? Lestu og hugleiddu allan þann hafsjó af fróðleik sem er að finna í ritunum okkar. Þegar þú lest eitthvað í Biblíunni sem þú skilur ekki til fulls skaltu rannsaka það. Hugleiddu síðan yfir daginn það sem þú lærðir og hvað það segir þér um Jehóva, son hans og kærleika þeirra til þín. – Lestu Sálm 119:97 og neðanmáls.

Við getum orðið enn þakklátari fyrir lausnargjaldið þótt við höfum verið mörg ár í sannleikanum. (Sjá 14. grein.)


15. Hvers vegna er mikilvægt að grafa eftir nýjum gullmolum í Biblíunni?

15 Láttu ekki hugfallast þó að þú finnir ekki eitthvað nýtt og spennandi í hvert skipti sem þú sest niður til að lesa og rannsaka. Þú ert eins og gullleitarmaður. Hann leitar í marga klukkutíma eða dögum saman áður en hann finnur örðu af gulli. En hann heldur áfram því að hver gullmoli er dýrmætur. Hvert gullkorn sem við finnum í Biblíunni er miklu verðmætara en bókstaflegt gull. (Sálm. 119:127; Orðskv. 8:10) Vertu því þolinmóður og haltu þig við biblíulestaráætlun þína. – Sálm. 1:2.

16. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og Jesú?

16 Reyndu að finna leiðir til að fara eftir því sem þú lærir af námi þínu í Biblíunni. Þú getur til dæmis líkt eftir réttlæti Jehóva með því að koma fram við aðra af sanngirni. Líktu eftir kærleika Jesú til föður síns og annarra með því að vera fús til að þjást sakir nafns Jehóva og hjálpa öðrum þótt það geti stundum verið erfitt. Fetaðu í fótspor Jesú með því að boða öðrum trúna svo að þeir fái líka tækifæri til að sýna trú á lausnargjaldið – ómetanlega gjöf Jehóva.

17. Um hvað er fjallað í næstu námsgrein?

17 Þegar við höldum áfram að læra um lausnargjaldið verðum við enn þakklátari og elskum Jehóva og son hans sífellt heitar. Og þeir elska okkur þá meir og meir. (Jóh. 14:21; Jak. 4:8) Nýtum okkur því allt sem Jehóva gefur til að dýpka skilning okkar á lausnargjaldinu. Í næstu námsgrein ræðum við hvernig við getum notið góðs af lausnargjaldinu og sýnt að við erum þakklát fyrir kærleika Jehóva.

SÖNGUR 107 Guð er fyrirmynd um kærleikann

a ORÐASKÝRING:hugleiða merkir að einbeita sér að ákveðnu efni og ígrunda það.

b Í Efesusbréfinu 1:10 talar Páll um „það sem er á himnum“ og að því verði safnað saman. En Jesús á við annað í Matteusi 24:31 og Markúsi 13:17 þegar hann segir að hinum „útvöldu“ verði safnað saman. Páll vísar til þess þegar Jehóva velur þá sem ríkja með syni hans á himnum með því að smyrja þá með heilögum anda. Jesús vísar til þess þegar hinum andasmurðu sem eru eftir á jörð er safnað saman til himna í þrengingunni miklu.