Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ævisaga

Að sýna öðrum persónulegan áhuga veitir varanlega blessun

Að sýna öðrum persónulegan áhuga veitir varanlega blessun

Með mömmu og Pat systur minni árið 1948.

„BISKUPAKIRKJAN kennir ekki sannleikann. Haltu áfram að leita hans.“ Eftir að amma mín, sem var í biskupakirkjunni, sagði þetta fór mamma að leita að hinni sönnu trú. Hún vildi samt ekki tala við votta Jehóva og sagði mér að fela mig þegar þeir bönkuðu upp á heima hjá okkur í Toronto í Kanada. En þegar yngri systir mömmu fór að skoða Biblíuna með vottunum árið 1950 gerði mamma það líka. Þær hittust heima hjá frænku minni til að rannsaka Biblíuna og létu síðar skírast.

Pabbi var öldungur í sameinuðu mótmælendakirkjunni í Kanada. Í hverri viku sendi hann okkur systur mína í sunnudagaskóla og eftir það fórum við í messu með honum kl. 11:00. Síðdegis fórum við síðan með mömmu í ríkissalinn. Við sáum greinilegan mun á þessum tveim trúarsöfnuðum.

Á alþjóðamótinu „Vilji Guðs“ árið 1958 með Hutcheson-fjölskyldunni.

Mamma sagði góðum vinum sínum, Bob og Marion Hutcheson, frá nýfundinni trú sinni og þau urðu líka vottar. Árið 1958 tóku þau hjónin mig með sér og þrem sonum sínum á átta daga alþjóðamótið „Vilji Guðs“ í New York. Þegar ég lít til baka átta ég mig á því hvað þetta hefur verið mikil fyrirhöfn að taka mig með, en þetta mót er eitt það eftirminnilegasta sem ég hef upplifað.

PERSÓNULEGUR ÁHUGI HAFÐI ÁHRIF Á FRAMTÍÐ MÍNA

Þegar ég var unglingur bjuggum við á sveitabæ þar sem ég naut þess að annast dýrin. Ég hugsaði alvarlega um að verða dýralæknir. Mamma nefndi það við öldung í söfnuðinum. Hann minnti mig vingjarnlega á að við lifðum „á síðustu dögum“ og spurði mig hvaða áhrif ég héldi að það hefði á samband mitt við Jehóva að vera í háskóla í nokkur ár. (2. Tím. 3:1) Þetta varð til þess að ég ákvað að fara ekki í háskóla.

Ég velti því samt fyrir mér hvað ég ætti að gera eftir grunnskóla. Þótt ég tæki þátt í boðun trúarinnar um hverja helgi fannst mér það ekki gaman og sá sjálfan mig ekki sem brautryðjanda. Á sama tíma hvöttu pabbi og frændi minn sem voru ekki vottar Jehóva mig til að fá mér fulla vinnu í tryggingafyrirtæki í Toronto. Frændi minn gegndi mikilvægri stöðu í fyrirtækinu svo að ég þáði vinnuna.

Í Toronto vann ég stöðugt yfirvinnu og var í félagskap fólks utan safnaðarins. Þetta kom í veg fyrir að ég sækti samkomur og boðaði trúna reglulega. Ég bjó í fyrstu með afa mínum sem var ekki vottur en eftir að hann lést þurfti ég að finna mér nýjan stað.

Bob og Marion, sem tóku mig með sér á mótið 1958, voru mér eins og foreldrar. Þau buðu mér að búa á heimili sínu og hjálpuðu mér að styrkja samband mitt við Jehóva. Árið 1960 létum við John, sonur þeirra, skírast. John gerðist brautryðjandi en það var mér hvatning til að gera meira í boðuninni. Bræðurnir í söfnuðinum tóku eftir andlegum framförum hjá mér og að lokum var ég útnefndur til að sjá um samkomuna sem kallast nú Líf okkar og boðun.

ÉG FÆ FRÁBÆRAN FÉLAGA OG GERIST BRAUTRYÐJANDI

Á brúðkaupsdaginn okkar árið 1966.

Árið 1966 kvæntist ég Randi Berge, duglegum brautryðjanda sem var fús að starfa þar sem þörfin var meiri. Farandhirðirinn sýndi okkur persónulegan áhuga og hvatti okkur til að hjálpa til í söfnuðinum í Orillia í Ontario. Við drifum okkur af stað.

Um leið og við komum til Orillia gerðist ég brautryðjandi með Randi. Ég hafði þá smitast af eldmóði hennar. Þegar ég lagði mig allan fram í brautryðjendastarfinu upplifði ég gleðina við að nota Biblíuna og sjá fólk skilja sannleikann. Það var mikil blessun að hjálpa yndislegum hjónum í Orillia að gera breytingar á lífi sínu og verða þjónar Jehóva.

NÝTT TUNGUMÁL OG NÝR HUGSUNARHÁTTUR

Þegar við vorum í heimsókn í Toronto hitti ég Arnold MacNamara en hann var einn bræðranna sem höfðu umsjón á Betel. Hann spurði hvort við vildum gerast sérbrautryðjendur. Ég svaraði samstundis: „Endilega! Svo framarlega sem við förum ekki til Quebec.“ Ég hafði orðið fyrir áhrifum af neikvæðni enskumælandi fólks í Kanada gagnvart fólki í þeim hluta Quebec sem talaði frönsku. Á þeim tíma voru mótmæli í gangi gegn stjórnvöldum og fólk í þessum hluta Quebec vildi sjálfstæði frá Kanada.

Arnold svaraði: „Quebec er eini staðurinn sem deildarskrifstofan sendir sérbrautryðjendur núna.“ Ég samþykkti þegar að fara. Ég vissi að Randi hafði áhuga á að starfa þar. Síðar áttaði ég mig á því að þetta var ein besta ákvörðun lífs okkar!

Eftir fimm vikna frönskunám fórum við Randi ásamt öðrum hjónum til Rimouski sem er um 540 km norðaustur frá Montreal. Það kom vel í ljós að við áttum margt ólært þegar ég las upp tilkynningar á samkomu. Í stað þess að segja að á mótinu sem við áttum í vændum kæmu margir gestir, sagði ég að gestirnir væru „strútar“.

„Hvíta húsið“ í Rimouski.

Í Rimouski slógust fjórar kappsamar systur í hóp okkar fjögurra, bróður og systur Huberdeaus og tveggja dætra þeirra. Bróðir og systir Huberdeaus tóku stórt hús á leigu fyrir alla brautryðjendurna sem við kölluðum hvíta húsið vegna þess að það var hvítt með hvítum súlum. Venjulega bjuggu milli 12 og 14 manns þar. Sem sérbrautryðjendur fórum við Randi í boðunina á morgnana, síðdegis og á kvöldin svo að við kunnum að meta það að hafa alltaf einhvern sem gat farið með okkur, jafnvel á köldum vetrarkvöldum.

Við urðum svo náin þessum trúföstu brautryðjendum að þeir urðu eins og fjölskylda okkar. Stundum kveiktum við varðeld eða höfðum dag þar sem við elduðum saman mat. Einn bróðirinn var tónlistarmaður þannig að við sungum oft og dönsuðum á laugardagskvöldum.

Starfið á starfssvæðinu í Rimouski bar ávöxt. Á innan við fimm árum nutum við þeirrar gleði að sjá marga biblíunemendur taka framförum og skírast. Söfnuðinn óx þar til boðberarnir voru orðnir um 35 talsins.

Í Quebec fengum við frábæra þjálfun í boðuninni. Við fundum hvernig Jehóva hjálpaði okkur í boðuninni og sá okkur fyrir nauðsynjum. Þar að auki fór okkur að þykja vænt um frönskumælandi fólkið, tungumál þess og menningu. Það varð til þess að okkur fór að þykja vænt um menningu annarra líka. – 2. Kor. 6:13.

Deildarskrifstofan bað okkur óvænt að flytja til bæjarins Tracadie á austurströnd New Brunswick. Þetta setti strik í reikninginn því að við vorum nýbúin að skrifa undir leigusamning á íbúð og ég var búinn að semja um hlutastarf sem kennari í skóla. Þar að auki voru sumir biblíunemendur okkar nýorðnir boðberar og við vorum að byggja ríkissal.

Við báðum til Jehóva alla helgina varðandi flutninginn og heimsóttum Tracadie sem var mjög ólíkur Rimouski. En við ákváðum að fara þar sem Jehóva vildi að við gerðum það. Við reyndum Jehóva og sáum hann ryðja öllum hindrunum úr vegi. (Mal. 3:10) Eins og venjulega auðveldaði það flutningana hvað Randi hefur sterkt samband við Jehóva og hvað hún er fórnfús og með gott skap.

Eini öldungurinn í nýja söfnuðinum var Robert Ross. Hann var brautryðjandi þar ásamt Lindu konunni sinni og þau ákváðu að vera þar áfram eftir að þau eignuðust fyrsta barnið. Þau hvöttu okkur Randi svo mikið með hlýjum móttökum og einbeitni og ákafa í boðuninni, jafnvel þótt þau væru að ala upp lítinn dreng.

BLESSUNIN AÐ STARFA HVAR SEM ÞÖRFIN ER

Að vetri til á fyrsta farandsvæði okkar.

Eftir að við höfðum starfað sem brautryðjendur í Tracadie í tvö ár gerðist aftur nokkuð óvænt. Við fengum boð um að þjóna í farandstarfi. Við störfuðum á enskumælandi svæði í sjö ár og eftir það á frönskumælandi svæði í Quebec. Umdæmishirðirinn í Quebec, Léonce Crépeault, hrósaði mér fyrir ræðurnar mínar. En síðar spurði hann: „Hvernig gætirðu gert þær hagnýtari?“ a Þessi persónulegi áhugi hjálpaði mér að gera kennsluna einfaldari og auðveldari að skilja.

Eitt minnisstæðasta verkefnið sem ég hef fengið var á alþjóðamótinu „Sigursæl trú“ í Montreal árið 1978. Ég vann í mötuneytinu. Við áttum von á 80.000 manns og ætluðum að nota nýja aðferð við að bera matinn fram. Allt var algerlega nýtt: tækin, matseðillinn og aðferðin við undirbúning matarins. Við vorum með 20 stóra ísskápa en sumir biluðu. Fyrir fyrsta daginn náðum við ekki að klára undirbúning fyrir mótið fyrr en um miðnætti vegna íþróttaviðburðar á leikvanginum. Og við þurftum að kveikja á ofnunum fyrir sólarupprás til að útbúa morgunmat. Við vorum þreyttir en ég lærði mikið af þessu. Þeir sem unnu með mér voru duglegir og þroskaðir og sáu skoplegu hliðarnar á málunum. Við urðum vinir og höfum verið það fram á þennan dag. Það var einstaklega ánægjulegt að vera á þessu sögulega móti í Quebec, einmitt í því héraði þar sem voru svo grimmilegar ofsóknir á fimmta og sjötta áratugnum.

Við Randi í undirbúningsvinnu fyrir mót í Montreal árið 1985.

Ég lærði margt af hinum sem fóru með umsjón á fjölmennu mótunum í Montreal. Eitt árið var David Splane mótsstjóri en hann situr nú í hinu stjórnandi ráði. Seinna, þegar ég var beðinn um að sinna því verkefni, studdi David mig heilshugar.

Árið 2011, þegar við höfðum verið í farandstarfinu í 36 ár, var mér boðið að vera kennari í Skólanum fyrir safnaðaröldunga. Við Randi sváfum á 75 stöðum á tveim árum en það var fórnarinnar virði. Í lok hverrar viku voru öldungarnir fullir þakklætis því að þeir sáu hversu annt hinu stjórnandi ráði var um samband þeirra við Jehóva.

Síðar kenndi ég í Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis. Nemendurnir voru oft þreyttir og kvíðnir vegna þess hve mikil vinna þetta var: sitja í kennslu í sjö klukkutíma á dag, vinna heimavinnu í þrjá klukkutíma á hverju kvöldi og skila fjórum eða fimm verkefnum á viku. Ég og hinn kennarinn útskýrðum að þau gætu þetta ekki nema með hjálp Jehóva. Ég gleymi því aldrei hversu hissa nemendurnir voru þegar þeir áttuðu sig á því að þegar þeir treystu Jehóva gátu þeir áorkað langtum meiru en þeir héldu að væri mögulegt.

AÐ SÝNA ÖÐRUM ÁHUGA VEITIR VARANLEGA BLESSUN

Persónulegur áhugi mömmu á öðrum hjálpaði biblíunemendum hennar að taka framförum og breytti jafnvel viðhorfi pabba til sannleikans. Þrem dögum eftir að hún dó kom hann okkur á óvart með því að koma og hlusta á opinberan fyrirlestur í ríkissalnum. Hann hélt áfram að sækja samkomur næstu 26 árin. Þótt pabbi léti aldrei skírast sögðu öldungarnir að hann hefði alltaf mætt fyrstur á samkomu.

Mamma hafði líka varanleg áhrif á okkur systkinin. Allar þrjár systur mínar og eiginmenn þeirra þjóna Jehóva af trúfesti. Tvær þeirra starfa á deildarskrifstofum, önnur í Portúgal og hin á Haítí.

Við Randi störfum nú sem sérbrautryðjendur í Hamilton í Ontario. Þegar við vorum í farandstarfinu fannst okkur ánægjulegt að fara með öðrum í endurheimsóknir og vera með á biblíunámskeiðum. En núna höfum við yndi af því að sjá okkar nemendur fara að elska Jehóva. Og þegar við eignumst vini í nýja söfnuðinum okkar finnst okkur uppörvandi að sjá hvernig Jehóva styður þá í gegnum þykkt og þunnt.

Þegar við lítum til baka kunnum við innilega að meta þann persónulega áhuga sem okkur var sýndur. Við höfum reynt að endurgjalda hann með því að sýna öðrum „einlæga umhyggju“ og hvetja þá til að þjóna Jehóva eins vel og þeir mögulega geta. (2. Kor. 7:6, 7) Í einni fjölskyldu voru til dæmis eiginkonan, sonurinn og dóttirin í fullu starfi í þjónustu Jehóva. Ég spurði eiginmanninn hvort hann hefði einhvern tíma íhugað að gerast brautryðjandi. Hann sagði að hann styddi þrjá brautryðjendur. Ég spurði: „Getur þú gert betur en Jehóva til að styðja þá?“ Ég hvatti hann til að upplifa það sem þau upplifðu. Sex mánuðum síðar gerðist hann brautryðjandi.

Við Randi höldum áfram að segja „komandi kynslóð“ frá ‚dásamlegum verkum‘ Jehóva og við vonum að hún njóti þess eins mikið og við að þjóna honum. – Sálm. 71:17, 18.

a Sjá ævisögu Léonces Crépeaults í Varðturninum febrúar 2020, bls. 26–30.