Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 3

SÖNGUR 35 Metum rétt það sem máli skiptir

Taktu ákvarðanir sem gleðja Jehóva

Taktu ákvarðanir sem gleðja Jehóva

„Djúp virðing fyrir Jehóva er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn háheilaga veitir skilning.“ORÐSKV. 9:10.

Í HNOTSKURN

Við lærum að taka skynsamlegar ákvarðanir með því að beita þekkingu okkar, skilningi og dómgreind.

1. Hverju stöndum við öll frammi fyrir?

 VIÐ þurfum að taka ákvarðanir á hverjum degi. Sumar eru tiltölulega einfaldar, eins og hvað við fáum okkur í morgunmat eða hvenær við förum að sofa. Aðrar ákvarðanir eru erfiðari. Þær snerta kannski heilsuna, hamingju okkar, ástvini eða tilbeiðsluna. Við viljum að ákvarðanir sem við tökum séu okkur og fjölskyldunni til góðs. Og umfram allt viljum við að Jehóva sé ánægður með þær. – Rómv. 12:1, 2.

2. Hvað getur auðveldað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir?

2 Það er líklegra að þú takir skynsamlegar ákvarðanir ef þú (1) aflar þér upplýsinga, (2) hugleiðir hvernig Jehóva hugsar um málið og (3) vegur og metur möguleikana. Við skoðum þetta í þessari námsgrein og það hjálpar okkur að þjálfa dómgreindina. – Hebr. 5:14, neðanmáls.

AFLAÐU ÞÉR UPPLÝSINGA

3. Lýstu með dæmi hvers vegna gott er að afla sér upplýsinga áður en maður tekur ákvörðun.

3 Áður en maður tekur góða ákvörðun er nauðsynlegt að afla sér upplýsinga. Hvers vegna er það svona mikilvægt? Ímyndum okkur að sjúklingur fari til læknis vegna alvarlegs heilsuvandamáls. Myndi læknirinn taka ákvörðun um meðferð án þess að skoða sjúklinginn og spyrja hann spurninga? Auðvitað ekki. Þú tekur líka betri ákvarðanir ef þú aflar þér fyrst upplýsinga sem snerta málið. Hvernig ferðu að?

4. Hvernig geturðu gengið úr skugga um að þú hafir nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt Orðskviðunum 18:13? (Sjá einnig mynd.)

4 Þú getur oft aflað þér upplýsinga með því að spyrja spurninga. Segjum að þér sé boðið í partí. Ættirðu að fara? Ef þú þekkir ekki gestgjafann eða tilefnið þarftu að spyrja hann spurninga eins og: Hvar og hvenær verður partíið? Hversu margir eru boðnir? Hver sér um að allt fari vel fram? Hvað er búið að skipuleggja að gera í partíinu? Verður áfengi í boði? Þú getur tekið skynsamlega ákvörðun þegar þú veist svörin við þessum spurningum. – Lestu Orðskviðina 18:13.

Aflaðu þér upplýsinga með því að spyrja spurninga. (Sjá 4. grein.) a


5. Hvað ættirðu að gera eftir að hafa aflað þér upplýsinga?

5 Þegar þú hefur aflað þér upplýsinga skaltu vega þær og meta. Hvað ef þú kemst að því að einstaklingar eru boðnir sem virða ekki meginreglur Biblíunnar eða að enginn hefur eftirlit með því hvort fólk drekki of mikið áfengi? Eru líkur á því að partíið fari úr böndunum? (1. Pét. 4:3) Og hvað ef partíið er á þeim tíma að það kemur í veg fyrir að þú farir á samkomu eða í boðunina? Þegar þú hefur íhugað málið vel ertu í stakk búinn að taka góða ákvörðun. En það er eitt í viðbót sem þú ættir að velta fyrir þér. Þú veist hvernig þú lítur á málið en hvað finnst Jehóva?Orðskv. 2:6.

HUGLEIDDU HVAÐ JEHÓVA FINNST

6. Hvers vegna ættum við að biðja Jehóva um hjálp samkvæmt Jakobsbréfinu 1:5?

6 Biddu Jehóva um hjálp til að skilja hver er hans skoðun á málinu. Hann lofar að gefa okkur visku til að skilja hvað honum finnst um ákveðna ákvörðun. Hann gefur visku „af örlæti og án þess að finna að“ okkur. – Lestu Jakobsbréfið 1:5.

7. Hvernig geturðu vitað hvað Jehóva finnst um ákveðið mál? Lýstu með dæmi.

7 Þegar þú hefur beðið Jehóva um leiðsögn skaltu fylgjast með því hvernig hann svarar bæn þinni. Tökum dæmi: Segjum að þú sért á ferðalagi og villist. Þú biður einhvern sem býr á svæðinu að hjálpa þér. Myndirðu ganga burt án þess að gefa honum tækifæri til að svara? Að sjálfsögðu ekki. Þú myndir hlusta af athygli á það sem hann segði. Eins skaltu reyna að „hlusta eftir“ því hvernig Jehóva svarar bæn þinni um visku með því að skoða meginreglur og lög Biblíunnar sem eiga við þínar aðstæður. Ef þú værir til dæmis að íhuga hvort þú ættir að fara í partí gætirðu rifjað upp það sem Biblían segir um svallveislur, vondan félagsskap og að láta þjónustuna við Guðsríki ganga fyrir því sem þig langar kannski til að gera. – Matt. 6:33; Rómv. 13:13; 1. Kor. 15:33.

8. Hvernig geturðu aflað þér upplýsinga? (Sjá einnig mynd.)

8 Stundum þarftu kannski hjálp til að afla þér upplýsinga. Reyndur bróðir eða systir gæti leiðbeint þér. En þú hefur líka gagn af því að rannsaka málið sjálfur. Við höfum biblíunámsgögn eins og Efnislykilinn að ritum Votta Jehóva og Scriptures for Christian Living þar sem er að finna gnægð upplýsinga. Mundu að markmiðið er að taka ákvörðun sem Jehóva er ánægður með.

Hugleiddu hvernig Jehóva hugsar. (Sjá 8. grein.) b


9. Hvernig getum við verið viss um að Jehóva sé ánægður með ákvörðun okkar? (Efesusbréfið 5:17)

9 Hvernig getum við verið viss um að Jehóva sé ánægður með ákvörðun okkar? Við þurfum í fyrsta lagi að þekkja hann vel. „Að þekkja Hinn háheilaga veitir skilning,“ segir Biblían. (Orðskv. 9:10) Skilningurinn kemur þegar maður þekkir eiginleika Jehóva, fyrirætlun hans og veit hvað hann elskar og hatar. Spyrðu þig: Hvaða ákvörðun yrði Jehóva ánægður með miðað við það sem ég veit um hann? – Lestu Efesusbréfið 5:17.

10. Hvers vegna eru meginreglur Biblíunnar mikilvægari en fjölskylduhefðir eða menning?

10 Til að gera það sem Jehóva vill að við gerum verðum við stundum að gera það sem veldur okkar nánustu vonbrigðum. Sumir foreldrar sem meina vel gætu krafist þess að fullorðin dóttir þeirra giftist efnuðum manni, þótt samband hans við Jehóva sé ekki sterkt. Skiljanlega vilja foreldrarnir tryggja fjárhagslegt öryggi dótturinnar. En stuðlar mannsefnið að því að hún taki framförum í trúnni? Hvernig lítur Jehóva á málið? Svarið er að finna í Matteusi 6:33. Þar eru þjónar Guðs hvattir til að ‚einbeita sér fyrst og fremst að ríki Guðs‘. Við heiðrum foreldra okkar og virðum fólk í samfélaginu en við viljum fyrst og fremst gleðja Jehóva.

SKOÐAÐU MÖGULEIKANA VANDLEGA

11. Hvaða eiginleiki getur hjálpað þér að vega og meta möguleika þína samkvæmt Filippíbréfinu 1:9, 10?

11 Þegar þú hefur komið auga á meginreglur Biblíunnar sem hafa með ákvörðun þína að gera þarftu að vega og meta möguleikana í stöðunni. (Lestu Filippíbréfið 1:9, 10, sjá skýringu við „full discernment“ í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur.) Dómgreind hjálpar þér að sjá hver útkoman verður eftir því hvaða ákvörðun þú tekur. Stundum er augljóst hvaða ákvörðun maður á að taka. En það á ekki við allar ákvarðanir. Dómgreind auðveldar þér að taka skynsamlegar ákvarðanir jafnvel í flóknum málum.

12, 13. Hvernig getur dómgreind hjálpað þér að taka skynsamlega ákvörðun varðandi atvinnu?

12 Segjum að þú sért að leita þér að vinnu til að sjá fjölskyldunni farborða. Tvö störf eru í boði. Þú skoðar málin vandlega, hvernig vinna þetta er, vinnutímann, hvað það tekur langan tíma að fara til og frá vinnu og svo framvegis. Hvorug vinnan brýtur í bága við meginreglur Biblíunnar. Þér líst kannski betur á aðra þeirra af því að hún virðist ákjósanlegri eða er betur launuð. En það er annað sem þú ættir að hugleiða áður en þú tekur ákvörðun.

13 Stangast vinnutíminn á við samkomutíma? Yrði vinnan til þess að þú hefðir ekki tíma til að sinna andlegum og tilfinningalegum þörfum fjölskyldunnar? Þegar þú spyrð slíkra spurninga áttu auðveldara með að ‚meta hvað sé mikilvægt‘ – tilbeiðslan á Jehóva og þarfir fjölskyldunnar frekar en efnislegur ávinningur. Þá ertu í stakk búinn til að taka ákvörðun sem Jehóva blessar.

14. Hvernig forðumst við að hneyksla aðra ef við beitum dómgreind og sýnum kærleika?

14 Dómgreind fær okkur til að hugleiða hvaða áhrif ákvarðanir okkar hafa á aðra þannig að við verðum ekki „öðrum til hrösunar“. (Fil. 1:10) Þetta er mikilvægt þegar við tökum til dæmis ákvarðanir varðandi snyrtingu og klæðaburð. Við kjósum ef til vill ákveðinn fatastíl eða hárgreiðslu. En hvað ef það hneykslaði aðra innan eða utan safnaðarins? Dómgreind fær okkur til að virða tilfinningar þeirra. Kærleikur knýr okkur til að hugsa um „hag annarra“ og vera hógvær. (1. Kor. 10:23, 24, 32; 1. Tím. 2:9, 10) Fyrir vikið tökum við ákvörðun sem sýnir að við erum kærleiksrík og berum virðingu fyrir öðrum.

15. Hvað þarf að gera áður en maður hrindir stórri ákvörðun í framkvæmd?

15 Ef þú ert að taka stóra ákvörðun skaltu velta fyrir þér hvað hún hefur í för með sér. Jesús kenndi okkur að ‚reikna kostnaðinn‘. (Lúk. 14:28) Taktu því með í reikninginn tímann, kostnaðinn og vinnuna sem þarf til að hrinda henni í framkvæmd. Í sumum tilfellum gætirðu ráðfært þig við fjölskylduna til að ákveða hvað hver og einn þarf að gera til að ákvörðunin verði farsæl. Hvers vegna er mikilvægt að hugleiða þetta áður en ákvörðun er tekin? Það getur leitt í ljós að þú þurfir að breyta einhverju í sambandi við ákvörðunina eða þá að þú kemur auga á betri kost. Og þegar þú hefur aðra í fjölskyldunni þannig með og hlustar á sjónarmið þeirra vinna þeir betur með þér svo að ákvörðunin verði til góðs. – Orðskv. 15:22.

TAKTU ÁKVÖRÐUN SEM JEHÓVA BLESSAR

16. Hvað getur hjálpað þér að taka ákvörðun sem Jehóva blessar? (Sjá einnig rammann „ Ráð til að taka viturlegar ákvarðanir“.)

16 Ef þú fylgir ráðunum sem hafa verið rædd í námsgreininni geturðu tekið skynsamlega ákvörðun. Þú safnar upplýsingum og rannsakar meginreglur sem hjálpa þér að taka ákvörðun sem Jehóva er ánægður með. Þá geturðu beðið hann að blessa ákvörðunina.

17. Hvað skiptir mestu máli til að taka góðar ákvarðanir?

17 Mundu að þótt þú hafir tekið margar ákvarðanir sem hafa reynst skynsamlegar skiptir mestu máli að reiða sig á visku frá Jehóva frekar en eigin visku eða reynslu. Hann einn getur veitt þér sanna þekkingu, skilning og dómgreind – allt mikilvægir þættir visku. (Orðskv. 2:1–5) Jehóva getur hjálpað þér að taka ákvarðanir sem gleðja hann. – Sálm. 23:2, 3.

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

a MYND: Ungir bræður og systur tala um partí sem þeim er boðið í.

b MYND: Einn bræðranna kannar málið áður en hann ákveður hvort hann ætlar í partíið.